Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 193. máls.

Þingskjal 198  —  193. mál.Frumvarp til laga

um fjársýsluskatt.

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
1. gr.
Upphafsákvæði.

    Skattskyldir aðilar skv. 2. gr. skulu greiða fjársýsluskatt af öllum tegundum launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sbr. 4. gr., eins og nánar er ákveðið í lögum þessum. Fjársýsluskattur skal innheimtur samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lagður á með opinberum gjöldum samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.

2. gr.
Skattskyldir aðilar.

    Eftirtaldir aðilar eru skattskyldir samkvæmt lögum þessum:
     1.      Hlutafélög, vátryggingafélög og Evrópufélög samkvæmt lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, svo og aðrir aðilar sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni inna af hendi vinnu eða þjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti skv. 9. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
     2.      Viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir, rekstrarfélög verðbréfasjóða, svo og önnur fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/ 2002, um fjármálafyrirtæki, sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni inna af hendi vinnu eða þjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti skv. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
     3.      Lífeyrissjóðir sem hafa hlotið starfsleyfi á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, lífeyrissjóðir sem starfa samkvæmt sérlögum sem og starfstengdir eftirlaunasjóðir sem hafa heimild til að taka á móti iðgjöldum til myndunar eftirlaunaréttar samkvæmt lögum nr. 78/2007, um starfstengda eftirlaunasjóði.
     4.      Útibú, umboðsmenn og aðrir sem eru í fyrirsvari fyrir erlenda aðila sem reka hér á landi starfsemi skv. 1.–3. tölul.

3. gr.
Skattskylda opinberra aðila.

    Opinberar stofnanir sem hafa lögbundið hlutverk, eru að fullu í eigu opinberra aðila og stunda starfsemi sem fellur undir 1. og 2. tölul. 2. gr. eru undanþegnar skattskyldu samkvæmt lögum þessum.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Íbúðalánasjóður skattskyldur samkvæmt lögum þessum.

4. gr.
Skattstofn.

    Stofn til fjársýsluskatts er allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ekki skiptir máli í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum, vöruúttekt eða vinnuskiptum. Til stofns telst enn fremur endurgjald hjá þeim aðilum sem er skylt að reikna sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. reglur ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í 58. gr. sömu laga.
    Til skattstofns skv. 1. mgr. telst meðal annars:
     1.      Hvers konar laun og þóknanir, þ.m.t. ákvæðislaun, biðlaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, launauppbætur, staðaruppbætur, orlofsfé og greiðslur fyrir ónotað orlof og framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Einnig lán til starfsmanna sem eru óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Sömuleiðis flutningspeningar, fæðispeningar og þess háttar greiðslur.
     2.      Ökutækjastyrkir og dagpeningar. Þó skal ekki telja til skattstofns greiðslur dagpeninga sem er heimilt að halda utan staðgreiðslu samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og reglugerðum og starfsreglum sem eru settar með stoð í þeim lögum.
     3.      Gjafir og risnufé sem teljast kaupuppbót og eftirgjöf lána sem telja má að komi í stað launa.
     4.      Laun eða þóknanir fyrir störf unnin erlendis, greidd af íslenskum aðilum til manna sem eru heimilisfastir hér á landi.
     5.      Skattskyld hlunnindi, m.a. fæði, húsnæði, fatnaður, bifreiðaafnot og þess háttar. Hlunnindi þessi skal reikna til skattstofns á sama verði og þau eru metin til tekna samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra. Önnur hlunnindi skulu metin til verðs eftir gangverði á hverjum stað og tíma.

5. gr.
Greiðslur undanþegnar skattskyldu.

    Eftirtaldar greiðslur eru undanþegnar fjársýsluskatti:
     1.      Eftirlaun og lífeyrir sem skattskyldir aðilar skv. 2. gr. greiða.
     2.      Greiðslur skv. 4. gr. sem skattskyldir aðilar skv. 2. gr. greiða vegna þess hluta starfsemi sinnar sem er virðisaukaskattsskyld og fellur utan 9. og 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.
     3.      Greiðslur skattskylds aðila skv. 2. gr. vegna fæðingarorlofs að því marki sem þær eru ekki umfram hluta slíkra greiðslna sem fást endurgreiddar úr Fæðingarorlofssjóði.

6. gr.
Skatthlutfall.

    Fjársýsluskattur er 10,5% af skattstofni eins og hann er skilgreindur í 4. gr., sbr. og 5. gr.

7. gr.
Skráningarskylda.

    Hver sá sem er skattskyldur skv. 2. gr. skal ótilkvaddur og ekki síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá ríkisskattstjóra. Þeir sem stunda skattskylda starfsemi skv. 2. gr. við gildistöku laga þessara skulu einnig tilkynna ríkisskattstjóra um starfsemi sína.
    Tilkynningar skv. 1. mgr. skal afhenda á því formi og með þeim upplýsingum sem ríkisskattstjóri ákveður.
    Nú hefur aðili, sem að mati ríkisskattstjóra bar að tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi skv. 1. mgr., ekki sinnt umræddri tilkynningarskyldu og skal þá ríkisskattstjóri úrskurða hann sem skattskyldan aðila samkvæmt ákvæðum 2. gr. og tilkynna aðilanum þar um.
    Ríkisskattstjóri gefur út staðfestingu til skráningarskylds aðila um að skráning hafi átt sér stað.

8. gr.
Staðgreiðsla fjársýsluskatts.

    Greiðslutímabil fjársýsluskatts er hver almanaksmánuður nema annað sé tekið fram í lögum þessum. Gjalddagi fjársýsluskatts er fyrsti dagur hvers mánaðar vegna launa næstliðins mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Hafi skattskyldur aðili ekki greitt á eindaga skal hann greiða dráttarvexti frá og með gjalddaga.
    Skattskyldur aðili skal ótilkvaddur greiða fjársýsluskatt til innheimtumanns ríkissjóðs, í Reykjavík tollstjóra.
    Ríkisskattstjóri ákveður hvað skuli koma fram í skilagreinum og ákveður gerð þeirra. Um skilagreinar, svo og um yfirferð, áætlun og tilkynningar ríkisskattstjóra á staðgreiðsluári, fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

9. gr.
Upplýsingar, eftirlit, viðurlög o.fl. á staðgreiðsluári.

