Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 135. máls.

Þingskjal 135  —  135. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt,
nr. 100 23. desember 1952, með síðari breytingum
(biðtími vegna refsinga o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      2. tölul. 1. mgr. orðast svo: Umsækjandi, sem er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara, og samvistum við hann, hafi verið hér búsettur í þrjú ár frá giftingu, enda hafi makinn haft íslenskan ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár.
     b.      3. tölul. 1. mgr. orðast svo: Umsækjandi sem er í skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara, hafi verið hér búsettur í fimm ár frá skráningu sambúðarinnar, enda hafi sambúðarmakinn haft ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                      Umsækjandi skal uppfylla skilyrði þess að fá búsetuleyfi útgefið af Útlendingastofnun og hafa slíkt leyfi þegar sótt er um íslenskan ríkisborgararétt. Þetta gildir þó ekki um umsækjanda sem er undanþeginn skyldu til að hafa dvalarleyfi hér á landi samkvæmt lögum um útlendinga.

2. gr.

    6. tölul. 9. gr. laganna orðast svo: Umsækjandi hafi ekki, hérlendis eða erlendis, sætt sektum eða fangelsisrefsingu eða eigi ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi samkvæmt íslenskum lögum. Frá þessu má þó víkja að liðnum biðtíma sem hér greinir ef brot eru ekki endurtekin, sekt hefur verið greidd að fullu eða fullnustuð með öðrum hætti og aðrar upplýsingar um umsækjanda mæla ekki gegn því.
Refsing Biðtími
Sekt lægri en 50.000 kr. Enginn biðtími.
Sekt 50.000–100.000 kr. Að liðnu einu ári frá því að brot var framið.
Sekt 101.000–200.000 kr. Að liðnum tveimur árum frá því að brot var framið.
Sekt 201.000–1.000.000 kr. Að liðnum þremur árum frá því að brot var framið.
Sekt hærri en 1.000.000 kr. Að liðnum fimm árum frá því að brot var framið.
Fangelsi allt að 60 dagar. Að liðnum sex árum frá því að refsing var afplánuð eða frá veitingu reynslulausnar.
Fangelsi allt að sex mánuðir. Að liðnum átta árum frá því að refsing var afplánuð eða frá veitingu reynslulausnar.
Fangelsi allt að eitt ár. Að liðnum tíu árum frá því að refsing var afplánuð eða frá veitingu reynslulausnar.
Fangelsi meira en eitt ár. Að liðnum 14 árum frá því að refsing var afplánuð eða frá veitingu reynslulausnar.
Skilorðsbundinn dómur. Að liðnum þremur árum frá því að skilorðstími er liðinn.
Ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið. Að liðnum tveimur árum frá því að skilorðstími er liðinn.
Ákvörðun um skilorðsbundna ákærufrestun. Að liðnu einu ári frá því að skilorðstími er liðinn.
    Þegar talið er að refsing sé úttekin með gæsluvarðhaldi reiknast tíminn frá því að viðkomandi var látinn laus.
    Ef hluti dóms er skilorðsbundinn hefst biðtími þegar afplánun lýkur og miðast hann við lengd óskilorðsbundna dómsins.
    Ef umsækjandi hefur einungis sætt sektarrefsingum og samanlögð fjárhæð sekta er lægri en 101.000 kr. er heimilt að veita íslenskan ríkisborgararétt ef aðrar upplýsingar um umsækjanda mæla ekki gegn því, enda sé liðið a.m.k. eitt ár frá því að síðasta brot var framið.
    Ef umsækjandi hefur verið dæmdur til að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun er biðtíminn 14 ár frá því að öryggisgæslu lýkur.

3. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
    Sá sem misst hefur íslenskt ríkisfang samkvæmt upphaflegum ákvæðum 7. gr. laga nr. 100/1952 en hefði haldið því ef greinin hefði verið fallin úr gildi á þeim tíma er hann missti íslenska ríkisfangið getur óskað þess við ráðuneytið að öðlast ríkisfangið að nýju, enda uppfylli hann skilyrði 12. gr. og leggi fram fullnægjandi gögn að mati ráðuneytisins fyrir 1. júlí 2015.
    Sé viðkomandi undir forsjá annarra skal beiðni borin fram af forsjármanni.
    Ef sá sem öðlast íslenskt ríkisfang samkvæmt þessu ákvæði á ógift börn yngri en 18 ára, sem hann hefur forsjá fyrir, öðlast þau einnig ríkisfangið. Hafi barnið náð 12 ára aldri og sé með erlent ríkisfang skal það veita samþykki sitt til að fá íslenskan ríkisborgararétt. Samþykkis skal þó ekki krafist ef barnið ef ófært um að veita það sökum andlegrar fötlunar eða annars sambærilegs ástands.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu.
    Frumvarpið var lagt fram á 139. löggjafarþingi en var ekki afgreitt. Það er nú lagt fram á ný með þeirri breytingu að lagt er til að heimild til að veita þeim sem misst hefur íslenskt ríkisfang vegna eldri ákvæða í lögum um íslenskan ríkisborgararétt verði bundin við að fullnægjandi gögn séu lögð fram fyrir 1. júlí 2015 en það tímamark var ekki í fyrra frumvarpi.
    Frumvarpið felur í sér nokkrar breytingar á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, eins og þeim var breytt með lögum nr. 81/2007. Breytingarnar snúa fyrst og fremst að hagræðingu vegna breyttra reglna um fjárhæðir sekta og leiðréttingum sem taldar eru nauðsynlegar vegna breytinga sem orðið hafa á lögum um útlendinga.
    Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna er varðar búsetutíma útlendings sem er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara. Lagt er til að hnykkt verði á því að sé umsækjandi í hjúskap verði að vera um raunverulegar samvistir að ræða.
    Í öðru lagi er lögð til orðalagsbreyting á 3. tölul. sömu greinar er varðar skráða sambúð útlendings með íslenskum ríkisborgara þar sem felld eru niður orðin „og bæði eru ógift“. Sú leiðrétting er byggð á ákvæðum lögheimilislaga eins og 3. mgr. 7. gr. laganna er nú.
    Í þriðja lagi er lögð til breyting á 3. mgr. 8. gr. er varðar kröfu um að umsækjandi um íslenskan ríkisborgararétt uppfylli skilyrði fyrir búsetuleyfi, en talin er þörf á breytingunni vegna ósamræmis sem skapaðist milli laga um íslenskan ríkisborgararétt og laga um útlendinga varðandi búsetutíma er síðari lögunum var breytt með lögum nr. 86/2008.
    Í fjórða lagi eru lagðar til nokkrar breytingar á 6. tölul. 9. gr. laganna er varða fjárhæð sekta, auk nokkurra annarra breytinga sem snúa að biðtíma þeirra umsækjenda sem hlotið hafa dóm eða refsingu. Felst breytingin einkum í því að auka heimild ráðherra til að veita ríkisborgararétt þegar umsækjandi hefur sætt sektarrefsingu. Er ástæðan ekki síst hækkun sem orðið hefur á sektarrefsingum frá því að ákvæðið var upphaflega sett í lögin.
