Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 138. máls.

Þingskjal 138  —  138. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995,
með síðari breytingum (takmörkun á gildissviði laganna,
reglugerðarheimild, EES-reglur).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Á eftir 3. málsl.1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Lögin taka ekki til einstaklinga eða félagasamtaka sem matreiða og bjóða matvæli til neyslu án endurgjalds eða annars ávinnings við einstök tilefni. Lögin taka ekki heldur til einstaklinga eða félagasamtaka sem matreiða og bjóða til sölu matvæli beint til neytenda í þágu góðgerðarstarfsemi og stunda slíka starfsemi ekki að jafnaði og ekki í eigin hagnaðarskyni.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohjóðandi:
                  Ráðherra er heimilt að víkja frá einstökum ákvæðum laga þessara þegar um er að ræða framleiðendur sem:
                  a.      afhenda frumframleiðsluvörur í litlu magni beint til neytenda eða til staðbundins smásölufyrirtækis sem afhendir matvæli beint til neytenda,
                  b.      framleiða matvæli með aðferðum sem hefð er fyrir hérlendis.
        Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um þessa starfsemi, svo sem um hvaða starfsemi er að ræða, hvað telst staðbundin starfsemi, skilyrði fyrir slíkri starfsemi, opinbert eftirlit og hvaða reglur um framleiðslu, markaðssetningu, hollustuhætti, merkingar, umbúðir, rekjanleika, geymslu og flutning gilda um slík matvæli.

2. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný skilgreining í viðeigandi stafrófsröð, svohljóðandi:
     Góðgerðarstarfsemi er starfsemi sem hefur það einasta markmið að verja hagnaði sínum til almenningsheilla, svo sem líknarmála, íþróttamála, félagsmála og vísinda- eða hjálparstarfsemi.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á 2. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, með síðari breytingum. Jafnframt er lagt til að skilgreint verði í 4. gr. laganna hvað sé „góðgerðarstarfsemi“.
    Annars vegar er um að ræða breytingu á 1. mgr. 2. gr. laganna sem undanskilur gildissviði laganna einstaklinga eða félagasamtök sem matreiða og bjóða matvæli í fyrsta lagi án endurgjalds eða annars ávinnings til neyslu við einstök tilefni og í öðru lagi til sölu beint til neytenda í þágu góðgerðarstarfsemi og stunda slíka starfsemi ekki að jafnaði og ekki í eigin hagnaðarskyni. Í hvorugu tilfellinu er um reglubundna framleiðslu eða afhendingu að ræða og aldrei í eigin hagnaðarskyni.
    Hins vegar er um að ræða breytingu á sömu grein sem heimilar ráðherra að víkja frá einstökum ákvæðum laganna þegar um er að ræða frumframleiðendur sem afhenda frumframleiðsluvörur í litlu magni beint til neytenda eða til staðbundins smásölufyrirtækis sem afhendir matvæli beint til neytenda, sbr. a-lið. b-liðar 1. gr. frumvarpsins, og framleiða matvæli með aðferðum sem hefð er fyrir hérlendis, sbr. b-lið sama liðar. Jafnframt er lagt til að ráðherra setji reglugerð um framangreinda starfsemi.

A.


