Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 318. máls.

Þingskjal 372  —  318. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun,
lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis
um Orkuveitu Reykjavíkur, raforkulögum, nr. 65/2003,
og lögum nr. 19/2011, um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003,
með síðari breytingum (eigendaábyrgðir, eignarhald
flutningsfyrirtækisins og frestun fyrirtækjaaðskilnaðar).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum.

1. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Landsvirkjun er heimilt að stofna til fjárhagslegra skuldbindinga til þarfa fyrirtækisins og gangast í ábyrgð fyrir greiðslum í sama skyni. Nýir fjármálagerningar, sem njóta skulu ábyrgðar eigenda skv. 2. mgr. 1. gr., eru háðir samþykki ráðherra.

2. gr.

    Í stað orðsins „lánaskuldbindingum“ í ákvæði til bráðabirgða í lögunum kemur: fjármálagerningum.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, með síðari breytingum.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „lánaskuldbindingum“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: skuldbindingum sem leiðir af fjármálagerningum.
     b.      Lokamálsliður 2. mgr. orðast svo: Aðrir nýir fjármálagerningar, sem njóta skulu ábyrgðar eigenda, eru háðir samþykki þeirra.
     c.      Í stað orðsins „lánaskuldbindingum“ í 3. mgr. kemur: fjármálagerningum.

4. gr.

    Í stað orðsins „lánaskuldbindingum“ hvarvetna í ákvæði til bráðabirgða III í lögunum kemur: fjármálagerningum.

III. KAFLI
Breyting á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.

5. gr.

    Lokamálsliður 1. mgr. 8. gr. laganna orðast svo: Flutningsfyrirtækið skal vera í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem alfarið eru í eigu þessara aðila.

6. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða XVI í lögunum orðast svo:
    Ákvæði 2.–4. málsl. 1. mgr. 14. gr. koma til framkvæmda 1. janúar 2014.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 19/2011, um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.

7. gr.

    2. málsl. 18. gr. laganna orðast svo: Ákvæði 6., 7., 10. og 11. gr. ná til setningar tekjumarka frá og með árinu 2011.

8. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I í lögunum orðast svo:
    Við gildistöku laga þessara skal ráðherra orkumála skipa nefnd þar sem eiga sæti fulltrúar ráðuneytis orkumála, ráðuneytis fjármála, sveitarfélaga, Landsnets, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, RARIK ohf. og Orkubús Vestfjarða. Hlutverk nefndarinnar er að kanna möguleika á breyttu eignarhaldi á flutningsfyrirtækinu, í gegnum beint eignarhald ríkis og/eða sveitarfélaga, og gera tillögu um kaup ríkis og/eða sveitarfélaga á hlut orkufyrirtækja í flutningsfyrirtækinu.
    Nefndin skal skila tillögum eigi síðar en 31. desember 2012.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á 139. löggjafarþingi voru gerðar breytingar á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, og raforkulögum, nr. 65/2003, sem sneru að eigendaábyrgðum Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur annars vegar og eignarhaldi í flutningsfyrirtækinu Landsneti hf. hins vegar. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 42/1983, 139/2001 og 65/2003 sem rekja má til framangreindra breytinga. Auk þess er með frumvarpinu lagt til að framkvæmd ákvæða 14. gr. raforkulaga, um aðskilnað samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja, verði frestað til 1. janúar 2014.
    I. kafli frumvarpsins snýr að breytingum á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun. Með lögum nr. 21/2011, um breytingu á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, var kveðið á um að ábyrgð eigenda Landsvirkjunar tæki eingöngu til þeirra skuldbindinga fyrirtækisins sem tilgreindar eru í 9. gr. laganna, þ.e. lánaskuldbindinga.
    Með I. kafla frumvarps þess sem hér er lagt fram er lagt til að notað verði hugtakið fjármálagerningar, eins og það hugtak er skilgreint í lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, í stað lánaskuldbindinga. Fjármálaráðherra verður þannig heimilt, fyrir hönd eigenda Landsvirkjunar, að veita ábyrgðir vegna fjárhagslegra skuldbindinga fyrirtækisins sem falla undir skilgreiningu hugtaksins fjármálagerningur. Eftir sem áður verður Landsvirkjun heimilt að stofna til fjárhagslegra skuldbindinga til þarfa fyrirtækisins og gangast í ábyrgð fyrir greiðslum í sama skyni.
    Ástæða þess að lögð er til breyting á hugtakanotkun er sú að umtalsverð óvissa hefur verið um við hvað nákvæmlega er átt með hugtakinu lánaskuldbinding. Hugtakið lánaskuldbinding er hvorki skilgreint í lögunum um Landsvirkjun né í greinargerð með frumvarpi um breytingu á lögunum um Landsvirkjun og því óljóst til hvers konar fjárhagsskuldbindinga heimild ráðherra til samþykkis eigendaábyrgðar Landsvirkjunar nær. Hugtakið fjármálagerningur er hins vegar vel skilgreint í lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og þykir rétt og eðlilegt að notast við þá skilgreiningu í þeim tilgangi að eyða allri óvissu um heimild ráðherra. Verði breytingin samþykkt er hvorki rýmkuð heimild ráðherra frá því sem verið hefur né ráðherra eða Landsvirkjun veittar auknar heimildir. Breytingin er einungis til þess fallin að eyða öllum vafa um hvers konar fjárhagslegar skuldbindingar falla undir ákvæðið.
    Núverandi orðalag 9. gr. laga nr. 42/1983, eins og því var breytt með lögum nr. 21/2011, hefur skapað óvissu um hvort eigendum Landsvirkjunar sé heimilt að ábyrgjast þær fjárhagslegu skuldbindingar fyrirtækisins sem ekki byggjast á lánasamningum. Í því efni má nefna afleiðusamninga og skuldabréfaútgáfur. Túlkun og skilningur á hugtökunum „skuldbindingar“, „nýjar lántökur“ og „lánaskuldbindingar“, sem fram koma í breytingalögunum, hafa því valdið umtalsverðum vafa og óvissu enda nánari skýringar á þeim hugtökum ekki að finna.
    Ef litið er svo á að ekki sé heimilt að veita ríkisábyrgð vegna annarra fjármálagerninga en lánasamninga, og að veittar ábyrgðir ríkisins vegna afleiðusamninga og útgefinna skuldabréfa hafi fallið niður við gildistöku laga nr. 21/2011, þá er mikil óvissa framundan í öllu er varðar lánasamninga, skuldabréf og áhættuvarnir Landsvirkjunar. Ef fyrrgreindar skuldbindingar eru ekki lengur taldar njóta ríkisábyrgðar getur hugsanlega komið til gjaldfellingar á slíkum samningum. Útgáfa nýrra skuldbindinga og skuldabréfa yrði auk þess afar erfið við þær aðstæður og þar með aðgangur að nýrri fjármögnun. Slík staða setur öll áform Landsvirkjunar um nýjar lántökur, áhættustýringu og áframhaldandi uppbyggingu í uppnám. Afnám ríkisábyrgðar á afleiðusamningum sem gerðir voru fyrir gildistöku laganna hefði því mikil áhrif, ekki eingöngu til skamms tíma með mögulegum fjárútlátum, heldur yrði áhætta í áframhaldandi rekstri Landsvirkjunar einnig stóraukin.
    Þeim breytingum á lögum Landsvirkjunar sem fram koma í frumvarpi þessu er fyrst og fremst ætlað að eyða framangreindri óvissu enda ekki ætlunin á sínum tíma, með breytingu á lögunum, að takmarka ábyrgð ríkisins með þeim hætti sem lýst er hér að framan.
    Með II. kafla frumvarpsins er lögð til sambærileg breyting, og greint er frá í I. kafla, á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur. Með breytingalögum nr. 144/2010, á lögum nr. 139/2001, var kveðið á um að hver eigandi Orkuveitunnar beri einfalda hlutfallslega fjárhagsábyrgð á lánaskuldbindingum Orkuveitu Reykjavíkur og að Orkuveitan greiði árlegt ábyrgðargjald af þeim lánaskuldbindingum sem ábyrgð eigenda er á. Rót þessarar lagabreytingar (lög nr. 144/2010) er sú sama og framangreind breyting sem var gerð á lögum um Landsvirkjun með lögum nr. 21/2011. Með sömu rökum og greint er frá að framan varðandi I. kafla frumvarpsins er í II. kafla frumvarpsins lagt til að í stað orðsins „lánaskuldbindingum“ verði notast við orðið „fjármálagerningum“ í viðkomandi ákvæðum laga nr. 139/2001, þ.e. að eigendaábyrgð Orkuveitu Reykjavíkur nái til skuldbindinga sem leiða af fjármálagerningum. Með því er tryggt samræmi í orðalagi varðandi ákvæði um eigendaábyrgðir Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur, enda var lagt upp með það með þeim frumvörpum sem urðu að lögum nr. 144/2010 og 21/2011.
    III. og IV. kafli frumvarpsins snúa annars vegar að frestun ákvæðis 14. gr. raforkulaga um fyrirtækjaaðskilnað og hins vegar að breytingu sem gerð var á raforkulögum með breytingalögum nr. 19/2011 og varðar framtíðarfyrirkomulag á eignarhaldi í flutningsfyrirtækinu Landsneti hf.
    Með breytingalögum nr. 19/2011 var kveðið á um að frá og með 1. janúar 2015 skuli flutningsfyrirtækið vera í beinni eigu íslenska ríkisins og/eða sveitarfélaga. Ástæða breytingarinnar var að ekki þykir heppilegt að fyrirtæki sem eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga og hafa ríka hagsmuni af starfsemi flutningsfyrirtækisins, t.d. raforkuframleiðendur og dreifiveitur, eigi hlut í flutningsfyrirtækinu. Eigendur Landsnets í dag eru sem hér segir:
         Landsvirkjun 64,73%
         RARIK 22,51%
         Orkuveita Reykjavíkur 6,78%
         Orkubú Vestfjarða 5,98%
    Með breytingalögunum nr. 19/2011 var kveðið á um það í bráðabirgðaákvæði að skipa skuli nefnd með fulltrúum framangreindra eigenda, ásamt fleirum, sem hafi það hlutverk að gera tillögu um kaup ríkis eða sveitarfélaga á hlut orkufyrirtækja í flutningsfyrirtækinu. Átti nefndin að skila tillögum fyrir árslok 2012.
    Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er lagt til að ekki verði fest niður ákveðin tímasetning í raforkulögum um hvenær flutningsfyrirtækið eigi að vera komið í beint eignarhald ríkis og/eða sveitarfélaga. Lagt er til nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem fram kemur að ráðherra orkumála skipi nefnd þar sem eiga sæti fulltrúar ráðuneytis orkumála, ráðuneytis fjármála, sveitarfélaga, Landsnets, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, RARIK ohf. og Orkubús Vestfjarða. Hlutverk nefndarinnar verði að kanna möguleika á breyttu eignarhaldi á flutningsfyrirtækinu, í gegnum beint eignarhald ríkis og/eða sveitarfélaga, og gera tillögu um kaup ríkis eða sveitarfélaga á hlut orkufyrirtækja í flutningsfyrirtækinu. Jafnframt að nefndin skuli skila tillögum eigi síðar en 31. desember 2012.
