Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 113. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 113  —  113. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga



um greiðsluþátttöku ríkissjóðs vegna uppbyggingar Helguvíkurhafnar.

Flm.: Árni Johnsen, Róbert Marshall, Sigurður Ingi Jóhannsson, Bjarni Benediktsson,
Björgvin G. Sigurðsson, Ólöf Nordal, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Helgi Hjörvar,
Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Eygló Harðardóttir, Birkir Jón Jónsson,
Sigmundur Ernir Rúnarsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Höskuldur Þórhallsson,
Jón Gunnarsson, Einar K. Guðfinnsson, Vigdís Hauksdóttir, Pétur H. Blöndal,
Siv Friðleifsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Tryggvi Þór Herbertsson, Illugi Gunnarsson, Guðlaugur Þór Þórðarson,
Birgir Ármannsson, Oddný G. Harðardóttir.


1. gr.

Markmið.


    Markmið laga þessara er að veita ríkissjóði heimild til að styrkja hafnarframkvæmdir við Helguvíkurhöfn.

2. gr.
Greiðsla kostnaðar við hafnargerð.

    Eftirfarandi hafnarframkvæmdir við Helguvíkurhöfn geta notið framlags úr ríkissjóði:
     1.      Undirbúningsrannsóknir og hönnun, þar með talið skipulag hafna og hafnarsvæða, svo og kostnaður við útboð einstakra styrkhæfra framkvæmda.
     2.      Framkvæmdir við hafnargarða, bryggjur, viðlegukanta, ferjuaðstöðu, dýpkun og uppfyllingar sem teljast nauðsynlegur hluti viðlegumannvirkja.
     3.      Dreifikerfi rafmagns, skolps og vatns sem nauðsynleg eru vegna starfsemi hafnarinnar samkvæmt staðfestingu Siglingastofnunar Íslands hverju sinni.
     4.      Umferðaræðar innan marka hafnarmannvirkja samkvæmt staðfestingu Siglingastofnunar hverju sinni.
     5.      Framkvæmdir við siglingamerki og mengunar- og slysavarnir.
     6.      Framkvæmdir á hafnarsvæðum við upptökumannvirki fyrir skip.
     7.      Tollaðstaða fyrir farþegaferjur er halda uppi reglulegum áætlanasiglingum til landsins.
    Niðurrif hafnarmannvirkja í eigu hafnarsjóðs Helguvíkurhafnar telst hafnarframkvæmd, enda sé það liður í nýbyggingu, til umhverfisbóta eða mannvirkið í vegi fyrir notkun annarra styrkhæfra hafnarmannvirkja.
    Sé mannvirki svo illa farið að til álita komi að endurbyggja það skal slík endurbygging því aðeins teljast styrkhæf að mannvirkið hafi hlotið eðlilegt viðhald að dómi siglingamálastjóra.
    Styrkhæfur telst einnig vaxtakostnaður, svo og lántöku- og annar fjármögnunarkostnaður, ásamt kostnaði vegna hækkunar verðtryggðra lána og gengistaps, verði hann til vegna hluta ríkissjóðs í framkvæmdinni og hafi verið stofnað til hans með heimild ráðuneytisins og Alþingis.
    Til viðhalds hafnarmannvirkja teljast almennar viðgerðir og venjulegt viðhald, svo sem endurnýjun á þybbum, þekjum og lögnum, og er slíkt viðhald ekki styrkhæft.
    Landa- og lóðakaup hafnarinnar, svo og landgerð, njóta ekki ríkisstyrks. Rísi ágreiningur um styrkhæfni framkvæmda skal málinu skotið til ráðherra til úrskurðar.

3. gr.
Skilyrði fyrir greiðslu úr ríkissjóði.

    Skilyrði fyrir greiðslu úr ríkissjóði skv. 2. gr. eru:
     1.      Að eigendur Helguvíkurhafnar hafi stofnað hafnarsjóð til þess að eiga og reka höfn og standa undir hafnarframkvæmdum og fengið til þess samþykki ráðuneytisins.
     2.      Að hafnarsjóður hafi tryggt sér eignarrétt á því landsvæði á strandlengju hafnarinnar sem talið er þurfa undir hafnarmannvirki og þá starfsemi sem fram fer við höfnina. Ekki verður það þó gert að skilyrði að hafnarsjóður kaupi í þessu skyni íbúðar- eða verslunarhús eða varanlegar byggingar af öðru tagi.
     3.      Að unnið sé að framkvæmdum samkvæmt tæknilegri og fjárhagslegri áætlun varðandi útgjöld og greiðslu kostnaðar sem eigendur hafnar hafa samþykkt, svo og ráðuneytið, að fenginni umsögn hafnaráðs og siglingamálastjóra.

4. gr.
Greiðsluþátttaka ríkissjóðs.

