Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 11. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 291  —  11. mál.
Svarefnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur
um uppgjör gengistryggðra lána einstaklinga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Um hversu háa fjárhæð hafa lán einstaklinga verið færð niður í kjölfar setningar laga nr. 151/2010, um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu? Svar óskast sundurliðað eftir fjármálafyrirtækjum og tegund lána, þ.e.:
                  a.      bílalánum,
                  b.      eigna- og kaupleigusamningum,
                  c.      húsnæðislánum,
                  d.      öðrum lánum.
     2.      Hver er fjárhæð endurútreiknaðra vaxta fjármálafyrirtækja vegna sömu laga, sundurliðað samkvæmt sömu forsendum?
     3.      Um hversu háa fjárhæð hafa lánin verið færð niður að teknu tilliti til endurútreiknaðra vaxta, sundurliðað samkvæmt sömu forsendum?


    Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands, eftir atvikum, safna upplýsingum frá eftirlitsskyldum aðilum í samræmi við það eftirlitshlutverk sem þessum stofnunum er falið lögum samkvæmt.
    Í samræmi við framangreint óskaði ráðuneytið eftir því að Fjármálaeftirlitið tæki saman svar við fyrirspurninni. Hér fylgir svar eftirlitsins:
    Meginhlutverk Fjármálaeftirlitsins er að tryggja að eiginfjárhlutföll fjármálafyrirtækja séu í samræmi við reglur og kröfur eftirlitsins hverju sinni. Stærsta verkefnið er því að tryggja að eignir og skuldir fjármálafyrirtækja séu metnar á réttu virði. Þegar í ljós kom að vafi léki á lögmæti gengistryggðra lána ákvað eftirlitið að fara út í viðamikla könnun svo hægt væri að meta hver áhrifin yrðu og hvort fjármálafyrirtækin mundu áfram uppfylla reglur og kröfur eftirlitsins, kæmi til þess að gengistryggðu lánin yrðu dæmd ólögmæt. Sú fyrirspurn sem send var til fjármálafyrirtækja var með þeim hætti að greina mætti áhrifin á eigið fé fjármálafyrirtækja miðað við mismunandi útkomur hvað varðar ólögmæti og vaxtaviðmið. Endurútreikningur á gengislánum hefur hins vegar einungis áhrif á eigið fé fjármálafyrirtækja í þeim tilvikum þar sem endurútreiknað kröfuvirði er lægra en bókfært virði. Fyrirspurnin beindist því ekki að heildarlækkun á kröfuvirði gagnvart lántökum.
    Fjármálaeftirlitið hefur einbeitt sér að því að greina hvort fjármálafyrirtæki hafi fært nægilega hátt varúðarframlag í bækur sínar til að þau geti mætt mögulegri tapsáhættu með tilliti til stöðugleika fjármálakerfisins. Eftirlitið hefur ekki talið það vera forgangsverkefni að fylgjast með hversu hratt fjármálafyrirtæki gangi frá endanlegum afskriftum til viðskiptavina sinna eða hversu mikil lækkunin er frá fyrra kröfuvirði. Sökum þess hvar áhersla eftirlitsins hefur legið liggja upplýsingar ekki fyrir um það um hversu háa fjárhæð lán einstaklinga hafa verið færð niður í kjölfar setningar laga nr. 151/2010, um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu.
    Með vísan til svars Fjármálaeftirlitsins kannaði ráðuneytið hvort Seðlabanki Íslands gæti veitt upplýsingar við fyrirspurninni. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum eru ekki til gögn um niðurfærslur eftir tegund lána eða eftir einstaklingum og fyrirtækjum heldur einungis upplýsingar um hvort niðurfærslan sé almenn eða sérstök.
    Að öllu framanvirtu er ráðuneytið því miður ekki í aðstöðu til að veita fullnægjandi svar við fyrirspurninni. Þær tölur sem ráðuneytið hefur yfir að ráða eru þær fjárhæðir niðurfærslu lána sem Samtök fjármálafyrirtækja gefa út og koma fram í eftirgreindri töflu:

Heildarfjárhæð niðurfærslu, staða í lok september 2011.
Tegund láns millj. kr.
a. og b. Bílalán (eigna- og kaupleigusamningar) 38.500
c. Húsnæðislán 96.428
d. Önnur lán Upplýsingar liggja ekki fyrir
Samtals 134.928