    Í fimmta lagi er lagt til að tekið verði aftur upp í lögin ákvæði um heimild til endurveitingar íslensks ríkisborgararéttar. Þegar ákveðið var með lögum nr. 9/2003 að íslenskum ríkisborgurum væri heimilað að halda íslensku ríkisfangi þótt þeir öðlist ríkisborgararétt í öðru ríki var jafnframt sett ákvæði til bráðabirgða sem var í gildi í fjögur ár þess efnis að sá sem misst hefur íslenskt ríkisfang skv. 7. gr. laga nr. 100/1952, sem felld var úr lögunum með lögum nr. 9/2003, hefði heimild til þess að öðlast íslenska ríkisfangið að nýju, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, ef um það yrði sótt innan fjögurra ára frá gildistöku ákvæðisins. Reynslan hefur sýnt að margir þeirra sem hefðu getað nýtt sér bráðabirgðaákvæðið vissu ekki af þeim möguleika. Þar af leiðandi hafa ýmsir óskað eftir að umsókn þeirra fari fyrir Alþingi vegna undanþágubeiðni þar sem skilyrði núgildandi laga eru ekki uppfyllt. Lagt er til að heimild til að óska eftir endurveitingu verði í gildi tímabundið til 1. júlí 2015.
    Að lokum er lagt til að bráðabirgðaákvæði í lögunum verði fellt niður. 1. og 2. mgr. ákvæðisins hefur verið tekin upp í núgildandi 16. gr. laganna (áður 11. gr.). Síðari hluti bráðabirgðaákvæðisins, 3.–5. mgr., var í gildi til 1. júlí 2007 og varðar endurveitingu íslensks ríkisborgararéttar, sambærilegt við það ákvæði sem nú er lagt til að verði endurupptekið, sbr. 3. gr. þessa frumvarps.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


     Um a-lið.
    Lagt er til að bætt verði því ákvæði í 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. að umsækjandi um íslenskan ríkisborgararétt, sem er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara, sé samvistum við maka sinn. Er talin þörf á að hafa þetta skýrt í lögunum þar sem upp geta komið tilvik þar sem umsækjandi óskar eftir ríkisborgararétti á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara en fyrir liggja upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands um að hjónin séu ekki lengur samvistum, sbr. t.d. 2. mgr. 7. gr. laga um lögheimili, nr. 21 5. maí 1990, og 37. gr. hjúskaparlaga, nr. 31 14. apríl 1993, eða aðrar upplýsingar liggja fyrir um að hjón hafi slitið samvistir. Sama getur átt við um málamyndahjúskap.
     Um b-lið.
    Hér er lagt til að í 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. verði felld niður orðin „og bæði eru ógift“ þar sem einstaklingar í skráðri sambúð verða að uppfylla skilyrði II. kafla hjúskaparlaga til þess að geta fengið sambúð sína skráða í þjóðskrá. Ákvæðið á því ekki lengur við eins og það er nú orðað þar sem búið er að breyta ákvæðum um skráningu sambúðar í lögheimilislögum, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga um lögheimili, nr. 21 5. maí 1990.
     Um c-lið.
    Þegar lögum um íslenskan ríkisborgararétt var breytt með lögum nr. 81/2007 var m.a. samþykkt það nýmæli sem fram kemur í 3. mgr. 8. gr. laganna að umsækjandi skuli uppfylla skilyrði þess að fá búsetuleyfi útgefið af Útlendingastofnun og að umsækjandi skuli jafnframt hafa slíkt leyfi þegar sótt er um íslenskan ríkisborgararétt, nema hann sé undanþeginn skyldu til að hafa dvalarleyfi hér á landi. Var markmiðið með breytingunni fyrst og fremst að tryggja að þau viðmið sem voru í útlendingalögum og kynnu að verða sett í lögin vegna útgáfu búsetuleyfa misstu ekki gildi sitt með því að unnt væri að fá ríkisborgararétt eftir leiðum sem ekki væru eins strangar. Með lögum nr. 86/2008, sem öðluðust gildi 1. ágúst 2008, var gerð breyting á lögum um útlendinga. Ein af breytingunum sneri að því tímamarki sem útlendingur þarf að hafa tímabundið dvalarleyfi áður en hann getur sótt um búsetuleyfi, en það var fært úr þremur í fjögur ár. Hins vegar eru nokkrir hópar útlendinga undanþegnir því skilyrði að hafa dvalarleyfi hér á landi hafi þeir dvalið hér í tiltekinn árafjölda. Til að koma í veg fyrir ósamræmi á milli útlendingalaga og laga um íslenskan ríkisborgararétt sem skapast hefur að þessu leyti á grundvelli þess skilyrðis í ríkisborgaralögum, að umsækjandi verði að uppfylla skilyrði til að geta fengið búsetuleyfi, sem er m.a. fjögurra ára búseta að lágmarki, telur ráðuneytið rétt að undanskilja frá kröfunni um búsetuleyfi þá umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt sem ekki þurfa dvalarleyfi hér á landi, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um útlendinga, enda uppfylli þeir skilyrði sömu greinar um undanþágu frá dvalarleyfi. Er hér um að ræða norræna ríkisborgara, útlendinga sem öðluðust íslenskan ríkisborgararétt við fæðingu en hafa misst hann eða afsalað sér honum, útlendinga sem eiga foreldri sem hefur verið íslenskur ríkisborgari í lágmark fimm ár og útlendinga sem eru í hjúskap, staðfestri samvist eða skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara.