    Eftirfarandi ákvæði skulu gilda um greiðsluþátttöku ríkissjóðs í hafnarframkvæmdum við Helguvíkurhöfn:
     1.      Ríkissjóður greiðir allt að 100% kostnaðar við frumrannsóknir.
     2.      Ríkissjóður greiðir allt að 100% stofnkostnaðar við eftirtaldar framkvæmdir:
              a.      hafnargarða (öldubrjóta),
              b.      dýpkun hafnar og innsiglingar,
              c.      siglingamerki,
              d.      sérbúnað fyrir ekjuskip og ferjur.
     3.      Ríkissjóður greiðir allt að 60% stofnkostnaðar við eftirtaldar framkvæmdir:
              a.      bryggjur og viðlegukanta,
              b.      uppfyllingar og umferðaræðar á hafnarsvæði,
              c.      upptökumannvirki fyrir skip,
              d.      mengunar- og slysavarnir,
              e.      vatns-, raf- og holræsalagnir um hafnarmannvirkin,
              f.      skipulag hafna og hafnarsvæða,
              g.      niðurrif hafnarmannvirkja.

5. gr.
Umsóknir um ríkisframlag.

    Umsóknir um framlag úr ríkissjóði til hafnarframkvæmda við Helguvíkurhöfn skal senda Siglingastofnun Íslands sem vinnur úr tillögunum og leggur fyrir hafnaráð og ráðuneytið.
    Við mat á greiðsluþátttöku ríkissjóðs skal tekið tillit til fjárhagslegrar getu hafnarsjóðs Helguvíkurhafnar til að standa undir nauðsynlegum hafnarframkvæmdum.

6. gr.

Gildistaka.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að ríkissjóði verði heimilt að styrkja hafnarframkvæmdir í Helguvíkurhöfn. Samkvæmt eldri hafnalögum, nr. 23/1994, var stækkun hafna styrkhæf. Með setningu gildandi hafnalaga, nr. 61/2003, var greiðsluþátttöku ríkissjóðs breytt þannig að í 24. gr. þeirra er ekki gert ráð fyrir að ríkið komi að framkvæmdum í höfnum með tekjur yfir 20 millj. kr. Eins og fram kemur í greinargerð með lögunum takmarkast þátttaka ríkisins í þeim tilfellum við skjól í höfnum þar sem ekki er náttúrulegt skjól fyrir úthafsöldu. Þátttaka ríkisins takmarkast því við skjólgarða sem stækka ekki höfnina og er því eingöngu átt við endurbyggingar á mannvirkjum sem nú þegar eru til staðar eða nauðsynlegar lagfæringar á þeim. Í ákvæðinu er einnig gert ráð fyrir að ríkissjóði sé heimilt að taka þátt í dýpkun í höfnum þar sem verulegrar viðhaldsdýpkunar er þörf og dýpka þarf höfn á minnst fimm ára fresti. Framkvæmdir sem eru styrkhæfar samkvæmt greininni gera því ekki ráð fyrir að viðkomandi höfn stækki.
    Í núgildandi hafnalögum var bráðabirgðaákvæði sett við 24. gr. Gerir það ráð fyrir að þrátt fyrir ákvæði 24. gr. sé ríkissjóði heimilt að styrkja framkvæmdir í höfnum, sbr. ákvæði um greiðsluþátttöku í eldri hafnalögum. Vandinn er hins vegar sá að þegar kemur að framkvæmdum í Helguvíkurhöfn þá kemur upp sú staða að þar sem framkvæmdir þar voru ekki komnar inn á samgönguáætlun 2005–2008 geta þær ekki hlotið styrk á grundvelli bráðabirgðaákvæðisins. Með þessu frumvarpi eru því settar sérreglur um greiðsluþátttöku ríkissjóðs vegna hafnarframkvæmda í Helguvíkurhöfn og byggist frumvarpið á ákvæðum III. kafla eldri hafnalaga, nr. 23/1994, um greiðslu kostnaðar við hafnargerð og umsóknir um ríkisframlag.
    Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003, (66. mál) er ljóst að uppbygging Helguvíkurhafnar er nauðsynleg fyrir uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu. Með tilkomu álvers og annarra stóriðjuframkvæmda á svæðinu aukast atvinnu- og skatttekjur sveitarfélagsins sem og ríkissjóðs. Í ljósi efnahagslegra forsendna og mikils atvinnuleysis á svæðinu er mikilvægt að styrkja nauðsynlegar framkvæmdir sem munu hafa góð áhrif á atvinnulíf og sveitarfélög á Reykjanesi. Telja flutningsmenn að uppbygging Helguvíkurhafnar, svo og uppbygging álvers í Helguvík, sé gott tækifæri, ekki síst þegar horft er til þess að framkvæmdartíminn verður langur og lítil hætta verður á ofþenslu vegna þeirra framkvæmda sem nauðsynlegar eru.