Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 94. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 94  —  94. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar



um samanburðarrannsókn á túlkun reglna EES-samningsins er varða viðskipti,
samkeppni og styrkjakerfi í iðnaði, landbúnaði og öðrum atvinnugreinum.

Flm.: Árni Johnsen, Tryggvi Þór Herbertsson, Jón Gunnarsson,
Ragnheiður E. Árnadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir,
Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Ingi Jóhannsson.


    Alþingi ályktar að fela efnahags- og viðskiptaráðherra að hlutast nú þegar til um gerð ítarlegrar samanburðarrannsóknar á túlkun íslenskra stjórnvalda og túlkun stjórnvalda annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu á matskenndum reglum EES-samningsins er varða viðskipti, samkeppni og styrkjakerfi í iðnaði, landbúnaði og öðrum atvinnugreinum. Lagt verði mat á hvort túlkun íslenskra stjórnvalda íþyngi eða hafi íþyngt einkaaðilum í meira mæli en gengur og gerist meðal stjórnvalda annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá verði einnig lagt mat á hvort íslenskir handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds nýti almennt eða hafi nýtt þær undanþágur frá reglum EES-samningsins sem landinu standa eða hafa staðið til boða í ljósi sérstöðu þess.
    Ráðherra útbýti niðurstöðum rannsóknarinnar á Alþingi þá þegar er þær liggja fyrir.
    Eins fljótt og verða má skal Stjórnarráð Íslands tryggja að túlkun íslenskra stjórnvalda á reglum EES-samningsins samræmist því sem viðtekið telst meðal annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins með hagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi.

Greinargerð.


    Reynslan hefur sýnt að íslenskir embættismenn hafa oft og tíðum túlkað regluverk EES- samningsins er varðar styrkjakerfi, samkeppni og fleiri þætti með mun strangari hætti en gerist í öðrum löndum sem eiga beina eða óbeina aðild að samningnum. Telja verður að Íslendingar hafi þannig sjálfir verið kaþólskari en páfinn í þessum efnum til mikils óhagræðis fyrir Ísland á margan hátt. Á þetta m.a. við hvað varðar reglur sem gilda um iðnað, flugrekstur, viðskipti og marga aðra þætti. Til að mynda hafa ýmis Evrópuríki styrkt hafnargerð og upptökumannvirki skipa verulega en túlkun íslenskra embættismanna er sú að slíkt sé stjórnvöldum með öllu óheimilt. Túlkun íslenskra embættismanna hefur m.a. haft í för með sér margfalda hækkun á rekstrarkostnaði lítilla flugvéla án nauðsynjar. Í mörgum tilvikum getur túlkun reglna miðast við aðstæður í hverju samningslandi fyrir sig. Fram hjá slíku hafa íslensk stjórnvöld í sumum tilvikum horft og má sem dæmi nefna reglugerðarákvæði sem gilda um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum, upptökumannvirki í höfnum landsins o.fl.
    Mjög aðkallandi er að gera nú þegar úttekt á þessu og auglýsa eftir aðilum sem á hefur brunnið og vinna að því að afturkalla það sem úrskeiðis hefur farið.
    Ekki gengur án skoðunar að innleiða og taka til notkunar reglur sem hafa hamlandi áhrif, eru kostnaðarsamar og geta ráðið úrslitum um möguleika ákveðinna greina til áframhaldandi starfa. Íslenska stjórnkerfið mun reyna að verja mistök sín í mörgum tilfellum, en þeim mun meiri áherslu þarf að leggja á að slíkt muni ekki líðast. Frekar en að eyðileggja rekstrarmöguleika ákveðinna fyrirtækja eða starfsemi verða embættismenn að brjóta odd af oflæti sínu og viðurkenna mistök, en sæta ella stjórnsýsluviðurlögum.
    Margt er vandmeðfarið í EES-samstarfinu, til að mynda þættir er varða samskipti við ESA, Eftirlitsstofnun EFTA. ESA er sjálfstæð stofnun með sjálfstæðan fjárhag. Ef upp koma vafamál er það viðtekin venja hjá ESA að láta stofnunina njóta vafans en ekki aðila málsins. Er líkleg ástæðan þess sú að ef ESA yrði dæmd skaðabótaskyld þyrfti stofnunin að greiða skaðabætur af sínu eigin rekstrarfé og draga þá úr starfseminni eða segja upp fólki. ESA hefur ekki ávallt unnið í nafni réttlætis við túlkun EES-reglna. Réttlætið takmarkast við það fjármagn sem ESA telur ástæðu til að hætta hverju sinni þegar tekin er afstaða til deilumála.