Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 195. máls.

Þingskjal 200  —  195. mál.Frumvarp til laga

um ráðstafanir í ríkisfjármálum
(aðgerðir í skattamálum, verðlagsbreytingar o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað „3,81%“ í 1. mgr. kemur: 2,45%.
     b.      Í stað „4,54%“ í 3. mgr. kemur: 4,99%.

2. gr.

    Í stað „1,08%“ í 5. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: 1,28%.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum.
3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 23. gr. skal ábyrgðargjald vera 0,3% af gjaldstofni á árunum 2012, 2013 og 2014.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 66. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „2.400.000 kr.“ í 1. tölul. kemur: 2.601.000 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „5.400.000 kr.“ í 2. tölul. kemur: 5.853.000 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „7.800.000 kr.“ í 3. tölul. kemur: 8.454.000 kr.
     d.      Í stað fjárhæðanna „7.800.000 kr.“ og „2.700.000 kr.“ í 4. tölul. kemur: 8.454.000 kr.; og 2.928.000 kr.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 8. mgr. A-liðar kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Barnabætur sem eru ákvarðaðar lægri en 2.000 kr. á framfæranda á grundvelli skattframtals falla niður.
     b.      Á eftir orðinu „skattframtali“ í 1. mgr. B-liðar kemur: skv. 1. mgr. 90. gr.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. tölul. 70. gr. laganna:
     a.      Í stað „20%“ í a-lið kemur: 10%.
     b.      Í stað „18%“ í b-lið kemur: 10%.

7. gr.

    Í stað orðanna „árinu 2011“ í ákvæði til bráðabirgða XXXVIII í lögunum kemur: árunum 2011 og 2012.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XXXIX í lögunum:
     a.      Í stað orðanna „áranna 2010 og 2011 við álagningu 2011 og 2012“ í 1. málsl. kemur: ársins 2010 við álagningu 2011.
     b.      Í stað orðanna „áranna 2010 og 2011 skal endurreikna við álagningu opinberra gjalda 2012 og 2013“ í 4. málsl. kemur: ársins 2010 skal endurreikna við álagningu opinberra gjalda 2012.
     c.      Orðin „og 2013“ í 5. málsl. falla brott.

9. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða XLVI í lögunum fellur brott.

10. gr.

    Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    
    a. (I.)
    Þrátt fyrir ákvæði til bráðabirgða XXXIII og XXXIX skal haga álagningu auðlegðarskatts við álagningu opinberra gjalda á árunum 2012, 2013, 2014 og 2015 með eftirfarandi hætti: Á framtalsskyldar eignir skv. 72. gr. í lok áranna 2011, 2012, 2013 og 2014 skal við álagningu 2012, 2013, 2014 og 2015 leggja auðlegðarskatt sem hér segir á menn sem eru skattskyldir skv. 1. gr. og 4.–9. tölul. 1. mgr. 3. gr.:
     a.      Frá eignum, sbr. 73. gr., skal draga skuldir skattaðila. Með skuldum í þessu sambandi teljast áfallnar verðbætur á höfuðstól þeirra sem miðast við vísitölu í janúar á næsta ári eftir lok reikningsárs. Skuldir í erlendum verðmæli skal telja á sölugengi í árslok. Til skulda teljast öll opinber gjöld er varða viðkomandi reikningsár, þó ekki þau gjöld sem eru lögð á tekjur eða hreina eign á næsta ári eftir lok reikningsárs. Frá eignum aðila sem um ræðir í 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. má einungis draga skuldir sem beint eru tengdar starfsemi þeirra hér á landi. Frá eignum aðila sem um ræðir í 5.–9. tölul. 1. mgr. 3. gr. má einungis draga skuldir sem á eignum þessum hvíla.
     b.      Þrátt fyrir ákvæði 5. tölul. 73. gr. skulu lögaðilar telja fram hlutdeild sína í öðrum félögum á markaðsverði ef um er að ræða félög sem eru skráð í kauphöll eða á skipulögðum tilboðsmarkaði en annars hlutdeild sína í skattalegu bókfærðu eigin fé viðkomandi lögaðila í stað nafnverðs, svo sem eignarhlutdeild sína í félögum skv. 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. á sama hátt.
                  Við ákvörðun auðlegðarskattsstofns skal telja hlutabréf í félögum sem eru skráð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði fram á markaðsvirði í árslok. Sá sem á hlut í lögaðila sem ekki er skráður í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði skal telja fram til auðlegðarskattsstofns hlutdeild sína í skattalegu bókfærðu eigin fé félagsins eins og það er talið fram í skattframtali félagsins fyrir rekstrarárin 2011, 2012 og 2013. Þann hluta virðis eignarhluta í lögaðila sem reiknað er á framangreindan hátt sem umfram er nafnverð eða stofnverð í árslok 2011, 2012 og 2013 skal telja fram í skattframtali 2013, 2014 og 2015 vegna þessarar viðbótareignar.
     c.      Auðlegðarskattsstofn eru þær eignir sem eftir verða þegar frá verðmæti eigna skv. 73. gr., sbr. a- og b-lið, hafa verið dregnar fjárhæðir skulda svo sem þær hafa verið ákvarðaðar í samræmi við fyrrnefnt ákvæði a-liðar. Auðlegðarskattsstofn skal ákvarða í heilum tugum króna og sleppa því sem umfram er.
     d.      Auðlegðarskatt skal miða við auðlegðarskattsstofn skattaðila í árslok.
     e.      Hjón sem samvistum eru, sbr. 5. gr., skulu telja saman allar eignir sínar og skuldir og skiptir ekki máli þótt um sé að ræða séreign eða skuldir tengdar henni. Auðlegðarskattsstofni skal skipta að jöfnu milli þeirra og reikna auðlegðarskatt af hvorum helmingi fyrir sig skv. h-lið. Sama gildir um sambúðaraðila, sbr. 3. mgr. 62. gr. Auðlegðarskattsálagningu eftirlifandi maka eða sambúðaraðila, sbr. 3. mgr. 62. gr., sem situr í óskiptu búi skal hagað á sama hátt og um hjón væri að ræða í mest fimm ár frá andlátsári hins látna, þó ekki fram yfir gildistíma þessa ákvæðis, enda hafi viðkomandi ekki hafið sambúð að nýju.
     f.      Heimilt er ríkisskattstjóra að taka til greina umsókn manns um lækkun auðlegðarskattsstofns hans þegar svo stendur á sem í 1. tölul. 1. mgr. 65. gr. greinir, enda hafi gjaldþol mannsins skerst verulega af þeim ástæðum.
     g.      Eignir barns, sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sbr. 6. gr., teljast með eignum foreldra eða hjá þeim manni sem nýtur barnabóta vegna barnsins, sbr. A-lið 68. gr. Gilda ákvæði 78. gr. einnig um þar greindar eignir barns. Ríkisskattstjóri má taka til greina umsókn framfæranda barns um að eignir barns, sem misst hefur annað foreldri sitt eða bæði og hefur ekki verið ættleitt, skuli skattlagðar hjá barninu sjálfu í samræmi við ákvæði h-liðar.
     h.      Auðlegðarskattur manna reiknast þannig:
              1.      Af auðlegðarskattsstofni einstaklings að 75.000.000 kr. og samanlögðum auðlegðarskattsstofni hjóna að 100.000.000 kr. greiðist enginn skattur.
              2.      Af auðlegðarskattsstofni yfir 75.000.000 kr. að 150.000.000 kr. hjá einstaklingi og yfir 100.000.000 kr. að 200.000.000 kr. af samanlögðum auðlegðarskattsstofni hjóna greiðast 1,5%.
              3.      Af því sem umfram er 150.000.000 kr. hjá einstaklingi og 200.000.000 kr. af samanlögðum auðlegðarskattsstofni hjóna greiðast 2%.
                     Auðlegðarskattsstofn vegna stöðu eigna í árslok 2011, 2012 og 2013 skal endurreikna við álagningu opinberra gjalda 2013, 2014 og 2015 með tilliti til viðbótareignar skv. b-lið. Sá mismunur sem myndast við þann endurreikning og er umfram viðmiðunarmörk 1.–3. tölul. skal skattlagður við álagningu opinberra gjalda framangreindra ára. Álagning vegna endurreiknings á eignir lögaðila í árslok 2010 skal fara fram við álagningu 2012 í samræmi við ákvæði til bráðabirgða XXXIX.
     i.      Allir þeir sem hafa auðlegðarskattsstofn sem er umfram þær fjárhæðir sem tilgreindar eru í h-lið skulu gera grein fyrir honum í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

    b. (II.)
    Þrátt fyrir 5. tölul. 1. mgr. 66. gr. skulu fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns skv. 1.–4. tölul. ekki taka breytingum í upphafi ársins 2012, í réttu hlutfalli við hækkun á launavísitölu frá upphafi til loka næstliðins tólf mánaða tímabils, eins og þar er kveðið á um.

    c. (III.)
    Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 4. og 5. tölul. A-liðar 30. gr. skal heimilaður frádráttur frá tekjum manna, á árunum 2012–2014, vera allt að 2% af iðgjaldsstofni samkvæmt ákvörðun sjóðfélaga vegna iðgjalda sem greidd eru til lífeyrissjóða til aukningar lífeyrisréttinda, til aðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, eða til starfstengdra eftirlaunasjóða samkvæmt lögum um starfstengda eftirlaunasjóði.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta,
með síðari breytingum.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Greiða skal í ríkissjóð kolefnisgjald af kolefni af jarðefnauppruna í fljótandi formi leiði sú notkun til losunar koltvísýrings í andrúmsloftið. Með kolefni af jarðefnauppruna í fljótandi formi er átt við gas- og dísilolíu, bensín, flugvéla- og þotueldsneyti og brennsluolíu.
     b.      Á eftir orðinu „kolefnisgjalds“ í 2. mgr. kemur: skv. 1. mgr.
     c.      Í stað fjárhæðanna „4,35 kr.“, „3,80 kr.“, „4,10 kr.“ og „5,35 kr.“ í 2. mgr. kemur: 5,75 kr.; 5,00 kr.; 5,40 kr.; og: 7,10 kr.
     d.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Greiða skal í ríkissjóð kolefnisgjald af kolefni af jarðefnauppruna í föstu formi leiði sú notkun til losunar koltvísýrings í andrúmsloftið. Með kolefni af jarðefnauppruna í föstu formi er átt við kol, koks, rafskaut og deig til rafskautagerðar.
                  Fjárhæð kolefnisgjalds skv. 3. mgr. skal vera 3,0 kr. á hvert kílógramm af kolum eða koksi í tollskrárnúmerunum 2701.1100, 2701.1200, 2701.1900, 2701.2000, 2702.1000, 2702.2000 og 2704.0000 og 3,4 kr. á hvert kílógramm af rafskautum og deigi til rafskautagerðar í tollskrárnúmerunum 3801.3000, 8545.1100 og 8545.1900.
     e.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Kolefnisgjald af kolefni af jarðefnauppruna.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
með síðari breytingum.

12. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „23,86 kr.“ í 14. gr. laganna kemur: 24,46 kr.

13. gr.

    Í stað fjárhæðanna „38,55 kr.“ og „40,85 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: 39,51 kr.; og: 41,87 kr.

VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald,
með síðari breytingum.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „gas- og dísilolíu sem flokkast í tollskrárnúmer 2710.1930“ í 1. mgr. kemur: gas-, dísil- og steinolíu sem flokkast í tollskrárnúmerin 2710.1911, 2710.1912, 2710.1919 og 2710.1930.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „54,88 kr.“ í 3. mgr. kemur: 56,25 kr.

15. gr.

    Í stað orðanna „gas- og dísilolíu“ í 1. og 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: gas-, dísil- og steinolíu.

16. gr.

    Við 10. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: olía sem er seld á loftför.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo:
                      Kílómetragjald af gjaldskyldum bifreiðum skv. 1. tölul. 1. mgr., sbr. 3. tölul., skal vera sem hér segir:
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
10.000–11.000 0,28 21.001–22.000 6,78
11.001–12.000 0,87 22.001–23.000 7,37
12.001–13.000 1,46 23.001–24.000 7,96
13.001–14.000 2,06 24.001–25.000 8,54
14.001–15.000 2,65 25.001–26.000 9,13
15.001–16.000 3,24 26.001–27.000 9,73
16.001–17.000 3,83 27.001–28.000 10,32
17.001–18.000 4,41 28.001–29.000 10,91
18.001–19.000 5,00 29.001–30.000 11,50
19.001–20.000 5,59 30.001–31.000 12,09
20.001–21.000 6,19 31.001 og yfir 12,68
     b.      6. mgr. orðast svo:
                      Sérstakt kílómetragjald af gjaldskyldum ökutækjum skv. 2. mgr. skal vera sem hér segir:
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetra-
gjald, kr.
5.000–6.000 8,31 18.001–19.000 21,94
6.001–7.000 8,99 19.001–20.000 22,93
7.001–8.000 9,68 20.001–21.000 23,94
8.001–9.000 10,37 21.001–22.000 24,93
9.001–10.000 11,04 22.001–23.000 25,92
10.001–11.000 12,02 23.001–24.000 26,91
11.001–12.000 13,31 24.001–25.000 27,91
12.001–13.000 14,58 25.001–26.000 28,90
13.001–14.000 15,85 26.001–27.000 29,89
14.001–15.000 17,13 27.001–28.000 30,89
15.001–16.000 18,40 28.001–29.000 31,89
16.001–17.000 19,67 29.001–30.000 32,88
17.001–18.000 20,96 30.001–31.000 33,86
31.001 og yfir 34,87

18. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ef ekki er komið með ökutæki til álestrar á öðru álestrartímabili ársins 2011, sem stendur frá 1. til 15. desember 2011, sbr. 1. mgr. 14. gr., skal reikna út meðaltal ekinna kílómetra á dag á tímabilinu milli álestra. Þá skal hið nýja gjald innheimt eftir meðaltalsakstri eftir lok fyrrgreinds álestrartímabils.
    Við ákvörðun kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds skv. 13. gr. á álestrartímabilinu 1. júní til 15. júní 2012 skal ríkisskattstjóri deila eknum kílómetrum frá fyrri álestri með dagafjölda sama tímabils og reikna kílómetragjald af hverjum eknum kílómetra miðað við fjölda gjaldskyldra daga fyrir gildistöku þessa ákvæðis og fjölda gjaldskyldra daga eftir gildistöku þessa ákvæðis.

VII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki,
með síðari breytingum.

19. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
    Við álagningu opinberra gjalda árin 2012 og 2013 skal til viðbótar við sérstakan skatt samkvæmt lögunum greiða 0,0875% af skattstofni eins og hann er ákvarðaður í 3. gr. Gjalddagi viðbótarskattsins er 1. nóvember 2012 og 2013. Greiða skal fyrir fram upp í álagðan viðbótarskatt 1. nóvember 2011 og 2012 og miðast sú greiðsla við skattstofn eins og hann var í árslok 2010 og 2011 og það skatthlutfall sem kveðið er á um samkvæmt ákvæði þessu.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.
20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 3. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „86,90 kr.“ í 1. tölul. kemur: 91,33 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „78,15 kr.“ í 2. tölul. kemur: 82,14 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „101,74 kr.“ í 3. tölul. kemur: 106,93 kr.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „347,90 kr.“ í 1. tölul. kemur: 365,64 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „4,12 kr.“ í 2. tölul. kemur: 4,33 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „12,45 kr.“ í 3. tölul. kemur: 13,08 kr.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 10. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „437,00 kr.“ í 1. tölul. kemur: 459,29 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „21,85 kr.“ í 2. tölul. kemur: 22,96 kr.

IX. KAFLI
Breyting á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum.
23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðanna „5.000 kr.“ og „120 kr.“ í 2. mgr. kemur: 5.255 kr.; og 125 kr.
     b.      Í stað fjárhæðanna „46.880 kr.“ og „73.800 kr.“ í 4. mgr. kemur: 49.270 kr.; og 77.565 kr.

X. KAFLI
Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.
24. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „8.700 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: 9.182 kr.

XI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., með síðari breytingum.
25. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „17.900 kr.“ í 4. málsl. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: 18.800 kr.

XII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl., með síðari breytingum.
26. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laganna, með síðari breytingum, skal gjald sem rennur til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga vera 677 kr. á mánuði árið 2012 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári.

XIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar,
með síðari breytingum.

27. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði laganna skal skuldbinding ríkisins skv. 60. gr. á árinu 2012 samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar vera 1.298 millj. kr. á árinu 2012. Framlag til Kristnisjóðs skal vera 74 millj. kr. á árinu 2012.

XIV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum.
28. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2011“ í ákvæðum til bráðabirgða II, III, V og VI í lögunum kemur: 31. desember 2012.

XV. KAFLI
Brottfall laga nr. 86/2007, um skattlagningu kaupskipaútgerðar,
með síðari breytingum.

29. gr.

    Lög nr. 86/2007, um skattlagningu kaupskipaútgerðar, með síðari breytingum, falla brott.

XVI. KAFLI
Gildistaka.
30. gr.

    Lög þessi öðlast gildi og koma til framkvæmda sem hér segir:
     a.      1.–2., 4. og 26. gr. öðlast gildi 1. janúar 2012 og koma til framkvæmda við staðgreiðslu opinberra gjalda 2012 og álagningu 2013.
     b.      3., 7.–10., 18.–22. og 27.–29. gr. öðlast þegar gildi. C-liður 10. gr. kemur til framkvæmda í staðgreiðslu tekjuáranna 2012–2014 og við álagningu 2013–2015.
     c.      5. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda við ákvörðun barnabóta og vaxtabóta við álagningu opinberra gjalda á árinu 2012.
     d.      6. gr. öðlast gildi 1. janúar 2012 og kemur til framkvæmda við staðgreiðslu opinberra gjalda 2012.
     e.      A-, b-, d- og e-liður 11. gr. öðlast gildi 1. janúar 2013.
     f.      C-liður 11. gr., 12.–17., 23. og 25. gr. öðlast gildi 1. janúar 2012.
     g.      24. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2012 vegna tekna ársins 2011.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
    Við undirbúning fjárlagavinnunnar fyrir árið 2012, sem hófst snemma árs 2011, var fljótt ljóst að markmiði stjórnvalda um jafnvægi í ríkisfjármálum yrði ekki náð nema með frekari tekjuöflunaraðgerðum, þ.e. umfram þær sem þegar hefur verið gripið til sl. þrjú ár. Endurmat á fyrri aðgerðum fór einnig fram út frá þeim gögnum sem fyrir liggja á hverjum tíma samkvæmt ríkisreikningi, innheimtutölum og öðrum fyrirliggjandi gögnum. Samhliða var unnið að mótun almennra launa- og verðlagsforsendna fyrir fjárlagafrumvarp komandi árs á grundvelli þjóðhagsspár Hagstofunnar, fyrst í apríl og síðan í júlí eftir að almennir kjarasamningar höfðu verið gerðir við stóra hópa á vinnumarkaði.

2. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpi því sem hér er kynnt er að finna tillögur að breytingum á ýmsum lögum er varða tekjuöflun ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2012. Þessum breytingum má skipta í fjóra meginflokka. Í fyrsta lagi eru breytingar sem tengjast yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga í maí sl. Í öðru lagi eru sérstakar tekjuöflunaraðgerðir sem liður í stefnu stjórnvalda um jafnvægi í ríkisfjármálum á næstu árum. Í þriðja lagi eru hækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur frumvarpsins og í fjórða lagi breytingar af ýmsu tagi. Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir hverjum flokki fyrir sig.