Um 2. gr.


    Þegar lögum um íslenskan ríkisborgararétt var breytt með lögum nr. 81/2007 var dómsmálaráðherra m.a. veitt heimild til þess að veita íslenskan ríkisborgararétt að liðnum tilteknum biðtíma þó svo að refsiskilyrðum laganna væri ekki fullnægt. Í fyrsta lagi var ráðherra heimilað að veita ríkisborgararétt að liðnu einu ári frá því að brot var framið sem sætti sekt lægri en 50.000 kr. og að liðnum þremur árum frá því að brot var framið sem sætti sekt að fjárhæð 50.000 kr. eða hærri. Heimildin miðast við að brot séu ekki endurtekin, þ.e. að umsækjandi hafi ekki framið brot oftar en einu sinni, án tillits til þess hvort brot séu af svipaðri tegund. Frá setningu þessa ákvæðis hafa margar sektarrefsingar hækkað auk þess sem reynslan hefur sýnt að afgreiðsla umsóknar um ríkisborgararétt getur þurft að bíða í allt að eitt ár ef umsækjandi hefur hlotið lága sekt, t.d. að fjárhæð 5.000 kr. Einnig kemur fyrir að umsækjandi hafi sætt nokkrum smærri sektum, sem samanlagt eru ekki mjög háar, sem leiðir þá til þess að ráðherra er ekki heimilt að veita ríkisborgararétt þar sem brot eru endurtekin. Þetta hefur leitt til þess að óskað er eftir því í mun fleiri tilvikum en áður að umsókn verði send Alþingi til athugunar. Til að koma í veg fyrir að lægstu sektarfjárhæðir valdi bið eftir ríkisborgararétti eru hér lagðar til nokkrar breytingar á ákvæði 6. tölul. 9. gr., auk nokkurra annarra breytinga á biðtíma er varða skilorðsdóma og skilorðsbundnar ákvarðanir, jafnframt því sem ákvæðið er sett upp í töflu til að skerpa á skýrleika þess. Enn fremur er lagt til að 6. tölul. verði skipt niður í málsgreinar, sem nú er ekki.
    Lagt er til að 1. málsl. núgildandi 6. tölul. 9. gr. ásamt a–f-lið verði 1. mgr., en þó með nokkrum breytingum. Þar komi fram listi yfir biðtíma vegna refsingar sem umsækjandi hefur hlotið. Er sú breyting lögð til í þeim tilgangi að auka á skýrleika ákvæðisins. Gerðar eru tillögur um smávægilegar orðalagsbreytingar. Jafnframt er lagt til að lögfest verði sú regla sem verið hefur í framkvæmd að biðtími vegna sektar geti ekki orðið virkur nema sekt hafi verið greidd að fullu eða fullnustuð með öðrum hætti, svo sem með samfélagsþjónustu eða afplánun vararefsingar. Einnig er bætt við ákvæði um að heimild til að veita ríkisborgararétt að liðnum tilteknum biðtíma miðist við að aðrar upplýsingar um umsækjanda mæli ekki gegn því. Er þetta lagt til til að tryggja það að ráðherra leggi ávallt heildarmat á allar upplýsingar sem liggja fyrir um umsækjanda áður en ákvörðun er tekin um það hvort veiting ríkisborgararéttar komi til álita, enda miðist heimild til veitingar ríkisborgararéttar m.a. við það að umsækjandi sé starfhæfur og vel kynntur, sbr. 2. tölul. 9. gr. Ef upplýsingar benda til þess að umsækjandi hafi almennt ekki sýnt af sér góða framkomu eða líkur séu á að hann muni ekki vera góður og gegn borgari eru skilyrði laganna ekki talin vera uppfyllt.
