Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 238. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 244  —  238. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um þjóðgarð við Breiðafjörð norðanverðan.


Flm.: Mörður Árnason, Róbert Marshall.



    Alþingi felur umhverfisráðherra að undirbúa stofnun þjóðgarðs við norðanverðan Breiðafjörð, á svæðinu milli Þorskafjarðar og Vatnsfjarðar. Ráðherra lýsi undirbúningi sínum fyrir Alþingi í formi lagafrumvarps eða skýrslu fyrir árslok 2011.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var fyrst lögð fram á 139. löggjafarþingi (þskj. 1088, 623. mál) og vakti talsverða athygli, ekki síst í héraði, en komst þá ekki til umræðu.
    Að undanteknum Hornströndum er ekki mikið um náttúrufriðlönd á Vestfjarðakjálkanum og þar er engan þjóðgarð að finna. Fá svæði henta jafnvel fyrir þjóðgarð og landið á milli Þorskafjarðar og Vatnsfjarðar við norðanverðan Breiðafjörð, sem sjálfur nýtur sérstakrar verndar (lög nr. 54/1995) ásamt eyjum, hólmum, skerjum og fjörum.
    Landsvæði þjóðgarðsins sem hér er lagður til nær frá vestanverðum Þorskafirði um Djúpafjörð, Gufufjörð, Kollafjörð, Kvígindisfjörð, Skálmarfjörð, Vattarfjörð, Kerlingarfjörð, Mjóafjörð, Kjálkafjörð og Vatnsfjörð, þar sem þegar er friðland, og svo langt upp í dali og hálendi að norðan sem hæfa þykir. Um er að ræða suðurhluta hinna gömlu Gufudalssveitar og Múlasveitar, nú í Reykhólahreppi sem nær yfir alla hina fornu Austur-Barðastrandarsýslu, og austasta hluta Barðastrandarhrepps gamla í vestursýslunni, nú í Vesturbyggð.
    Eðlilegt er að helstu starfsstöðvar þjóðgarðsins, gestamóttaka og fræðslusetur séu annars vegar vestan garðsins, í Flókalundi og á Brjánslæk, með ferjusamgöngum til Flateyjar og Stykkishólms, og hins vegar að austanverðu í Bjarkalundi og á Reykhólum, en þaðan og frá Stað á Reykjanesi eru einnig farnar ferðir út á Breiðafjörð. Þá er stutt á Látrabjarg, á syðstu firði hinna eiginlegu Vestfjarða, og yfir á Strandir.
    Náttúrufar á svæðinu á milli Þorskafjarðar og Vatnsfjarðar er afar sérstætt, þröngir firðir og dalir, og hálendi milli fjarða og ofan dala. Gróðurfar er fjölbreytt, kjarrgróður víða mikill, aðallega birki, gulvíðir og loðvíðir, skógarnir fagurlega „skreyttir reynitrjám“ sem setja svip á kjarrið og rísa upp úr birkinu með ljósgrænu laufi á sumrin og stórum hvítum blómklösum. Víðáttumestur þessara skóga er Teigsskógur, eitt mesta samfellt skóglendi Vestfjarða. Blómgróður er mikill enda beit sauðfjár lítil sem engin. Sjaldgæfar jurtir eru til dæmis krossjurt, ferlaufungur og skollaber. Firðirnir frá austri til vesturs eru allbreytilegir, sumir djúpir og langir en aðrir stuttir og grunnir, og á milli þeirra ýmist fjöll eða hálsar, svo sem Hjallaháls og Klettsháls.
    Jarðmyndanir eru fjölbreyttar á svæðinu og eru þar þekktir fundarstaðir steingervinga og surtarbrands en að auki er töluvert um kristalla, t.d. geislasteina.
    Berjaland er geysimikið, aðalbláber, bláber, krækiber og hrútaber, og mjög farið til berja á haustin. Á þeim tíma er litadýrð í hlíðum, rauðir litir reynis og bláberjalyngs í bland við gulan blæ af birki og víðitegundum en skærir appelsínurauðir litir skógviðarbróður og fjalldrapa kóróna dýrðina. Þótt Barmahlíð sé austan fyrirhugaðs þjóðgarðs á lýsing Jóns Thoroddsens vel við um svæðið allt:

Hlíðin mín fríða
hjalla meður græna
og blágresið blíða
og berjalautu væna,
á þér ástaraugu
ungur réð eg festa,
blómmóðir besta!