2.1. Aðgerðir í tengslum við gerð kjarasamninga.
Lækkun tryggingagjalds.
    Á árunum 2009–2010 hækkaði tryggingagjaldið verulega, en þó einungis sá hluti þess sem rennur til atvinnuleysistrygginga, enda jókst atvinnuleysi mjög mikið á þessu tímabili. Gjaldið var hækkað úr 0,65% í 2,21% 1. júlí 2009 og á ný, í 3,81%, 1. janúar 2010, eða samtals um 3,16 prósentustig frá ársbyrjun 2009. Þó svo að veruleg óvissa ríki um þróun atvinnuleysis á næstu árum liggur fyrir að atvinnuleysi mælist umtalsvert minna nú en áður. Gangi fyrirliggjandi spár um minna atvinnuleysi á næstu missirum eftir myndast svigrúm til þess að lækka atvinnutryggingagjaldið. Er því lögð til lækkun á atvinnutryggingagjaldi um 1,36% og er það í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga frá því í maí. Má gera ráð fyrir að með þeirri lækkun verði tekjur og gjöld sjóðsins í jafnvægi á árinu 2012 en innheimtar og markaðar tekjur stefna í að nema um 5,8 milljörðum kr. á árinu 2011 umfram áætluð gjöld. Í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga er gert ráð fyrir því að forsendur breytinga á tryggingagjaldi verði endurmetnar þegar ný efnahagsspá liggur fyrir um miðjan nóvember 2011.
    Samhliða er lögð til 0,45 prósentustiga hækkun á almennu tryggingagjaldi en þeirri hækkun má skipta í tvennt. Í fyrsta lagi er um að ræða 0,25 prósentustiga hækkun vegna sívaxandi útgjalda ríkissjóðs til almannatrygginga og er áætlað að hækkunin skili ríkissjóði um 2 milljörðum kr. á ári. Í öðru lagi er um að ræða tímabundna 0,2 prósentustiga hækkun á mörkuðum tekjum Fæðingarorlofssjóðs sem fer úr 1,08 prósentustigum í 1,28 prósentustig af tekjustofni tryggingagjalds í ársbyrjun 2012. Markmið hækkunarinnar er að vega upp uppsafnaðan halla á sjóðnum á síðustu árum. Þessi áform voru einnig hluti af yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga í vor.
    Til samans hafa þessar breytingar á tryggingagjaldi í för með sér 0,91 prósentustiga lækkun og tæplega 8 milljarða kr. tekjutap sem endurspeglast fyrst og fremst í lægri útgjöldum til atvinnuleysistrygginga.

Tímabundin hækkun gjalds í Ábyrgðasjóð launa.
    Tekjur Ábyrgðasjóðs launa eru reiknaðar sem hlutfall af tryggingagjaldsstofni, án þess þó að vera hluti af tryggingagjaldi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gjald í Ábyrgðasjóð launa verði hækkað um 0,05 prósentustig af tryggingagjaldsstofni frá ársbyrjun 2012 tímabundið til þriggja ára til að ná jöfnuði milli tekna og gjalda hjá sjóðnum. Gjaldið verður því 0,3% og er miðað við það að hækkunin vegi upp uppsafnaðan halla á sjóðnum á síðustu árum. Árleg aukning tekna vegna hækkunarinnar nemur um 500 millj. kr.

Afdráttarskattur af vaxtatekjum aðila með takmarkaða skattskyldu.
    Vorið 2009 var samþykkt breyting á 8. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þess efnis að allir aðilar með takmarkaða skattskyldu, þ.e. aðilar búsettir erlendis, sem hefðu vaxtatekjur hér á landi skyldu greiða tekjuskatt/afdráttarskatt af þeim tekjum. Skatthlutfallið er 20% sé rétthafi einstaklingur en 18% sé um lögaðila að ræða. Nokkrar undanþágur eru þó frá skattskyldunni. Samkvæmt greinargerð með breytingunni var megintilgangur ákvæðisins sá að draga úr skattatapi vegna tekjuhliðrunar og undanskota. Skatturinn kom til framkvæmda frá og með 1. september 2009.
    Frá því að umrætt ákvæði var lögfest hafa komið upp ýmis álitamál, bæði varðandi túlkun og framkvæmd þess. Jafnframt liggur fyrir að íslensk fyrirtæki eru í einhverjum mæli að taka á sig skattinn vegna ákvæða í lánasamningum sem tryggja lánveitanda vaxtatekjur án afdráttarskatta. Skatturinn verður í slíkum tilvikum eins og hver annar viðbótarkostnaður vegna lántökunnar. Þessi álitamál leiddu meðal annars til þess að í yfirlýsingu tengdri gerð kjarasamninga segir meðal annars: „… fjármálaráðherra mun leggja fyrir Alþingi nú á vorþingi tillögur um lagabreytingar er varða … (iii) afdráttarskatt á vaxtagreiðslur til erlendra aðila þannig að hann nái einungis til vaxtatekna af íslenskum verðbréfum en ekki erlendra lánasamninga…“
    Sú tillaga sem fjármálaráðherra kynnti á vorþinginu til lausnar málinu náði hins vegar ekki fyllilega tilgangi sínum og var því ákveðið að fresta málinu til haustsins.
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra og Fjársýslu ríkisins voru tekjur ríkissjóðs af umræddum skatti nálægt 3 milljörðum kr. á árinu 2010. Það sem af er ári hafa innheimst rúmlega 3,3 milljarðar kr. að frádregnum endurgreiðslum, sem nema samtals tæpum 140 millj. kr. Einhver tilfærsla er á innheimtu skattsins milli ára þannig að leiða má að því líkur að tekjurnar verði svipaðar bæði árin, eða nálægt 3 milljörðum kr. Á hinn bóginn liggur fyrir að beiðnir um endurgreiðslu á skattinum, m.a. á grundvelli tvísköttunarsamninga, hafa verið að aukast þannig að búast má við að nettótekjur ríkissjóðs af þessum tekjustofni verði umtalsvert minni á næstu árum, eða nálægt 1,5–2 milljörðum kr.
    Í ljósi þess sem að framan segir hefur fjármálaráðherra uppi þau áform að endurskoða þetta ákvæði frá grunni með hliðsjón af norrænum rétti. Þar verður einkum horft til dönsku reglnanna, en þær snúa fyrst og fremst að viðskiptum tengdra aðila. Í ársbyrjun 2012 verður þó stigið það skref að lækka skatthlutfallið úr 18%/20% niður í 10% með það fyrir augum að endurskoðað og breytt ákvæði taki gildi frá og með árinu 2013.

2.2. Sérstakar tekjuöflunaraðgerðir.
    Samkvæmt forsendum tekjuáætlunar fjárlagafrumvarpsins fyrir árið hafa stjórnvöld uppi áform um eftirtaldar tekjuöflunaraðgerðir:
          Dregið verði tímabundið úr frádráttarbærni iðgjalda vegna viðbótarlífeyrissparnaðar frá tekjuskattsstofni, þannig að hámark launþega verði 2% af launum í stað 4%. Áætluð tekjuáhrif eru metin 1,4 milljarðar kr. á ársgrundvelli.
          Lagður verði 10,5% fjársýsluskattur á heildarlaunagreiðslur fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og vátryggingafélaga. Tekjur af þessum nýja skatti eru taldar verða 4,5 milljarðar kr. á árinu 2012.
          Tekið verði upp viðbótarskattþrep fyrir auðlegðarskatt, þ.e. á hreina eign yfir hærri mörkum en nú er. Miðað er við að viðbótartekjur af breytingunni verði nálægt 1,5 milljörðum kr.
          Lokaskrefið verði tekið í innleiðingu kolefnisgjalds, þannig að gjaldið verði miðað við fullt viðmiðunarverð á uppboðsmarkaði losunarheimilda í Evrópu í stað 75% nú. Áætlaðar tekjur af þeirri hækkun nema um 800 millj. kr.
          Gert er ráð fyrir frekari hækkun veiðigjalds, eða úr 13,3% í 27%. Tekjuáhrif eru áætluð 4,5 milljarðar kr. á ársgrundvelli, en áhrifin á árinu 2012 eru metin 1,5 milljarðar kr. á greiðslugrunni.
    Gangi áformin eftir munu framangreindar skattabreytingar skila ríkissjóði 9,7 milljörðum kr. á árinu 2012. Frumvarpið sem hér er lagt fram tekur til þeirra aðgerða sem að framan greinir, nema fjársýsluskattsins sem kynntur verður í sérfrumvarpi af fjármálaráðherra og veiðigjaldsins sem verður að finna í frumvarpi sjávarútvegsráðherra um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Án fjársýsluskattsins og veiðigjaldsins eru tekjuáhrif frumvarpsins af framangreindum aðgerðum tæpir 4 milljarðar kr.

Frádráttur lífeyrisiðgjalda til séreignarsjóða.
    Samkvæmt gildandi lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, er frádráttur launþega vegna greiðslu í séreignarsjóð lífeyrissjóða eða til þeirra aðila sem heimild hafa til viðtöku iðgjalda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að hámarki 4% af iðgjaldsstofni. Í þessu frumvarpi er hins vegar að finna tillögu þess efnis að hámarksfrádráttur launþega verði 2% af iðgjaldsstofni í stað 4% á árunum 2012–2014. Reikna má með að þessi aðgerð dragi úr iðgjaldagreiðslum launþega í svipuðum mæli, eða niður í 1,5–2% að jafnaði, en í dag er meðalgreiðsluhlutfallið kringum 3%. Talið er að þessi ráðstöfun ein og sér auki beinar tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti um allt að 1,4 milljarða kr. á árinu 2012, en einnig má búast við einhverjum óbeinum áhrifum af auknum veltusköttum vegna hærri ráðstöfunartekna. Sem fyrr segir er lagt til að breytingin sem hér um ræðir verði tímabundin við árin 2012–2014.

