Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 226. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 382  —  226. mál.
Svarforsætisráðherra við fyrirspurn Þorgerðar K. Gunnarsdóttur
um fjárveitingar til vísindarannsókna og nýsköpunar.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hve miklu fé verja opinberir aðilar til vísindarannsókna og nýsköpunar og hvernig er skiptingin milli stofnana, sjóða o.s.frv.?
     2.      Hversu stóru hlutfalli fjárins er úthlutað með samkeppnisferli samkvæmt alþjóðlegum stöðlum?
     3.      Hve stórt hlutfall fjárins gengur til samkeppnissjóða Rannís?
     4.      Hvernig er eftirliti með árangri háttað?


    Rannsóknamiðstöð Íslands, Rannís, hefur í nýútkominni skýrslu sinni, Rannsóknir og þróun á Íslandi 2011, birt ítarlegar og greinargóðar tölfræðiupplýsingar, m.a. um ríkisframlög til rannsókna og þróunar og hvernig þau framlög skiptast á milli ráðuneyta og samkeppnissjóða og er sérstaklega gerð grein fyrir því hversu stór hluti umræddra framlaga rennur til sjóða í umsýslu Rannís. Þá er í skýrslunni einnig að finna upplýsingar um afrakstur og árangur af rannsóknum og þróunar- og nýsköpunarverkefnum. Er það mat forsætisráðuneytisins að umrædd skýrsla veiti að verulegu leyti svör við framangreindum spurningum en skýrslan er aðgengileg á heimasíðu Rannís á vefslóðinni: rannis.is/greining/utgafur-og- skyrslur/.
    Um efni fyrirspurnarinnar að öðru leyti þá lýtur hún að fjárveitingum, ráðstöfum fjár, reglum sem fylgt er við veitingu fjár og eftirliti með fjárveitingum til vísindarannsókna og nýsköpunar af hálfu allra opinberra aðila í landinu, þ.e. ráðuneyta, stofnana ríkisins og eftir atvikum félaga í eigu ríkisins. Ábyrgð á þeim málefnum sem spurt er um skiptist á milli nokkurra ráðuneyta, ef ekki allra, samkvæmt nánari ákvæðum forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 125/2011. Hvaða ráðuneyti nánar tiltekið falla hér undir veltur á því með hvaða hætti hugtökin „vísindarannsókn“ annars vegar og „nýsköpun“ hins vegar eru skilgreind en fyrir liggur að ekkert eitt ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands ber ábyrgð á þeim málefnum sem spurt er um samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna.
    Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. þingskapa ber að beina fyrirspurn um mál til þess ráðherra sem ber ábyrgð á því. Sé óskað upplýsinga um fjárveitingar til vísindarannsókna og nýsköpunar af hálfu tiltekinna ráðuneyta, eða allra, og opinberra aðila sem undir þau heyra ber samkvæmt framansögðu að beina sérstakri fyrirspurn þess efnis til viðkomandi ráðherra. Í þessu sambandi skal sérstaklega tekið fram að staða forsætisráðherra sem formanns Vísinda- og tækniráðs felur ekki í sér að hann sem ráðherra beri ábyrgð á framkvæmd þeirra málefna sem þar koma til umræðu.
    Þótt það hafi ekki þýðingu varðandi efni þessa svars, sbr. framangreint, má vera ljóst að efni fyrirspurnarinnar er mjög yfirgripsmikið og ef unnt ætti að vera að svara henni með fullnægjandi hætti þyrfti að ráðast í allmikla upplýsingaöflun og skýrslugerð, sbr. til hliðsjónar framangreinda skýrslu Rannís. Er fyrirspurnin að þessu leyti einnig í ósamræmi við framangreint ákvæði 1. mgr. 56. gr. þingskapa þar sem kveðið er á um að miða skuli við að unnt sé að svara fyrirspurn í stuttu máli. Jafnframt er ljóst vegna umfangs fyrirspurnarinnar að ekki yrði unnt að svara henni innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í þingsköpum, sbr. 6. mgr. 56. gr. þingskapa.
    Það er mat ráðuneytisins að fyrirspurnin sé þess eðlis að til greina geti komið, sé það vilji þingsins, að fela Ríkisendurskoðun að vinna skýrslu um málið, enda sé það mat þingsins að framangreind skýrsla Rannís sé ekki fullnægjandi.
    Tekið skal fram að berist forsætisráðherra fyrirspurn um fjárveitingar til vísindarannsókna og nýsköpunar af hálfu forsætisráðuneytisins og eftir atvikum stofnana sem undir það heyra verður þeirri fyrirspurn að sjálfsögðu svarað efnislega, enda sé hún að öðru leyti í samræmi við form- og efnisskilyrði þingskapa. Til nánari skýringar á framangreindri afstöðu er vísað til svars forsætisráðherra annars vegar við fyrirspurn á 139. löggjafarþingi á þingskjali 1414 og hins vegar við fyrirspurn á þingskjali 158 á yfirstandandi þingi.