Veðursæld er mikil í fjörðunum enda gott skjól fyrir norðanáttum og lega landsins móti suðri lætur vel við sól.
    Fuglalíf er mikið. Af landfuglum ber rjúpuna hæst og er hér óvenjulega algeng – en henni fylgir svo fálkasveit. Ernir verpa og er byggð þeirra óvenju þétt. Í eyjunum eru stórar byggðir teistu, lunda, toppskarfs og dílaskarfs. Þá er nokkuð um hinn norræna hvítmáv sem mjög hefur fækkað að undanförnu, og má meðal annars finna byggðir hans í Skálmarnesmúla. Vor og haust er mikil umferð farfugla um svæðið, og koma rauðbrystingar, sanderlur og tildrur við þúsundum saman á leið til Grænlands.
    Í verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn yrðu þessi náttúruverðmæti tryggð til frambúðar og bæði almenningi og fræðimönnum tryggður að þeim aðgangur.
    Útivist og náttúruskoðun hefur verið að eflast smám saman á þjóðgarðssvæðinu að undanförnu. Göngufólk er að uppgötva þetta land þótt enn sé lítið um merktar gönguleiðir, en síðustu ár hafa firðirnir einnig orðið kjörsvæði kajakræðara. Margir koma til berjatínslu og töluvert er um rjúpnaskyttur á haustin. Nokkuð er einnig um áhugamenn um sjaldgæfar steintegundir. Við stofnun þjóðgarðs er sjálfsagt að byggja á þessum gestum og sjá fyrir þörfum þeirra með fræðslu og leiðbeiningum, aðstöðu og regluverki sem hjálpar hverjum hópi að njóta náttúru og útiveru án þess að einn spilli fyrir öðrum.
    Þjóðgarður í fjörðunum við Breiðafjörð norðanverðan eykur áhuga á ýmsum friðlöndum og náttúruundrum í næsta nágrenni. Þar er helst að nefna Breiðafjarðareyjar og fuglasvæði í Borgarlandi og við Reykhóla, vestur af þjóðgarðinum Látrabjarg og Rauðasand, og síðan syðsta hluta hinna eiginlegu Vestfjarða, ekki síst Arnarfjörð, þar sem meðal annars stendur yfir uppbygging á Hrafnseyri. Að sjálfsögðu tengist þjóðgarðurinn síðan sívaxandi ferðasvæði í Dölum og um allt Snæfellsnes.
    Núverandi atvinnurekstur á svæðinu er einkum búrekstur á um tug býla, og getur allur haldið áfram við stofnun þjóðgarðs með sérstökum samningum við bændur. Hefðbundin nýting lands og sjávar eykur gildi þjóðgarðsins fyrir ferðafólk, og þjóðgarðsstofnun gæti styrkt þar hefðbundinn búrekstur sem ekki síst byggist á hlunnindabúskap, fuglatekju, æðarrækt og sjósókn. Þjóðgarði fylgir einnig atvinnuuppbygging til framtíðar. Þar þarf starfsfólk og þjónustu við ferðamenn í þjónustu- og fræðslumiðstöðvum. Núverandi verslunarrekstur eflist, svo sem í Bjarkalundi, Reykhólum, Flókalundi og á Brjánslæk. Einnig er auðséð að byggðin í Flatey mundi njóta góðs af og á Patreksfirði ykjust komur ferðafólks að sér sækja þjónustu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Samgöngur – jarðgöng.

    Mikilsvert er að samgöngum um þjóðgarðssvæðið sé gefinn sérstakur gaumur við undirbúning þjóðgarðsins og haft um það samráð við samgönguyfirvöld. Samgöngubætur eru brýnar á leiðinni úr Dölum og til þorpanna þriggja við syðstu firði vestra, en þess verður að gæta að framkvæmdir spilli ekki náttúrugæðum. Við stofnun þjóðgarðs þarf að leysa til frambúðar vanda sem nú er uppi í þessum efnum, einkum austast á fyrirhuguðu þjóðgarðssvæði.
    Sem kunnugt er var svokallaðri B-leið fjarðaþverana og eyðileggingar Teigsskógar við Þorskafjörð hafnað bæði í undirrétti og fyrir Hæstarétti. Fræðimenn og stofnanir sem láta sér annt um umhverfismál voru sammála um verndargildi Teigsskógar og fjarðanna sem átti að þvera, Djúpafjarðar og Gufufjarðar, þar á meðal Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Umhverfis- og náttúruverndarfélög voru einnig sammála að vernda ætti svæðið, svo sem Landvernd, Fuglaverndarfélag Íslands, Náttúruvaktin, Náttúruverndarsamtök Íslands og Græna netið. Skógrækt ríkisins tók svo til orða um áhrif framkvæmdanna á Teigsskóg að þar væri í uppsiglingu „mesta samfellda skógareyðing sem átt hefur sér stað vegna framkvæmda hér á landi í seinni tíð“ (bréf til Skipulagsstofnunar 30. nóvember 2005).
    Náttúruvaktin lét kanna vegabætur með öðrum hætti en rætt var um. Þar var skoðuð sú leið að bæta núverandi veg og leggja nýjan veg um Ódrjúgsháls líkt og Vegagerðin hafði upphaflega lagt til, en fara milli Þorskafjarðar og Djúpafjarðar í göngum undir Hjallaháls og milli Gufufjarðar og Kollafjarðar í göngum undir Gufudalsháls.
    Nú hefur vegurinn út Kollafjörð að austan verið byggður upp og má þá heita að göng undir Gufudalsháls séu úr sögunni í bili. Hugmyndin um göng undir Hjallaháls (2,8 km) er hins vegar í fullu gildi. Þau mundu losa vegfarendur við verulegan farartálma á vetrum en kostnaðurinn væri minni en við B-leiðina, og miklum mun minni þegar tekið er tillit til náttúruverðmæta sem tapast við leið B. Hér er á ferð frambúðarkostur í samgöngum um svæðið og fellur vel að þjóðgarðsrekstrinum.
    Innanríkisráðherra hefur nú tekið undir hugmyndina um göng undir Hjallaháls, og má vænta þess að Alþingi setji þau bráðlega á samgönguáætlun.

Flokkun þjóðgarðsins.
    Við náttúruvernd er almennt nýtt flokkun Alþjóða-náttúruverndarsamtakanna, IUCN. Vel kæmi til greina að flokka verndarsvæðið við norðanverðan Breiðafjörð sem þjóðgarð af flokki 1A, sem hérlendis eru oft kölluð friðlönd, en einnig er rétt að kanna kost IV ( vistkerfi) – sem skilgreind eru sem verndarsvæði með afnotastýringu. Ekkert slíkt svæði er nú rekið á Íslandi en segja má að hlutar Vatnajökulsþjóðgarðs dragi dám af þessum flokki, sbr. 2. gr. laganna um hann (lög nr. 60/2007) þar sem gefinn er kostur á samningum um sjálfbæra nýtingu samfara vernd og útivist.