Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 398 —  1. mál.

2. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Ljóst er af frumvarpi til fjárlaga næsta árs að stjórnarflokkunum hefur enn ekki tekist að koma böndum á ríkisútgjöld. Hallarekstur ríkissjóðs er enn of mikill og þær áætlanir sem gerðar hafa verið um bata í þeim efnum hafa ekki gengið eftir. Breytingartillögur ríkisstjórnarinnar fyrir 2. umræðu fjárlaga eru ótvíræður vitnisburður þessa.

Frumvarp
2012
Tillögur ríkisstjórnar
við 2. umræðu
Tillögur meiri hluta fjárlaganefndar Nokkrir vantaldir liðir Samtals:
Frumtekjur 500,3 0,4 500,7
Frumgjöld 460,8 4,7 0,6 13,9 480,0
Frumjöfnuður 39,5 –4,3 –0,6 –13,9 20,7
Vaxtatekjur 21,1 0,0 21,1
Vaxtagjöld 78,4 –0,6 77,8
Vaxtajöfnuður –57,3 0,6 0,0 0,0 –56,7
Heildartekjur 521,4 0,4 0 0,0 521,8
Heildargjöld 539,2 4,1 0,6 13,9 557,8
Heildarjöfnuður –17,8 –3,7 –0,6 –13,9 –36,0

    Vantalin útgjöld að mati 1. minni hluta sem falla munu á ríkissjóð að öllu óbreyttu eru vegna samkomulags Landsbanka Íslands og fjármálaráðuneytisins vegna yfirtöku á Sparisjóði Keflavíkur 11,2–30 milljarðar kr. Þá liggur ekki fyrir samkomulag um kostnaðarhlut lífeyrissjóða í sérstakri vaxtaniðurgreiðslu að fjárhæð 1,4 milljarðar kr. og loks eru vantalin útgjöld Sjúkratrygginga Íslands að fjárhæð 1,3 milljarðar kr.

Forgangsröðun.
    Í stað þess að stækka skattstofna sem skapa munu auknar tekjur fyrir ríkissjóð er haldið áfram á sömu braut og lagðir á nýir skattar og álögur á fólk og fyrirtæki. Jafnframt eru enn og aftur settar fram illa undirbúnar og ómarkvissar tillögur til niðurskurðar útgjalda. Þar er sérstaklega sláandi að hin „norræna velferðarstjórn“ gengur ítrekað hart í tillögum sínum að viðkvæmustu málaflokkunum, svo sem á sviði heilbrigðis- og öldrunarþjónustu. Umtalsverðum fjármunum er hins vegar varið til nýrra verkefna á sviði stjórnsýslu sem sett eru framar í forgangsröð en fjárveitingar til velferðarmála. Í þessu sambandi má t.d. nefna landsdóm, stjórnlagaráð, ESB-umsókn, fjölgun aðstoðarmanna ráðherra o.fl.
    Tillaga 1. minni hluta um breytingar á fjárlagaliðum heilbrigðis- og öldrunarmála miðar að því að forgangsraða útgjöldum ríkissjóð á næsta ári með öðrum hætti en þeim sem birtist í frumvarpi ríkisstjórnarflokkanna. Þannig leggur 1. minni hluti til að útgjöld til þessara málaflokka verði aukin um rúmar 1.700 millj. kr. og á móti er gerð tillaga um lækkun útgjalda til annarra málaflokka um sömu fjárhæð.
    Álit meiri hluta velferðarnefndar Alþingis á fjárlagafrumvarpi ársins 2012 sem barst fjárlaganefnd sl. fimmtudag gefur ríkar ástæður til að endurmeta þær tillögur sem liggja fyrir Alþingi við 2. umræðu um frumvarpið og varða heilbrigðis- og öldrunarmál. Þar er ályktað um nauðsyn þess að fyrir liggi stefna og áætlun til lengri tíma um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar og innan hvaða fjárhagsramma henni er ætlað að starfa. Jafnframt átelur meiri hluti nefndarinnar að ekki skuli liggja fyrir slíkur grunnur að baki þeirra tillagna sem frumvarpið inniber og lýsir yfir áhyggjum af því að með þeirri fækkun starfa sem frumvarpið geri ráð fyrir skerðist lögbundin heilbrigðisþjónusta.
    1. minni hluti telur óviðunandi að stefnan í heilbrigðismálum þjóðarinnar sé mótuð við fjárlagagerð hvers árs.

