Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 52. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 52  —  52. mál.
Texti leiðréttur.




Tillaga til þingsályktunar

um málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir viðeigandi dómstól
vegna beitingar hryðjuverkalaga.

Flm.: Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Höskuldur Þórhallsson, Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir,
Pétur H. Blöndal, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ásmundur Einar Daðason.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Aþingi ályktar að fela forsætisráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins að undirbúa málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir viðeigandi dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga gegn íslenska ríkinu og íslenskum fyrirtækjum. Málssóknin verði í fyrsta lagi byggð á því að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið tilefnislaus, ekki lögum samkvæmt og hafi skaðað íslenskt orðspor og fjárhagslega hagsmuni þjóðarinnar. Í öðru lagi verði gerð krafa um skaðabætur fyrir það tjón sem ákvörðun breskra stjórnvalda olli íslenska ríkinu og íslenskum fyrirtækjum.

Greinargerð.

    Hinn 8. október 2008 beittu bresk stjórnvöld lögum um varnir gegn hryðjuverkum gegn Landsbanka Íslands, frystu eignir bankans og settu þar með Ísland á lista yfir hættulegustu samtök og menn heimsins. Með þeim aðgerðum skilgreindu bresk stjórnvöld Ísland og Íslendinga sem hryðjuverkamenn.
    Ekki þarf að fjölyrða um þann orðsporsskaða sem hlaust af ákvörðun breskra stjórnvalda. Á einni nóttu hvarf traust á viðskiptum við Íslendinga og íslensk fyrirtæki sem ríkt hafði í áratugi. Í viðtali við Fréttablaðið 21. október 2008 segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: „Fyrirtæki hafa orðið fyrir gríðarlegu tjóni sem ekki er hægt að mæla. Viðskiptasambönd hafa trosnað, greiðslufrestur felldur niður og staðgreiðslu krafist. Ofan á þetta bætist gríðarleg veiking á gengi krónunnar.“ Hann segist sjá fram á hrinu uppsagna í verslun og þjónustu fyrir mánaðamót. „Menn reyna að tóra og hagræða eins og þeir lifandi geta en við óttumst uppsagnahrinu. Spurningin er aðeins hversu stórkostleg hún verður.“
    Í grein eftir Magnús Inga Erlingsson sem birt var í Morgunblaðinu 3. nóvember 2008 segir m.a.: „Með beitingu hryðjuverkalaga Breta var traust á stjórnvöldum og íslenskum fyrirtækjum þurrkað út á erlendum vettvangi og viðskipti við landið lömuðust. Hökt hefur verið á gjaldeyrisviðskiptum við landið. Á því tjóni bera bresk stjórnvöld ábyrgð skv. skaðabótareglum Evrópusambandsins og EES-samningsins sem þróast hafa fyrir tilstilli dómafordæma Evrópu og EFTA-dómstólsins.“
    Ljóst má vera að beint og óbeint tjón íslensks atvinnulífs varð gríðarlegt og dýpkaði þannig þá efnahagslegu kreppu sem skollin var á. Margt bendir því til þess að fjárhagslegt tjón íslensku þjóðarinnar og íslenskra fyrirtækja vegna aðgerða bresku ríkisstjórnarinnar sé mikið. Því er eðlilegt að bresk stjórnvöld axli ábyrgð á því tjóni sem ákvörðun þeirra olli og greiði skaðabætur, enda um ólöglega og svívirðilega framkomu að ræða, með tilliti til þess að í ræðu sinni í breska þinginu kl. 12.33 8. október 2008 hélt Alistair Darling því ranglega fram að bankinn Kaupthing Singer & Friedlander (KSF) hefði verið settur í skiptameðferð á síðustu klukkustund þegar hið rétta var að á þessum tíma hafði breska fjármálaeftirlitið (FSA) bannað KSF að taka við nýjum innlánum. Því er ekki ljóst hver er orsök og hvað er afleiðing þegar kemur að atburðarásinni við fall Kaupþings, þ.e. ummæli Darlings í breska þinginu eða bann FSA við því að KSF tæki við nýjum innlánum. Í niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að sýnt sé að atvik þau sem tengdust KSF hafi ráðið úrslitum um fall Kaupþings.
    Aðgerðir breskra stjórnvalda í kjölfar falls íslensku bankanna hafa að öllum líkindum leitt til mikils tjóns fyrir íslensku þjóðina. Því er nauðsynlegt að fá staðfest fyrir viðeigandi dómstól að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið með öllu óviðeigandi og að aðgerðirnar hafi ekki verið málefnalegar og löglegar þar sem aldrei var ljóst að gríðarleg ógn steðjaði að stöðugleika breska fjármálakerfisins, eins og breska ríkið hefur haldið fram. Þá verður varla horft fram hjá orðum breska varnarmálaráðherrans í norskum fjölmiðlum um að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið ómakleg og verði líklega ekki notuð aftur með sama hætti. Yfirlýsingu ráðherrans má túlka sem viðurkenningu á því að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið vafasöm og jafnvel viðurkenningu á því að íslenska ríkið og íslensk fyrirtæki eigi skaðabótakröfu á bresk stjórnvöld vegna aðgerða þeirra.
    Við undirbúning málssóknarinnar er mikilvægt að fá eins nákvæma mynd af tjóninu og hægt er. Eðlilegast væri að lögmenn þeir er sækja mundu málið fyrir Íslands hönd fengju sérfræðinga til að afla upplýsinga og leggja mat á það tjón sem ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar olli íslensku þjóðinni og fyrirtækjum á Íslandi.