    Um skil fjársýsluskatts á staðgreiðsluári að hluta eða öllu leyti, öflun upplýsinga, skatteftirlit, skattrannsóknir, kyrrsetningu og viðurlög skulu gilda ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, eftir því sem við á, þó að frátöldu ákvæði 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. um ákvörðun álags. Ákvæði þeirra laga skulu auk þess taka sérstaklega til áætlunar gjaldstofns, dráttarvaxta og innheimtu vanskilafjár, þ.m.t. lögtaksréttar, stöðvunar atvinnurekstrar, refsinga, opinberrar rannsóknar og fyrningar gjaldkröfu.

10. gr.
Álagning, framtal, endurskoðun gjalds, innheimta o.fl.

    Skattskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum skulu, að staðgreiðsluári liðnu, senda ríkisskattstjóra árlega sérstakt fjársýsluskattsframtal, í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, innan þess frests sem er settur um skil skattframtala, sbr. 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
    Á framtalinu skal skattskyldur aðili færa launagreiðslur næstliðins árs og aðrar upplýsingar og sundurliðanir sem ríkisskattstjóra þykir við þurfa til ákvörðunar fjársýsluskatts og form eyðublaðsins segir til um.
    Stofn fjársýsluskatts vegna reiknaðs endurgjalds manns sem stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, starf maka hans og barna, skal vera sú fjárhæð sem greinir í 3. málsl. 1. mgr. 4. gr. Skipta skal skattstofni ársins jafnt á öll greiðslutímabil þess nema önnur skipting komi greinilega fram í skattgögnum viðkomandi.
    Við álagningu opinberra gjalda skal ríkisskattstjóri ákvarða fjársýsluskatt skattskylds aðila samkvæmt fjársýsluskattsframtali hans að gerðum þeim breytingum og leiðréttingum sem nauðsyn ber til.
    Álagning fjársýsluskatts skal birt í álagningarskrá, sbr. 98. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
    Fjársýsluskattsframtal félaga sem fengið hafa heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli skal byggjast á upprunalegum fjárhæðum í íslenskum krónum eða umreiknuðum fjárhæðum á daggengi.

11. gr.
Leiðrétting fjársýsluskatts o.fl.

    Ríkisskattstjóri skal kanna skil skattskyldra aðila, m.a. með samanburði við laun í staðgreiðslu, launaframtöl, launamiða, skattframtöl, ársreikninga og önnur gögn sem fyrir hendi eru. Hann skal síðan leiðrétta það sem áfátt kann að reynast og ákvarða fjársýsluskattinn og senda tilkynningu þar um til skattskylds aðila og innheimtumanns.
    Komi í ljós að skattskyldur aðili, sem greitt hefur laun sem greiða skal fjársýsluskatt af, hafi vanrækt greiðslu skattsins að hluta eða öllu leyti, eða ofgreitt fjársýsluskatt eða ekki skilað fjársýsluskattsframtali, skal ríkisskattstjóri ákvarða fjársýsluskatt fyrir hvert einstakt greiðslutímabil. Skal ákvarða skattskyldum aðila dráttarvexti, sbr. 8. gr., af vangreiddum fjársýsluskatti frá og með gjalddaga skattsins. Þó skal reikna dráttarvexti á fjársýsluskatt vegna launa og hlunninda, sem undanþegin eru staðgreiðslu, frá og með gjalddaga 1. ágúst ár hvert ef ekki er greitt fyrir eindaga. Á ofgreiðslu reiknast vextir í samræmi við ákvæði 2. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
    Hafi innheimtumaður hafið aðför samkvæmt lögum nr. 90/1989, um aðför, vegna vangoldinnar staðgreiðslu fjársýsluskatts skulu þau aðfararúrræði sem innheimtumaður hefur gripið til halda lögformlegu gildi sínu eftir álagningu skattsins vegna þess hluta kröfunnar sem rekja má til vangoldinnar staðgreiðslu.
    Séu ekki gerð fullnægjandi skil á álögðum eða endurákvörðuðum fjársýsluskatti innan 15 daga frá eindaga er innheimtumanni heimilt með aðstoð lögreglu að stöðva atvinnurekstur viðkomandi með innsigli á starfsstöðvar, skrifstofur, útibú, tæki og vörur þar til full skil hafa farið fram.

12. gr.
Upplýsingaskylda og rannsóknar- og eftirlitsheimildir.

    Séu skil skattskylds aðila í einstökum atriðum eða í heild ófullnægjandi, tortryggileg eða sýnilega gerð til málamynda skal við álagningu, sbr. 4. mgr. 10. gr., og við endurákvörðun beita ákvæðum laga um tekjuskatt eftir því sem við getur átt um slík tilvik. Jafnframt skulu ákvæði þeirra laga gilda um álagningu, upplýsingagjöf, eftirlit, rannsókn, þar á meðal kyrrsetningu, kærur út af skattákvörðun, kærufresti, úrskurði, áfrýjun úrskurða og annað þar að lútandi. Sömu reglur skulu gilda eftir því sem við á ef skattskyldur aðili sem lagt skyldi á hefur fallið af skrá eða honum ekki gert að greiða fjársýsluskatt af skattstofni viðkomandi greiðslutímabila.

13. gr.
Refsingar.

    Hver sá skattskyldur aðili sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi skýrir rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um fjársýsluskatt sinn skal greiða fésekt allt að tífaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Hafi skattskyldur aðili af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi vanrækt að afhenda skilagreinar á lögmæltum tíma varðar það brot fésektum er aldrei skulu nema lægri fjárhæð en tvöfaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem á vantar ef áætlun ríkisskattstjóra reynist of lág við endurreikning skatts. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Skýri skattskyldur aðili rangt eða villandi frá einhverju er varðar skilagreinar eða fjársýsluskattsframtal hans má gera honum sekt þótt upplýsingarnar geti ekki haft áhrif á skattskyldu hans eða greiðsluskil.
    Hver sá sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi lætur skattyfirvöldum í té rangar eða villandi upplýsingar eða gögn varðandi skattskyldu annarra aðila eða aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf til skattyfirvalda skal sæta þeirri refsingu er segir í 1. mgr.
    Ef skattskyldur aðili af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi vanrækir tilkynningarskyldu sína skv. 7. gr., upplýsingaskyldu skv. 12. gr. eða vanrækir að skila fjársýsluskattsframtali eins og ákveðið er í lögum þessum skal hann sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.
    Tilraun til brota eða hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og varðar fésektum allt að hámarki því sem ákveðið er í öðrum ákvæðum þessarar greinar.
    Gera má lögaðila fésekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður hans eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má auk refsingar, sem hann sætir, gera lögaðilanum sekt og svipta hann starfsréttindum, enda sé brotið framið til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann notið hagnaðar af brotinu.

14. gr.
Bókhald.

    Allir sem eru skattskyldir samkvæmt lögum þessum skulu, auk þess sem fyrir er mælt í lögum nr. 145/1994, um bókhald, haga bókhaldi sínu og uppgjöri til fjársýsluskatts þannig að skattyfirvöld geti jafnan gengið úr skugga um réttmæti skattskila. Öll skjöl og önnur gögn er varða fjársýsluskattsskil skal varðveita í sjö ár frá lokum viðkomandi reikningsárs.
    Reki aðili sem er skattskyldur samkvæmt lögum þessum margþætta starfsemi, þannig að sumir þættir hennar eru skattskyldir en aðrir undanþegnir skattskyldu, skal hinni skattskyldu og undanþegnu starfsemi haldið aðgreindri bæði í bókhaldi hans og á fjársýsluskattsskýrslu.

15. gr.
Rekstrarkostnaður.

    Fjársýsluskattur telst ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

16. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um framkvæmd laga þessara í reglugerð, m.a. um skilyrði fyrir samskráningu fyrirtækja á fjársýsluskattsskrá.

17. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda í staðgreiðslu vegna launagreiðslna frá og með 1. janúar 2012. Þó öðlast 18. gr. gildi 1. janúar 2012.

18. gr.
Breyting á öðrum lögum.

    Við 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. skulu aðilar sem falla undir 9. og 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. ekki greiða virðisaukaskatt af skattskyldum vörum og þjónustu þegar vara er framleidd eða þjónusta innt af hendi eingöngu til eigin nota og í samkeppni við skattskylda aðila skv. 1. mgr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í fjármálaráðuneytinu að höfðu samráði við embætti ríkisskattstjóra. Með frumvarpinu er lagt til að tekinn verði upp fjársýsluskattur á fjármálafyrirtæki, þá aðila sem stunda vátryggingastarfsemi og lífeyrissjóði. Lagt er til að skattstofninn verði heildarlaunagreiðslur þessara aðila og að skatthlutfallið verði 10,5%.
    Frumvarpið er liður í sérstökum tekjuöflunaraðgerðum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2012 en samkvæmt forsendum tekjuáætlunar fjárlagafrumvarpsins fyrir það ár hafa stjórnvöld uppi áform um eftirtaldar tekjuöflunaraðgerðir:
          Dregið verði tímabundið úr frádráttarbærni iðgjalda vegna viðbótarlífeyrissparnaðar frá tekjuskattsstofni, þannig að hámark launþega verði 2% af launum í stað 4%. Áætluð tekjuáhrif eru metin 1,4 milljarðar kr. á ársgrundvelli.
          Lagður verði 10,5% fjársýsluskattur á heildarlaunagreiðslur fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og vátryggingafélaga. Tekjur af þessum nýja skatti eru taldar verða 4,5 milljarðar kr. á árinu 2012.
          Tekið verði upp viðbótarskattþrep fyrir auðlegðarskatt, þ.e. á hreina eign yfir hærri mörkum en nú er. Miðað er við að viðbótartekjur af breytingunni verði nálægt 1,5 milljarðar kr.
          Lokaskrefið verði tekið í innleiðingu kolefnisgjalds, þannig að gjaldið verði miðað við fullt viðmiðunarverð á uppboðsmarkaði losunarheimilda í Evrópu í stað 75% nú. Áætlaðar tekjur af þeirri hækkun nema um 800 millj. kr.
          Gert er ráð fyrir frekari hækkun veiðigjalds, eða úr 13,3% í 27%. Tekjuáhrif eru áætluð 4,5 milljarðar kr. á ársgrundvelli, en áhrifin á árinu 2012 eru metin 1,5 milljarðar kr.
    Gangi áformin eftir munu framangreindar skattabreytingar skila ríkissjóði 9,7 milljörðum kr. á árinu 2012. Frumvarpið sem hér er lagt fram tekur einungis til fjársýsluskattsins. Aðrar breytingar verða lagðar til í sérfrumvarpi fjármálaráðherra um ráðstafanir í ríkisfjármálum o.fl. auk þess sem breytingar á veiðigjaldi verður að finna í frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða.

