Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 29. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 29  —  29. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um höfuðborg Íslands.

Flm.: Mörður Árnason, Valgerður Bjarnadóttir, Skúli Helgason,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Helgi Hjörvar.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að ganga til viðræðna við borgarstjórann í Reykjavík um samning þar sem fram koma skyldur og réttindi Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar Íslands.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 139. löggjafarþingi og er nú endurflutt.
    Allir vita að höfuðborg Íslendinga er Reykjavík. Jafnan er miðað við að þetta hafi orðið þegar þar var sett niður heimastjórn árið 1904 en í Víkinni var áður háð Alþing hið nýja frá sumri 1845, og æ síðan.
    Í stjórnarskrá er höfuðborgar að engu getið en þó kveðið á um að Alþingi komi „jafnaðarlega“ saman í Reykjavík, að forseti Íslands hafi aðsetur „í Reykjavík eða nágrenni“ og að Stjórnarráðið sé í Reykjavík. Á síðasta þingi var í fyrsta sinn kveðið á um það í lögum að Reykjavík væri höfuðborg Íslands (10. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011). Óljóst er þó hvert inntak þeirrar vegsemdar er annað en það að orðið borg kemur fyrir sem fyrri samsetningarliður í stjórnsýsluheitum. Að öðru leyti er hvergi fjallað um höfuðborg Íslands eða höfuðstað í lögum, en síðarnefnda orðið kemur þó fyrir í 38. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.
    Allajafna er við það miðað um höfuðborg að hún sé aðsetur æðsta valds í ríkinu og miðstöð stjórnsýslu. Skyldur höfuðborgarinnar sem sveitarfélags eru því víðtækari en annarra sveita ríkisins þar sem íbúar hennar og leiðtogar þeirra verða í starfsháttum og skipulagi að taka tillit til þjónustuhlutverks borgarinnar fyrir alla landsmenn. Réttindi verður höfuðborgin að hafa á móti, þar á meðal þau að samráð sé haft við stjórnendur hennar um þær ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og þings sem snerta mikilvæga hagsmuni borgarbúa, svo sem atvinnufæri, skipulag og yfirbragð.
    Umræða og átök um Reykjavíkurflugvöll undanfarna áratugi hafa sýnt að nauðsynlegt er að treysta undirstöður Reykjavíkur sem höfuðborgar Íslands þannig að almenningur og forustumenn í borg og ríki geri sér glögga grein fyrir skyldum og réttindum sem fylgja höfuðborgarhlutverkinu, þar á meðal á samgöngusviði. Ákvarðanir og tillögur um flutning ýmiss konar stjórnsýslustöðva út á land hefur ekki síður skort þá umgjörð sem falist gæti í skýrri sýn á höfuðborgarhlutverkið á okkar tímum.
    Í tillögunni er forsætisráðherra falið að leita viðræðna við borgaryfirvöld um eins konar höfuðborgarsamning. Í þeim samningi yrðu reifaðar skyldur Reykjavíkurborgar og réttindi sem höfuðborgar, getið þeirra breytinga á lögum og öðrum regluramma sem samningsaðilar yrðu ásáttir um að beita sér fyrir og kveðið á um skipulegt samráð ríkisstjórnarinnar, Alþingis og borgarstjórnar um ákvarðanir sem sérstaklega snerta stöðu Reykjavíkur sem höfuðborgar.
    Gert er ráð fyrir að forsætisráðherra, og eftir atvikum borgarstjóri, undirbúi viðræðurnar með athugun á stöðu Reykjavíkur sem höfuðborgar og samskiptum borgarstjórnar og ríkisvalds frá upphafi aldarinnar sem leið. Einnig er eðlilegt að aðilar kanni stöðu höfuðborgar í helstu grannlöndum í aðdraganda viðræðnanna.