Auðlegðarskattur.
    Auðlegðarskattur var tekinn upp með lögum nr. 128/2009 og skyldi taka til beinna og óbeinna eigna einstaklinga í árslok 2009, 2010 og 2011, þ.e. í almennri álagningu 2010, 2011 og 2012. Álagning á menn og lögaðila fer fram hvor í sínu lagi, þannig að álagning á framtöl manna fer fram í júlí og álagning á lögaðila fer fram í október. Upplýsingar um hlutdeild einstaklinga í skattalegu bókfærðu eigin fé liggja þannig ekki fyrir fyrr en eftir að álagningu á einstaklinga er lokið. Endurreikningur samkvæmt skattframtölum lögaðila 2010, 2011 og 2012 skyldi því fara fram 2011, 2012 og 2013. Fyrsta álagning auðlegðarskattsins fór fram við álagningu 2010 á eignir í lok ársins 2009. Endurreikningur vegna eignarhluta einstaklinga í skattalegu bókfærðu eigin fé lögaðila vegna eigna í árslok 2009 samkvæmt framtölum lögaðila 2010 fór síðan fram samhliða álagningu 2011 á almennar eignir einstaklinga í árslok 2010.
    Með ákvæði til bráðabirgða XXXIX með lögum nr. 165/2010 var skatthlutfall auðlegðarskatts hækkað í 1,5% jafnframt því sem fríeignarmark var lækkað. Bráðabirgðaákvæði þessu var ætlað að taka til eigna einstaklinga í árslok áranna 2010 og 2011, þ.e. álagningaráranna 2011 og 2012 jafnframt því sem endurreikningur vegna eignastöðu lögaðila í árslok 2011 skyldi fara fram við álagningu einstaklinga 2013.
    Með ákvæði til bráðabirgða XLVI með lögum nr. 73/2011 er gerð breyting á álagningu á almennar eignir einstaklinga í árslok 2011 og 2012 við álagningu 2012 og 2013. Við álagningu 2012 skyldi jafnframt leggja á eignarhlut einstaklinga í skattalegu bókfærðu eigin fé lögaðila í árslok 2010 samkvæmt skattframtali lögaðila 2011. Álagning auðlegðarskatts einstaklinga skyldi jafnframt aflögð að lokinni álagningu 2013 á framtaldar nettóeignir í árslok 2012. Viðbótarálagning á eignir lögaðila í árslok 2011 skyldi enn fremur ekki eiga sér stað í álagningu á einstaklinga 2013.
    Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er gert ráð fyrir að tekin verði upp tvö þrep í auðlegðarskatti á eignir einstaklinga í árslok 2011, 2012, 2013, 2014. Endurreikningur vegna hlutdeildar í skattalega bókfærðu eigin fé lögaðila takmarkast aftur á móti við árslok 2011, 2012 og 2013, þ.e. einu ári skemur en almenn álagning auðlegðarskatts og skal þannig framkvæmdur við álagningu áranna 2013, 2014 og ljúka við álagningu 2015. Af þessu leiðir að ekki skal framkvæma endurreikning miðað við stöðu á skattalega bókfærðu eigin fé lögaðila í árslok 2014. Ákvæði frumvarpsins vegna áranna 2011, 2012, (2013 og 2014) koma í stað ákvæðis til bráðabirgða XLVI, sem ætlað var m.a. að taka til eigna í árslok 2011 og hefur því eðli máls samkvæmt ekki komið til framkvæmda og er því lagt til að það verði fellt brott í heild. Samhliða er ákvæði XXXIX sem tekur m.a. til áranna 2010 og 2011 lagað að þeim breytingum sem lagðar eru til með frumvarpinu, þannig að endurreikningur vegna ársins 2010 fari fram á grundvelli þess ákvæðis samhliða álagningu einstaklinga 2012 og þau ákvæði sem ætlað var að taka til eigna í árslok 2011 verði að breyttu breytanda felld brott.

Kolefnisgjald.
    Upptaka kolefnisgjalds á eldsneyti af jarðefnauppruna í fljótandi formi er ein af þeim tekjuöflunarleiðum sem stjórnvöld hafa hrint í framkvæmd á undanförnum árum sem hluta af ábyrgri umhverfisstefnu enda er gjaldið ekki lagt á eldsneyti af lífrænum uppruna. Í dag er kolefnisgjaldið 75% af verði losunarheimilda á viðskiptamarkaði Evrópusambandsins (EU ETS), en á árinu 2010 var gjaldið 50% af því viðmiði. Í frumvarpinu er lagt til að næsta skref verði tekið í ársbyrjun 2012 með því að kolefnisgjald af fljótandi jarðefnaeldsneyti fari í 100% af viðmiðunarverði. Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessari hækkun eru metnar 800 millj. kr. á árinu 2012.
    Auk þessa er lagt til í frumvarpinu að gjaldstofninn verði breikkaður frá og með árinu 2013 og nái þá einnig til losunar kolefnis af jarðefnauppruna í föstu formi. Gjaldið nái þannig jafnframt til brennslu kola og koks og einnig til rafskauta og skyldra vara úr kolefni af jarðefnauppruna. Fjárhæð gjaldsins er reiknuð með sama hætti og gert hefur verið með fljótandi jarðefnaeldsneyti, þ.e. byggt er á kolefnisinnihaldi hverrar vöru og fjárhæð gjaldsins tekur mið af verði á losunarheimildum gróðurhúsalofttegunda í viðskiptakerfi Evrópusambandsins. Miðað er við að skattlagning kolefna í föstu formi verði 50% af viðmiðunarverði losunarheimilda á árinu 2013, en hækki síðan í 75% og 100% á árunum 2014 og 2015.
    Viðbótartekjur ríkissjóðs af breikkun gjaldstofnsins og 50% gjaldhlutfalli eru áætlaðar kringum 1,5 milljarðar kr. á árinu 2013.
    Ljóst er að taka þarf álagningu kolefnisgjalds til frekari skoðunar á næsta ári með hliðsjón af þeim breytingum sem framundan eru á viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda, en þær eru meðal annars fólgnar í því að losun frá álverum og járnblendi mun að öllum líkindum verða háð losunarheimildum frá og með 1. janúar 2013. Óljóst er hvað muni taka við þegar fyrsta tímabili Kyoto-bókunarinnar lýkur. Það er meðal annars ástæða þess að breikkun gjaldstofnsins tekur einungis til eins árs í þessu frumvarpi, en hugmyndin er sú að skoða málið heildstætt á árinu 2012. Ætlun stjórnvalda er að gera fyrirtækjum sem munu þurfa að greiða kolefnisgjald kleift að nýta eftir því sem kostur er þær heimildir sem samið verður um innan loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með bindingu kolefnis.

Bensíngjald, olíugjald og kílómetragjald.
    Í frumvarpinu er lagt til að hækkun almenns og sérstaks vörugjalds á bensín, svo og olíugjalds, verði einungis 2,5% en almenn viðmiðun við verðlagsuppfærslu krónutölugjalda í ársbyrjun 2012 er 5,1%, sem er jafnt áætlaðri verðbólgu frá upphafi til loka ársins 2011. Rökin fyrir minni hækkun þessara gjalda er fyrst og fremst sú að draga úr áhrifum þeirrar þriðjungshækkunar kolefnisgjalds sem áður var nefnd á útsöluverð eldsneytis. Hátt heimsmarkaðsverð á bensíni og dísilolíu á hér einnig hlut að máli. Gert er ráð fyrir að þessi 2,5% hækkun skili ríkissjóði aukalega 400 millj. kr. Á hinn bóginn er lagt til að almennt og sérstakt kílómetragjald hækki um 5,1% í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins og er gert ráð fyrir að sú hækkun skili ríkissjóði 30 millj. kr. í viðbótartekjur.

Fjármögnun sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu.
    Í lok árs 2010 var samþykkt bráðabirgðaákvæði um sérstaka vaxtaniðurgreiðslu sem var hlutur stjórnvalda í víðtækum aðgerðum vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna. Þessar greiðslur eru ígildi viðbótarvaxtabóta sem greiddar skulu út tvisvar á ári, 1. maí og 1. ágúst, í tvö ár, þ.e. 2011 og 2012. Greiðslur ársins 2011 hafa þegar farið fram og námu réttum 6 milljörðum kr. sem er í takt við áætlun um 6 milljarða kr. heildarkostnað á ári. Í forsendum fjárlagafrumvarps fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir að forsendur og útgjöld vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu verði þær sömu á árinu 2012. Rétt er að árétta að útgjöld ríkissjóðs vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu eru bókfærð á gjaldahlið eins og vaxtabætur.
    Í því samkomulagi sem ríkisstjórnin gerði við hagsmunaaðila (viðskiptabanka og lífeyrissjóði) í tengslum við framangreindar aðgerðir segir að aðilar muni í samstarfi leita leiða til að þeir síðarnefndu fjármagni þessi útgjöld. Fyrir liggur samkomulag þess efnis að heildargreiðslur þessara aðila í formi tímabundinnar skattlagningar verði 3,5 milljarðar kr. á árinu 2011. Þar af verði hlutur viðskiptabankanna 2,1 milljarður króna, en lífeyrissjóða um 1,4 milljarðar kr. Afgangurinn, eða 2,5 milljarðar kr., yrði fjármagnaður með öðrum hætti á árinu 2011.
    Með lögum nr. 73/2011 var lögfest nýtt ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, í þá veru að samhliða sérstaka skattinum yrði lagður á viðbótarskattur til að fjármagna hlut viðskiptabankanna í sérstöku vaxtaniðurgreiðslunni á þessu ári. Skattstofninn er sá sami en skatthlutfall þessa tímabundna skatts er 0,0875%. Um verður að ræða fyrirframgreiðslu 1. nóvember nk. upp í endanlega álagningu á árinu 2011. Í þessu frumvarpi er lagt til að sama fyrirkomulag verði varðandi fjármögnun á hluta vaxtaniðurgreiðslunnar á árinu 2012 af hálfu viðskiptabankanna, þ.e. upp á 2.100 millj. kr. Ekki liggur enn fyrir hvernig hlutur lífeyrissjóðanna í vaxtaniðurgreiðslunni verður fjármagnaður.

2.3. Verðlagsuppfærsla einstakra skatta og gjalda.
    Í frumvarpinu eru einnig tillögur um almenna 5,1% hækkun á hinum svokölluðu krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins með það að markmiði að fjárhæðirnar haldi raungildi sínu frá fyrra ári.