II. Skattlagning fjármálafyrirtækja.
    Í umræðu og skrifum á alþjóðlegum vettvangi undanfarin missiri hefur mikið verið rætt og skrifað um aukna skattlagningu á fjármálafyrirtæki, bæði innan Evrópusambandsins og á vettvangi OECD. Þá má nefna að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) sendi frá sér skýrslu um skattlagningu fjármálafyrirtækja í júní 2010 (e. A Fair and Substantial Contribution by the Financial Sector, June 2010). Meginniðurstaða skýrslunnar er sú að rannsóknir sýni að fjármálafyrirtæki beri hlutfallslega minni skatta en aðrar atvinnugreinar, m.a. vegna undanþágu þeirra frá álagningu virðisaukaskatts. Sú staðreynd kalli að einhverju leyti á endurskoðun á álagningu skatta á greinina í því skyni að jafna þennan mun og skapa meira skattalegt jafnræði milli atvinnugreina. Ljóst er að þessi umræða er einnig að hluta til sprottin af fjármálahruninu haustið 2008 og þeirri miklu fjárhagsaðstoð sem fjármálafyrirtæki víða um heim hafa notið af hendi hins opinbera í kjölfar hrunsins.
    Á vettvangi Evrópusambandsins (ESB) er m.a. verið að skoða nokkra möguleika á skattlagningu fjármálafyrirtækja sem framtíðartekjustofns fyrir sambandið sjálft. Þrenns konar skattar hafa aðallega verið þar til skoðunar. Í fyrsta lagi svokallaður FAT (Financial Activities Tax) sem leggst á laun og hagnað fjármálafyrirtækja eftir ákveðnum reglum sem eins konar ígildi virðisaukaskatts. Rökin fyrir þessari skattlagningu eru þau að þessi atvinnugrein er undanþegin virðisaukaskatti sem gerir hana betur setta skattalega séð heldur en virðisaukaskattsskyldar atvinnugreinar. Í öðru lagi er verið að skoða svokallaðan FTT (e. Financial Transaction Tax), þar sem skattstofninn er viðskipti fjármálafyrirtækjanna. Þar er ýmist verið að skoða tiltölulega breiðan skattstofn (viðskipti af hvers kyns tagi) eða tiltekna gjaldtöku á einstök viðskipti, t.d. lánasamninga sem líkist þá einna helst stimpilgjaldi eins og lagt er á hérlendis. FTT-skatturinn er í raun eins og hver annar veltu- eða neysluskattur sem einungis er innheimtur af fjármálastofnunum. Í þriðja lagi hefur ESB skoðað sérstakan skatt eða gjald á fjármálafyrirtæki (e. bank levies), sambærilegan þeim sem lögfestur var hér á landi á árinu 2010. *
    Tillaga þessa frumvarps er sem fyrr segir sú að tekin verði upp FAT eða fjársýsluskattur hér á landi. Lagður er til skattur með svipuðu sniði og verið hefur í Danmörku þar sem launaskattur er lagður á þau fyrirtæki sem undanþegin eru virðisaukaskatti, þ.m.t. banka, tryggingafélög og lífeyrissjóði (d. Lov om afgift af lønsum). Í tilviki fjármálafyrirtækja er skattstofninn í Danmörku heildarlaunagreiðslur og skatthlutfallið árið 2011 er 10,5% en á árunum 2000 til 2010 nam þessi skattur 9,13%.
    Þess má geta að í nýlegri skýrslu AGS um endurbætur á íslenska skattkerfinu er lagt til að hinum sérstaka skatti á fjármálafyrirtæki sem nýlega var tekinn upp á Íslandi verði viðhaldið til framtíðar en skatthlutfall hans og skattstofn verði endurskoðaður að einhverju marki út frá áhættu fjármálastofnana. Til viðbótar við þann skatt verði tekinn upp nýr skattur, þ.e. fyrrgreindur FAT-skattur, og samhliða verði reglur um virðisaukaskatt af eigin starfsemi fjármálafyrirtækja felldar úr gildi. Tillaga AGS er sú að FAT-skatturinn verði lagður á hagnað og laun starfsmanna, þ.e. hinn eiginlega virðisauka í starfseminni. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að skattstofninn verði til einföldunar einungis heildarlaunagreiðslur eins og gildir um danska launaskattinn.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Við samningu frumvarpsins var tekið mið af dönskum lögum um launaskatt (d. Lov om afgift af lønsum). Í Danmörku hafa þau lög verið í gildi frá árinu 1990 og er launaskatturinn m.a. lagður á fjármálafyrirtæki, vátryggingafélög og lífeyrissjóði og kemur að nokkru leyti í stað undanþágu þessara aðila frá virðisaukaskatti. Dönsku lögin eru þó víðtækari en það frumvarp sem hér er lagt fram því að þau gilda um ýmsa aðra starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti.
    Með frumvarpinu er lagt til að tekinn verði upp fjársýsluskattur á fjármálafyrirtæki, þá sem stunda vátryggingastarfsemi og lífeyrissjóði. Skattstofn fjársýsluskatts er allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf sem skattskyld eru skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Undanþágur frá skattstofni eru taldar upp með tæmandi hætti í 5. gr. frumvarpsins. Lagt er til að skatthlutfallið verði 10,5% sem er það sama og nú gildir í Danmörku.
    Lagt er til að Íbúðalánasjóður verði skattskyldur samkvæmt lögunum.
    Til einföldunar í framkvæmd er lagt til að fjársýsluskatturinn verði innheimtur í staðgreiðslu og lagður á með opinberum gjöldum.
    Fjármálafyrirtæki og vátryggingastarfsemi eru undanþegin virðisaukaskatti skv. 9. og 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í því felst að virðisaukaskattur er ekki innheimtur við sölu þessara aðila á þjónustu og þeir verða sjálfir að bera kostnað af þeim virðisaukaskatti sem fellur á þá vegna kaupa á aðföngum til starfseminnar. Frá þessu gildir þó það frávik að bæði þeim sem stunda fjármálastarfsemi og vátryggingastarfsemi ber að skila virðisaukaskatti af þjónustu sem innt er af hendi eingöngu til eigin nota og í samkeppni við virðisaukaskattsskylda aðila. Samhliða upptöku fjársýsluskattsins er lagt til að þau ákvæði verði felld brott og fjársýsluskatturinn komi þannig í reynd í staðinn fyrir virðisaukaskattsundanþágu þessara aðila.

