Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 91. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 91  —  91. mál.
Tillaga til þingsályktunarum prófessorsembætti kennt við Jónas Hallgrímsson.

Flm.: Árni Johnsen, Ólöf Nordal, Birgir Ármannsson, Björgvin G. Sigurðsson,
Lilja Rafney Magnúsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir,
Ragnheiður E. Árnadóttir, Ólína Þorvarðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að hlutast til um það við Háskóla Íslands að stofnað verði prófessorsembætti kennt við Jónas Hallgrímsson skáld með vörn og sókn fyrir íslenska tungu og ljóðrækt að meginmarkmiði.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga sama efnis var áður flutt á 135., 136., 138. og 139. löggjafarþingi.
    Íslensk tunga er ankeri íslensku þjóðarinnar, lykillinn að sjálfstæðri menningu og þjóðerni. Íslensk tunga hefur alltaf átt undir högg að sækja, en hún er lífseig með eindæmum og ber þannig spegilmyndina af eðli þjóðarinnar og virðingu fyrir tungunni þótt stundum pusi í þræsingum. Um þessar mundir á íslensk tunga undir högg að sækja og rótgrónar stofnanir á Íslandi hafa meira að segja látið sér detta í hug að setja erlenda tungu í fremstu víglínu tungutaks Íslendinga við hlið íslenskunnar. Við slíku verður að sporna af lífs og sálar kröftum því sjálfstæði Íslands kann að vera í húfi.
    Það er mikilvægt að Íslendingar og Háskóli Íslands sýni þeim manni sem hvað fegurst hefur ritað á íslenska tungu, Jónasi Hallgrímssyni, þá virðingu að vinna markvisst í stíl hans og fylgja eftir til komandi kynslóða þeim blæ íslenskrar náttúru og íslenskrar hugsunar sem hann tengdi saman í ritverkum sínum og skáldskap. Mikilvægi Jónasar Hallgrímssonar fyrir íslensku þjóðina mælist ekki í verðbréfum heldur ómetanlegum verðmætum í þjóðarsálinni og persónuleika Íslendinga. Þess vegna er það engin tilviljun að Jónas Hallgrímsson býr í öllum Íslendingum.
    Jónas Hallgrímsson kom sem vorvindur inn í íslenskt tungutak fyrir 200 árum og enn er vorvindurinn í loftinu, slíkt var afl skáldsins til þess að ríma við möguleika íslenskunnar á náttúrulegum grunni hennar. Þessi vorvindur hefur dugað okkur vel og við þurfum að tryggja vel að hann verði staðvindur í íslensku samfélagi.
    Halldór Blöndal, fyrrverandi alþingismaður og forseti Alþingis, skrifaði í Morgunblaðið um Jónas: „Hann var magískur töframaður og það er eins og allt, sem hann snerti, verði lifandi og aðlaðandi á einhvern hátt.“
    Í minningarorðum samtímamanns Jónasar, Konráðs Gíslasonar í Fjölni, segir svo um Jónas: „Það sem eftir hann liggur mun lengi halda uppi nafni hans á Íslandi og bera honum vitni.“
    Öld er liðin frá því að Guðmundur á Sandi ritaði eftirfarandi um Jónas í grein í Eimreiðinni: „Jónas er æskumaður og æskuskáld. Hann var á undan tíma sínum, og enn þá stendur samtíð vor á herðum hans. Hann eldist ekki né fyrnist og er 100 ára ungur nú. Mál hans er með nýjabrumi enn þá, hreint eins og lindarvatn, ungt eins og döggin á grasinu.
    Hann er konungur í Hulduríki.“
    Enn þá andar suðrið sæla af tungutaki Jónasar og það er mikilvægt að virkja þessa auðlind inn í hjartslátt þjóðarinnar í starfi og leik. Einn af mörgum möguleikum er sá spennandi kostur að Háskóli Íslands skapi rúm um borð í móðurskipinu fyrir prófessorsembætti tengt nafni Jónasar Hallgrímssonar, prófessorsembætti sem hefði það markmið að fylgja íslenskunni áfram með reisn og styrkja íslenska ljóðrækt.