    Þar sem sektarfjárhæðir hafa í mörgum tilvikum hækkað eru sektir undir 50.000 kr. að jafnaði fyrir smærri brot en þegar lög nr. 81/2007 tóku gildi. Til að koma í veg fyrir að lægstu sektarfjárhæðir orsaki bið eftir ríkisborgararétti er hér lagt til að ráðherra verði heimilað að veita ríkisborgararétt án biðtíma ef umsækjandi hefur hlotið sekt sem er lægri en 50.000 kr. Í öðru lagi er lagt til að hækka sektarmarkið þar sem biðtími er eitt ár samkvæmt núgildandi lögum, og að biðtíminn verði tengdur fleiri sektarfjárhæðum en nú er. Í núgildandi ákvæði er biðtíminn eitt ár ef sekt er undir 50.000 kr. en lagt er til að eins árs biðtími verði fyrir sektir á bilinu 50.000–100.000 kr. Samkvæmt núgildandi lögum er biðtími fyrir sektir að fjárhæð 50.000 kr. eða hærri þrjú ár. Ef sekt er á bilinu 101.000–200.000. kr. er lagt til að biðtíminn verði tvö ár og þrjú ár ef sekt er á bilinu 201.000–1.000.000 kr.
    Ef sekt er hærri en 1.000.000 kr. er lagt til að biðtíminn verði fimm ár.
    Þá er lögð til breyting á biðtíma þegar umsækjandi hefur hlotið skilorðsbundinn dóm. Núgildandi ákvæði gerir ráð fyrir að biðtíminn sé jafnlangur og ef dómur er óskilorðsbundinn, en reiknist hins vegar frá uppkvaðningu dóms í stað þess að reiknast frá því að afplánun lýkur ef dómur er óskilorðsbundinn. Hér er lagt til að biðtími allra skilorðsbundinna dóma verði jafnlangur, eða þrjú ár frá því að skilorðstími er liðinn, en nú getur biðtíminn verið allt að 14 ár. Ef sektarrefsing er dæmd með skilorðsbundnum dómi verður sekt að vera að fullu greidd eða fullnustuð með samfélagsþjónustu eða afplánuð með vararefsingu til að heimilt sé að veita ríkisborgararétt að loknum biðtíma, sbr. tillögu að ákvæði í 1. mgr. 6. tölul. 9. gr.
    Lögð er til breyting á biðtíma þegar ákvörðun um refsingu hefur verið frestað skilorðsbundið. Í núgildandi ákvæði segir að í þeim tilvikum skuli eftir atvikum miðað við skilyrði þau sem greinir í c–f-lið 6. tölul., sem er biðtími eftir lengd refsingar frá 6 árum upp í 14 ár. Er talið að sá biðtími megi vera styttri en þegar dæmd er skilorðsbundin refsing og er því lagt til að biðtíminn sé tvö ár frá því að skilorðstími er liðinn. Síðan er lagt til að biðtíminn verði eitt ár frá því að skilorðstími er liðinn ef um er að ræða skilorðsbundna ákærufrestun, en nú er biðtíminn þrjú ár frá því að ákvörðunin var tilkynnt. Er þetta lagt til til að gæta meira samræmis út frá þyngd refsingar og til að biðtíminn byrji í öllum tilvikum að líða þegar skilorðstími er liðinn.
