Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 93. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 93  —  93. mál.
Flutningsmenn.
Tillaga til þingsályktunarum líkantilraunir vegna stórskipabryggju í Vestmannaeyjum.

Flm.: Árni Johnsen, Róbert Marshall, Björgvin G. Sigurðsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Ragnheiður E. Árnadóttir.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að láta nú þegar fullgera valkosti í líkanstöð Siglingastofnunar til að undirbúa gerð stórskipabryggju í Vestmannaeyjum. Kannaðir verði þrír valkostir, norðan Eiðis, innan hafnar og utan hafnar í Skansfjöru gegnt Klettsvík, en þessi þrjú svæði hafa verið til umfjöllunar hjá hafnarstjórn Vestmannaeyja. Mikilvægt er að reikna með a.m.k. tveggja skipa viðleguplássi eða um 500 m kanti.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 135., 136., 138. og 139. löggjafarþingi.
    Það liggur ljóst fyrir að á næstu árum verða þær breytingar á flutningaskipaflota Íslendinga að skipin munu stækka og ef ekki verður byggður stórskipakantur í Vestmannaeyjum mun skapast stórkostlegur vandi í stærstu verstöð Íslands þar sem skip eru á ferðinni á öllum tímum sólarhrings til og frá Eyjum. Vestmannaeyjar sem eru með um 10% af öllum afla landsins yrðu hreinlega úr leik. Auk flutningaskipanna er mjög vaxandi umferð stærstu farþegaskipa heims til Íslands og mikilvægt að þriðji mest sótti ferðamannastaður landsins hafi alla möguleika á þeim vettvangi.
    Næsta kynslóð gámaskipa á Íslandi verður væntanlega byggð upp á 180–200 m löngum skipum og um 30 m breiðum og reikna þarf með a.m.k. 10 m djúpristu.
    Siglingastofnun hefur að beiðni hafnarstjórnar Vestmannaeyja unnið frumathuganir á umræddum þremur valkostum, en mikilvægt er að mati flutningsmanna að öll hönnun og líkantilraunir miði a.m.k. við tveggja skipa stórskipakant. Mikilvægt er að hraða líkantilraunum eins og kostur er því vinda þarf bráðan bug að því að byggja upp stórskipakant í Vestmannaeyjum.
    Stórskipakantur utan Eiðis er fýsilegasti kosturinn vegna nálægðarinnar við aðalathafnasvæði Vestmannaeyjahafnar og möguleika til landauka, en Skansfjara er einnig magnaður möguleiki þótt aðgengi inn á hafnarsvæðið sé þar ekki eins auðvelt. Stórskipakantur við Lönguna í Vestmannaeyjahöfn yrði við þröngar aðstæður og gæfi ekki mikið svigrúm til mannvirkjagerðar á landi auk þess að mikil höfuðsynd yrði að byggja að sjálfri Löngunni sem er náttúruparadís í sjálfri Vestmannaeyjahöfn og magnað útivistarsvæði framtíðarinnar. Þar er nú eini staðurinn sem hafið kyssir rætur Heimakletts innan hafnar. Engu að síður er þetta valkostur því að skynsemin verður að ráða.
    Miklir möguleikar eru á efnistöku í brimvarnar- og hafnargarða, en reikna má með að a.m.k. 500.000 rúmmetra þurfi í garða hvort sem er utan Eiðis eða til móts við Ystaklett. Möguleikarnir á efnistöku eru austur á Urðum í nýja hrauninu, vestur á Skönsum undir Klifi og svo sjálf hrauntungan sem teygir sig inn í miðjan Vestmannaeyjabæ, um 20 m þykk og þekur 93.000 fermetra, um 1,3 milljónir rúmmetrar að magni, en þessi möguleiki hefur ekki verið ræddur hingað til. Þarna liggur mikið verðmæti bundið og örstutt að flytja það hvort sem er austur á Skansfjöru eða norður fyrir Eiði.
    Um 250 stór flutningaskip og farþegaskip koma til Vestmannaeyja á ári þannig að segja má að skip af stærstu gerð séu þar nær daglega. Komur fiskiskipa af öllum stærðum skipta þúsundum í Vestmannaeyjahöfn á hverju ári.