Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 301. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 339  —  301. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978.



Flm.: Gunnar Bragi Sveinsson, Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Ásmundur Einar Daðason.


1. gr.

    Í stað orðanna „31. desember 2011“ í ákvæði II, III, V og VI til bráðabirgða í lögunum kemur: 31. desember 2012.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með lögum nr. 132/2008 voru lögfest þrjú ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald. Í ákvæði til bráðabirgða I fólst undanþága frá greiðslu stimpilgjalds, frá 7. október 2008 til 31. desember 2009, þegar skilmálum fasteignaveðskuldabréfs er breytt eða nýtt veðskuldabréf er gefið út til uppgreiðslu á fasteignaveðskuldabréfi einstaklings. Ákvæði til bráðabirgða II fól í sér undanþágu frá greiðslu stimpilgjalds af þeim hluta nýs fasteignaveðskuldabréfs sem svarar til uppreiknaðs virðis eldra skuldabréfs ásamt vanskilum ef fasteignaveðskuldabréf er endurnýjað með nýju skuldabréfi sem komi í stað hins eldra.
    Í ákvæði til bráðabirgða III fólst undanþága frá greiðslu stimpilgjalds í þeim tilvikum að Íbúðalánasjóður nýtir heimild samkvæmt neyðarlögunum svokölluðu (lögum nr. 125/2008) til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækis tryggð með veði í húsnæði.
    Með lögum nr. 130/2009, um ráðstafanir í skattamálum, voru ákvæði til bráðabirgða II og III framlengd til 31. desember 2011. Einnig var lögfest nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að frá 1. desember 2009 til 31. desember 2010 skyldu breytingar á skilmálum bílalána einstaklinga vera undanþegnar stimpilgjaldi svo fremi að sömu aðilar væru að bílaláninu og hinu nýja skjali. Með lögum nr. 165/2010, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, var gildistími framangreindra ákvæða til bráðabirgða framlengdur til 31. desember 2011.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að gildistíminn verði framlengdur um eitt ár í viðbót, til 31. desember 2012. Í þessu sambandi má benda á að nýlega hefur verið lögfest heimild fyrir Íbúðalánasjóð til að veita óverðtryggð lán til fasteignakaupa, sbr. lög nr. 134/2011, um breytingu á lögum um húsnæðismál. Ljóst er að það mun taka tíma fyrir sjóðinn að útfæra veitingu slíkra lána en með lagabreytingunni hefur fyrsta skrefið verið stigið, þ.e. að veita sjóðnum heimild í þessa veru.