Samstarf um skipulag þjónustu.
    Brýnt er að tekist verði á við það verkefni að endurskilgreina þjónustuframboð ríkisins með það að meginmarkmiði að fá meiri þjónustu fyrir minna fé. Þar þarf að byggja upp hvatakerfi til að ná fram skynsamlegri hagræðingu, auka samkeppni, setja raunhæf markmið um þjónustu, gæði og magn og mæla árangur í rekstri. Æskilegt er að skilið verði á milli kaupa og sölu á þjónustu, sjálfstæði stofnana aukið og þeim gert kleift að bjóða í verkefni á vegum ríkisins. Meðan ekki er gerð einhver lengri tíma áætlun um þjónustuframboð ríkisins sem byggist á þessum grunni verður svokallaður niðurskurður aldrei nægilega markviss.
    1. minni hluti telur afar brýnt að hafist verði handa við þetta verkefni og því gefinn nauðsynlegur tími til vinnslu áður en hrapað er að ákvörðunum. Tekist verði á við þetta verkefni á sameiginlegum vettvangi og í samstarfi sérfræðinga og allra hagsmunaaðila sem tengjast viðkomandi þjónustu, hvort heldur er um að ræða notendur eða þá sem hafa með höndum framkvæmd þjónustunnar. Þegar niðurstöður liggja fyrir verður Alþingi fært að taka upplýsta ákvörðun um útgjöld til þessara málaflokka.

Tekjuhlið.
Breytt þjóðhagsspá.
    Þjóðhagsforsendur fjárlagafrumvarpsins byggjast á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem gefin var út 8. júlí sl. Sú spá var endurskoðuð 24. nóvember sl. og gefur tilefni til breytinga á áætlunum og tillögum í frumvarpinu við 2. umræðu. Forsendur fjárlaga hafa breyst nokkuð frá þjóðhagsspá Hagstofunnar. Þannig er því spáð í nýrri þjóðhagspá að hagvöxtur verði 0,7% minni á næsta ári en gert er ráð fyrir í forsendum fjárlaga. Helst má rekja samdráttinn til þess að ekki er spáð jafnmiklum vexti í einkaneyslu, samneyslu og útflutningi og í júlí. Þá er gert ráð fyrir að fjárfesting aukist og þá sérstaklega opinber fjárfesting sem vegur að einhverju leyti upp samdráttinn í hinum liðunum. Í eftirfarandi töflu má sjá samanburð á spám Hagstofunnar í júlí og nóvember.

Forsendur fjárlagafrumvarps 2011.

Spá 24. nóv. Spá 8. júlí Munur
Einkaneysla 3,0% 3,3% –0,3%
Samneysla –0,9% –0,8% –0,1%
Fjármunamyndun 16,3% 14,5% 1,8%
Atvinnuvegafjárfesting 19,0% 17,6% 1,4%
    Fjárfesting í íbúðarhúsnæði 23 ,9% 26,8% –2,9%
    Fjárfesting hins opinbera –5 ,9% –15,5% 9,6%
    Útflutningur vöru og þjónustu 1 ,4% 3,3% –1,9%
Innflutningur vöru og þjónustu 3,4% 4,9% –1,5%
Verg landsframleiðsla 2,4% 3,1% –0,7%
Verg landsframleiðsla án kísilvers 2,2% 3,1% –0,9%
Atvinnuleysi 6,4% 6,0% –0,4%

    Ekki er sjáanleg áætlun um mannfjöldabreytingar vegna flutnings fólks til og frá landinu. Sú þróun getur haft áhrif á tekjuforsendur opinberra aðila, þ.e. ríkis og sveitarfélaga.