Vörugjald á áfengi og tóbak og bifreiðagjald.
    Tillögu um 5,1% hækkun á áfengisgjaldi og tóbaksgjaldi er að finna í frumvarpinu og sama má segja um bifreiðagjald. Gert er ráð fyrir að umrædd hækkun á áfengisgjaldi og tóbaksgjaldi skili ríkissjóði 760 millj. kr. og samsvarandi hækkun bifreiðagjalds ætti að skila um 320 millj. kr. í viðbótartekjur.

Útvarpsgjald og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Lagt er til að fjárhæð sérstaks útvarpsgjalds hækki um 900 kr. frá gildandi lögum og nemi 18.800 kr. á hvern gjaldanda í stað 17.900 kr. á árinu 2012. Um er að ræða 5,1% hækkun í takt við verðlag og síðan nálgað að hundraði. Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessari hækkun eru áætlaðar rúmlega 200 millj. kr.
    Tillaga um hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra til samræmis við verðlagsforsendur frumvarpsins er einnig í frumvarpinu þannig að gjaldið verði 9.182 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2012 vegna tekna ársins 2011. Gert er ráð fyrir að gjaldendur verði um 183 þúsund á álagningarárinu 2012 og fjölgi um sex þúsund milli ára. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði aukalega 90 millj. kr.

Hækkun á tekjuviðmiðunum milli skattþrepa.
    Í 5. tölul. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er kveðið á um að fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns skuli hækka í réttu hlutfalli við hækkun á launavísitölu frá upphafi til loka næstliðins tólf mánaða tímabils. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að í ársbyrjun 2012 hækki umrædd fjárhæðarmörk í takt við almennar forsendur kjarasamninga á því ári, eða um 3,5%. Með tillögunni er gert ráð fyrir að þetta frávik frá gildandi reglu eigi einungis við fyrir árið 2012. Gera má ráð fyrir að hækkun launavísitölu verði allt að 7% yfir árið 2011, en sú hækkun á viðmiðunarmörkum í stað 3,5% mundi lækka tekjur ríkissjóðs um 400 millj. kr. frá forsendum fyrirliggjandi fjárlagafrumvarps. Í þessu samhengi þarf einnig að horfa til fullrar verðtryggingar á persónuafslætti, sem hækka mun um 5,1% um næstu áramót miðað við júlíspá Hagstofunnar.

2.4. Ýmsar breytingar.
    Auk þeirra tillagna sem þegar hefur verið fjallað um eru nokkrar tillögur af ýmsu tagi eins og nánar er fjallað um hér á eftir.

Barnabætur og vaxtabætur.
    Tillögur að minni háttar breytingum á barnabótum og vaxtabótum eru í frumvarpinu, sem snúa að framkvæmd en ekki efni. Þannig er lagt til að lögfest verði ákveðin lágmarksfjárhæð varðandi ákvörðun og útgreiðslu barnabóta eins og gildir um vaxtabætur. Miðað er við að ákvarðaðar barnabætur til framfæranda sem eru lægri en 2.000 kr. við álagningu opinberra gjalda ár hvert falli niður. Þá er lögð til framlenging á bráðabirgðaákvæði tekjuskattslaga þess efnis að skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs og sveitarfélaga ásamt vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði áfram óheimil út árið 2012, en ella mundi hún falla niður í lok árs 2011. Að lokum er lagt til að vaxtabætur verði eingöngu ákveðnar á grundvelli skattframtals en ekki í þeim tilfellum þar sem um áætlun er að ræða vegna vanskila á framtali.

Sóknargjöld.
    Í frumvarpinu er lagt til að föst krónutala sóknargjalda lækki úr 698 kr. á mánuði samkvæmt núgildandi lögum í 677 kr. fyrir árið 2012 sem er liður í aðhaldsmarkmiðum innanríkisráðuneytisins í samræmi við áætlun stjórnvalda. Með breytingunni er gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins á árinu 2012 lækki um 55,8 millj. kr. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs lækki um 16,1 millj. kr. vegna Jöfnunarsjóðs sókna, en framlag í sjóðinn reiknast sem 18,5% af gjöldum er renna til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt lögum um sóknargjöld, og vegna Kirkjumálasjóðs, sem reiknast á sama hátt sem 11,3% af sóknargjöldum. Þessi breyttu viðmið fyrir framlög til safnaða og trúfélaga eru liður í útfærslu á aðhaldsmarkmiðum innanríkisráðuneytisins vegna frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2012.

Framlag til þjóðkirkjunnar.
    Í frumvarpinu er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2012 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar muni hækka um 56,7 millj. kr. að teknu tilliti til launa- og verðlagsuppreiknings, en lækki um 38,9 millj. kr. án uppreiknings. Með sama hætti er lagt til að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs muni skerðast um 2,3 millj. kr. á árinu. Með þessari lækkun mun þjóðkirkjan leggja sitt af mörkum til aðhalds ríkisútgjalda. Þetta er gert með tillögu um að framlag til þjóðkirkjunnar samkvæmt lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar verði bundið við fasta krónutölu í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 en taki ekki mið af reiknilíkani sem framlögin hafa verið miðuð við. Um er að ræða sambærileg aðhaldsmarkmið og sett hafa verið í almennri stjórnsýslu og þjónustu á vegum ríkisins í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012.

Stimpilgjald.
    Í gildandi lögum er að finna tímabundnar undanþágur frá greiðslu stimpilgjalds þegar skilmálum fasteignaveðskuldabréfa er breytt eða ný veðskuldabréf eru gefin út til uppgreiðslu vanskila. Í frumvarpinu er lagt til að þessar undanþágur verði framlengdar um eitt ár, eða til ársloka 2012 þar sem gengið hefur hægar en búist var við að afgreiða þessi mál eftir hrunið. Framlengingin nær einnig til undanþágu frá greiðslu stimpilgjalda við skilmálabreytingar bílalána þótt reikna megi með að kúfurinn af þeim sé genginn yfir.

Skattlagning kaupskipaútgerðar (tonnaskattur).
    Lagt er til að lög nr. 86/2007, um skattlagningu kaupskipaútgerðar, er tóku gildi 1. janúar 2008 verði felld brott. Frá gildistöku laganna hefur ekkert útgerðarfélag óskað eftir því að vera skattlagt samkvæmt lögunum þannig að brottfall laganna hefur engin áhrif á tekjur ríkissjóðs. Í lögunum er kveðið á um tvenns konar form ríkisaðstoðar við kaupskipaútgerðir sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur úrskurðað sem ólögmæta ríkisstyrki skv. 61. gr. EES-samningsins. Öll rök standa því til þess að afnema lögin.

Litun og gjaldskylda steinolíu.
    Í kjölfar hækkandi eldsneytisverðs hefur borið á því að steinolía sé í auknum mæli notuð á ökutæki. Þannig hefur sala á steinolíu margfaldast á undanförnum árum. Á árinu 2005 voru rúmlega 118 þús. lítrar seldir af steinolíu, en árið 2010 var salan komin upp í rúmlega 1,1 milljón lítra. Milli áranna 2007 og 2008 jókst salan sem dæmi úr 211 þús. lítrum í 930 þús. lítra. Áætlað er að tap ríkissjóðs vegna notkunar steinolíu á ökutæki nemi a.m.k. 60 millj. kr. á ári.
    Þessi þróun er fyrst og fremst ástæða þess að í frumvarpinu er að finna tillögu um að olíugjald verði lagt á steinolíu með sama hætti og gjald er lagt á gas- og dísilolíu.

3. Áhrif tillagna frumvarpsins á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt.
    Erfitt er að meta af nákvæmni hvaða áhrif framangreindar aðgerðir hafa á einstakar efnahagsstærðir eins og ráðstöfunartekjur heimilanna, verðlag eða kaupmátt ráðstöfunartekna, sem aftur hafa áhrif á framvindu efnahagsmála og þar með tekjur ríkissjóðs, enda aðgerðirnar mjög margvíslegar. Þá eru áhrif þeirra bæði bein og óbein sem koma ekki einungis fram á árinu 2012 heldur á næstu árum.
    Minnkuð frádráttarbærni iðgjalda í séreignarlífeyrissjóð mun draga úr sparnaði í séreignarsjóði og auka ráðstöfunartekjur að því marki að öðru óbreyttu. Aukningin mun þó til lengri tíma litið væntanlega leita í önnur form sparnaðar enda breytingin tímabundin og mun þá þurfa að leggja fyrir stærri hluta ráðstöfunartekna til að viðhalda sama sparnaðarstigi og áður. Til skamms tíma verða hrein áhrif iðgjaldabreytingarinnar á ráðstöfunartekjur líklega fremur lítil. Viðbótartekjuöflun í formi auðlegðarskatts hefur bein áhrif á ráðstöfunartekjur til lækkunar, um 1,5 milljarða kr. Lækkun tryggingagjaldsins ætti hins vegar að hafa jákvæð áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna þar sem hún leiðir til lækkunar á tilkostnaði fyrirtækja sem gerir þau betur í stakk búin að greiða hærri laun, lengja vinnutíma eða fjölga starfsmönnum. Þegar allt er lagt saman ættu þær skattabreytingar sem kynntar eru í þessu frumvarpi að hafa jákvæð áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna á árinu 2012 og þar með eftirspurnina í hagkerfinu.
    Áhrif hækkana á krónutölugjöldum og gjaldskrám koma fyrst og fremst fram í hærra verðlagi. Hér er um að ræða eftirtaldar hækkanir: hækkun bensíngjalds og olíugjalds um 2,5%; hækkun áfengis- og tóbaksgjalds og bifreiðagjalds um 5,1%; hækkun kolefnisgjalds um u.þ.b. 32%. Lauslegt mat bendir til að áhrifin gætu verið um 0,2% til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Gangi það mat eftir mun kaupmáttur ráðstöfunartekna minnka samsvarandi, eða um 0,2%.
    Heildaráhrif frumvarpsins á einstaklinga og fyrirtæki ættu því að vera jákvæð, en jafnframt fremur almenn. Afkoma ríkissjóðs og þar með skuldastaða þjóðarbúsins versnar þó lítillega til skamms tíma litið, en þar þarf einnig að horfa til þeirrar tekjuöflunar sem áður var minnst á í formi fjársýsluskatts og hærra veiðigjalds.