IV. Mat á áhrifum og áætlaðar tekjur.
    Útreikningur á áætluðum tekjum af fjársýsluskatti byggist á gögnum frá ríkisskattstjóra um heildarlaun innan atvinnugreinarinnar fjármála- og vátryggingastarfsemi. Undirflokkar hennar voru einnig skoðaðir og mat lagt á hvað teldist til skattskyldrar starfsemi skv. 2. gr. frumvarpsins. Heildarlaun starfsmanna lífeyrissjóða voru áætluð á grundvelli úrtaks úr ársreikningum stærstu lífeyrissjóðanna.
    Ef gert er ráð fyrir stöðugum horfum í starfsmannafjölda og launaþróun innan greinarinnar reiknast áætlaður heildarskattstofn fjársýsluskatts á bilinu 45–49 milljarðar kr. Áætlaðar skatttekjur ríkisins yrðu því um 4,7–5,1 milljarður kr. miðað við 10,5% skatthlutfall sem nemur ríflega 0,30% af vergri landsframleiðslu 2010. Lausleg athugun sýnir að miðað við framangreindar forsendur verði áætlaðar tekjur sem hlutfall af landsframleiðslu svipaðar hér á landi og tekjur af sambærilegum skatti í Danmörku. Þó skal hafa hugfast að tekjuáætlun sem þessi er háð umtalsverðri óvissu, einkum hvað varðar forsendur um þróun og horfur innan atvinnugreinarinnar.
    Til samanburðar er einnig hægt að áætla tekjur af fjársýsluskatti út frá gögnum yfir meðallaun og fjölda starfandi einstaklinga innan atvinnugreinarinnar fjármálaþjónusta, lífeyrissjóðir og vátryggingar samkvæmt atvinnugreinaflokkun Hagstofunnar. Árið 2010 störfuðu um 7.900 manns innan greinarinnar og voru heildarlaun þeirra að jafnaði 530 þús. kr. á mánuði samkvæmt gögnum frá Hagstofu. Í launakönnun Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja fyrir árið 2010 reyndust heildarlaun aðildarfélaga nokkuð lægri eða um 473 þús. kr. á mánuði. Miðað við þessar tölur má áætla að 10,5% fjársýsluskattur geti skilað á bilinu 4,7–5,2 milljörðum kr. í skatttekjur sem er svipuð niðurstaða og fæst ef stuðst er við gögn ríkisskattstjóra.
    Mikilvægt er að árétta að áætlaðar tekjur af skattinum eru óvissu háðar, einkum og sér í lagi hvað varðar þróun starfsmannafjölda og launa innan atvinnugreinarinnar sem um ræðir. Þá er einnig erfitt að meta umfang virðisaukaskattsskyldrar eigin starfsemi innan greinarinnar en þó er ljóst að fjársýsluskattur mun að einhverju leyti koma í staðinn fyrir tekjur af virðisaukaskatti. Fyrirliggjandi upplýsingar um skil virðisaukaskatts af innri starfsemi greinarinnar benda hins vegar til þess að þar sé ekki um háar fjárhæðir að ræða. Heildaráhrif fjársýsluskatts á tekjuöflun ríkissjóðs verða því eitthvað minni en útreikningarnir hér að framan benda til. Þá er rétt að benda á að á fyrsta ári innheimtist einungis fjársýsluskattur af ellefu mánaða skattstofni í stað tólf þegar skatturinn verður að fullu kominn til framkvæmda á árinu 2013.
    Loks er viðbúið að fjársýsluskattur hafi áhrif á þróun atvinnugreinarinnar í heild. Auknar álögur af þessu tagi færa rekstrarumhverfi fyrirtækja í fjármála- og vátryggingastarfsemi nær því sem aðrar greinar atvinnulífsins búa við og eru til þess fallnar að draga úr launahækkunum og halda aftur af nýráðningum. Fjársýsluskattur mun því draga úr líkum á óæskilegri þenslu innan greinarinnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Með frumvarpinu er lagt til að tekinn verði upp nýr skattur, fjársýsluskattur, sem greiðist af öllum tegundum launa eða þóknana fyrir störf í þágu skattskyldra aðila eins og þeir eru skilgreindir í 2. gr. frumvarpsins. Fjársýsluskatturinn skal innheimtur í staðgreiðslu og lagður á með opinberum gjöldum.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er að finna afmörkun á því hvaða aðilar eru skattskyldir samkvæmt lögunum.
Í 1. og 2. tölul. 2. gr. er rakið að þeir aðilar sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi inna af hendi vinnu eða þjónustu, sem fellur undir 9. og 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt séu fjársýsluskattsskyldir samkvæmt ákvæðinu.
    Undir 9. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt fellur vátryggingastarfsemi og mun fjársýsluskattsskyldan þannig ná til þeirra aðila sem stunda þá vátryggingastarfsemi sem í virðisaukaskattsframkvæmd hefur verið felld undir það ákvæði.
    Ákvæði 9. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hefur verið skýrt þannig að það nái ekki einungis til seldrar þjónustu vátryggingafélaga heldur taki það einnig til þess þegar vátryggingafélög kaupa að þjónustu sem telja verður eðlilegan og nauðsynlegan þátt í vátryggingastarfsemi þeirra og almennt er innt af hendi til eigin nota innan vátryggingafélaganna sjálfra. Sala á tryggingum í umboðssölu hefur m.a. verið felld undir undanþáguna.
    Undir 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt fellur þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, svo og verðbréfamiðlun, sbr. lög nr. 32/2005, og tekur fjársýsluskattsskyldan sömuleiðis til þeirra aðila sem í virðisaukaskattsframkvæmd eru felldir undir það ákvæði.
