Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 39. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 39  —  39. mál.
Tímasetning.
Tillaga til þingsályktunar

um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

Flm.: Vigdís Hauksdóttir, Ásmundur Einar Daðason,
Pétur H. Blöndal, Árni Johnsen.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins. Atkvæðagreiðslan fari fram samhliða forsetakosningum 2012.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 139. löggjafarþingi og er nú endurflutt. Tillagan felur í sér að þjóðin fái að tjá hug sinn um aðlögun Íslands að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Hinn 16. júlí 2009 ályktaði Alþingi eftirfarandi:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.“
    Atkvæði féllu þannig: 33 þingmenn sögðu já, 28 sögðu nei, tveir þingmenn greiddu ekki atkvæði. Í atkvæðaskýringum sumra þingmanna sem samþykktu tillöguna komu fram efasemdir og jafnvel bein andstaða við að Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu. Naumur og ósannfærandi meiri hluti á Alþingi fyrir aðildarumsókninni gefur ríka ástæðu til að kanna hug þjóðarinnar til málsins. Áður en Alþingi samþykkti framanritað hafði 1. minni hluti utanríkismálanefndar lagt fram breytingartillögu, 1 svohljóðandi:
    „Í stað 1. málsl. efnisgreinarinnar komi þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland skuli sækja um aðild að Evrópusambandinu. Skal þjóðaratkvæðagreiðslan fara fram hið allra fyrsta og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá samþykkt tillögu þessarar. Verði aðildarumsókn samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu skal ríkisstjórnin leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu.“
    Féllu atkvæði þannig að 30 þingmenn sögðu já, 32 sögðu nei, einn þingmaður greiddi ekki atkvæði. Áberandi var að þingmenn sem gerðu grein fyrir atkvæði sínu og lýstu því að þeim hugnaðist mjög þessi tillaga. Í stefnuskrá annars ríkisstjórnarflokksins, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, er skýrt kveðið á um að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins. Á blaðamannafundi í Stjórnarráðinu 24. ágúst 2010 kvað formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fjármálaráðherra upp úr með það að umsóknin um aðild að Evrópusambandinu væri ekki á vegum ríkisstjórnarinnar.
    Framkvæmdarvaldinu er skylt að fara að vilja Alþingis og hófst undirbúningsvinna að umsókninni í kjölfar samþykktar þingsályktunarinnar. Fljótlega kom í ljós að aðeins ein leið er inn í Evrópusambandið og það er leið aðlögunar. Aðlögunarleiðin felur í sér að umsóknarríki lagi sig jafnt og þétt að lögum og regluverki Evrópusambandsins í aðdraganda þess að viðkomandi þjóð gengur í sambandið. Evrópusambandið segir skýrt og skorinort að ekki sé hægt að semja sig frá aðlöguninni. 2 Evrópusambandið gerir ráð fyrir að eining sé meðal umsóknarþjóða um að aðild að sambandinu sé æskileg og að það sé þingvilji, sem og ótvíræður vilji viðkomandi ríkisstjórnar, að ganga inn í Evrópusambandið. Engri slíkri einingu er til að dreifa á Íslandi, þjóðin mælist staðfastlega á móti aðild, naumur og ósannfærandi þingmeirihluti er fyrir málinu og ríkisstjórnin er sjálfri sér sundurþykk í afstöðunni til umsóknar og inngöngu.
    Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er hörð gagnrýni á stjórnsýslu og vinnubrögð framkvæmdarvaldsins og bent er á að gagngerra úrbóta sé þörf. Þingmannanefnd Alþingis kemst að sömu niðurstöðu. Beinar tillögur um úrbætur hafa verið settar fram í formi þingsályktunar sem samþykkt hefur verið á Alþingi. Talið er brýnt að Alþingi styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk. Endurskoða á meginlöggjöf á sviði stjórnskipunar, stjórnsýslu og fjármálamarkaðar. Þá skulu lög um Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitið og aðra eftirlitsaðila endurskoðuð, auk laga um fjölmiðla og háskóla svo að eitthvað sé nefnt. Þá á að fara fram sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi lífeyrissjóða og á orsökum falls sparisjóða á Íslandi. Alþingis bíða því ærin verkefni við að greiða úr þeim áföllum sem dundu yfir íslensku þjóðina á haustdögum 2008.
    Ekki verður séð að samhliða verði svigrúm hjá löggjafanum að innleiða þær reglugerðir og tilskipanir sem Evrópusambandið krefst á aðlögunarferlinu. Að auki hleypur kostnaðurinn við aðlögunarferlið á hundruðum milljóna sem ríkissjóður hefur ekki tiltækar nú um stundir. Rekstur ríkissjóðs er meira og minna fjármagnaður með erlendum lánum og virðist lítil breyting á þeirri staðreynd í sjónmáli. Rétt er að forgangsraða í ríkisrekstrinum og óhæfa að leggja af stað með svo kostnaðarsamar aðgerðir þegar svo stendur á.
    Fyrir Alþingi hefur verið lögð þingsályktunartillaga um að draga umsóknina um aðild að Evrópusambandinu til baka. Alþingi eitt hefur vald til að draga umsóknina til baka, en minnt er á að sami þingmeirihluti situr nú og við samþykkt umsóknarinnar. Líklegt er að komi sú tillaga til afgreiðslu falli atkvæði á sama veg þar sem hótun um stjórnarslit liggur í loftinu. Þingsályktunartillaga þessi, um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins, er því sáttatilraun. Meiri hluti alþingismanna endurspeglar ekki meiri hluta þjóðarinnar í afstöðunni til aðildar að Evrópusambandinu. Það er því á grunni sanngirnissjónarmiða sem þessi tillaga er lögð fram. Fari svo að samþykkt verði að sækja um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu á grunni þingsályktunartillögu þessarar hafa stjórnvöld fengið skýrt umboð í hendur, ekki fyrr.
    Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að Íslendingar standi þétt saman að þeirri uppbyggingu sem fram undan er. Stjórnvöld mega ekki við því að dreifa kröftunum. Næg eru verkefnin innan lands. Evrópusambandið stendur frammi fyrir miklum erfiðleikum og mun fara í gegnum róttæka endurskoðun á starfsháttum sínum næstu missiri og ár. Á meðan framtíðarhorfur Evrópusambandsins eru í óvissu er óskynsamlegt af Íslendingum að sækjast eftir aðild án þess að meiri hluti þjóðarinnar sé að baki umsókninni.
    Þjóðaratkvæðagreiðsla er viðurkennd aðferð til að leiða fram þjóðarvilja í mikilvægum málefnum. Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda eigi áfram viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins er brýnt hagsmunamál allrar þjóðarinnar. Allir stjórnmálaflokkar tala fyrir auknu lýðræði og beinni aðkomu þjóðarinnar að ákvarðanatöku, sér í lagi þegar um stór deilumál er um að ræða. Nú reynir á að sýna þann vilja í verki.
Neðanmálsgrein: 1
1     Þskj. 256, 38. mál 137. löggjafarþings 2009.
Neðanmálsgrein: 2
2     „First, it is important to underline that the term “negotiation” can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules – some 90,000 pages of them. And these rules (also known as “acquis”, French for “that which has been agreed”) are not negotiable.“ Understanding Enlargement. The European Unions´s enlargement policy, bls. 8, á þessari vefslóð: ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf.