Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 121. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 121  —  121. mál.
Tillaga til þingsályktunarum Vefmyndasafn Íslands.

Flm.: Árni Johnsen, Róbert Marshall, Björgvin G. Sigurðsson,
Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Unnur Brá Konráðsdóttir, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ólöf Nordal,
Jón Gunnarsson, Siv Friðleifsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Kristján Þór Júlíusson, Tryggvi Þór Herbertsson.


    Alþingi ályktar að skora á mennta- og menningarmálaráðherra að hefja nú þegar undirbúning og uppsetningu vefmyndasafns með því að koma upp nettengdum myndavélum á allt að 150 stöðum á Íslandi, fegurstu og sérkennilegustu stöðum landsins. Slíkt nettengt safn yrði það fyrsta sinnar tegundar í heiminum og mundi skapa óþrjótandi möguleika á landkynningu í þágu ferðaþjónustu, sögu, menningar og atvinnulífs. Þannig væri hægt að upplifa Ísland á líðandi stundu hvaðan sem er úr heiminum og kitla taugar til frekari kynna.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga sama efnis hefur áður verið flutt á 135., 136., 138. og 139. löggjafarþingi.
    Tækni og gerð netmyndavéla er orðin slík að hægt er að setja vélar upp á ólíklegustu stöðum og tengja þær alþjóðlega tölvunetinu. Slíkt netmyndasafn yrði eins konar myndaalbúm landsins, persóna Íslands á líðandi stundu. Á hverri vefstöð gætu verið 2–3 linsur og menn gætu valið sjónarhornið í tölvunni og hverri stöð gæti fylgt t.d. 10 mínútna kynningarmynd af umhverfi og aðstæðum í nágrenni vefstöðvarinnar. Gullfoss, Þingvellir, Geysir, Lónsöræfi, Landmannalaugar, Eldey, Bláa lónið, Vatnajökull, Þjórsá, Þórsmörk, Akureyri, Vestmannaeyjar, Stykkishólmur, Árnastofnun, fiskvinnsluhús, bryggjustemmning, hvalaskoðun, Skógafoss. Þetta eru aðeins nokkur dæmi um netstöðvar í netmyndasafni Íslands, andliti Íslands.
    Auðvelt er að virkja vefmyndavélar með sólarrafhlöðum til nokkurra ára, en reikna má með að hver stöð mundi kosta að meðaltali um 1,5 millj. kr.
    Með vefmyndasafni hefði Ísland forgöngu í þessum efnum á heimsmælikvarða og með ólíkindum hvað hægt er að skapa fjölbreytt lifandi myndasafn frá Íslandi með þessum hætti. Að fylgjast með mannlífi, atvinnulífi, menningu og náttúru er ótrúlegur kostur, fylgjast með villtu blómabeði, á í leysingum, varpstöðvum fugla, hverum og hverasvæðum, fossum og fjöllum, innsiglingu í hafnir – hverju því er gefur mynd af andliti Íslands.