    Núgildandi lög, nr. 93/1995, um matvæli, fela í sér að einstaklingar eða félagasamtök sem matreiða og bjóða matvæli án endurgjalds eða til sölu í þágu góðgerðarmála eru matvælafyrirtæki í skilningi laganna. Jafnframt eru þessir aðilar starfsleyfisskyldir skv. 9. gr. laganna. Lög nr. 93/1995, um matvæli, og stjórnvaldsreglur settar samkvæmt þeim lögum kveða þannig á um að framangreind matvælaframleiðsla sem boðin er almenningi skuli fara fram í umhverfi sem uppfyllir kröfur löggjafarinnar. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna fer með opinbert eftirlit starfseminnar samkvæmt lögunum og stjórnvaldsreglum settum samkvæmt þeim.
    Framangreindar kröfur um að einstaklingar eða félagasamtök sem matreiða og bjóða matvæli til sölu í þágu góðgerðarmála hafa verið í íslenskri löggjöf um nokkurt skeið. Kröfur um breytingar á framangreindu fyrirkomulagi hafa orðið háværari hin síðari ár í þá veru að félagasamtök eða einstaklingar hefðu möguleika á því að leggja ýmsum málefnum lið með því að bjóða almenningi gegn gjaldi matvæli sem matreidd eru eða bökuð í eldhúsum heima við eða öðrum eldhúsum sem ekki hafa verið samþykkt af opinberum eftirlitsaðilum.
    Með frumvarpi þessu er komið til móts við framangreindar kröfur almennings. Í frumvarpinu er lagt til að gildissvið laga nr. 93/1995, um matvæli, verði þrengt. Þannig gildi lögin ekki um einstaklinga eða félagasamtök sem útbúa og bjóða til sölu matvæli beint til neytenda í þágu góðgerðarmála en stunda slíka starfsemi ekki að jafnaði eða í eigin hagnaðarskyni. Þannig er lögunum einungis ætlað að ná yfir fjáraflanir sem búa við tiltekna samfellu og tiltekið skipulag. Með því er átt við að fjáraflanir sem eru hluti af reglulegri starfsemi eða uppákomum og kalla á samfellu í rekstri og stjórnun þurfa eftir sem áður að lúta öllum ákvæðum laganna. Samkvæmt frumvarpinu er „góðgerðarstarfsemi“ skilgreind þannig að um sé að ræða starfsemi sem hafi það einasta markmið að verja hagnaði sínum til almenningsheilla, svo sem líknarmála, íþróttamála, félagsmála og vísinda- eða hjálparstarfsemi. Lagt er til að framangreind skilgreining bætist við 4. gr. laga nr. 93/1994, um matvæli.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hversu algengt er að einstaklingar eða félagasamtök matreiði og bjóði matvæli án endurgjalds eða til sölu í þágu góðgerðarmála. Þar sem slík matreiðsla hefur alla jafnan ekki verið tilkynnt til opinberra eftirlitsaðila má ætla að opinbert eftirlit á þessu sviði hafi ekki verið skilvirkt. Í seinni tíð hefur borið á því að matvælafyrirtæki hafi vakið athygli opinberra eftirlitsaðila á tilteknum viðburðum þar sem matvæli hafa verið boðin til sölu í þágu góðgerðarmála. Í slíkum tilvikum hafa opinberir eftirlitsaðilar brugðist við og vakið athygli á kröfum löggjafarinnar. Hér er um fá tilvik að ræða. Í ljósi þessa má ætla að efnisákvæði frumvarpsins muni ekki breyta núverandi ástandi í samfélaginu hvað varðar framboð matvæla sem útbúin eru af einstaklingum eða samtökum í þágu góðgerðarmála.
    Jafnframt er kveðið skýrt á um það með frumvarpi þessu að einstaklingar eða félagasamtök sem matreiða og bjóða matvæli án endurgjalds til neytenda við einstök tilefni falli utan gildissviðs laganna. Þannig er gert ráð fyrir að kaffisamsæti ýmiss konar í kirkjum, skólum og sambærilegum mannfögnuðum, þ.m.t. ýmiss konar útiviðburðum, þar sem einstaklingar eða félög matreiða og bjóða án endurgjalds matvæli til neyslu falli utan gildissviðs laganna. Með þessu ákvæði er verið að taka af öll tvímæli um það að slík eldamennska eða bakstur falli ekki undir opinbert matvælaeftirlit samkvæmt lögum eins og verið hefur.

B.


    Reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004, um hollustuhætti í matvælaiðnaði, og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004, um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu, gilda ekki um „beina afhendingu framleiðanda á litlu magni frumframleiðsluvara til neytanda eða smásölufyrirtækis á staðnum sem afhendir vöru beint til neytenda“. Í þessum tilvikum þurfa ríki á EES-svæðinu að setja sér eigin reglur. Framangreindar reglugerðir ESB taka gildi fyrir landbúnaðarafurðir 1. nóvember 2011 en hafa tekið gildi fyrir öll önnur matvæli. Nágrannalönd okkar á EES-svæðinu hafa þegar sett slíka löggjöf í samræmi við reglugerðir (EB) nr. 852/2004 og 853/2004. Í reglugerðum (EB) nr. 852/2004 og 853/2004 er jafnframt gert ráð fyrir tilteknum sveigjanleika við beitingu reglna löggjafarinnar vegna framleiðslu, vinnslu og dreifingar matvæla sem framleidd eru með aðferðum sem hefð er fyrir í viðkomandi ríki. Þó er áhersla lögð á að slíkur sveigjanleiki megi ekki stefna í hættu markmiðum löggjafarinnar um hollustuhætti matvæla.
    Í frumvarpi þessu er því gert ráð fyrir að ráðherra fái heimild til að víkja frá einstökum ákvæðum laga þessara þegar um er að ræða frumframleiðendur sem afhenda frumframleiðsluvörur í litlu magni beint til neytenda eða til staðbundins smásölufyrirtækis sem afhendir matvæli beint til neytenda. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð þar sem nánari ákvæði um slíka starfsemi eru sett og mögulega vikið frá einstökum ákvæðum laga nr. 93/1995, um matvæli.
    Samkvæmt frumvarpi þessu er skilgreining frumframleiðslu framleiðsla, eldi eða ræktun undirstöðuafurða ásamt uppskeru, mjöltum og eldi dýra fram að slátrun. Frumframleiðsla tekur einnig til dýra- og fiskveiða og nýtingar villigróðurs. Bændur og aðrir aðilar sem t.d. stunda veiði eða nýta villigróður ýmiss konar hafa í auknum mæli hafið sölu á afurðum sínum á býli sínu eða nálægum mörkuðum. Í þeim tilvikum og öðrum þar sem slíkir aðilar afhenda vöru sína nálægt smásölufyrirtæki hefur verið litið til þess meðal annars að neytandinn sé í beinu sambandi við framleiðanda vörunnar eða sé upplýstur um uppruna vörunnar og meðferð hennar. Ráðherra mun með reglugerð skilgreina nánari skilyrði fyrir þessa starfsemi, svo sem um hvaða starfsemi er að ræða og hvað telst staðbundin starfsemi. Af þessum sökum liggur ekki fyrir umfang þeirrar starfsemi sem efnisákvæðið nær til. Gera má ráð fyrir að heimild ráðherra til að víkja frá ákvæðum laganna muni fjölga þeim aðilum sem hefja framangreinda starfsemi. Samkvæmt gjaldskrá opinberra eftirlitsaðila ber að innheimta allt að raunkostnaði vegna þessa eftirlits þannig að kostnaður eftirlitsaðila á ekki að aukast vegna þess.
    Með sama hætti er gert ráð fyrir að ráðherra geti vikið frá ákvæðum laganna þannig að hægt verði að beita áfram ýmsum hefðbundnum aðferðum við matvælavinnslu hérlendis. Hér getur verið um að ræða vinnslu ýmissa matvæla þar sem vinnsluaðferðin uppfyllir ekki almenn ákvæði laganna eða reglugerða sem settar eru á grundvelli laganna. Um margvíslega vinnslu getur verið að ræða, svo sem reykingu á kjöti með taði og vinnslu á hákarli og fiski. Vinnsluaðferðir sem þessar hafa verið stundaðar um aldir og þrátt fyrir að vera ekki í samræmi við ákvæði núgildandi laga og reglugerða uppfylla þessar vinnsluaðferðir þær kröfur sem almennt eru gerðar til öryggis slíkra matvæla.
    Efni reglugerðar, sem sett er á grundvelli slíkrar reglugerðarheimildar, skal taka mið af reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 178/2002 um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli o.fl. sem innleidd hefur verið í hérlend lög og gildir um framangreinda starfsemi. Þannig ber að tryggja að framleiðendur fylgi almennum reglum um öryggi og hollustuhætti matvæla þannig að fullnægt sé markmiðum laga hvað þessa þætti varðar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 93/1995, um matvæli,
með síðari breytingum (takmörkun á gildissviði laganna,
reglugerðarheimild, EES-reglur).

    Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að heimilt verði að undanskilja einstaklinga og félagasamtök gildissviði laganna þegar viðkomandi aðilar standa að framleiðslu, dreifingu og sölu matvæla og slíkt er gert án endurgjalds eða ekki í hagnaðarskyni. Hins vegar verði ráðherra veitt heimild til að undanskilja framleiðslufyrirtæki ein-stökum ákvæðum laganna þegar um er að ræða frumframleiðslu í litlu magni eða notast er við framleiðsluaðferðir sem teljast geta hefðbundnar hér á landi.
    Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að auðvelda einstaklingum og félaga-samtökum matvæla- og veitingasölu í góðgerðarskyni og til almannaheilla. Einnig er frumvarpinu ætlað að auðvelda og viðhalda framleiðslu matvæla með aldagömlum íslenskum framleiðsluaðferðum og stuðla að fjölbreytileika í matvælaframleiðslu.
    Breytingarnar varða fyrst og fremst aðbúnað og hollustuhætti i matvælaiðnaði og ekki verður séð að lögleiðing frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.