Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 102. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 158  —  102. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar
um ráðningar starfsmanna í Stjórnarráðinu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir starfsmenn hafa verið ráðnir til starfa, annarra en afleysinga, í Stjórnarráði Íslands án þess að starfið væri auglýst árin 2007–2011, sundurliðað á einstök ráðuneyti og ár?
     2.      Hversu margir þessara starfsmanna eru nú starfandi í hverju ráðuneyti fyrir sig?


    Í 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. laga um þingsköp Alþingis er kveðið á um það, m.a., að fyrirspurn til ráðherra skuli varða mál sem hann ber ábyrgð á.
    Framangreind fyrirspurn sem beint er til forsætisráðherra lýtur að ráðningu starfsmanna í öllum ráðuneytum Stjórnarráðsins á tilgreindu tímabili. Ábyrgð á starfsráðningum innan Stjórnarráðs Íslands hvílir hins vegar sjálfstætt hjá hverju ráðuneyti og ráðherra fyrir sig. Í samræmi við það og ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. þingskapa ber að beina fyrirspurnum er varða starfsráðningar í einstökum ráðuneytum til þess ráðherra sem fer með viðkomandi ráðuneyti. Sé óskað upplýsinga um starfsráðningar í öllum ráðuneytum ber samkvæmt framansögðu að beina sérstakri fyrirspurn þess efnis til hvers og eins ráðherra.
    Tekið skal fram að berist forsætisráðherra fyrirspurn um ráðningar starfsmanna í forsætisráðuneytinu verður þeirri fyrirspurn að sjálfsögðu svarað efnislega enda sé hún að öðru leyti í samræmi við form- og efnisskilyrði þingskapa. Til nánari skýringar á framangreindri afstöðu er vísað til svars forsætisráðherra við fyrirspurn á 139. löggjafarþingi á þingskjali 1414 sem og til bréfs forsætisráðuneytisins til forseta Alþingis, dags. 18. apríl 2011.