Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 74. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 74  —  74. mál.
Flutningsmenn.
Tillaga til þingsályktunar

um prest á Þingvöllum.

Flm.: Árni Johnsen, Gunnar Bragi Sveinsson,
Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að semja við þjóðkirkjuna um fasta þjónustu prests tengda Þingvöllum og Þingvallakirkju þannig að guðsþjónustur megi vera þar allar helgar ársins.


Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 139. löggjafarþingi (282. mál).
    Til skamms tíma var fast prestsembætti á Þingvöllum en með aflagningu þess setti þjóðkirkjan og eins íslenska þjóðin ofan. Á Þingvöllum slær Íslandsklukkan og gamla litla kirkjan er tákn um auðmýkt, lítillæti og þakklæti íslensku þjóðarinnar fyrir kristnina, þann sið sem tekinn var upp á Alþingi á Þingvöllum árið 1000 og gerði Íslendinga að einni þjóð. Á rótum trúar, hefðar og siðar hefur íslenska þjóðin komist í gegnum þykkt og þunnt með ótrúlegu æðruleysi þótt á móti hafi blásið oft og tíðum. Það er engin spurning um það að samkomur þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga í Þingvallakirkju yrðu uppbót fyrir íslensku þjóðina og það er ekkert sem bendir til annars en að margir mundu kunna að meta þá þjónustu að messað væri í Þingvallakirkju um hverja helgi ársins. Til að mynda gæti það verið auðveld lausn á þessari ósk að fela prestum landsins að skiptast á að messa í Þingvallakirkju. Slíkt ætti að vera auðvelt fyrir okkar skeleggu prestastétt og metnaðarfull tilbreyting hvaðan sem menn koma að.
    Skipulagðar samkomur í Þingvallakirkju sem fastur liður mundu stækka helgi Íslands og ekki síst helgi Þingvalla. Fyrir litla þjóð veiðimannasamfélags er mjög mikilvægt að ankerin séu á sínum stað hverju svo sem fram vindur að öðru leyti.