Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 255. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 265  —  255. mál.
Frumvarp til lagaum brottfall laga um Bankasýslu ríkisins, nr. 88/2009.

Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Ragnheiður E. Árnadóttir,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson,
Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Jón Gunnarsson,
Kristján Þór Júlíusson, Vigdís Hauksdóttir, Lilja Mósesdóttir.


1. gr.

    Bankasýsla ríkisins, sem starfar á grundvelli laga nr. 88/2009, skal lögð niður.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla brott lög um Bankasýslu ríkisins, nr. 88/2009.

Greinargerð.

    Frumvarp sama efnis var áður lagt fram á 139. löggjafarþingi.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður. Bankasýslunni var komið á fót með lögum nr. 88/2009 og var ætlað að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum og leggja þeim til fé fyrir hönd ríkisins á grundvelli heimildar í fjárlögum. Fram kemur í skýrslu um starfsemi Bankasýslu ríkisins 2011 að stofnuninni hafi með bréfi fjármálaráðherra frá 4. janúar 2010 verið falið að fara með eignarhluti ríkisins í nýju bönkunum þremur en þegar til kom varð niðurstaða uppgjörs sú í tilviki Íslandsbanka og Arion banka að eignarhaldið var að mestu fært til viðkomandi skilanefnda gömlu bankanna sem fyrir hönd kröfuhafa tóku við því sem endurgjald fyrir yfirfærðar eignir gömlu bankanna. Samkvæmt því heldur stofnunin nú utan um 5% eignarhlut í Íslandsbanka, 13% eignarhlut í Arion banka en 81,33% í Landsbankanum. Að auki fer Bankasýsla ríkisins nú með eignarhlut ríkissjóðs í nokkrum sparisjóðum, nánar tiltekið Sparisjóði Norðfjarðar, Sparisjóði Bolungarvíkur, Sparisjóði Vestmannaeyja, Sparisjóði Svarfdæla og Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis. Fjármálaráðherra fól ekki stofnuninni að fara með eigendahlutinn í Byr og Spkef eins lög um stofnunina gera ráð fyrir.
    Af þessu má ljóst vera að hlutverk stofnunarinnar er ekki jafnumfangsmikið og ráðgert var í fyrstu og auk þess hafa nýliðnir atburðir, þ.e. afsögn stjórnar stofnunarinnar vegna ráðningar Páls Magnússonar frá 24 október sl., sýnt svo um munar að pólitísk afskipti af málefnum stofnunarinnar eru hvergi nærri úr sögunni þvert á tilgang hennar sem var að færa ákvarðanatöku fjær pólitísku valdi og ýta undir faglegar ákvarðanir í málefnum banka. Stofnunin er því fyrst og fremst dýrt skálkaskjól fyrir ráðherra sem eðlilegra væri að færi sjálfur með eignarhlut ríkisins, eins og venja er þegar ríkið á fyrirtæki í heild eða að hluta.
    Dæmi eru um að ekkert hafi verið gert með tillögur fyrrverandi forstjóra stofnunarinnar, t.d. í málefnum sparisjóðanna. Eins hefur stofnunin látið hjá líða að gera athugasemdir við verklag við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja sem á stundum hefur verið í hrópandi ósamræmi við sameiginlegar reglur fjármálafyrirtækja sem viðskiptanefnd þingsins hafði aðkomu að, sbr. lög nr. 107/2009, sem og eigendastefnu ríkisins og fyrirheit sem gefin eru í lögum um Bankasýslu ríkisins hvað varðar mikilvægi gagnsærrar ákvarðanatöku og góða stjórnsýslu- og viðskiptahætti.
    Landsbankinn, þ.e. ríkisbanki, seldi nokkur stórfyrirtæki til Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna. Einhver mundi ætla að stofnun sem á að hafa eftirlit með ríkisbankanum hefði gert athugasemdir við að hann færi ekki eftir eigendastefnu ríkisins en það er öðru nær. Í fréttum kom fram að forstöðumaður Bankasýslunnar hefði sagt að á heildina litið væri sala Landsbankans á eignarhaldsfélaginu Vestiu til lífeyrissjóðanna jákvæð þótt söluferlið hefði ekki verið gagnsætt. Málið horfði öðruvísi við af því að lífeyrissjóðir keyptu. Fram kom á fundi í viðskiptanefnd að Bankasýslan hefði verið með í ráðum um söluna en farið var fram hjá verklagsreglunum með samþykki stofnunarinnar.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir að tæpar 76 millj. kr. fari í rekstur Bankasýslunnar. Það væri hægt að spara þá peninga með því að leggja stofnunina niður en eins og að framan getur standa til þess málefnaleg rök.