Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 114. máls.

Þingskjal 114  —  114. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum
(EES-mál, innleiðing á tilskipun ESB um viðurkenningu
á réttindum og prófskírteinum).


(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Ráðherra skal staðfesta leyfi til að bera starfsheiti sem lög þessi taka til samkvæmt umsókn ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins ef viðkomandi leggur fram vottorð frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem uppfyllir skilyrði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2007 frá 26. október 2007. Ríkisborgarar aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Færeyingar njóta sama réttar.
     b.      Orðin „1. tölul.“ í 2. mgr. falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lög nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum gilda, skv. 1. gr. laganna, um eftirtalin starfsheiti: 1. verkfræðinga, 2. tæknifræðinga, 3. arkitekta (húsameistara), 4. byggingafræðinga, 5. húsgagna- og innanhússarkitekta (húsgagna- og innanhússhönnuði) eða þá sem hafa hluta þess starfsheitis, 6. iðnfræðinga, 7. landslagsarkitekta (landslagshönnuði), 8. skipulagsfræðinga, 9. raffræðinga, 10. tölvunarfræðinga og 11. grafíska hönnuði.
    Rétt til að nota framangreind starfsheiti hafa þeir menn einir sem fengið hafa til þess leyfi iðnaðarráðherra og þeir sem fengið hafa staðfestingu sama ráðherra til að bera samsvarandi starfsheiti sem veitt hefur verið í ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Fullnaðarpróf í viðkomandi starfsgrein er áskilið svo af leyfisveitingu geti orðið.
    Með lögum nr. 26/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Tilskipunin varð hluti af EES-samningnum með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2007 frá 26. október 2007. Með þingsályktun 16. mars 2009 samþykkti Alþingi að heimila ríkisstjórninni að staðfesta ákvörðunina fyrir Íslands hönd. Að efni til varðar tilskipunin viðurkenningu á menntun til að gegna starfi sem er lögverndað og því að menn skuli hafa aflað sér faglegrar menntunar og hæfis áður en þeim er heimilt að hefja störf á viðkomandi sviði. Með tilskipuninni eru 15 fyrri tilskipanir um viðurkenningu faglegrar menntunar og hæfis sameinaðar í eina, bæði tilskipanir almenna kerfisins (89/48/ EBE, 92/51/EBE og 1999/42/ EB) og hinar svokölluðu geiratilskipanir (um lækna, hjúkrunarfræðinga og fleiri stéttir). Eina háskólastéttin sem stendur utan þessa kerfis nú eru lögmenn. Með tilskipuninni verða ekki grundvallarbreytingar á tilhögun viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi á Evrópska efnahagssvæðinu. Réttur manna til viðurkenningar er hinn sami og áður en vonast er til að framkvæmdin verði einfaldari og skilvirkari, m.a. með nýjum ákvæðum um veitingu þjónustu og um samskiptakerfi stjórnvalda er annast viðurkenninguna. Öll meginskilyrði viðurkenningar og málsmeðferð er hin sama og áður og áfram liggur kerfinu til grundvallar sérstök skilgreining á menntunarstigum eða -þrepum. Menntunarstigin eru fimm og prófskírteini skilgreind samkvæmt því sem hér segir: skírteini vegna styttri námskeiða eða hæfniprófa (e. attestation of competence), framhaldsskólapróf (e. certificate) og þrjú þrep háskólaprófa (e. diploma), þar sem munurinn milli prófa felst í lengd náms í árum. Um þessi fimm stig segir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að þau verði að vera til í lögum hvers lands, jafnvel þótt það sé aðeins gert með vísun til tilskipunarinnar. Litið er svo á að þessi skipting menntunar endurspeglist í menntakerfinu á Íslandi.
    Með lögum nr. 26/2010 voru innleiddar þær meginreglur sem gilda varðandi mat á menntun og hæfi þeirra manna sem hafa menntað sig og/eða starfað í einu af aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Í framhaldinu birti mennta- og menningarmálaráðuneytið reglugerð um sama efni sem ber sama heiti og lögin og er nr. 879/2010. Eftir stendur að innleiða tilskipun 2005/36/EB á einstökum fagsviðum þar sem sérreglur gilda. Veigamestu fagsviðin sem eftir standa eru heilbrigðisstéttir og löggiltar iðngreinar sem falla undir iðnaðarlög, nr. 42/1978. Um nokkur fleiri og fámennari fagsvið gilda einnig sérreglur og má þar nefna arkitekta. Við samningu frumvarpsins var haft samráð við mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Vegna þess hve innleiðing á tilskipun 2005/36/EB hefur dregist á langinn á Íslandi höfðaði Eftirlitsstofnun EFTA mál á hendur íslenska ríkinu fyrir EFTA-dómstólnum. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu 10. desember 2010 að þrátt fyrir gildistöku laga nr. 26/2010 hefði íslenska ríkið ekki að fullu uppfyllt þær skyldur sem á því hvíla skv. 7. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, varðandi innleiðingu á áðurnefndri tilskipun fyrir öll fagsvið.
    Með vísan til framangreinds er lögð til sú breyting á lögum nr. 8/1996 að tilvísun í tilskipanir 85/384/EBE og 89/48/EBE verði felld brott og tilvísun í þá tilskipun sem í gildi er komi inn í staðinn. Vegna þess dráttar sem orðið hefur á innleiðingunni er lagt til að lagabreytingin öðlist þegar gildi og er ekki talið að það valdi vandkvæðum í framkvæmd. Í kjölfar lagabreytingarinnar er nauðsynlegt að endurskoða þau stjórnvaldsfyrirmæli sem birt hafa verið á grundvelli laga nr. 8/1996 með tilliti til áðurnefndra breytinga á tilskipunum.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum (EES-mál, innleiðing á tilskipun ESB um viðurkenningu á réttindum og prófskírteinum).

    Frumvarpið er óbreytt frá frumvarpi sem lagt var fram á 139. löggjafarþingi en komst ekki á dagskrá.
    Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting á 4. gr. laganna að tilvísun í tilskipanir 85/ 384/EBE og 89/48/EBE verði felld brott og tilvísun í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, komi í staðinn.
    Með tilskipun 2005/36/EB, sem innleidd var í íslenskan rétt með lögum nr. 26/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, voru fimmtán fyrri tilskipanir um viðurkenningu faglegrar menntunar og hæfis sameinaðar í eina. Í athugasemdum frumvarpsins kemur fram að með tilskipuninni verða ekki breytingar á tilhögun viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi á Evrópska efnahagssvæðinu, réttur manna til viðurkenningar er hinn sami og áður en vonast er til að framkvæmdin verði einfaldari og skilvirkari, m.a. með nýjum ákvæðum um veitingu þjónustu og samskiptakerfi stjórnvalda er annast viðurkenninguna. Öll meginskilyrði viðurkenningar og málsmeðferð er hin sama og áður og áfram liggur kerfinu til grundvallar sérstök skilgreining á menntunarstigum.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.