Möguleg áhrif á fjárlög.
    Gert er ráð fyrir því í nýrri spá að hagvöxtur verði 0,7% minni á næsta ári en gert var ráð fyrir í júlí. Ef sú þumalputtaregla er notuð að um 28% af hagvexti falli í hlut ríkisins má gera ráð fyrir að minni tekjur ríkissjóðs vegna minni hagvaxtar nemi rúmum 3,1 milljarði kr.
    Í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum er kynntur til sögunnar nýr skattur, kolefnaskattur, sem leggst á kol og koks en þau hráefni eru í rafskautum sem notuð eru við framleiðslu áls, járnblendis og kísilmálms. Hagsmunaaðilar og Íslandsstofa hafa lýst fyrir efnahags- og viðskiptanefnd neikvæðum áhrifum slíks skatts á fjárfestingarákvarðanir til lengri og skemmri tíma. Ljóst er að yfirgnæfandi líkur eru á að skatturinn muni verða til þess að ekki verði ráðist í byggingu kísilvers í Helguvík eins og gert er ráð fyrir í nýrri þjóðhagsspá. Ef ekki verður ráðist í kísilver sem er fjárfesting upp á 17–18 milljarða kr. og dreifist á tvö ár má gera ráð fyrir því að hagvöxtur verði um 0,2 prósentustigum lægri hvort ár. Ef þessi framkvæmd dettur úr má gera ráð fyrir að tekjur dragist saman um rúma 4 milljarða kr. frá fjárlagafrumvarpi.

Undirstöður hagvaxtar veikar.
    Hagvöxtur á árinu 2012 er einkum drifinn áfram af aukinni einkaneyslu. 1. minni hluti hefur áhyggjur af því að ekki sé innstæða fyrir þessari aukningu í einkaneyslunni. Helstu drifkraftar hennar virðast vera úttektir á viðbótarlífeyrissparnaði, ríflegar launahækkanir vegna kjarasamninga, auknar vaxtabætur og frystingar lána. Ekkert af þessu er til komið vegna fjárfestinga á undanförnum árum eða vegna aukinnar framleiðni í hagkerfinu.
    Fjárfestingar eru áfram langt í frá nægjanlegar til þess að vænta megi þess að hagvöxtur aukist á næstunni. Eins og að framan er reifað hafa yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um kolefnaskatt nú þegar valdið miklum skaða og dregið úr trausti fjárfesta á íslenska hagkerfinu. Enn er óvissa um framtíðarfyrirkomulag fiskveiðistjórnarkerfisins og dregur það úr fjárfestingum tengdum sjávarútvegi. Sú óvissa kemur einkum og sér í lagi niður á þjónustu- og iðnaðarfyrirtækjum sem veita sjávarútveginum margs konar þjónustu.
    Vegna aldursdreifingar íslensku þjóðarinnar þarf hagvöxtur að vera töluvert hærri en spáð er til þess að atvinnuleysið minnki svo einhverju nemi. Íslensku þjóðinni er enn að fjölga og koma fleiri inn á vinnumarkaðinn en fara út af honum. 1. minni hluti bendir á að atvinnuleysi er enn alltof hátt og kostnaður vegna þess leggst þungt á efnahagslífið ásamt því að valda ómældum erfiðleikum fyrir þá sem eru án atvinnu.
    Í þeim kjarasamningum sem gerðir voru síðastliðið sumar var reiknað með að hagvöxtur yrði að lágmarki 3% og að heildarfjárfesting á samningstímanum yrði komin í um 20% af landsframleiðslu. Umsamdar launahækkanir endurspegluðu þessar væntingar. 1. minni hluti telur að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við það samkomulag sem gert var við aðila vinnumarkaðarins. Áhrif þess á fjárlög ríkisins eru þau að tekjur ríkissjóðs eru minni en ella og atvinnuleysi er enn hátt.