    Það fyrirkomulag að kveða á um það með beinum og ófrávíkjanlegum hætti í raforkulögum að frá og með 1. janúar 2015 skuli eignarhald í Landsneti hf. flutt frá orkufyrirtækjunum yfir í beint eignarhald ríkis og/eða sveitarfélaga skapar ákveðinn vanda fyrir orkufyrirtækin. Þannig eru ákvæði í núgildandi lánasamningum Landsvirkjunar sem kveða á um að Landsvirkjun sé óheimilt að ráðstafa eða selja meiri háttar eignir sínar án samþykkis lánveitenda. Ef Landsvirkjun selur eða framselur eignarhlut sinn í Landsneti hf., sem telst meiri háttar, án samþykkis lánveitenda, felur slík ráðstöfun eigna fyrirtækisins að öllum líkindum í sér vanefnd af hálfu Landsvirkjunar og um leið líklega gjaldfellingu lánasamninga fyrirtækisins. Jafnframt eru í gildandi lánasamningum Landsvirkjunar svokölluð „ cross-default“ ákvæði sem eru þess eðlis að komi til vanefndar eins lánasamnings þá geta aðrir lánveitendur hugsanlega gjaldfellt aðra lánasamninga fyrirtækisins eða þeir gjaldfalla sjálfkrafa. Þá áhættu er ekki ástæða til að taka. Ljóst er að í núverandi efnahagsástandi er aðgangur að nýju lánsfé mjög takmarkaður. Vegna þrenginga á fjármálamörkuðum er því mjög mikilvægt að ekki skapist óvissa um fjárhag Landsvirkjunar, eða annarra orkufyrirtækja, og er þar af leiðandi framangreind breyting lögð til sem felst í því að áfram verði kveðið á um það í raforkulögum að flutningsfyrirtækið skuli vera í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem alfarið eru í eigu þessara aðila. Framtíðarfyrirkomulag þessara mála mun síðan verða ákveðið í kjölfar tillagna framangreindrar nefndar, sbr. ákvæði til bráðabirgða.
    Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að frestað verði tímabundið um eitt ár framkvæmd ákvæða 14. gr. raforkulaga varðandi aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja.
    Hinn 29. maí 2008 samþykkti Alþingi lög nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, sem fólu m.a. í sér þá breytingu á 14. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, að gerð var krafa um að samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækja yrði rekin í aðskildum fyrirtækjum frá og með 1. júlí 2009 í stað þess að eingöngu væri krafist bókhaldslegs aðskilnaðar.
    Í kjölfar beiðni frá Orkuveitu Reykjavíkur var gildistöku framangreindrar breytingar á 14. gr. raforkulaga frestað til 1. janúar 2010 með samþykkt laga nr. 30/2009, um breytingu á raforkulögum. Með lögum nr. 142/2009, um breytingu á raforkulögum, var gildistöku breytingar á 14. gr. raforkulaga, varðandi aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja, frestað í annað sinn til 1. janúar 2011. Í báðum tilfellum var í greinargerð vísað til aðstæðna á fjármálamörkuðum og viðkvæmrar stöðu orkufyrirtækja varðandi fjármögnun.
    Með bréfi, dags. 6. september 2010, fór eigendanefnd Orkuveitu Reykjavíkur þess á leit við iðnaðarráðherra að framkvæmd 2.–4. málsl. 1. mgr. 14. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, sem kveður á um aðskilnað dreifiveitna frá annarri starfsemi orkufyrirtækja, verði frestað enn um sinn. Var það gert með lögum nr. 148/2010, til loka árs 2011.
    Með bréfi, dags. 8. nóvember 2011, fór eigendanefnd Orkuveitu Reykjavíkur svo þess enn á leit við iðnaðarráðherra að framkvæmd 2.–4. málsl. 1. mgr. 14. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, verði frestað.
    Færa má rök fyrir því að þau sjónarmið sem byggt var á við setningu framangreindra laga nr. 30/2009, nr. 142/2009 og nr. 148/2010 eigi enn við um starfsemi íslenskra orkufyrirtækja. Í bréfi eigendanefndar Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 8. nóvember 2011, kemur fram að verulegir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi við uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur. Þeir mikilvægustu snúi að skattamálum og samskiptum við lánardrottna fyrirtækisins. Milljarða hagsmunir séu í húfi að vel takist til við aðskilnað samkeppni- og sérleyfisþátta starfsemi Orkuveitunnar. Almennur órói einkenni enn þá fjármálakerfi heimsins og því þurfi nánara samráð við stjórnvöld og lánveitendur vegna uppskiptingar fyrirtækisins. Þar af leiðandi sé óskað eftir viðbótarfresti.
