Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 61. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 61  —  61. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum.Flm.: Sigurður Ingi Jóhannsson, Ásmundur Einar Daðason, Vigdís Hauksdóttir,
Höskuldur Þórhallsson, Eygló Harðardóttir.


1. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 4. mgr. og orðast svo:
    Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er heimilt að gefa út tímabundið starfsleyfi vegna tiltekins atburðar. Skilyrði slíks leyfis er að um sé að ræða góðgerðarstarfsemi, stuðning við félagsstarf eða annan sambærilegan tilgang. Ákvæði 2. mgr. 10. gr. eiga ekki við um þá sem fá starfsleyfi samkvæmt þessu ákvæði. Önnur ákvæði laga þessara eiga við eftir því sem við á. Ráðherra skal setja reglugerð þar sem m.a. er kveðið á um skilyrði fyrir tímabundnu starfsleyfi vegna tiltekins atburðar og framleiðslu og dreifingu matvæla samkvæmt slíku leyfi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að veitt verði heimild til leyfisveitinga til sölu matvæla sem ekki eru unnin í sérstökum eftirlitsskyldum eldhúsum. Til að unnt sé að veita undanþáguna er skilyrt að framleiðslan sé vegna góðgerðarstarfsemi, til að styrkja félagsstarf eða í öðrum sambærilegum tilgangi. Jafnramt er lagt til að leyfi vegna slíkrar matvælasölu sé tímabundið og einungis gefið út vegna tiltekins atburðar. Dæmi um atburði sem mundu falla undir ákvæði frumvarpsins eru kökubasarar og sala matvæla sem tengjast sérstökum viðburði, svo sem bæjarhátíð. Gert er ráð fyrir að nánari reglur verði settar í reglugerð.
    Áfram er því gert ráð fyrir að sækja þurfi um leyfi fyrir fram til heilbrigðisnefndar í samræmi við 20. gr. laga um matvæli en slakað á ákveðnum reglum. Þetta er til samræmis við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 852/2004 frá 29. apríl 2004, um hollustuhætti sem varða matvæli, en þar kemur fram að hún gildi „ekki um frumframleiðslu til einkanota á heimilum eða um vinnslu, meðferð eða geymslu matvæla á heimilum til einkaneyslu. [Hún gildir] auk þess aðeins um fyrirtæki sem búa við tiltekna samfellu í starfsemi og tiltekið skipulag.“ Ljóst er að sú undanþága sem lögð er til í frumvarpinu er í samræmi við gildissvið reglugerðarinnar. Þannig á heimildin við um einn tiltekinn atburð og því verður ekki um að ræða fyrirtæki sem býr við ákveðna samfellu í starfsemi eða tiltekið skipulag.
    Ljóst er að einstök ákvæði laga um matvæli eiga ekki við þegar einungis er um einn atburð að ræða, t.d. þau sem lúta að innra eftirliti með starfseminni auk þess sem óvíst er að öll ákvæði laganna um eftirlit eigi alls kostar við. Því er sérstaklega tekið fram að 2. mgr. 10. gr. eigi ekki við en þar er m.a. kveðið á um skyldu til að setja á fót innra eftirlit, fræðslu starfsfólks o.fl. Auk þess er kveðið á um að önnur ákvæði laganna eigi við eftir því sem við á.
    Flutningsmenn leggja áherslu á að ákvæði reglugerðar verði skýr, til samræmis við fyrrnefnda Evrópureglugerðog búi ekki til óþarfa hindranir fyrir framleiðslu af því tagi sem ákvæðið nær til.