Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 320. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 377  —  320. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum.

Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson,
Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson,
Illugi Gunnarsson, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal,
Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


1. gr.

    Við 1. mgr. 123. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama á við þegar aðili hyggst höfða mál þar sem deilt er um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við verðlag eða við gengi erlendra gjaldmiðla og um skilmála slíkra skuldbindinga, svo sem um vexti.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög þessi falla úr gildi 1. janúar 2013.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var fyrst lagt fram á 138. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að við 1. mgr. 123. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, bætist nýr málsliður sem mælir fyrir um það að dómsmál þar sem deilt er um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við verðlag eða við gengi gjaldmiðla og um skilmála slíkra skuldbindinga, svo sem um vexti, skuli sæta flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laganna, en sá kafli fjallar um flýtimeðferð einkamála fyrir dómstólum.
    Núgildandi ákvæði 123. gr. laga um meðferð einkamála mælir fyrir um að hyggist aðili höfða mál vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls, verkbanns eða annarra aðgerða sem tengjast vinnudeilu og það færi ella eftir almennum reglum laganna geti aðili málsins óskað eftir því að málið sæti flýtimeðferð ef brýn þörf er á skjótri úrlausn, enda hafi dómsniðurstaðan almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni hans.
    Í kjölfar tveggja dóma Hæstaréttar Íslands, í málum Óskars Sindra Atlasonar gegn SP- Fjármögnun hf. (mál nr. 92/2010) og Sigurðar Pálmasonar gegn Lýsingu hf. (mál nr. 315/ 2010), hefur risið upp ágreiningur um fordæmisgildi dómanna og áhrif þeirra á ýmis álitamál tengd gengistryggðum lánum sem Hæstiréttur dæmdi ólögmæt. Nægir þar að nefna ágreining um hvort dómarnir hafi þýðingu varðandi gengistryggð húsnæðislán, gengistryggð lán til fyrirtækja og hvernig haga skuli vaxtaútreikningi við endurreikning þeirra gengistryggðu lána sem dæmd voru ólögmæt.
    Viðbúið er að látið verði reyna á þau álitaefni sem hér hafa verið nefnd og eftir atvikum önnur álitamál sem tengjast gengis- eða verðtryggingu lána fyrir dómstólum. Niðurstaða slíkra dómsmála munu augljóslega hafa almenna þýðingu og varða stórfellda hagsmuni fyrir einstaklinga, fyrirtæki og fjármálastofnanir.
    Mikilvægt er að úrlausn álitaefna sem risið hafa í kjölfar dóma Hæstaréttar Íslands um gengistryggð lán hljóti skjóta úrlausn í dómskerfinu, leiði sá ágreiningur sem uppi er til þess að látið verði á hann reyna fyrir dómstólum.
    Til þess að tryggja hraða málsmeðferð þeirra álitamála sem hér hafa verið nefnd og varða með einum eða öðrum hætti réttaráhrif dóma Hæstaréttar Íslands um ólögmæti gengistryggðra lán og álitaefni þeim tengd er lagt til í frumvarpi þessu að slík mál sem dómstólar fá til meðferðar fái skilyrðislausa flýtimeðferð innan dómskerfisins samkvæmt lögum um meðferð einkamála.
    Gera má ráð fyrir að sá ágreiningur sem upp kann að koma og tengist gengis- eða verðtryggingu lána og skilmálum slíkra skuldbindinga verði til lykta leiddur fyrir 1. janúar 2013. Er því lagt til að sú sértæka málsmeðferðarregla sem lagt er til með frumvarpinu að verði lögfest falli úr gildi eigi síðar en hinn 1. janúar 2013.