Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 307. máls.

Þingskjal 361  —  307. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um málefni aldraðra og lögum um heilbrigðisþjónustu (sameining vistunarmatsnefnda).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.
1. gr.

    3. og 4. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
    Áður en kemur að vistun einstaklings í hjúkrunar- eða dvalarrými, samkvæmt umsókn hans, skulu öll önnur úrræði sem miða að því að fólk geti búið í heimahúsi vera fullreynd. Engan má vista til langdvalar í hjúkrunarrými eða dvalarrými nema að undangengnu mati vistunarmatsnefndar á þörf fyrir slíka vistun. Ráðherra skipar þriggja manna nefnd í hverju heilbrigðisumdæmi til að annast matið. Nefndirnar skulu skipaðar lækni með sérmenntun í öldrunar- eða heimilislækningum eða langvinnum sjúkdómum, hjúkrunarfræðingi með þekkingu á öldrunarþjónustu eða hjúkrun langveikra og félagsráðgjafa með þekkingu á félagsþjónustu við aldraða eða langveikt fólk. Vistunarmatsnefnd í fjölmennum heilbrigðisumdæmum má þó skipa sex mönnum, enda uppfylli nefndarmenn sömu menntunarskilyrði og í þriggja manna nefnd og jafnvægi milli sérþekkingarinnar sé það sama. Skipa skal varamenn sem uppfylla sömu menntunarskilyrði og aðalmenn. Við meðferð mála skal auk laga þessara farið að stjórnsýslulögum.
    Ráðherra kveður nánar á um vistunarmat í reglugerð.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum.
2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Engan má vista til langdvalar í hjúkrunarrými nema að undangengnu mati vistunarmatsnefndar á þörf fyrir vistun samkvæmt lögum um málefni aldraðra.
     b.      2. og 3. mgr. falla brott.