    Lagt er til að á eftir lista um biðtíma komi ný málsgrein, 2. mgr., sem er í núgildandi lögum næsti málsliður á eftir f-lið, og varðar biðtíma þegar talið er að refsing sé úttekin með gæsluvarðhaldi. Ekki er um efnisbreytingu að ræða.
    Í lögunum telst biðtími óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar frá þeim tíma sem refsing var afplánuð eða frá veitingu reynslulausnar. Ef refsing er fullnustuð með samfélagsþjónustu er rétt að árétta að hún telst vera afplánuð þegar samfélagsþjónustu er að fullu lokið.
    Lagt er til nýtt ákvæði, sem verði 3. mgr., þar sem segir að ef hluti dóms er skilorðsbundinn hefjist biðtíminn þegar afplánun lýkur og miðast biðtíminn við lengd óskilorðsbundna dómsins.
    Þá er lagt til að í 6. tölul. komi nýtt ákvæði, er verði 4. mgr., þar sem gert er ráð fyrir að ráðherra verði heimilað að veita íslenskan ríkisborgararétt þó svo að umsækjandi hafi framið fleiri en eitt brot ef hann hefur einungis sætt sektarrefsingum og samanlögð fjárhæð refsinganna er lægri en 101.000 kr. Þó verður að vera liðið eitt ár frá síðasta broti. Einnig er hér áréttað að heildarmat á upplýsingum um umsækjanda mæli ekki gegn veitingu ríkisborgararéttar. Þetta ákvæði er í samræmi við núgildandi vinnuhefð í ráðuneytinu, að því undanskildu að hingað til hefur verið miðað við að samanlögð sektarfjárhæð sé lægri en 50.000 kr. Er hér lagt til að þessi regla verði lögfest og að samanlögð fjárhæð sektarrefsinga verði lægri en 101.000 kr. til samræmis við hækkanir á sektarmörkum í 1. mgr. 6. tölul.
    Loks er lagt til að núgildandi ákvæði um biðtíma, ef umsækjandi hefur verið dæmdur til að sæta öryggisgæslu, verði fært í nýja málsgrein, er verði 5. mgr.

Um 3. gr.


    Lagt er til að endurvakið verði tímabundið ákvæði sem var til bráðabirgða í lögunum frá 1. júlí 2003 til 1. júlí 2007 um heimild til að endurveita íslenskan ríkisborgararétt þeim sem misst hafa íslenskt ríkisfang sitt við það að sækja um annað ríkisfang. Með lögum nr. 9/2003 var fellt úr lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, ákvæði sem þá var í 7. gr. laganna um að sá sem öðlaðist erlent ríkisfang missti við það íslenska ríkisfangið. Um leið var samþykkt bráðabirgðaákvæði um að heimilt væri að endurveita íslenska ríkisfangið að uppfylltum tilteknum skilyrðum ef fólk hafði tapað því á grundvelli þágildandi 7. gr.
    Fjöldi manns notfærði sér heimild bráðabirgðaákvæðisins meðan það var í gildi. Aftur á móti hefur reynslan sýnt að margir þeirra sem hefðu getað nýtt sér bráðabirgðaákvæðið vissu ekki af þessum möguleika. Þar sem ráðuneytið hefur ekki lengur heimild til slíkrar endurveitingar hafa þónokkuð margir sem búsettir eru erlendis og voru íslenskir ríkisborgarar, en öðluðust erlendan ríkisborgararétt fyrir 1. júlí 2003, sótt um íslenskan ríkisborgararétt og óskað eftir undanþágu frá lögunum með því að umsókn þeirra fari fyrir Alþingi.