    Eins og fram kemur að framan hefur ákvæði 14. gr. raforkulaga, um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja, verið frestað þrívegis með vísan til aðstæðna á fjármálamörkuðum og viðkvæmrar stöðu orkufyrirtækjanna varðandi fjármögnun. Í ljósi þeirra aðstæðna sem enn eru á fjármálamörkuðum og viðkvæmrar stöðu orkufyrirtækjanna má fallast á að í fjórða sinn sé rétt að fresta tímabundið framkvæmd ákvæða 14. gr. raforkulaga varðandi aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja.
    Með vísan til framangreinds er því með frumvarpi þessu lagt til að framkvæmd ákvæða 2.–4. málsl. 1. mgr. 14. gr. raforkulaga verði frestað til 1. janúar 2014.
    Þess ber að geta að við síðustu frestun ákvæða 2.–4. málsl. 1. mgr. 14. gr. raforkulaga, til 1. janúar 2012, var tekið fram í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 148/2010 að iðnaðarráðuneytið muni láta fara fram hagfræðilega úttekt á því hvort sá fyrirtækjaaðskilnaður sem mælt er fyrir um í raforkutilskipun ESB (2003/54/EB og 2009/72/EB) eigi að öllu leyti við um markaðsaðstæður hér á landi og hvort hann sé til þess fallinn að skapa samkeppnisumhverfi sem sé neytendum raforkuþjónustu til hagsbóta. Í apríl 2011 fól iðnaðarráðuneytið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að gera umrædda úttekt og liggja niðurstöður hennar fyrir í skýrslu um fyrirtækjaaðskilnað á rafmagnsmarkaði. Eins og fram kemur í skýrslunni hafa sérleyfis- og samkeppnisþættir verið aðskildir hjá þremur aðilum og eru nú HS Orka og HS Veitur rekin í tveimur sjálfstæðum fyrirtækjum, en Norðurorka og RARIK hafa stofnað orkusölufyrirtækin Fallorku og Orkusöluna sem dótturfélög. Orkuveita Reykjavíkur hefur hins vegar ekki aðskilið sérleyfis- og samkeppnisstarfsemi sína, en unnið er að því. Í skýrslunni er bent á að raforkuverð hefur hækkað um 20% á tímabilinu 2005–2010, en verðlag hefur hækkað almennt um 50% á sama tíma. Raunverð raforku hefur því lækkað. Samkeppni ríkir í raforkusölu til fyrirtækja, en í minna mæli til heimila. Niðurstaða skýrslunnar er að sú staðreynd að samkeppni hefur myndast á raforkumarkaði og að rekstrarkostnaður raforkufyrirtækjanna virðist ekki hafa aukist meira en verðlagsbreytingar, bendi til þess að ávinningur hafi verið að því að búa til samkeppnisvænni umgjörð raforkumála með aðskilnaði sérleyfis- og samkeppnisreksturs. Vegna þess hve Orkuveita Reykjavíkur er stór aðili á þessum markaði munu endanleg áhrif af þessari breytingu á raforkumarkaði þó vart liggja fyrir fyrr en Orkuveita Reykjavíkur hefur aðskilið sérleyfis- og samkeppnisrekstur sinn.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við fjármálaráðuneytið, Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur. Verði frumvarpið að lögum mun það fyrst og fremst hafa áhrif á Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að breyting verði gerð á hugtakanotkun í 9. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun. Í stað hugtaksins lán verði notað fjárhagslegar skuldbindingar í víðri merkingu þess orðs og í stað hugtaksins lántaka verði notað hugtakið fjármálagerningur.
    Tilgangur breytingarinnar er að eyða allri óvissu um skilning ákvæðisins. Það verður best gert með því að styðjast við skilgreiningu laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, á hugtakinu fjármálagerningur.
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum hér að framan felur breytingin hvorki í sér rýmri heimild ráðherra til þess að veita ríkisábyrgð vegna fjárhagslegra skuldbindinga Landsvirkjunar frá því sem verið hefur, né heldur að veita ráðherra eða Landsvirkjun auknar heimildir eða aukna ríkisábyrgð frá því sem verið hefur. Með breytingunni er með öðrum orðum einungis lagt til að ráðherra verði heimilt að samþykkja veitingu ríkisábyrgðar vegna þeirra skuldbindinga Landsvirkjunar sem falla undir hugtakið fjármálagerningur, eins og það er skilgreint í lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Er það í fullu samræmi við fyrri framkvæmd.