III. KAFLI
Gildistaka.
3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2012.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var samið af starfsmönnum velferðarráðuneytis, ásamt fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Fulltrúar frá eftirfarandi aðilum voru boðaðir á fund í ráðuneytinu til að leita álits þeirra: Samtökum félagsmálastjóra, vistunarmatsnefnd heilbrigðisumdæmis höfuðborgarsvæðisins, matsteymi um dvalarrými á höfuðborgarsvæðinu, Félagi stjórnenda í öldrunarþjónustu, Landspítala, Samtökum aldraðra og Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu.
    Markmiðið með lagafrumvarpi þessu er einkum að auðvelt sé fyrir aldrað fólk að sækja um vistunarmat vegna dvalar á stofnun. Nú þarf fólk að greina á milli hvort rétt sé að sækja um dvöl á stofnun hjá vistunarmatsnefnd um dvalarrými eða hjúkrunarrými. Aldrað fólk bíður oft lengi eftir dvalarrými og þegar röðin loks kemur að því getur fólkið þurft á hjúkrunarrými að halda í stað dvalarrýmis. Það gerir fólki erfitt fyrir að þurfa í umsókn sinni að greina á milli dvalarrýmis og hjúkrunarrýmis. Því auðveldar það fólki að um eitt vistunarmat sé að ræða. Með þessu móti næst bæði að gera fólki auðveldara fyrir en nú er að sækja um vistun á stofnun auk þeirrar hagræðingar sem felst í því að stjórnsýslan á þessu sviði verður einfaldari.
    Þá er það talinn kostur að vistunarmatið verði samfellt og heildstætt, hvort sem þörf er á dvalarrými eða hjúkrunarrými. Því er talið nauðsynlegt að ein nefnd sjái um matið. Með því móti verður sköpuð heildarsýn yfir þörf fólks fyrir vistun. Í samræmi við þetta er nauðsynlegt að ein nefnd sjái um matið. Matið getur engu síður verið tvenns konar, félagslegt eða byggst fyrst og fremst á þörf fyrir heilbrigðisþjónustu, en með einni vistunarmatsnefnd verður hvert tilvik skoðað í heild sinni. Þannig fær vistunarmatsnefndin heildarsýn yfir þörf á þjónustu og vistun.
    Enn fremur er frumvarpið í samræmi við þær breytingar á vistun aldraðra á stofnun sem átt hafa sér stað að undanförnu, en dregið hefur verulega úr þörf á dvalarrýmum þar sem fleiri geta búið á heimilum sínum með stuðningi frá sveitarfélögum og ríki. Þegar að stofnanadvöl kemur þurfa flestir á hjúkrunarrýmum að halda.
    Með hliðsjón af framansögðu þjónar frumvarp þetta hagsmunum aldraðs fólks, einfaldar stjórnsýsluna og er í samræmi við þær breytingar á vistun aldraðra á stofnun sem átt hafa sér stað að undanförnu.
    Óbreytt er að vistun aldraðra á stofnun getur einungis átt sér stað að önnur úrræði til stuðnings við búsetu fólks heima hafi verið fullreynd.
    Til að sameina í eina vistunarmatsnefnd mat á þörf á dvalarrýmum og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða þarf að breyta bæði lögum um málefni aldraðra og lögum um heilbrigðisþjónustu.
    Þótt þörf á hjúkrunarrýmum sé einkum fyrir aldraða er í undantekningartilvikum um yngra fólk að ræða sem þarf á langtímadvöl í hjúkrunarrými að halda, til dæmis vegna sjúkdóma eða slysa. Eðlilegt er talið að mat á þörf fyrir vistun þessa fólks sé unnið í sömu nefnd og mat á þörfum aldraðra fyrir hjúkrunarrými.
    Í vistunarmatsnefndir þarf fólk með þekkingu á bæði heilsufari og félagslegum högum fólks eins og nú er áskilið í lögum um heilbrigðisþjónustu og reglugerð um vistunarmat vegna hjúkrunarrýma og í reglugerð um mat á þörf aldraðra fyrir dvalarrými.
    Frumvarpið leiðir ekki til fjárhagslegrar hagræðingar svo neinu nemi. Ástæðan er sú að fulltrúar í vistunarmatsnefndunum fá greitt fyrir hvert mat, en ekki fastar greiðslur fyrir hvern fund. Hugsanlega verður þó eitthvert hagræði af því að starfsmönnum nefndanna fækki. Hagræðingin felst í því að stjórnsýslan verður einfaldari.
    Gangi tillögur þessa frumvarps eftir verða þær tvær reglugerðir sem nú gilda um mat á þörf fyrir dvalarrými og hjúkrunarrými sameinaðar í eina reglugerð. Þar verður kveðið nánar á um vistunarmatið.
    Tekið skal fram að Samband íslenskra sveitarfélaga gerir engar athugasemdir við kostnaðaráhrif frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Óbreytt er það meginatriði gildandi laga að vistun einstaklings á hjúkrunar- eða dvalarrými kemur ekki til álita fyrr en önnur úrræði til að einstaklingur geti búið í heimahúsi hafa verið fullreynd. Hér er einkum átt við úrræði sem tilgreind eru í 13. gr. laganna, þ.e. þjónusta á heimilum fólks, svo sem félagsleg heimaþjónustu og heimahjúkrun, svo og stuðningsúrræði utan heimilis, þ.e. þjónustumiðstöðvar og dagvist aldraðra, auk búsetu í þjónustuíbúðum aldraðra.
    Breytingin með frumvarpinu felst einungis í því að ein vistunarmatsnefnd, í stað tveggja, metur þörf á vistuninni. Er þar fyrst og fremst haft í huga að auðveldara er fyrir fólk að sækja um dvöl á stofnun til einnar nefndar í stað þess að þurfa að meta sjálft til hvorrar nefndarinnar það þurfi að beina umsókn sinni. Þá einfaldar það stjórnsýsluna á þessu sviði að ein vistunarmatsnefnd sjái um matið í stað tveggja. Nauðsynlegt er að fulltrúar nefndanna hafi jöfnum höndum þekkingu á heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu.
    Lagt er til að tekið verði sérstaklega fram í lögunum að um málsmeðferð fari samkvæmt almennum lögum, þ.e. stjórnsýslulögum, auk laga um málefni aldraðra. Hér er ekki um efnisleg nýmæli að ræða, en rétt þykir að tekið sé sérstaklega fram að stjórnsýslulög taki til nefnda þessara með sama hætti og annarra stjórnvalda.