    Í ákvæðinu, eins og það er orðað í þessu frumvarpi, er áréttuð sú regla sem unnið var eftir í framkvæmd er eldra ákvæðið var í gildi, og auglýst var á heimasíðu ráðuneytisins, að til að eiga möguleika á að fá íslenskt ríkisfang að nýju verði sá sem þess óskar að uppfylla skilyrði 12. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt um búsetu eða dvöl hér á landi, ef hann er ekki fæddur á Íslandi, eða geta sýnt fram á tengsl við landið sem heimila að hann geti haldið íslensku ríkisfangi að mati ráðuneytisins. Beiðni um að fá íslenskan ríkisborgararétt endurveittan verður að leggja fram á sérstöku eyðublaði ráðuneytisins fyrir 1. júlí 2015.
    Með forsjármanni í ákvæðinu er átt við þá sem fara með forsjá þegar umsókn er borin fram.
    Með þessu nýja bráðabirgðaákvæði fellur eldra bráðabirgðaákvæði úr gildi.
    Fyrri hluti ákvæðisins, 1. og 2. mgr., hefur nú þegar verið tekinn inn í lögin, sbr. 16. gr., sem varanleg ákvæði. Hins vegar voru ákvæði 3.–5. mgr., er varða endurveitingu íslensks ríkisborgararéttar, í gildi til 1. júlí 2007. Er nú lagt til að það ákvæði verði endurvakið tímabundið með lítið breyttu orðalagi og tekið inn í lögin að nýju.

Um 4. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.
    


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100 23. desember 1952, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á lögunum vegna breyttra reglna um fjárhæðir sekta og vegna breytinga sem orðið hafa á lögum um útlendinga. Í fyrsta lagi er lagt til að hnykkt verði á því að sé umsækjandi um íslenskan ríkisborgararétt í hjúskap verði hann að vera raunverulega samvistum við maka sinn. Í öðru lagi að umsækjandi uppfylli skilyrði fyrir búsetuleyfi. Í þriðja lagi eru lagðar til nokkrar breytingar er varða fjárhæð sekta, auk nokkurra annarra breytinga sem snúa að biðtíma þeirra umsækjenda sem hlotið hafa dóm eða refsingu. Felst breytingin einkum í því að auka heimild ráðherra til að veita ríkisborgararétt þegar umsækjandi hefur sætt sektarrefsingu. Er ástæðan ekki síst hækkun sem orðið hefur á sektarrefsingum frá því ákvæðið var upphaflega sett í lögin. Í fjórða lagi er lagt til að tekið verði aftur upp í lögin ákvæði um heimild til endurveitingar íslensks ríkisborgararéttar. Með lögum nr. 81/2007 var íslenskum ríkisborgurum heimilað að halda íslensku ríkisfangi þótt þeir öðlist ríkisborgararétt í öðru ríki. Í lögunum var sett ákvæði til bráðabirgða, þess efnis að sá sem misst hefði íslenskt ríkisfang skv. 7. gr. laga nr. 100/1952, sem fellt var úr lögunum frá 2007, hefði heimild til þess að öðlast íslenska ríkisfangið að nýju, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, ef um það yrði sótt innan fjögurra ára frá gildistöku ákvæðisins. Reynslan hefur sýnt að margir þeirra sem hefðu getað nýtt sér bráðabirgðaákvæðið vissu ekki af þeim möguleika. Þar af leiðandi hafa ýmsir óskað eftir að umsókn þeirra fari fyrir Alþingi vegna undanþágubeiðni þar sem skilyrði laganna eins og þau eru í dag eru ekki uppfyllt. Að lokum er lagt til að bráðabirgðaákvæði gildandi laga verði fellt niður en fyrri hluti ákvæðisins er nú þegar hluti af gildandi lögum og síðari hluti ákvæðisins varðar endurveitingu íslensks ríkisborgararéttar, sambærilegt við það ákvæði sem nú er lagt til að verði endurupptekið tímabundið til 1. júlí 2015.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.