Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 156. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 156  —  156. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 91/2008, um grunnskóla.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson, Kristján Þór Júlíusson,
Ragnheiður E. Árnadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 28. gr. er sveitarfélögum og öðrum rekstraraðilum grunnskóla heimilt á skólaárunum 2011–2012 og 2012–2013 að stytta vikulegan kennslutíma hvers nemanda í 8.–10. bekk um allt að 200 mínútur, í 5.–7. bekk um allt að 160 mínútur og í 1.–4. bekk um allt að 120 mínútur.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 139. löggjafarþingi (761. mál) en varð eigi útrætt og er því lagt fram að nýju.
    Mörg sveitarfélög glíma nú við mikinn rekstrar- og fjárhagsvanda. Á sama tíma og skuldir hafa hækkað, í kjölfar aukinnar verðbólgu og hruns gjaldmiðilsins, dragast tekjur þeirra saman, jafnframt því að útgjöld aukast. Sveitarfélögin gripu til úrræða á árinu 2008. Mörg þeirra hafa orðið að beita miklu aðhaldi í rekstri og hækka álögur á íbúana til þess að ná endum saman.
    Það er mat sveitarstjórnarmanna að mjög þrengist nú um þá hagræðingarkosti sem fyrir hendi séu, án þess að skerða grunnþjónustu. Sveitarfélögin sinna meðal annars lögbundnum verkefnum sem ekki verður vikist undan. Önnur viðfangsefni eru ekki endilega lögbundin þótt þau skipti gríðarlega miklu máli fyrir samfélögin um allt land. Tónlistarskólar eru gott dæmi um það. Sveitarfélögin hafa og hækkað ýmsar gjaldskrár sínar, til dæmis á leikskólum, sem óhjákvæmilega kemur niður á barnafólki. Þá má nefna að niðurgreiddar eða ókeypis skólamáltíðir eru ekki lögbundnar, en hafa margvíslega þýðingu. Innheimta fulls eða aukins kostnaðar á skólamáltíðum mundi augljóslega verða mjög íþyngjandi fyrir efnaminni fjölskyldur, á tímum þegar víða þrengist um í búi fólks. Þá nýta flest sveitarfélög tekjumöguleika sína til hins ýtrasta. Möguleikar á auknum tekjum á sama tíma og atvinna dregst saman og kaupmáttur rýrnar eru þess vegna ekki miklir, né líklegir til mikils árangurs. Úrræðin sem sveitarfélögin hafa til þess að láta enda ná saman eru þess vegna ekki ýkja mörg.
    Við þessar aðstæður er því óhjákvæmilegt að hyggja að öðrum tímabundnum kostum sem þó teljast ekki æskilegir til lengri tíma. Þetta frumvarp er lagt fram af þessum ástæðum.
    Með frumvarpinu eru lagðar til tímabundnar breytingar á grunnskólalögum sem miða að því að draga úr kostnaði sveitarfélaga við rekstur grunnskóla.
    Í 1. gr. frumvarpsins felst heimild til hagræðingar með því að stytta vikulegan kennslutíma, sbr. 2. mgr. 28. gr. laganna, mismikið þó eftir aldursstigum. Lagt er til að hámarksstytting vikulegs kennslutíma nemenda í 8.–10. bekk verði 200 mínútur (14%), 160 mínútur (11%) í 5.–7. bekk og 120 mínútur (10%) í 1.–4. bekk.
    Gert er ráð fyrir að sveitarfélög setji fram ákveðnar mótvægisaðgerðir til þess að draga úr áhrifum vegna skerðingar vikulegs kennslutíma með sérstakri áherslu á yngsta aldursstigið og heildarskólatíma þess.
    Samkvæmt fyrirliggjandi útreikningum má ætla að umrædd tillaga gæti skilað á bilinu 1,4–1,55 milljarða kr. heildarsparnaði, verði þessi leið farin í öllum sveitarfélögum landsins. Að teknu tilliti til kostnaðar af væntanlegum mótvægisaðgerðum yrði sparnaðurinn þó að líkindum frekar á bilinu 1–1,2 milljarðar kr. á ári. Má af því ráða að þessi útfærsla geti skilað þeim sveitarfélögum verulegum árangri sem helst þurfa að grípa til hagræðingar í rekstri vegna lækkandi tekna og erfiðrar skuldastöðu.
    Ljóst er að það getur skipt sum sveitarfélög, einkum á landsbyggðinni, verulegu máli að eiga kost á að útfæra styttingu vikulegs skólatíma með tilfærslu kennslumagns milli mánaða. Með því móti sparast ýmis kostnaður, svo sem skólaakstur, þrif á skólahúsnæði, rekstur mötuneytis og fleira sem er til viðbótar launakostnaði.
    Þessari hagræðingu er hægt ná fram án þess að hróflað verði við kjarasamningum. Um er að ræða gagnsæja breytingu sem viðkomandi skólar ættu að eiga auðvelt með að láta haldast í hendur við mótvægisaðgerðir innan skólanna og aukið þjónustuframboð til heimilanna þar sem þess gerist þörf, sérstaklega gagnvart yngstu aldurshópunum. Að því gefnu að um sé að ræða tímabundna heimild má með samstilltu átaki, aðhaldi og eftirfylgni tryggja að þessi útfærsla bitni ekki á gæðum í skólastarfi.
    Leggja verður áherslu á að hagræðingaraðgerðir sem sveitarfélög grípa til vegna grunnskólans séu vel ígrundaðar og fyrir fram reynt að meta hver áhrifin verði á hvert hinna þriggja stiga skólans. Í því sambandi er ljóst að sveitarfélag getur til dæmis ákveðið að stytta ekki vikulegan kennslutíma á yngsta stiginu sé það mat stjórnenda að slík stytting hafi of neikvæð áhrif.
    Með 4. gr. laga nr. 48/2001, sem breytti 26. gr. eldri laga um grunnskóla, var ákveðið að starfstími nemenda í grunnskóla skyldi að lágmarki vera níu mánuðir og kennsludagar eigi færri en 170. Breytingin fólst í því að í stað þess að starfstími grunnskóla skyldi vera níu mánuðir var kveðið á um níu mánaða lágmarksstarfstíma nemenda í grunnskólum. Breytingin var tilkomin vegna kjarasamninga launanefndar sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara þar sem ákveðið var að skóladagar nemenda skyldu vera 180 dagar. Með samningnum var þannig gengið lengra en lögin miðuðu við á þeim tíma. Gert var ráð fyrir að fjölgunin rúmaðist á tímabilinu 20. ágúst til 10. júní. Á sínum tíma óskaði menntamálaráðuneytið eftir skýringum á því hvernig samningsaðilar hygðust nýta viðbótardagana. Fram kom að viðbótardagarnir væru skóladagar nemenda sem ættu að nýtast til að auka fjölbreytni skólastarfs.
    Þeir væru þó ekki endilega bundnir við hefðbundna kennslu heldur gæti skólinn ákveðið í skóladagatali að þeir yrðu svokallaðir „skertir dagar“, t.d. vegna skólasetningar og skólaslita, jólatrésskemmtunar, íþrótta- og útivistardaga að vori, foreldraviðtala eða annars skólastarfs, að fengnu samþykki sveitarstjórnar með staðfestingu á starfsáætlun skóla, sbr. 29. gr. gildandi laga um grunnskóla. Með lögum nr. 91/2008 eru 180 skóladagar nemenda lögfestir. Sem mótvægi vegna þeirrar vikulegu skerðingar á kennslutíma yfir vetrartímann sem lögð er til í frumvarpi þessu er lagt til að viðbótardagarnir tíu verði fullnýttir.