Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 169. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 171  —  169. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

Flm.: Árni Þór Sigurðsson, Magnús Orri Schram, Lilja Rafney Magnúsdóttir.


1. gr.

    Við b-lið 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tollfrelsi samkvæmt þessum lið tekur til skemmtiferðaskipa, skráðra erlendis, sem eru notuð í innanlandssiglingum í allt að fjóra mánuði á hverju tólf mánaða tímabili.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Samkvæmt b-lið 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga njóta för, þ.m.t. skemmtiferðaskip, sem koma til landsins frá útlöndum tollfrelsis vista og annarra nauðsynja. Aftur á móti njóta för í innanlandssiglingum ekki slíkra tollfríðinda. Ákvæði þetta hefur í framkvæmd tollstjóra verið skýrt svo að skemmtiferðaskip, sem hafa komið til landsins og verið í ferðum um Ísland um einhvern tíma og skipt um farþega í íslenskri höfn, hafa ekki verið talin uppfylla skilyrði tollfrelsis. Öðru máli gegnir um skip sem koma frá útlöndum og fara til útlanda að nýju með stuttu stoppi hér.
    Alþjóðlega hefur hugtakið „skemmtisigling“ verið notað yfir ferðalag með hafskipi í minnst 60 klukkustundir. Siglingin er fyrir farþega sem hafa greitt fargjald og er allur matur og gistirúm innifalið í fargjaldinu. Á siglingunni er ekki fluttur neinn farmur né flutningatæki. Á skemmtisiglingu er komið við í minnst tveimur höfnum auk brottfarar- og komuhafnar.
    Í nokkur ár hafa íslenskir ferðaþjónustuaðilar og hafnir kynnt möguleikana á að sigla með skemmtiferðaskipi umhverfis landið og skipta um farþega í Reykjavík. Farþegar sem hafa lokið siglingu fara þá frá borði í Reykjavík og nýir sem koma um Keflavík með flugi stíga um borð. Nokkur félög hafa reynt þetta fyrirkomulag en þá aðeins farið örfáar ferðir. Ákjósanlegt væri að viðkomandi skip sé hér allt sumarið og sigli vikulega og þá gætu þetta orðið 12 vikuferðir yfir sumarið. Í hringferðinni kemur skipið við í 5–6 höfnum.
    Vandamálið við þessa framkvæmd hefur verið að um leið og skipið siglir hér innan lands, án þess að fara í útlenda höfn, telst það vera í innanlandssiglingum („domestic waters“) sem þýðir að íslensk tolla- og skattalög ná til skipsins og þarf þá t.d. að greiða virðisaukaskatt og tolla af öllum aðföngum. Ekki er leyfð tollfrjáls sala um borð o.s.frv. Í Evrópu gilda sömu lög og hér en þar hafa menn möguleika á að fara á fríverslunareyjar eins og Guernsey og þannig geta skipafélögin sagst hafa farið í útlenda höfn og þar með er ferðin í millilandasiglingum („international“). Hvað Ísland varðar væri hægt að nota Færeyjar sem millihöfn, en það lengdi ferðalagið um u.þ.b. 30 klst. og yrði þar af leiðandi ekki eins góður kostur.
    Leitað hefur verið eftir skilgreiningu frá tollyfirvöldum hvað þetta álitamál áhrærir og svör hafa borist þaðan og í bréfi tollstjóra, dags. 24. júní 2011, til ferðaþjónustuaðila segir m.a.: „Skemmtiferðaskip í ferðum um Ísland falla þá aðeins undir ofangreinda skilgreiningu (undanþágu frá vsk og tolli) ef um er að ræða skip sem kemur til landsins erlendis frá, kemur að einni eða fleiri höfnum innanlands og siglir svo aftur úr landi. Sé hins vegar um að ræða skip sem kemur til landsins og er aðeins í ferðum um Ísland í einhvern tíma og skiptir um farþega í íslenskri höfn er það mat tollstjóra að ekki sé um að ræða far í utanlandsferðum og skilyrði til tollfrelsis skv. b-lið 1. mgr. 6. gr. tollalaga séu einvörðungu uppfyllt í fyrstu ferð skipsins um landið.“
    Vandamálið speglast í því að öll aðföng til skipsins yrðu með virðisaukaskatti og tollum, þar sem það á við, og öll söluvara um borð yrði með virðisaukaskatti en slíkt gerir þennan rekstur lítt samkeppnishæfan. Auk þessa er alltaf ákveðnum erfiðleikum bundið hvar á að draga línu þegar kemur að því að aðskilja rekstur hótelsins í skipinu og hótels á landi hvað varðar skatta og skyldur. Í hnotskurn er vandinn sá að hvað samkeppni varðar eru hringsiglingar um Ísland ekki nægilega hagstæðar, miðað við framangreint, til að keppa við aðra valkosti sem skipafélög hafa fyrir sín skip.
    Eins og gefur að skilja er ekki sjálfgefið að skip hefji hringsiglingar um Ísland ef undanþága eins og frumvarpið gerir ráð fyrir verður veitt. Hins vegar er nokkuð líklegt að slíkar siglingar muni ekki hefjast með núverandi tolla- og skattaákvæðum. Ávinningur fyrir íslenskt hagkerfi er því hugsanlega enginn með núverandi fyrirkomulagi en yrði frumvarpið samþykkt gæti ávinningur orðið verulegur fyrir hafnir, flugvöll, ríkissjóð (vitagjald og tollafgreiðslugjald) og svo vegna almennrar neyslu farþega.
    Frumvarpi þessu er ætlað að mæta þessum þörfum siglinga með skemmtiferðaskipum. Eðlilegt kann þó að vera við þinglega meðferð málsins að skoða hvort frumvarpið geti raskað samkeppnisstöðu aðila innan ferðaþjónustunnar sem ekki búa við sams konar fríðindi.