Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 120. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 120  —  120. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um beina þátttöku sveitarfélaga og starfsmanna heilbrigðisstofnana
í skipulagningu og stjórnun heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.


Flm.: Ásmundur Einar Daðason, Gunnar Bragi Sveinsson,
Eygló Harðardóttir, Birkir Jón Jónsson,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að undirbúa og leggja fyrir næsta þing frumvarp til laga sem tryggi beina þátttöku fulltrúa sveitarfélaga og starfsmanna heilbrigðisstofnana í skipulagningu og stjórnun heilbrigðisþjónustu á þjónustusvæði viðkomandi heilbrigðisstofnunar. Markmiðið með frumvarpinu verði að auka íbúa- og atvinnulýðræði og að sjónarmið og óskir heimamanna og starfsmanna heilbrigðisstofnana ráði meiru en nú er þegar heilbrigðisþjónusta er skipulögð og þjónustu forgangsraðað.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður lögð fram á 138. löggjafarþingi (617. mál) og 139. löggjafarþingi (41. mál).
    Með tillögunni ályktar Alþingi að fela velferðarráðherra að undirbúa og leggja fram á næsta þingi lagafrumvarp þess efnis að fulltrúar sveitarstjórna og starfsmenn heilbrigðisstofnana komi með beinum hætti að skipulagningu þjónustu hjá viðkomandi heilbrigðisstofnun með skipan stjórnar sem hefði það hlutverk að hafa eftirlit með rekstri heilbrigðisstofnana og vera ráðgefandi varðandi skipulag og þjónustu stofnunarinnar.
    Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, er landinu skipt í heilbrigðisumdæmi þar sem starfa skal heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstofnanir. Markar ráðherra stefnu um heilbrigðisþjónustu á grundvelli laganna en forstjórar heilbrigðisstofnana eru skipaðir af ráðherra til fimm ára í senn og bera þeir ábyrgð á þeirri þjónustu sem stofnunin veitir og að rekstrarafkoma og rekstrarútgjöld stofnunar séu í samræmi við fjárlög, sbr. 9. gr. laganna. Í lögunum er hvergi að finna ákvæði sem veitir fulltrúum sveitarfélaga í viðkomandi heilbrigðisumdæmi eða almennum starfsmönnum heilbrigðisstofnana aðkomu að skipulagningu heilbrigðisþjónustunnar. Lög nr. 40/2007 felldu úr gildi lög nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum. Töluverðar breytingar höfðu verið gerðar á þeim lögum til að mynda þegar samþykktar voru breytingar sem fólu í sér að stjórnir heilbrigðisstofnana voru lagðar niður, sbr. breytingalög nr. 78/2003. Fyrir þessar breytingar skipaði ráðherra fimm manna stjórnir heilsugæslustöðva, svæðissjúkrahúsa, deildasjúkrahúsa og almennra sjúkrahúsa en þrír fulltrúar voru tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarstjórn, einn af starfsmönnum viðkomandi stofnunar og einn án tilnefningar. Umræddar breytingar voru rökstuddar með tilliti til áður samþykktra breytinga á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/ 1996, er kváðu á um aukið starfssvið og ábyrgð forstöðumanna ríkisstofnana. Framangreindar breytingar mættu nokkurri andstöðu enda mikilvægt að viðhalda stjórnum heilbrigðisstofnana, einkum úti á landi, og að sveitarfélögin og starfsmenn geti áfram átt aðild að þeim. Ekki er hægt að halda því fram að embættisleg ábyrgð forstöðumanns verði óljós á meðan stjórnir stofnananna eru fyrst og fremst ráðgefandi og þær hafi ekki ákvörðunarvald. Samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, bera þær og forstöðumenn stofnana þó ábyrgð á því að fjárhagsráðstafanir séu í samræmi við heimildir. Jafnframt bera stjórnir og forstöðumenn ábyrgð á því að ársreikningar séu gerðir í samræmi við lög þessi og staðið sé við skilaskyldu á þeim til Fjársýslu ríkisins, sbr. 49. gr. laganna.
    Með því að í stjórnum heilbrigðisstofnana sitji fulltrúar sveitarfélaga og starfsmanna stofnananna mun hvort tveggja íbúalýðræði og atvinnulýðræði aukast. Með auknum tengslum við þau sveitarfélög sem heilbrigðisstofnun þjónustar tækist betur að samhæfa starfsemi heilbrigðisstofnunarinnar og áherslur í störfum sveitarfélaganna, svo sem í átaks- og kynningarverkefnum, til að mynda í skólum. Er það mikilvægt á tímum sem þessum þar sem huga þarf sérstaklega að heilsu barna og áhrifum kreppunnar á heilsufar þeirra. Enn fremur hefur gefist vel að starfsfólk eigi aðild að stjórnum enda getur reynsla þess og nálægð við íbúa verið mikilvæg þegar kemur að skipulagningu heilbrigðisþjónustu. Að auka íbúa- og atvinnulýðræði með þessum hætti er mikilvægt skref til að styrkja stöðu heilsugæslunnar og auka nærþjónustu innan heilbrigðiskerfisins en eitt af áherslumálum hjá sveitarstjórnum og heilbrigðisstofnunum um allt land hefur verið að standa vörð um heilsugæsluna. Komi heimamenn og starfsmenn að skipulagningu þjónustunnar mun þörfum sjúklinga á viðkomandi svæði frekar vera mætt. Það festir betur í sessi að almenn heilbrigðisþjónusta sé veitt í heimabyggð og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007.