Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 103. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 103  —  103. mál.
Beiðni um skýrslufrá efnahags- og viðskiptaráðherra um launagreiðslur
til stjórnenda banka, skilanefnda og slitastjórna.

Frá Árna Þór Sigurðssyni, Álfheiði Ingadóttur, Ásbirni Óttarssyni,
Birni Vali Gíslasyni, Gunnari Braga Sveinssyni, Lilju Mósesdóttur, Merði Árnasyni,
Pétri H. Blöndal, Vigdísi Hauksdóttur, Þór Saari og Þráni Bertelssyni.

    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 53. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að efnahags- og viðskiptaráðherra flytji Alþingi skýrslu um launagreiðslur til stjórnenda banka, skilanefnda og slitastjórna. Meðal þess sem óskað er eftir að fram komi í skýrslunni er eftirfarandi:
     1.      Hverjar voru mánaðarlegar launagreiðslur til hvers af æðstu stjórnendum (bankastjóra og bankaráðsmanna) Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands árin 2005–2008?
     2.      Hverjar voru mánaðarlegar launagreiðslur til hvers af æðstu stjórnendum (bankastjóra og bankaráðsmanna) Arion banka, Íslandsbanka og Nýja Landsbankans 2009–2011 (júlíloka)?
     3.      Hverjar voru mánaðarlegar launagreiðslur til hvers skilanefndarmanns og slitastjórnarmanns Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands frá því að þessar nefndir/stjórnir voru settar á laggirnar til júlíloka 2011?
     4.      Hvernig eru laun bankastjóra, bankaráða, skilanefnda og slitastjórna ákveðin?
    Óskað er eftir sundurliðun á hvern mánuð fyrir umrædd tímabil svo að launabreytingar og tímasetningar þeirra komi fram.

Greinargerð.


    Skýrslubeiðni þessi var lögð fram á 139. löggjafarþingi, nánar tiltekið þann 12. maí 2011. Hinn 17. maí sl. samþykkti Alþingi skýrslubeiðnina. Skv. 53. gr. þingskaparlaga skal ráðherra ljúka skýrslugerð innan 10 vikna frá því skýrslubeiðnin er samþykkt. Það tókst ekki, en þar sem þess er að vænta að talsverð vinna hafi nú þegar verið lögð í skýrslugerðina af hálfu ráðuneytisins er rétt að gefa ráðherra kost á að senda Alþingi skýrsluna, en til þess að svo megi verða þarf að endurflytja beiðnina á nýju löggjafarþingi. Það er gert með þessari beiðni.