Veikleikar í tekjuáætlun.
    Helstu áhættuþættir hvað varðar tekjuöflun ríkisins snúa að þróun efnahagsmála á næstu missirum. 1. minni hluti ítrekar áhyggjur sínar af samsetningu hagvaxtarins og hversu háður hann er aukinni einkaneyslu sem ekki er drifin áfram af fjárfestingum og aukinni framleiðni.
    Jafnframt bendir 1. minni hluti á að við afgreiðslu fjáraukalaga voru gerðar alvarlegar athugasemdir við ætlaða tekjuöflun frá lífeyrissjóðum og bönkum vegna sérstakra vaxtabóta. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir sama fyrirkomulagi og birtist í fjáraukalögum fyrir árið 2011, þ.e. að lífeyrissjóðir greiði til ríkisins samkvæmt samkomulagi 1.400 millj. kr. Slíkt samkomulag liggur ekki fyrir og því telur 1. minni hluti óráðlegt að gera ráð fyrir þeim tekjum með þeim hætti sem frumvarpið gerir.
    1. minni hluti varar eindregið við þeirri skattastefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt á undanförnum árum. Hærri skattar og aukin gjaldtaka hefur neikvæð áhrif á atvinnulífið en verst koma skattahækkanir niður á skuldugum heimilum þar sem tekjur hafa dregist saman en afborganir á lánum hækkað.
    Í ritinu Ríkisbúskapurinn 2012–2015 er birt yfirlit um aukna skattheimtu ríkisins, ásamt því að getið er annarra áforma til aukinnar tekjuöflunar.

Áhrif tekjuöflunaraðgerða á tekjur ríkissjóðs.

Rekstrargrunnur, milljarðar kr. 2009 2010 2011 2012
Skattkerfisbreytingar 23,7 68,7 83,0 95,0
Arður, eignasala o.fl. 1,5 1,6 10,7
Áhrif séreignarsparnaðarheimilda 4,6 5,4 2,3
Alls 23,7 74,8 90,0 108,0
Alls, % af VLF 1,6 4,9 5,5 6,1

    Áætlað er að tekjur aukist vegna þessara skattahækkana um 9,7 milljarða kr. og skattar vegna úttekta á séreignarsparnaði skili 2 milljörðum kr. til viðbótar. Þessar skattahækkanir koma til viðbótar þeim sem lagðar hafa verið á frá árinu 2009.
    1. minni hluti varar sérstaklega við þeirri fyrirætlun sem birtist í frumvarpinu er snýr að því að draga úr frádráttarbærni iðgjalda vegna viðbótarlífeyrissparnaðar frá tekjustofni þannig að hámark launþega verði 2% í stað 4% eins og nú er. Þessi ráðstöfun mun þegar fram í sækir draga úr sparnaði í hagkerfinu og þar með draga úr fjárfestingum atvinnulífsins.

Gjaldahlið.
Hallarekstur og skuldir.
    Ríkissjóður hefur verið rekinn með miklum halla undanfarin ár. Samstarfsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins miðaði að því að ríkisfjármál yrðu komin í jafnvægi árið 2012 og að skuldasöfnun yrði stöðvuð. Þetta hefur því miður ekki gengið eftir. Þannig var hallinn á ríkissjóði fyrstu sex mánuði ársins 37 milljarðar kr. og samkvæmt fjáraukalögum eykst hallinn á síðari helming ársins enn meira vegna launahækkana og vegna þess að ekki er brugðist við með raunhæfum aðgerðum. Ríkisstjórnin hefur boðað að það muni taka mun lengri tíma að koma ríkissjóði á réttan kjöl en upphaflega var áætlað. Með þessu ýtir ríkisstjórnin vandanum á undan sér. Hallarekstur leiðir óhjákvæmilega til skuldasöfnunar og um leið til þess að stærri hluta af tekjum ríkissjóðs er varið til þess að greiða vexti af lánum. Eðli málsins samkvæmt verður þeim peningum ekki varið til þjónustu við borgarana.
    Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1.409 milljörðum kr. í lok október eða sem svarar 86,5% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Gert er ráð fyrir að hrein staða ríkissjóðs versni um 40 milljarða kr. á árinu 2012. Þessa skuldasöfnun verður að stöðva því að vaxtagreiðslur taka undir sig stöðugt aukinn hluta skatttekna.