4. Samráð o.fl.
    Við gerð frumvarpsins var meðal annars stuðst við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar tengda kjarasamningum sem dagsett er 5. maí 2011. Yfirlýsingin er afrakstur víðtæks samráðs stjórnvalda og aðila hins almenna vinnumarkaðar um margvíslega þætti er lúta að efnahags- og kjaramálum í aðdraganda kjarasamninga. Jafnframt er byggt á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá júlí 2011. Frumvarpið er samið í fjármálaráðuneytinu að höfðu samráði við velferðarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið um þá málaflokka frumvarpsins sem undir þau heyra. Auk þess var haft samráð við embætti ríkisskattstjóra.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. og 2. gr.

    Í a-lið er lagt til að sá hluti tryggingagjalds sem rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs, atvinnutryggingagjald, verði lækkaður úr 3,81% í 2,45%. Ástæðan er minnkandi fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs samhliða því að atvinnuleysi fer minnkandi.
    Í b-lið er lögð til 0,45% hækkun á almennu tryggingagjaldi. Hækkunin skiptist í tvennt í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga í maí sl. Annars vegar er um að ræða 0,25% hækkun vegna aukinna útgjalda ríkissjóðs til almannatrygginga og er áætlað að sú hækkun skili ríkissjóði um 2 milljörðum kr. á ári. Hins vegar er 0,20% hækkun á mörkuðum tekjum Fæðingarorlofssjóðs, eða úr 1,08% í 1,28% af tekjustofni tryggingagjalds frá ársbyrjun 2012. Þessari hækkun er ætlað að vinna á uppsöfnuðum halla sjóðsins sem myndast hefur á síðustu árum.
    Samanlagt fela þessar breytingar á tryggingagjaldi í sér 0,91% lækkun á skatthlutfallinu og tæplega 8 milljarða kr. árlegt tekjutap fyrir ríkissjóð.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að gjald í Ábyrgðasjóð launa verði hækkað tímabundið til þriggja ára frá ársbyrjun 2012 um 0,05% af tryggingagjaldsstofni til að ná jöfnuði milli tekna og gjalda hjá sjóðnum. Gjaldið verður því 0,3% og er miðað við það að hækkunin vegi upp uppsafnaðan halla á sjóðnum á síðustu árum.

Um 4. gr. og b-lið 10. gr.

    Í 5. tölul. 1. mgr. 66. gr. er kveðið á um að fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns, þ.e. tekjuviðmiðunarmörkin milli skattþrepanna, skuli taka breytingum í upphafi árs í réttu hlutfalli við hækkun á launavísitölu frá upphafi til loka næstliðins tólf mánaða tímabils.
    Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að í stað framangreindra breytinga verði fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns skv. 1.–4. tölul. 66. gr. hækkuð um 3,5% fyrir staðgreiðsluárið 2012. Þannig telst tekjuskattsstofn að 2.601.000 kr. til fyrsta skattþreps, næstu 5.853.000 kr. til annars skattþreps og tekjuskattsstofn yfir 8.454.000 kr. til þriðja skattþreps. Þessi hækkun tekur mið af almennum umsömdum launabreytingum samkvæmt gerðum kjarasamningum fyrir árið 2012.
    Í ákvæði til bráðabirgða skv. b-lið 8. gr. er kveðið á um það að þetta frávik frá gildandi ákvæði varði einungis mörkin fyrir staðgreiðsluárið 2012.

Um 5. gr.

    Hér er lagt til í a-lið að lögfest verði ákveðin lágmarksfjárhæð varðandi greiðslu barnabóta eins og er í tilviki vaxtabóta. Í tillögunni felst að ákvarðaðar barnabætur sem eru lægri en 2.000 kr. á framfæranda við álagningu opinberra gjalda falli niður. Ef um er að ræða einn framfæranda (einstætt foreldri) falla barnabætur niður sem eru lægri en 2.000 kr. Í tilviki tveggja framfærenda (hjón og sambúðarfólk) falla barnabætur niður sem eru lægri en 4.000 kr.
    Í b-lið er lagt til að vaxtabætur verði eingöngu ákveðnar á grundvelli skattframtals, til að taka af allan vafa, en ekki í þeim tilfellum þar sem um áætlun er að ræða.

Um 6. gr.

    Hér er lögð til lækkun á tekjuskatti aðila með takmarkaða skattskyldu sem hafa vaxtatekjur hér á landi af bankainnstæðum, verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum, skuldabréfum eða öðrum kröfum og fjármálagerningum, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. tekjuskattslaga. Samkvæmt gildandi ákvæði er tekjuskattur manna 20%, þó ekki af vaxtatekjum að 100.000 kr. á ári, og tekjuskattur lögaðila 18%. Gert er ráð fyrir því að tekjuskattur manna og lögaðila sem falla undir 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. verði lækkaður í 10% frá og með staðgreiðsluárinu 2012 en skatturinn er afdráttarskattur og innheimtur í staðgreiðslu. Til frekari skýringa á þessari breytingu er vísað til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 7. gr.

    Með ákvæði 7. gr. er lagt til að skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs og sveitarfélaga ásamt vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði áfram óheimil út árið 2012, ella mundi hún falla niður í lok árs 2011.

Um 8. gr., 9. gr. og a-lið 10. gr.

    Með bráðabirgðaákvæði er lagt til að hinn tímabundni auðlegðarskattur sem fyrst var lagður á árið 2010 verði framlengdur til ársins 2015. Jafnframt verði skatturinn lagður á í tveimur þrepum sem liður í aukinni tekjuöflun stjórnvalda. Þannig er gert ráð fyrir að af auðlegðarskattsstofni einstaklings frá og með 75 millj. kr. til og með 150 millj. kr. og samanlögðum auðlegðarskattsstofni hjóna frá og með 100 millj. kr. til og með 200 millj. kr. greiðist 1,5%. Af því sem umfram er 150 millj. kr. hjá einstaklingi og 200 millj. kr. hjá hjónum greiðist 2%. Ákvæði frumvarpsins vegna áranna 2011, 2012, (2013 og 2014) koma í stað ákvæðis til bráðabirgða XLVI, sem ætlað var m.a. að taka til eigna í árslok 2011 og hefur því eðli máls samkvæmt ekki komið til framkvæmda og er því lagt til að það verði fellt brott í heild. Samhliða er ákvæði XXXIX sem tekur m.a. til áranna 2010 og 2011 lagað að þeim breytingum sem lagðar eru til með frumvarpinu, þannig að endurreikningur vegna ársins 2010 fari fram á grundvelli þess ákvæðis samhliða álagningu einstaklinga 2012 og þau ákvæði sem ætlað var að taka til eigna í árslok 2011 verði að breyttu breytanda felld brott. Að öðru leyti er vísað til almennra athugasemda frumvarpsins.

Um c-lið 10. gr.

    Samkvæmt 4. og 5. tölul. A-liðar 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, hafa launþegar og þeir menn sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi heimild til að draga frá tekjuskattsstofni iðgjöld vegna öflunar viðbótartryggingaverndar samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Á þetta bæði við um tekjur launþega og reiknað endurgjald manna sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Heimilaður frádráttur frá tekjum vegna greiðslu í séreignarsjóð lífeyrissjóða eða til þeirra aðila sem heimild hafa til viðtöku iðgjalda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er að hámarki 4% af iðgjaldsstofni. Með bráðabirgðaákvæði er lagt til að á árunum 2012–2014 verði mönnum heimilað að draga að hámarki 2% viðbótariðgjald frá tekjuskattsstofni í stað 4%.

Um 11. gr.

    Í þessari grein er að finna tvenns konar breytingar á álagningu kolefnisgjaldsins sem tekið var upp árið 2010.
    Í c-lið greinarinnar er lagt til að kolefnisgjald af kolefni í eldsneyti á fljótandi formi miðist framvegis við 100% af verði losunarheimilda gróðurhúsalofttegunda á viðskiptamarkaði Evrópusambandsins. Við gildistöku laganna var fjárhæð gjaldsins fyrir árið 2010 um það bil helmingur af verðinu eins og það var þegar lögin voru samþykkt í lok árs 2009 en hækkaði svo í 75% af verði losunarheimilda á árinu 2011 með lögun nr. 164/2010, um ráðstafanir í ríkisfjármálum.
    Í a- og b-lið greinarinnar er lögð til nánari skilgreining á gjaldskyldu kolefnisgjalds til að afmarka betur skil milli kolefnis af jarðefnauppruna í fljótandi formi og föstu formi.
    Í d-lið greinarinnar er að finna tillögu um breikkun á gjaldstofni kolefnisgjalds frá og með árinu 2013, þannig að gjaldtakan nái einnig til kola og koks og vara sem innihalda kol og koks, svo sem rafskauta og skyldra vara, auk tillögu um gjaldhlutfallið. Lagt er til að fjárhæð kolefnisgjalds taki mið af kolefnisinnihaldi þessara vöruflokka, þ.e. miðað er við að kol og koks séu með 75% kolefnisinnihald en rafskaut og deig til rafskautagerðar innihaldi 85% kolefni. Miðað er við að verð á losunarheimildum sé 8 kr. fyrir hvert kíló kolefnis og því er lagt til að gjaldið verði fyrst um sinn 50% af því verði eða 4 kr. á hvert kíló kolefnis. Miðað við framangreind kolefnishlutföll er gjaldið annars vegar 3 kr. fyrir kol og koks en hins vegar 3,4 kr. fyrir hvert kíló rafskauta. Lagt er til að gjaldið leggist á tilgreind tollskrárnúmer sem innihalda vörur sem annaðhvort eru kol eða koks eða vörur sem búnar eru til úr kolum eða koksi. Þau tollskrárnúmer eru: 2701.1100 sem inniheldur gljákol, 2701.1200 sem inniheldur bikkennd steinkol, 2702.1900 sem inniheldur önnur steinkol en að framan eru nefnd, 2701. 2000 sem inniheldur töflur, völur og áþekkt fast eldsneyti, 2702.1000 sem inniheldur brúnkol, mulin eða ómótuð, 2702.2000 sem inniheldur mótuð brúnkol, 2704.0000 sem inniheldur koks, 3801.3000 sem inniheldur kolefniskennt deig í rafskaut, 8545.1100 sem inniheldur rafskaut fyrir bræðsluofna og 8545.1900 sem inniheldur önnur rafskaut. Viðbótartekjur ríkissjóðs af breikkuninni eru áætlaðar um 1,5 milljarðar kr. á árinu 2013. Um frekari skýringar er vísað til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 12. og 13. gr.