    Sú nálgun er notuð í 2. tölul. 2. gr. frumvarpsins að telja með jákvæðum hætti upp þá aðila sem falla undir IV. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Í reynd er um sömu aðila að ræða og felldir hafa verið undir 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Við nánari skilgreiningu á því hvaða starfsemi fellur undir ákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt hefur verið tekið mið af því að um sé að ræða þjónustu sem fjármálafyrirtækjum er ætlað að veita lögum samkvæmt, óháð því hver veitir þjónustuna eða hverjum hún er veitt og er þá horft til þeirrar löggjafar sem gildir á hverjum tíma, sbr. nú IV. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Undanþágan hefur einungis verið talin taka til eiginlegrar, skilgreindrar þjónustu fjármálafyrirtækja en ekki til annarrar þjónustu sem þær stofnanir kunna að veita. Það er þannig hin eiginlega bankastarfsemi og verðbréfamiðlun eða fyllilega sambærileg starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti. Önnur starfsemi fjármálafyrirtækja er því virðisaukaskattsskyld samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, þ.e. ef hún er ekki sérstaklega undanþegin í 3. mgr. sömu greinar. Þannig má gera ráð fyrir að starfsemi einhverra fjármálafyrirtækja verði að hluta til fjársýsluskattsskyld og að hluta til undanþegin fjársýsluskatti. Upptaka fjársýsluskatts á þó ekki að valda neinum viðbótarvandkvæðum í framkvæmd þar sem þetta hlutfall ætti þegar að vera ljóst vegna skila á virðisaukaskatti. Með öðrum orðum speglast undanþága frá virðisaukaskatti yfir í fjársýsluskattsskyldu.
    Í 3. tölul. 2. gr. er fjallað um skattskyldu lífeyrissjóða. Samkvæmt ákvæðinu er skattskyldan víðtæk og nær til allra lífeyrissjóða sem hafa starfsleyfi samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lífeyrissjóða sem starfa samkvæmt sérlögum og starfstengdra eftirlaunasjóða sem starfa samkvæmt lögum nr. 78/2007, um starfstengda eftirlaunasjóði.
    Í 4. tölul. 2. gr. er tekinn af allur vafi um það að útibú, umboðsmenn og aðrir aðilar sem eru í fyrirsvari fyrir erlenda aðila, sem reka hér á landi starfsemi sem fellur undir skattskyldusvið laganna skv. 1.–3. tölul. séu einnig skattskyldir af greiddum launum í starfsemi sinni hér á landi.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um opinbera aðila. Þar er lögð til sú meginregla að opinberar stofnanir sem hafa lögbundið hlutverk, eru að fullu í eigu opinberra aðila og stunda starfsemi sem skattskyld er skv. 1. og 2. tölul. 2. gr. laganna séu undanþegnar fjársýsluskatti. Með lögbundnu hlutverki er átt við að hlutverki og skipulagi stofnunar sé lýst í sérlögum. Undanþága þessi á þó ekki við um starfsemi Íbúðalánasjóðs og var þar horft til þess að starfsemi hans hefur nokkur áhrif á samkeppni á húsnæðislánamarkaði. Til álita kom að lánasvið Byggðastofnunar yrði einnig skattskylt út frá samkeppnissjónarmiðum en horfið var frá því að leggja það til vegna þeirrar endurskoðunar sem stendur yfir á starfsemi lánahluta stofnunarinnar.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um skattstofn. Lagt er til að skattstofninn verði allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf hverju nafni sem nefnast og sem skattskyldar eru skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Afmörkun skattstofnsins er rúm og er felld að almennri staðgreiðsluframkvæmd.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað með tæmandi hætti um greiðslur undanþegnar skattskyldu. Í 1. tölul. eru felld undan skattstofni eftirlaun og lífeyrir sem skattskyldir aðilar greiða. Um er að ræða eftirlaun og lífeyri sem greiddur er af fjársýsluskattsskyldum aðilum og skiptir í þessu sambandi ekki máli hvort eftirlaunin og lífeyririnn koma úr lífeyrissjóðum sem falla undir 3. tölul. 2. gr. frumvarpsins eða beint frá fyrrverandi launagreiðanda. Undanþágan tekur þó ekki til mótframlags launagreiðenda í lífeyrissjóð. Undanþágan í 2. tölul. tekur til greiðslna sem tilheyra öðrum hluta starfsemi fjársýsluskattsskylds aðila en þeirri sem er undanþegin virðisaukaskatti skv. 9. og 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Loks eru í 3. tölul. felldar undan skattstofni greiðslur til starfsmanna í fæðingarorlofi að því leyti sem þær eru ekki umfram þær greiðslur sem launagreiðandi fær endurgreiddar úr Fæðingarorlofssjóði. Um er að ræða sambærilega undanþágu og gildir skv. 6. tölul. 9. gr. laga nr. 113/1990.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er skatthlutfall fjársýsluskatts tilgreint en það er 10,5% af skattstofni eins og hann er skilgreindur í lögunum.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um ýmis atriði sem snúa að framkvæmd skráningar á fjársýsluskattsskrá. Þar segir að skattskyldir aðilar skuli ótilkvaddir og eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst tilkynna sig til skráningar hjá ríkisskattstjóra. Um er að ræða sambærilega tilkynningarskyldu skattskyldra aðila og gildir samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þeir aðilar sem þegar starfa innan skattskyldusviðs laganna skulu tilkynna starfsemina með sama hætti. Það er í höndum ríkisskattstjóra að ákveða hvaða upplýsingum skuli skila og á hvaða formi tilkynning skuli vera.
    Vanræki skattskyldur aðili þessa tilkynningarskyldu skal ríkisskattstjóri úrskurða hann sem skattskyldan aðila og tilkynna honum formlega um það.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um greiðslutímabil fjársýsluskatts. Greiðslutímabilið er hver almanaksmánuður nema annað sé tekið fram í lögunum. Gjalddaginn er fyrsti dagur hvers mánaðar vegna launa næstliðins mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Hafi fjársýsluskattsskyldur aðili ekki greitt skattinn á eindaga skal hann greiða dráttarvexti frá og með gjalddaga. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum viðurlögum í formi álags líkt og gert er í lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    Hvað greiðslur, skilagreinar, yfirferð þeirra og tilkynningar ríkisskattstjóra varðar gilda sambærileg ákvæði og í lögum nr. 45/1987.