Um 2. gr.

    Með greininni er lögð til ein breyting á ákvæði til bráðabirgða sem lögfest var með breytingalögum nr. 21/2011.
    Með breytingunni er lagt til að hugtakið lánaskuldbinding verði fellt brott í bráðabirgðaákvæði laganna, en þess í stað notað hugtakið fjármálagerningur, eins og það er skilgreint í lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Breytingunni er ætlað að koma í veg fyrir óvissu um að áður veittar ríkisábyrgðir vegna fjármálagerninga Landsvirkjunar, annarra en lánasamninga, falli niður eða hafi fallið niður með fyrri breytingu á lögunum.

Um 3. gr.

    Með greininni er lagt til að hugtakið lánaskuldbinding verði fellt brott í 2. og 3. mgr. 1. gr. laga nr. 139/2001, en þess í stað notast við orðin „skuldbindingum sem leiðir af fjármálagerningum“ annars vegar og orðið „fjármálagerningum“ hins vegar. Hugtakið fjármálagerningur er skilgreint í lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Um rökstuðning vísast til umfjöllunar í almennum athugasemdum og umfjöllun um 1. og 2. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Með greininni er lagt til að hugtakið lánaskuldbinding verði fellt brott í bráðabirgðaákvæði laganna, en þess í stað notað hugtakið fjármálagerningur, eins og það er skilgreint í lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Um rökstuðning vísast til umfjöllunar í almennum athugasemdum og umfjöllun um 1. og 2. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.

    Með greininni er lagt til að horfið verði frá þeim breytingum sem gerðar voru með lögum nr. 19/2011 þar sem kveðið er á um að flutningsfyrirtækið skuli vera í beinni eigu ríkisins og/eða sveitarfélaga.
    Lögð til sú breyting að ákvæðið verði eins og það er í núgildandi raforkulögum, þ.e. að flutningsfyrirtækið skuli vera í eigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem alfarið eru í þeirra eigu, en breytingin átti ekki að koma til fyrr en 1. janúar 2015 samkvæmt breytingalögum nr. 19/2011.
    Með breytingunni er núverandi eignarhaldi á Landsneti hf. haldið óbreyttu, á meðan könnun á framtíðarfyrirkomulagi fer fram innan ráðherraskipaðrar nefndar (sbr. ákvæði til bráðabirgða), án þess að stefna rekstri orkufyrirtækjanna í hættu vegna ákvæða í fjármálasamningum sem kveða á um að óheimilt sé að selja eða framselja eignarhluti í flutningsfyrirtækinu, án samþykkis lánveitenda.

Um 6. gr.

    Með greininni er lagt til að framkvæmd ákvæða 2.–4. málsl. 1. mgr. 14. gr. raforkulaga verði frestað til 1. janúar 2014. Nánar er vísað til almennra athugasemda.

Um 7. gr.

    Í 18. gr. laga nr. 19/2011 er kveðið á um að ákvæði a-liðar 3. gr. laganna komi til framkvæmda 1. janúar 2015, og að ákvæði 6., 7., 10 og 11. gr. nái til setningar tekjumarka frá og með árinu 2011. Með vísan til 5. gr. frumvarps þessa, þar sem framangreindum a-lið 3. gr. er breytt, er nauðsynlegt að breyta þessu ákvæði 18. gr. laga nr. 19/2011 í þá veru að fella brott orðalagið „ákvæði a-liðar 3. gr. kemur til framkvæmda 1. janúar 2015“. Er það lagt til með greininni og ber að skoðast í samhengi við 5. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.

    Með greininni er lagt til að brott falli ákvæði til bráðabirgða I sem lögfest var með breytingalögum nr. 19/2011, og hljóðar svo:
    „Við gildistöku laga þessara skal iðnaðarráðherra skipa nefnd þar sem eiga sæti fulltrúar iðnaðarráðuneytis, fjármálaráðuneytis, sveitarfélaga, Landsnets, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, RARIK ohf. og Orkubús Vestfjarða. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um kaup ríkis eða sveitarfélaga á hlut orkufyrirtækja í flutningsfyrirtækinu.
    Nefndin skal skila tillögum eigi síðar en 31. desember 2012.“
    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum er lagt til að umrætt ákvæði til bráðabirgða orðist eins og segir í 8. gr.

