Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 110. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 110  —  110. mál.
Tillaga til þingsályktunarum þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu.

Flm.: Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ögmundur Jónasson, Svandís Svavarsdóttir,
Björn Valur Gíslason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Álfheiður Ingadóttir,
Þráinn Bertelsson, Þuríður Bachman, Davíð Stefánsson,
Árni Þór Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir, Atli Gíslason.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Atkvæðagreiðslan fari fram eigi síðar en um mitt ár 2012.

Greinargerð.


    Tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu er lögð fram til þess að kalla fram afstöðu þjóðarinnar til úrsagnar eða áframhaldandi veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu.
    Því fór fjarri að einhugur væri um þá ákvörðun Alþingis að Íslandi skyldi ganga í Atlantshafsbandalagið árið 1949. Ákvörðunin leiddi á sínum tíma til fjöldamótmæla og í kjölfarið réttarhalda sem lengi drógu dilk á eftir sér. Ísland var þá sem nú herlaus þjóð en á tímum ólgu og óvissu var byr kalda stríðsins látinn ráða för. Í kjölfarið fylgdi samningur við Bandaríkin og uppbygging herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Sú óeining sem þessar ráðstafanir sköpuðu setti svo sterkan svip á þjóðmálin næstu áratugi að aldrei hefur gróið um heilt.
    Öldin er nú önnur, kalda stríðinu lokið og herinn á brott. Heimsmyndin er flóknari og þær hættur sem greina má að nú steðji að Íslandi og norðurslóðum eru þess eðlis að þær kalla eftir fjölbreyttari úrræðum og annars konar viðbúnaði en áður var og gildir þá einu hver afstaða manna var til aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu fyrr á tíð. Þessar áskoranir varða hluti eins og auðlindir og umhverfi og öryggi í samgöngum og samskiptum, þættir sem allir eiga það sameiginlegt að krefjast viðbúnaðar og samstarfs á borgaralegum grunni frekar en hernaðarlegum.
    Við endalok kalda stríðsins byrjaði að fjara undan sögulegum grundvelli Atlantshafsbandalagsins, sem hefur alla tíð síðan verið í leit að nýjum tilefnum til að réttlæta tilvist sína. Þessi leit hefur í krafti forysturíkja Atlantshafsbandalagsins leitt það að hernaðarátökum fjarri upprunalegu áhrifasvæði bandalagsins við Norður-Atlantshafið og utan hins hefðbundna og yfirlýsta hlutverks þess sem bandalags um sameiginlegar varnir aðildarríkjanna. Á sama tíma hefur mjög dregið úr umsvifum bandalagsins og forysturíkja þess á Íslandi og nærliggjandi svæðum, eins og brotthvarf varnarliðsins er til vitnis um.
    Útrás Atlantshafsbandalagsins og forysturíkja þess hefur á undanförnum árum sett þau í fremstu víglínu átaka í Írak, Afganistan og nú síðast Líbíu. Hvorki sér fyrir endann á þessum átökum né þessari útrás. Nauðsynlegt er að staldra við og gefa landsmönnum færi á að svara þeirri spurningu hvort þeir telji rétt að Ísland eigi aðild að slíkum hernaðaraðgerðum.
    Um aðgerðagetu Íslands í hernaðarátökum í fjarlægum löndum og áhrifamátt innan Atlantshafsbandalagsins er ef til vill óþarfi að fjölyrða en mikil þörf er á opinni og lýðræðislegri umræðu um samflot Íslands í fyrrnefndum hernaðaraðgerðum. Þjóðin hafði ástæðu til að efast um réttmæti þess að Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu fyrir rúmum 60 árum en var ekki gefið færi á að móta heildstæða afstöðu til ákvörðunarinnar. Nú er fullt tilefni til að gefa þjóðinni nýtt tækifæri til að segja hug sinn um þróun bandalagsins og áframhaldandi þátttöku Íslands innan þess.
    Á þessu ári hefur Alþingi ályktað um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Einn af tólf meginþáttum þeirrar stefnu er að gætt verði öryggishagsmuna í víðu samhengi á norðurslóðum á borgaralegum forsendum og að unnið verði gegn hvers konar hervæðingu norðurslóða. Efla beri samstarf Íslands við önnur ríki um viðbúnað til eftirlits, leitar, björgunar og mengunarvarna á norðurslóðum. Það er umhugsunarefni fyrir alla landsmenn óháð flokkapólitík hvort aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu þjóni þessuum markmiðum eða hvort borgaralegt samstarf við nágrannaríki sé ekki vænlegri leið að gagnkvæmum árangri.
    Alþingi hefur einnig ályktað um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og þar með falið utanríkisráðherra að skipa nefnd tíu þingmanna til að vinna tillögur að slíkri stefnu, sem tryggi þjóðaröryggi Íslands á grundvelli her- og vopnleysis. Við mótun stefnunnar ber nefndinni að taka mið af áhættumatsskýrslu fyrir Ísland frá árinu 2009, stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, m.a. um bann við kjarnorkuvopnum, samþykktum Alþingis um stefnu Íslands í afvopnunarmálum og frumvarpi til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Er nefndinni ætlað að skila tillögu til utanríkisráðherra svo fljótt sem verða má og eigi síðar en í júní 2012, en ráðherra skal að því búnu leggja tillögu að þjóðaröryggisstefnu Íslands fyrir Alþingi.
    Á komandi mánuðum og fram yfir mitt ár 2012 verður í ljósi framangreinds að gera ráð fyrir að öryggismál og staða Íslands í alþjóðlegu samstarfi þar að lútandi verði í brennidepli, m.a. fyrir tilstuðlan þverpólitískrar umræðu og stefnumótunarstarfs á vettvangi Alþingis. Ef rétt er að málum staðið felst í þessu tækifæri til að ýta undir opna og öfluga umræðu um áhrifavalda og áskoranir í öryggisumhverfi Íslands og eðlilegri stefnu landsins í alþjóðlegu samstarfi þar að lútandi. Mikilvægt er að fyllsta gagnsæis sé gætt í störfum þingsins er lúta að þessum efnum svo umræðan verði sem best upplýst.
    Það væri rökréttur hluti af mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland að þjóðinni yrði gefinn kostur á að taka afstöðu til aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu á meðan málið er enn til afgreiðslu hjá Alþingi. Yfirlýst markmið af því þverpólitíska starfi sem er framundan er m.a. að skapa sátt um framtíðarstefnu Íslands í öryggismálum. Sú sátt verður best tryggð með beinni aðkomu þjóðarinnar að helstu álitamálum svo úr því fáist skorið með lýðræðislegum hætti hvert leggja beri leið.