    Lagt er til að almennt vörugjald af bensíni hækki um 0,6 kr. á hvern lítra, úr 23,86 kr. í 24,46 kr., og að sérstakt vörugjald af blýlausu bensíni hækki um 0,96 kr. á hvern lítra, úr 38,55 kr. í 39,51 kr. Einnig er lagt til að sérstakt vörugjald á hvern lítra af öðru bensíni hækki um 1,02 kr. á hvern lítra, úr 40,85 kr. í 41,87 kr. Þessi hækkun á bensíngjöldum nemur 2,5% en almenn viðmiðun við verðlagsuppfærslu krónutölugjalda í ársbyrjun 2012 er 5,1%. Skýringa á minni hækkun og þar með lækkun að raungildi er að hluta til að leita í tæplega þriðjungshækkun kolefnisgjalds og að hluta til í hækkun heimsmarkaðsverðs á eldsneyti eins og nánar er fjallað um í almennum athugasemdum. Hlutur vörugjalda er nú um 26,5% í útsöluverði bensíns, sem er lágt í sögulegu samhengi. Sé kolefnisgjald og virðisaukaskattur tekinn með í reikninginn er heildarhlutdeild skatta í útsöluverðinu enn fremur lægri um þessar mundir en hún hefur verið um árabil, að undanskildu nokkurra mánaða tímabili á árinu 2008, eða um 48,5% fyrir bensín.

Um 14.–16. gr.

    Með greinunum eru lagðar til tvenns konar breytingar, þ.e. gjaldtaka á steinolíu og hækkun á olíugjaldi samkvæmt gildandi lögum.
    Gerð er tillaga um að olíugjald verði lagt á steinolíu með sama hætti og olíugjald er lagt á gas- og dísilolíu. Einnig er lagt til að gjaldskyldan verði nánar skilgreind með tilvísun til vara sem flokkast í tollskrárnúmerin 2710.1911, 2710.1912 og 2710.1919. Í númerið 2710. 1911 fellur steinolía (ljósasteinolía), í númerið 2710.1912 fellur þotueldsneyti og í númerið 2710.1919 fellur önnur steinolía. Það er eldsneyti úr síðarnefnda tollskrárnúmerinu sem fyrst og fremst hefur verið notað á ökutæki. Til þess að komast hjá því að olíugjald verði lagt á steinolíu sem notuð er á loftför er jafnframt lagt til að undanþágu þess efnis verði bætt við 10. gr. laganna. Gert er ráð fyrir því að um gjaldfrjálsa notkun steinolíu annars vegar sem og litun hennar hins vegar gildi sömu reglur og varðandi gas- og dísilolíu, sbr. 4. gr. gildandi laga.
    Í b-lið 14. gr. er tillaga um 2,5% hækkun á olíugjaldi, úr 54,88 kr. á hvern lítra í 56,25 kr. Hlutur vörugjalda er nú um 23,3% í útsöluverði dísilolíu, sem er lágt í sögulegu samhengi. Sé kolefnisgjald og virðisaukaskattur tekinn með í reikninginn er heildarhlutdeild skatta í útsöluverðinu enn fremur lægri um þessar mundir en hún hefur verið um árabil, að undanskildu nokkurra mánaða tímabili á árinu 2008, eða um 45,5% fyrir dísilolíu. Að öðru leyti er vísað til athugasemda við 12.–13. gr. hér að framan.

Um 17. gr.

    Í a- og b-lið greinarinnar er lagt til að fjárhæð almenns kílómetragjalds og sérstaks kílómetragjalds hækki um 5,1% í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2012. Fjárhæð almenns og sérstaks kílómetragjalds var síðast breytt 18. desember 2010 þegar gjaldið var hækkað um 4% með lögum nr. 164/2010.

Um 18. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um það hvernig nýtt kílómetragjald og sérstakt kílómetragjald skuli reiknað við áætlun og ákvörðun samkvæmt álestri.

Um 19. gr.

    Í tillögu greinarinnar felst að fjármálafyrirtæki sem falla undir lög nr. 73/2011, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, skulu greiða viðbótarskatt í fyrirframgreiðslu sem nemur 0,0875% af skattstofni eins og hann er ákvarðaður í lögunum til þess að fjármagna hluta af sérstakri vaxtaniðurgreiðslu með sama hætti 2012 eins og 2011. Til frekari skýringa á tillögu ákvæðisins er vísað til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 20.–22. gr.

    Með greinunum er lagt til að fjárhæð áfengisgjalds og tóbaksgjalds verði hækkuð um 5,1% í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2012.

Um 23. gr.

    Sama skýring á við hér um bifreiðagjaldið og um hækkun áfengisgjalds og tóbaksgjalds, sbr. athugasemd við 17.–19. gr., sem lagt er til að hækki um 5,1% milli áranna 2011 og 2012.

Um 24. gr.

    Hér er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra samkvæmt lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, verði hækkað og nemi 9.182 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2012 vegna tekna ársins 2011. Engin hækkun var á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra frá árinu 2010 til ársins 2011 eins og gert hafði verið ráð fyrir þar sem gildistökuákvæði í lagasetningu reyndist ekki vera rétt. Þess í stað er gjaldið hækkað fyrir árið 2012 úr 8.400 kr. í 9.180 kr. eða um 9,3%. Þar af eru 4% vegna verðlagshækkunar milli 2010 og 2011 og 5,1% vegna hækkunar milli 2011 og 2012.

Um 25. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að fjárhæð sérstaks útvarpsgjalds verði hækkuð um 900 kr., eða 5,1%, og nemi 18.800 kr. á hvern gjaldanda í stað 17.900 kr. samkvæmt gildandi lögum. Fjárhæð gjaldsins var til hægðarauka rúnnuð af við hundraðið.

Um 26. gr.

    Í greininni er lagt til að föst krónutala sóknargjalda lækki úr 698 kr. á mánuði samkvæmt núgildandi lögum í 677 kr. fyrir árið 2012. Um frekari skýringar er vísað til almennra athugasemda um breytinguna.

Um 27. gr.

    Í greininni er lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2012 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar muni hækka um 56,7 millj. kr. að teknu tilliti til launa- og verðlagsuppreiknings, en lækki um 38,9 millj. kr. án uppreiknings. Með sama hætti er lagt til að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs muni skerðast um 2,3 millj. kr. á árinu.

Um 28. gr.

    Hér er lagt til að framlengdur verði til ársloka 2012 gildistími bráðabirgðaákvæða sem heimila niðurfellingu stimpilgjalds af skilmálabreytingum fasteignaveðskuldabréfa og bílalána hjá einstaklingum. Samkvæmt gildandi bráðabirgðaákvæðum hefði heimildin runnið út í lok þessa árs.

Um 29. gr.

    Lög nr. 86/2007, um skattlagningu kaupskipaútgerðar, tóku gildi 1. janúar 2008, en þau kveða á um tvenns konar form ríkisaðstoðar við kaupskipaútgerðir, í fyrsta lagi svokallaðan tonnaskatt þar sem útgerðarfélög geta valið milli tekjuskatts á hagnað og skatts sem ræðst af flutningsrými kaupskipaflotans, í öðru lagi ríkisaðstoð við hlutafélög og einkahlutafélög sem gera út kaupskip skráð á íslenska alþjóðlega skipaskrá. Það markmið laganna að gera íslenska alþjóðlega skipaskrá aðlaðandi fyrir kaupskipaútgerðir, með tilheyrandi umsvifum hér á landi hefur ekki náð fram að ganga í ljósi þess að ekkert félag hefur enn óskað eftir skráningu.
    Í samræmi við reglur EES-samningsins var Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) tilkynnt um áformaða ríkisaðstoð. Þann 8. júlí 2009 komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að ríkisstyrkir vegna kaupskipaútgerðar á Íslandi væru ólögmætir ríkisstyrkir skv. 61. gr. EES-samningsins.
Með vísan til framangreinds er því lagt til að lögin verði felld brott.

Um 30. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum
(aðgerðir í skattamálum, verðlagsbreytingar o.fl.).