Um 9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun,
lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, raforkulögum, nr. 65/2003, og lögum nr. 19/2011, um breytingu á raforkulögum,
nr. 65/2003, með síðari breytingum (eigendaábyrgðir, eignarhald
flutningsfyrirtækisins og frestun fyrirtækjaaðskilnaðar).

    Meginmarkmið með frumvarpi þessu er að eyða óvissu um ríkisábyrgðir á fjárskuldbindingum Landsvirkjunar sem skapast hefur í kjölfar gildistöku laga nr. 21/2011, um breyting á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun. Í sama tilgangi er vegna Orkuveitu Reykjavíkur lögð til breyting á lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur. Þá er lagðar til breytingar á raforkulögum og lögum um breytingu á þeim.
    Í frumvarpinu eru lögð til breyting á lögum um Landsvirkjun sem er ætlað að skýra betur ákvæði 9. gr. laganna um hvers konar skuldbindingar njóti ábyrgðar eigenda fyrirtækisins. Með lögum nr. 21/2011 var komið til móts við tilmæli Eftirlitsstofnunar EFTA um fyrirkomulag ríkisábyrgða á skuldbindingum Landsvirkjunar og voru skilyrði fyrir ríkisábyrgð þrengd til muna. Enn fremur var ríkisábyrgð eldri skuldbindinga takmörkuð við lánaskuldbindingar og ákveðna langtímasölusamninga með bráðabirgðaákvæði í þeim lögum. Breytingin hefur orðið til þess að óvissa kann að vakna um hvort ríkisábyrgð sé fyrir hendi á ýmsum fjárhagslegum skuldbindingum Landsvirkjunar, svo sem eldri skuldabréfaútgáfum og afleiðum sem áður nutu ríkisábyrgðar. Ætla má að um 90% af heildarskuldbindingum fyrirtækisins með ríkisábyrgð séu skuldabréfaútgáfur og nemur sú fjárhæðin um 300 milljörðum kr. Væru gildandi ákvæði laganna túlkuð í þá veru að ríkisábyrgðin hafi með breytingunni fallið niður og ekki sé heimild til að veita ríkisábyrgð á slíkum fjármálagjörningum fælist í frumvarpinu veruleg breyting á núgildandi fjárhagslegum ábyrgðum ríkissjóðs. Það er hins vegar álit fjármála-ráðuneytisins að gildistaka laga nr. 21/2011 hafi hvorki breytt því hvaða fjármála-gjörningar Landsvirkjunar gætu notið ríkisábyrgðar í framtíðinni né hvaða gildandi skuldbindingar njóta hennar áfram heldur hafi breytingin falist í því að framvegis þarf samþykki fjármálaráðherra fyrir ríkisábyrgð fjárskuldbindinga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir sambærilegum breytingum hvað varðar Orkuveitu Reykjavíkur og ábyrgð eigenda hennar á skuldbindingum fyrirtækisins.
    Með þeim breytingum í frumvarpinu sem snúa að raforkulögum er m.a. horfið frá áformum um breytt fyrirkomulag eignarhalds flutningsfyrirtækja raforku sem taka átti gildi árið 2015. Uppskipting eignarhaldsins sem áformuð var hefði getað kallað á stofnfjárframlög af hálfu ríkissjóðs á móti eignarhlut annarra aðila í Landsneti. Þá kynnu slíkar eignabreytingar að valda óvissu um eignastöðu og fjárhag Landsvirkjunar gagnvart lánveitendum. Í ljósi framangreinds er í frumvarpinu gert ráð fyrir breyttu hlutverki nefndar á vegum iðnaðarráðherra sem falið verði að kanna betur mögulegt framtíðarfyrirkomulag eignarhalds á flutningsfyrirtækinu. Einnig er lagt til að gildistöku um starfsskilyrði dreifiveitna raforku, sem fela í sér aðskilnað samkeppnis- og sérleyfisþátta, verði frestað um eitt ár. Ekki verður séð að þessar breytingar á raforkulögum hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
    Af framansögðu má því ætla að lögfesting frumvarpsins muni ekki hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs eða heildarfjárhæð þeirra skuldbindinga Landsvirkjunar sem ríkissjóður ábyrgist nú þegar.