Um 9. gr.

    Til að upptaka nýrra skatta og gjalda hafi sem minnst óhagræði fyrir skattaðila og skattyfirvöld er leitast við að fella framkvæmd skattheimtunnar að því ferli sem þegar er til staðar. Varðandi upptöku beinna skatta er iðulega byggt á tekjuskattsframkvæmdinni, svo sem þegar álagningu má byggja á afmörkuðum skattstofnum, sem eftir atvikum eru þegar skilgreindir eða fyrirhugaður skattstofn er þekkt stærð og hefur í öðrum tilgangi verið afmarkaður og sækja má því t.d. í sundurliðanir (reiti) á skattframtölum.
    Við upptöku þess skatts sem hér um ræðir, þ.e. fjársýsluskatts, var þannig horft til þeirrar framkvæmdar sem fyrir er og hefur fest sig í sessi hjá skattaðilum sem og skattyfirvöldum, þ.e. staðgreiðsluframkvæmd varðandi greiðslutímabil, innheimtu og öll innheimtuúrræði, þ.m.t. kyrrsetningu, áætlanir, dráttarvaxtaútreikning, upplýsingagjöf og eftirlit. Endurákvörðunum, kærumeðferð og annarri almennri málsmeðferð skal síðan háttað í samræmi við tekjuskattsframkvæmd, þannig að röskun og kostnaði við upptöku skattsins verði haldið í lágmarki.

Um 10. gr.

     Í ákvæðinu er fjallað á ítarlegan hátt um skil á upplýsingum til ríkisskattstjóra í formi fjársýsluskattsframtals sem er grundvöllur álagningar fjársýsluskatts að staðgreiðsluári loknu.
    

Um 11. gr.

    Ákvæðið kveður á um almenna framkvæmd álagningar fjársýsluskatts og samanburð á skilagreinum, launaframtali og öðrum skattgögnum. Þá er kveðið á um útreikning dráttarvaxta af vangreiddum fjársýsluskatti og inneignar vaxta af ofgreiddum skatti. Er þetta í samræmi við það sem almennt gildir um skattgreiðslur.

Um 12. gr.

    Ákvæði IX., X. og XI. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu gilda eftir því sem við á til fyllingar lögum um fjársýsluskatt varðandi upplýsingaskyldu, rannsóknar- og eftirlitsheimildir og endurákvörðun fjársýsluskatts.

Um 13. gr.

    Fjallað er með ítarlegum hætti um refsiviðurlög í 13. gr. frumvarpsins. Refsiákvæðin eru eins og við getur átt sambærileg 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Um 14. gr.

    Fjársýsluskattsskyldum aðilum verður gert skylt að haga bókhaldi sínu og varðveislu á gögnum á þann hátt að skattyfirvöld geti á hverjum tíma gengið úr skugga um réttmæti skattskilanna. Um er að ræða sambærilega reglu og gildir samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Þá skal varðveita skjöl og önnur gögn í sjö ár frá lokum viðkomandi reikningsárs á sama hátt og gildir um virðisaukaskattsskylda aðila.
    Þeir aðilar sem hafa með höndum blandaða starfsemi, þ.e. starfsemi sem að hluta er fjársýsluskattsskyld og að hluta undanþegin fjársýsluskatti, skulu með skýrum hætti aðgreina skattskylda og undanþegna starfsemi í bókhaldi sínu.

Um 15. gr.

    Í greininni er kveðið á um það að fjársýsluskattur teljist ekki rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Sambærileg regla gildir um launaskatt (d. lønsumsafgift) í Danmörku.

Um 16. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um heimild ráðherra til að setja nánari reglur um framkvæmd laganna í reglugerð. Sérstaklega er tekið fram að honum sé heimilt að setja reglur um samskráningu fyrirtækja á fjársýsluskattsskrá.

Um 17. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.