Um 2. gr.


    Breyting sú sem hér er lögð til á lögum um heilbrigðisþjónustu er til samræmis við 1. gr. frumvarpsins um breytingu á lögum um málefni aldraðra. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 3. gr.


    Lagt er til að lögin taki gildi 1. mars 2012. Nauðsynlegt þykir að hæfilegur aðlögunartími sé undanfari breytingarinnar sem nýttur verði til þess að leggja niður núverandi vistunarmatsnefndir og skipa nýjar.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra
og lögum um heilbrigðisþjónustu (sameining vistunarmatsnefnda).

    Í frumvarpinu er lagt til að vistunarmatsnefndir fyrir hjúkrunarrými og dvalarrými verði sameinaðar innan heilbrigðisumdæma. Markmið frumvarpsins er einkum að auðvelda öldruðu fólki að fá vistunarmat vegna dvalar á stofnun og einnig að gera vistunarmat samfellt og heildstætt hvort sem þörf er á dvalarrými eða hjúkrunarrými. Er ætlunin að því verði náð fram með því að sama vistunarnefndin meti einstaklinga varðandi þörf fyrir hjúkrunarrými og þörf fyrir dvalarrými.
    Í frumvarpinu segir að ráðherra skipi þriggja manna nefnd í hverju heilbrigðisumdæmi til að annast vistunarmötin en í fjölmennari heilbrigðisumdæmum hafi hann þó heimild til að skipa sex menn. Samkvæmt núgildandi reglum skulu tveir nefndarmenn meta þörf á dvalarrýmum en þó er heimilt að kalla til varamann ef þörf krefur. Þrír nefndarmenn meta þörf á hjúkrunarrýmum og því er einungis um breytingu að ræða á því sviði fyrir fjölmennari heilbrigðisumdæmi. Í frumvarpinu er ekki gerð frekari grein fyrir því hvort allir sex nefndarmennirnir í fjölmennari heilbrigðisumdæmum muni fara saman yfir hvert mat eða hvort matinu gæti verið dreift þannig að t.d. þrír nefndarmenn fari yfir vistunarmat hverju sinni. Gera þarf verklagsreglur skýrar hvað þetta varðar og getur ráðherra kveðið nánar á um vistunarmat í reglugerð.
    Nefndarmenn fá greitt fyrir hvert mat fyrir sig en ferðakostnaður, launakostnaður aðstoðarstarfsmanna og kostnaður við aðstöðu er greiddur sérstaklega. Ekki er áformað að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi né á fjárhæð þóknunar fyrir hvert mat. Kostnaður vegna vistunarmata fyrir þörf á dvalarrýmum hefur verið um 14 þús. kr. en kostnaður vegna mata fyrir þörf á hjúkrunarrýmum hefur verið um 34 þús. kr. Áætlað er að kostnaðurinn við vistunarmat í sameinaðri nefnd verði sambærilegur því sem hann hefur verið. Árlegur heildarfjöldi vistunarmata er um 1.670 og eru fjárveitingar vegna þeirra samtals rúmlega 51 m.kr. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð að því gefnu að þrír nefndarmenn fari yfir vistunarmat hverju sinni. Sameining nefndanna gefur raunar möguleika á hagræðingu með fækkun starfsmanna.
    Ekki verður því séð að lögleiðing frumvarpsins hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.