6. gr. heimildir.
    Með vísan til þeirra tillagna sem samstaða náðist um í fjárlaganefnd um viðbrögð við skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning ársins 2009 leggur 1. minni hluti til að við 6. grein bætist nýr liður með heimild til fjármálaráðherra:
    1.2    Að vinna að kaupum og sölu eigna ríkissjóðs á árinu 2012 í samræmi við eftirfarandi skilyrði: Áður en heimild er nýtt skal fjárlaganefnd berast umsókn um heimild til útgjalda samkvæmt tiltekinni heimildargrein. Umsókninni skal fylgja rökstuðningur þar sem m.a. kemur fram hvaða fjárhæðir er um að ræða og hver áhrif eru á fjárlög og efnahag ríkissjóðs. Fjárlaganefnd skal taka afstöðu til umsóknar fjármálaráðherra innan sjö virkra daga frá því fullgild umsókn berst nefndinni.
    Þótt Ríkisendurskoðun hafi á undanförnum árum ítrekað gert athugasemdir og gagnrýnt að fjármálaráðuneyti fái svokallaðar „opnar heimildir“ á fjárlögum vegna stofnfjárframlaga og útgjalda er enn að finna slíkar heimildir í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Athugasemdir Ríkisendurskoðunar felast í því að þessi aðferð geti haft í för með sér að stofnað sé til mikilla fjárskuldbindinga án þess að ákvarðanir um slíkt hafi verið nógu vel kynntar og ræddar á Alþingi. Þá er hætt við að útgjöld og afkoma samkvæmt fjárlögum gefi misvísandi mynd af raunverulegum fyrirætlunum stjórnvalda sem áhrif hafa á fjárhagsstöðu ríkisins.
    Í breytingartillögu meiri hlutans er lögð til heimild til fjármálaráðherra vegna yfirtöku ríkisins á SpKef en ríkið lagði rúma 3,5 milljarða kr. inn í SpKef, Byr og fimm minni sparisjóði á árinu 2010 sem stofnfé.
    Heimildin sem óskað er eftir er þess efnis að fjármálaráðherra verði heimilt að ganga frá uppgjöri og greiðslu til Landsbankans hf. vegna mismunar á eignum og innstæðuskuldbindingum Spkef sparisjóðs á grundvelli endanlegs eignamats í tengslum við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 5. mars 2011, um samruna Spkef sparisjóðs og Landsbankans hf. Hámarksfjárhæð er sem fyrr ekki tilgreind en fyrir liggur að ríkið þarf að greiða á milli 11 og 30 milljarða kr. vegna samruna SpKef við Landsbankann. Úrskurðarnefnd mun skera úr um endanlega greiðslu ríkisins og byggja hana á verðmati á eignum SpKef.
    Beinist gagnrýni Ríkisendurskoðunar að því að stofnað sé til umtalsverðra greiðslna úr ríkissjóði á grundvelli slíkra heimilda því hámarksupphæðir eru engar. Reynslan sýnir að opnar heimildir skv. 6. gr. fjárlaga og fjáraukalaga eru ekkert annað en opinn tékki fyrir fjármálaráðuneytið.