    Samhliða upptöku fjársýsluskatts er lagt til að gerðar verði þær breytingar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að þeim aðilum sem stunda starfsemi sem fellur undir 9. og 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. verði framvegis ekki gert skylt að greiða virðisaukaskatt af vörum og þjónustu þegar vara er framleidd eða þjónusta innt af hendi eingöngu til eigin nota og í samkeppni við skattskylda aðila, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt.
    Fjármálaráðherra er í ákvæðinu veitt heimild til að setja nánari reglur m.a. um það hvenær starfsemi telst vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Í skýringum við þetta ákvæði í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum um virðisaukaskatt kemur fram að regla þessi sé sett í því skyni að tryggja samkeppnisstöðu þeirra sem selja sambærilegar vörur og þjónustu og eigin notin lúta að.
    Í 1. gr. reglugerðar nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana, er kveðið á um að fyrirtæki, félög, stofnanir og aðrir aðilar sem hafa með höndum starfsemi undanþegna virðisaukaskatti skuli með þeim hætti sem kveðið er á um í reglugerðinni greiða virðisaukaskatt í ríkissjóð af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota. Í 2. gr. reglugerðarinnar er tiltekið til hvers konar verka greiðsluskyldan tekur. Tekur hún til:
     1.      Smíði, viðhalds og viðgerða véla, tækja, húsgagna og áhalda í verksmiðju, verkstæði eða starfsstöð.
     2.      Reksturs þvottahúss, prentstofu og mötuneytis.
     3.      Ræstingar, enda sé skattverð [1.973.000 kr. á árinu 2011] eða meira á ári.
     4.      Þjónustu þar sem krafist er iðnmenntunar.
     5.      Þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda, tölvunarfræðinga og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu og lokið hafa háskólanámi eða sambærilegu langskólanámi eða starfa sannanlega á sviði fyrrgreindra aðila og veita sambærilega þjónustu.
     6.      Öryggisvörslu, þ.e. eftirlit með verðmætum og starfsemi, utan venjulegs opnunartíma.
    Skyldan til að greiða virðisaukaskatt í ríkissjóð er til staðar að svo miklu leyti sem umrædd verk eru unnin í samkeppni við atvinnufyrirtæki. 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar hefur að geyma skilgreiningu á því við hvaða aðstæður eigin þjónusta telst vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Telst hún vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki ef slík þjónusta er almennt í boði hjá virðisaukaskattsskyldum atvinnufyrirtækjum. Skiptir í því sambandi ekki máli hvort fyrirtækið sem þjónustar sig sjálft selur slíka þjónustu jafnframt til annarra eða ekki. Sérstaklega er tekið fram að almennt skrifstofuhald, þ.m.t. færsla eigin bókhalds og rafræn gagnavinnsla í eigin þágu, teljist ekki vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki.
    Lagt er til að þessi skylda til greiðslu virðisaukaskatts, af vinnu til eigin nota og í samkeppni við skattskylda aðila, hjá þeim aðilum sem stunda vátryggingastarfsemi eða fjármálastarfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti verði felld brott samhliða því að þeir verði gerðir fjársýsluskattsskyldir.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um fjársýsluskatt.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að tekinn verði upp fjársýsluskattur á fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóði og vátryggingafélög. Gert er ráð fyrir að skattstofninn verði heildarlaunagreiðslur þessara aðila og að skatthlutfallið verði 10,5%. Skatturinn verður innheimtur samkvæmt sömu lögum og gildir um staðgreiðslu opinberra gjalda og er lagður á með opinberum gjöldum samkvæmt lögum um tekjuskatt.
    Skattskyldir aðilar teljast í fyrsta lagi hlutafélög, vátryggingafélög og Evrópufélög sem starfa samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi auk annarra aðila sem inna af hendi vinnu eða þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti. Í öðru lagi viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlarar, rekstrarfélög verðbréfasjóða sem og önnur fjármálafyrirtæki sem inna af hendi vinnu eða þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti. Í þriðja lagi lífeyrissjóðir sem hlotið hafa starfsleyfi á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, auk lífeyrissjóða sem starfa samkvæmt sérlögum sem og starfstengdir eftirlaunasjóðir. Í fjórða lagi útibú, umboðsmenn og aðrir aðilar sem eru í fyrirsvari fyrir erlenda aðila sem reka hér á landi starfsemi sem fellur undir skilgreiningu skattskyldra aðila samkvæmt frumvarpinu. Undanþegnar skattskyldu eru opinberar stofnanir sem hafa lögbundið hlutverk og eru að fullu í opinberri eigu en falla undir skilgreiningu frumvarpsins um skattskylda aðila, svo sem Byggðastofnun. Þrátt fyrir þessi undanþáguákvæði skal Íbúðalánasjóður vera skattskyldur.
    Stofn til fjársýsluskatts er allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyldar eru samkvæmt lögum um tekjuskatt. Þá skiptir ekki máli í hvaða gjaldmiðli launin eru greidd, hvort sem það er í reiðufé, fríðindum, hlunnindum, vöruúttektum eða vinnuskiptum. Endurgjald sem aðilar reikna sér samkvæmt lögum um tekjuskatt telst sömuleiðis stofn til útreiknings fjársýsluskatts.
    Ef miðað er við núverandi starfsmannafjölda og launaþróun hjá þeim aðilum sem mynda stofn til útreiknings fjársýsluskatts má áætla að heildarskattstofninn gæti verið á bilinu 45–49 milljarðar kr. Skatttekjur ríkisins eru því áætlaðar um 4,7–5,1 milljarður kr. á ári miðað við 10,5% skatthlutfall. Áætlaðar tekjur af skattinum eru þó háðar þónokkurri óvissu sérstaklega hvað varðar þróun starfsmannafjölda og launa inna atvinnugreinarinnar sem í hlut á. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir að tekjur af fjársýsluskatti skili 4,5 milljörðum kr. á næsta ári en miðað er við að ákvæði frumvarpsins komi til framkvæmda í staðgreiðslu vegna launagreiðslna frá og með 1. janúar 2012. Gert er ráð fyrir því að stofnkostnaður vegna breytinga á tölvukerfum vegna fjársýsluskatts og einskiptis útgjöld við kynningu og innleiðingu geti verið um 15 m.kr. Þá er áætlað að árlegur rekstrarkostnaður, þ.e. eftirlit, fyrirspurnir og leiðbeiningar, geti verið allt að 4 m.kr.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er því gert ráð fyrir að skatturinn skili a.m.k. 4,5 milljarða kr. tekjuauka fyrir ríkissjóð en að kostnaðarauki við álagningu og innheimtu hans verði um 4 m.kr. árlega auk stofnkostnaðar eins og að framan greinir.
Neðanmálsgrein: 1
    * Á árinu 2010 var lögfestur sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki á Íslandi, þ.e. með lögum nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, þar sem gjaldstofninn er heildarskuldir þeirra og skatthlutfallið 0,041%. Markmið þeirra laga er tvíþætt, annars vegar að afla ríkinu tekna til að mæta þeim mikla kostnaði sem fallið hefur á ríkissjóð vegna hruns íslenska fjármálakerfisins og hins vegar að draga úr áhættusækni fjármálafyrirtækja með því að leggja sérstakan skatt á skuldir þeirra vegna þeirrar kerfisáhættu með tilheyrandi kostnaði sem áhættusöm starfsemi þeirra getur haft í för með sér fyrir þjóðarbúið. Í fjárlögum yfirstandandi árs er reiknað með að sá skattur skili ríkissjóði 1 milljarði kr. Í lögunum er sérstaklega kveðið á um að sú skattlagning kæmi til endurskoðunar á þessu ári með hliðsjón af þeirri þróun sem yrði á þessu sviði á alþjóðavettvangi.