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum er varða tekjuöflun ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2012. Breytingunum má skipta í fjóra meginflokka. Í fyrsta lagi eru breytingar sem tengjast yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga í vor. Í öðru lagi eru sérstakar tekjuöflunaraðgerðir sem liður í stefnu stjórnvalda um jafnvægi í ríkisfjármálum á næstu árum. Í þriðja lagi eru hækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Jafnframt eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á ýmsum lögum, meðal annars til lækkunar á ríkisútgjöldum í samræmi við sömu markmið um jafnvægi í ríkisfjármálum.
    Vegna aðgerða stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga á árinu er í fyrsta lagi lagt til að sá hluti tryggingagjalds sem rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs, atvinnutryggingagjald, verði lækkaður úr 3,81% í 2,45%. Á móti er lagt til að almennt tryggingagjald verði hækkað um 0,45%. Hækkunin skiptist í tvennt, annars vegar 0,25% hækkun vegna aukinna útgjalda ríkissjóðs til almannatrygginga. Hins vegar er 0,20% hækkun á mörkuðum tekjum Fæðingarorlofssjóðs, eða úr 1,08% í 1,28% af tekjustofni tryggingagjalds frá ársbyrjun 2012 til ársloka 2014. Samanlagt hafa þessar breytingar á tryggingagjaldi í för með sér 0,91% lækkun á skatthlutfallinu og tæplega 8 milljarða króna árlegt tekjutap fyrir ríkissjóð.
     Í öðru lagi er lagt til að gjald í Ábyrgðasjóð launa verði hækkað um 0,05% af tryggingagjaldsstofni frá ársbyrjun 2012 tímabundið til þriggja ára til að ná jöfnuði milli tekna og gjalda hjá sjóðnum. Gjaldið verður því 0,3% og er miðað við það að hækkunin vegi upp uppsafnaðan halla á sjóðnum á síðustu árum, sem var tæpir 1,6 milljarðar króna um síðustu áramót. Þannig er gert ráð fyrir að hækkun gjaldsins skili aukalega rúmum 500 m.kr. á ári næstu þrjú árin.
    Í þriðja lagi er lagt til að afdráttarskattur af vaxtatekjum aðila með takmarkaða skattskyldu, þ.e. aðila búsettra erlendis sem hafa vaxtatekjur hér á landi, verði lækkaður í 10%. Skatturinn er í dag 20% fyrir einstakling og 18% fyrir lögaðila. Ýmiss álitamál hafa komið upp vegna þessarar skattlagningar, bæði varðandi túlkun og framkvæmd þess. Jafnframt liggur fyrir að íslensk fyrirtæki eru í einhverjum mæli að taka á sig skattinn vegna ákvæða í lánasamningum sem tryggja lánveitanda vaxtatekjur án afdráttarskatta. Skatturinn verður í slíkum tilvikum eins og hver annar viðbótarkostnaður vegna lántökunnar. Í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga var boðuð lagabreyting þannig að skatturinn nái einungis til vaxtatekna af íslenskum verðbréfum en ekki til erlendra lánasamninga. Vinnu við þetta lagaákvæði er ekki lokið og er því lagt til að skatturinn verði lækkaður verulega með það fyrir augum að endurskoðað og breytt ákvæði taki gildi frá og með árinu 2013. Skatturinn hefur skilað ríkissjóði um 3 milljarða króna tekjum á ári frá því að skatturinn var tekinn upp og má því búast við að lækkun tekna verði um 1,5 millarðar króna vegna lægra skatthlutfalls.
    Sérstakar tekjuöflunaraðgerðir í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um jafnvægi í ríkisfjármálum gera ráð fyrir því í fyrsta lagi að frádráttur iðgjalda til aukningar lífeyrisréttinda verði lækkaður úr 4% í 2% á árunum 2012–2014. Áætlanir gera ráð fyrir því að beinar tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti aukist um allt að 1,4 milljarða króna á árinu 2012 vegna þessara breytinga en einnig má búast við einhverjum óbeinum áhrifum af auknum veltusköttum vegna hærri ráðstöfunartekna.
    Í öðru lagi er lagt til að auðlegðarskattur verði framlengdur til ársins 2015 og hann verði lagður á í tveimur þrepum, þ.e. 1,5% eins og verið hefur og 2% af fjárhæðum umfram 150 m.kr. hjá einstaklingi og 200 m.kr. hjá hjónum. Breytingin hækkar einungis skatt hjá þeim sem lenda í hærra skattþrepinu. Miðað er við að auðlegðarskatturinn skili 1,5 milljörðum króna í viðbótartekjur.
    Í þriðja lagi er lagt til að kolefnisgjald af fljótandi jarðefnaeldsneyti hækki úr 75% í 100% af viðmiðunarverði losunarheimilda á viðskiptamarkaði Evrópusambandsins. Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessari hækkun eru metnar 800 m.kr. á árinu 2012.
    Í fjórða lagi er lagt til að almennt og sérstakt vörugjald á bensín, svo og olíugjald, hækki um 2,5%. Gert er ráð fyrir að hækkunin skili ríkissjóði aukalega 400 m.kr. á ári. Þá er auk þess lagt til að almennt og sérstakt kílómetragjald hækki um 5,1% og er gert ráð fyrir að sú hækkun skili ríkissjóði 30 m.kr. í viðbótartekjur.
    Í fimmta lagi er lagt til að ákvæði um sérstakan 0,0875% skatt á fjármálafyrirtæki til fjármögnunar á sérstökum vaxtaniðurgreiðslum verði framlengdur um eitt ár. Stofn til sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki eru heildarskuldir fyrirtækjanna eins og í núgildandi lögum. Gert er ráð fyrir að 1. nóvember 2012 komi til fyrirframgreiðsla skattsins vegna álagningar 2013 á tekjur ársins 2012. Gert er ráð fyrir að fjármögnun á hluta vaxtaniðurgreiðslunnar á árinu 2012 af hálfu fjármálafyrirtækjanna verði 2,1 milljarður króna eins og á þessu ári en ekki liggur enn fyrir hvernig hlutur lífeyrissjóðanna að fjárhæð 1,4 milljarðar króna verður fjármagnaður.
    Hækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám er 5,1% í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins með það að markmiði að fjárhæðirnar haldi raungildi sínu frá fyrra ári. Í fyrsta lagi er lagt til að gjald á áfengi og tóbak hækki um 5,1% og er gert ráð fyrir að þessi hækkun skili 760 m.kr. tekjuauka fyrir ríkissjóð á ári og þá er gert ráð fyrir 360 m.kr. viðbótartekjum vegna hækkunar á bifreiðagjaldi um sama hlutfall.
    Í öðru lagi er lagt til að fjárhæð sérstaks útvarpsgjalds hækki um 900 kr. og verði 18.800 kr. á hvern gjaldanda í stað 17.900 kr. á árinu 2012. Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessari hækkun eru áætlaðar rúmlega 200 m.kr.
    Í þriðja lagi er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra verði hækkað um 5,1% og verði 9.182 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2012 vegna tekna ársins 2011. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði aukalega 90 m.kr.
    Í fjórða lagi er lagt til að sóknargjöld lækki úr 698 kr. á mánuði samkvæmt núgildandi lögum í 677 kr. fyrir árið 2012. Með breytingunni er gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins á árinu 2012 lækki um 55,8 m.kr. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs lækki um 16,1 m.kr. vegna Jöfnunarsjóðs sókna, en framlag í sjóðinn reiknast sem 18,5% af gjöldum er renna til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt lögum um sóknargjöld, og vegna Kirkjumálasjóðs, sem reiknast á sama hátt sem 11,3% af sóknargjöldum. Þessi breyttu viðmið fyrir framlögum til safnaða og trúfélaga eru liður í útfærslu á aðhaldsmarkmiðum innanríkisráðuneytisins vegna frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2012.
    Í fimmta lagi er lagt til að framlag ríkissjóðs á árinu 2012 til þjóðkirkjunnar muni hækka um 56,7 m.kr. að teknu tilliti til launa- og verðlagsuppreiknings, en lækki um 38,9 m.kr. miðað við verðlag fjárlaga 2011. Með sama hætti er lagt til að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs muni skerðast um 2,3 m.kr. á árinu. Þetta er gert með tillögu um að framlag til þjóðkirkjunnar samkvæmt lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar verði bundið við fasta krónutölu í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 en taki ekki mið af reiknilíkani sem framlögin hafa verið miðuð við. Um er að ræða sambærileg aðhaldsmarkmið og sett hafa verið í almennri stjórnsýslu og þjónustu á vegum ríkisins í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012.
    Samhliða framantöldum breytingum eru lagðar til nokkrar minni breytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að tekjuviðmiðun milli skattþrepa verði hækkuð í samræmi við almennar launabreytingar á næsta ári, eða 3,5%, í stað sjálfvirkar hækkunar í takt við launavísitölu síðustu 12 mánaða og er áætlað að tekjuauki vegna þess geti numið allt að 400 m.kr. Í öðru lagi er lagt til að minni háttar breytingar verði gerðar á barnabótum og vaxtabótum er snúa að framkvæmd en ekki efnislegar breytingar. Ekki er gert ráð fyrir að þessar breytingar hafi áhrif á greiðslu vaxtabóta, en gert er ráð fyrir að útgreiðsla vegna barnabóta geti lækkað lítillega við breytinguna, eða nálægt 100 m.kr. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að undanþága frá greiðslu stimpilgjalds þegar skilmálum í fasteignaveðskuldabréfum er breytt eða ný veðskuldabréf eru gefin út til uppgreiðslu vanskila verði framlengd. Ekki er gert ráð fyrir því að það hafi teljandi áhrif á tekjur ríkissjóðs. Í fjórða lagi er lagt til að lög um skattlagningu kaupskipaútgerðar, er tóku gildi 1. janúar 2008, verði felld brott. Frá gildistöku laganna hefur ekkert útgerðarfélag óskað eftir því að vera skattlagt samkvæmt lögunum þannig að brottfall laganna hefur engin áhrif á tekjur ríkissjóðs. Loks er í fimmta lagi lagt til að olíugjald verði lagt á steinolíu með sama hætti og gjald er lagt á gas- og dísilolíu en áætlað er að tekjuauki ríkissjóðs vegna þess geti orðið um 60 m.kr. ári.
    Þær ráðstafanir sem lagt er til að gripið verði til í þessu frumvarpi gera ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs versni um rúmar 900 m.kr. frá því sem hefði orðið að óbreyttu sé eingöngu litið til ársins 2012. Sú niðurstaða er í fullu samræmi við þær forsendur sem settar eru fram í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár. Í þessu samhengi er þó rétt að hafa í huga áform stjórnvalda um upptöku nýs fjársýsluskatts og hækkun veiðigjalds sem reiknað er með að skili ríkissjóði nálægt 6 milljörðum króna í viðbótartekjur á árinu 2012. Sjálfstæð frumvörp verða lögð fram vegna þeirrar tekjuöflunar.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að kostnaðarauki í skattkerfinu við að koma þessum breytingum í framkvæmd verði óverulegur og muni rúmast innan fjárheimilda ráðuneytisins.