Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 194. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 199  —  194. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um þýðingu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á ensku.



Flm.: Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir,
Þór Saari, Eygló Harðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis að láta þýða skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á ensku.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður lögð fram á 139. löggjafarþingi en komst ekki til umræðu.
    Rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 skilaði skýrslu sinni 12. apríl 2010. Í nefndinni áttu sæti Páll Hreinsson hæstaréttardómari, Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, og Sigríður Benediktsdóttir, kennari við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum.
    Útgáfa skýrslunnar markaði tímamót í endurreisn Íslands og hún geymir vandaða og nákvæma frásögn af þeim atburðum sem leiddu til hruns íslenska bankakerfisins og góða greiningu á íslensku viðskiptalífi.
    Skýrslan var gefin út í níu bindum og seldist afar vel. Hún er einnig aðgengileg á vef Alþingis án endurgjalds og þar er einnig ítarefni sem ekki fylgir prentuðu útgáfunni. Skýrslan hefur enn ekki verið þýdd í heild á önnur tungumál en á vef þingsins er þó að finna enska þýðingu á hluta hennar. Flutningsmenn tillögunnar telja afar brýnt að skýrslan verði þýdd í heild sinni á ensku enda varðar efni hennar ekki einvörðungu þá sem eru læsir á íslensku.