Fjármál sveitarfélaga, aukaframlag í Jöfnunarsjóð.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sérstakt aukaframlag vegna sveitarfélaga sem verst eru sett vegna „áhrifa bankahrunsins á skuldastöðu þeirra falli niður í tveimur áföngum árin 2012 og 2013“ eins og segir í frumvarpinu. Framlagið lækkar því um helming frá gildandi fjárlögum eða um 350 millj. kr. Sérstakt aukaframlag, sem runnið hefur til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, hefur ekki fyrr verið veitt með tilvísun til áhrifa bankahrunsins 2008 á skuldastöðu sveitarfélaganna.
    Tilgangur sérstaka aukaframlagsins var að tryggja afkomu þeirra sveitarfélaga sem verst voru stödd rekstrarlega vegna sérstakra aðstæðna. Þessar sérstöku aðstæður voru til dæmis fækkun íbúa og samdráttur í tekjustofnum. Um það ríkti ákveðið samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga.
    Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er aukaframlaginu eingöngu ætlað að mæta vanda þeirra sveitarfélaga þar sem skuldir hafa vaxið mest eftir bankahrunið. Það eru fyrst og fremst þau sveitarfélög sem hafa hæst hlutfall lána í erlendum gjaldmiðlum. Því má segja að þau sveitarfélög sem hafa erfiðasta rekstrarlega afkomu og hafa fengið framlög af aukaframlaginu til þessa eigi að leggja fyrrgreindum sveitarfélögum til fjármuni á óbeinan hátt. Í öðru lagi kemur fram að leggja eigi aukaframlagið niður í tveimur áföngum. Úr frumvarpinu má lesa að það eigi að vera 350 millj. kr. á árinu 2012 og 175 millj. kr. árið 2013. Ekki þarf að fjölyrða um áhrif þessarar stefnumörkunar fyrir rekstrarafkomu þeirra sveitarfélaga sem hafa haft óviðunandi afkomu af hefðbundnum tekjustofnum.
    Samband íslenskra sveitarfélaga telur nauðsynlegt að aukaframlagið verði a.m.k. 1.200 millj. kr. á ári til að hægt sé að mæta fyrirliggjandi rekstrar- og skuldavanda sveitarfélaganna þar sem hefðbundnir tekjustofnar sveitarfélaganna séu ekki nægjanlegir til að standa undir rekstri reglubundinna verkefna sveitarfélaganna. Einnig hefur ríkissjóður með hækkun skatta lagt aukin útgjöld á sveitarsjóði landsins.
    Allflest sveitarfélög landsins hafa einnig andmælt því harðlega að á yfirstandandi ári eigi að láta 300 millj. kr. af aukaframlaginu renna til eins sveitarfélags sem á í miklum skuldaerfiðleikum vegna afleiðinga fyrri ákvarðanatöku. Þessir fjármunir eru þannig fyrst og fremst teknir frá þeim sveitarfélögum sem hafa átt við erfiðan rekstur að stríða.

Ómarkviss undirbúningur.
    Breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar fyrir 2. umræðu fjárlaga nema um 4 milljörðum kr. til hækkunar gjalda og koma flestar tillögurnar frá ríkisstjórninni. Þau viðfangsefni sem þar um ræðir voru flest fyrirséð þegar við 1. umræðu. Breytingartillögurnar og meðferð þeirra í fjárlaganefnd bera hins vegar með sér að ekki hafi verið vandað nægilega vel til verka við undirbúning tekju- og útgjaldahliðar frumvarpsins. Búnar eru til forsendur sem vitað er að ekki standast.
    Tillögur um breytingar á fjárveitingum til heilbrigðismála komu fram sólarhring áður en málið var tekið út úr nefndinni og höfðu þær þá ekki verið kynntar fyrir velferðarnefnd.
    Áform um byggingu fangelsis voru dregin til baka þegar frumvarpið var afgreitt úr nefndinni. Fyrir liggur að áform innanríkisráðherra njóta ekki stuðnings meiri hluta stjórnarliða á Alþingi og enn er ótekin ákvörðun sem birta átti þjóðinni í ágúst 2011 um hvort framkvæmdin yrði fjármögnuð beint úr ríkissjóði eða í einkaframkvæmd.
    Mörg hundruð milljóna króna aukning á útgjöldum Fjármálaeftirlitsins og umboðsmanns skuldara voru sett fram í tillögum ríkisstjórnar fyrir 2. umræðu. Tillagan er varðaði Fjármálaeftirlitið var síðan dregin til baka á úttektarfundinum. Meðferð þessara fjárbeiðna vekur upp spurningar um vinnubrögð stofnana og ráðuneyta við fjárlagagerð. Aukin útgjöld til þessara stofnana hefðu átt að koma fram í frumvarpinu hafi ætlunin á annað borð verið að leggja þær fram. Ekkert af því sem kom fram til rökstuðnings þessum tveimur beiðnum voru nýjar upplýsingar sem ekki hefðu átt að geta legið fyrir í aðdraganda þess að frumvarpið var lagt fram.
    Eins og áður hefur verið minnst á er enn lagt upp með áform um að lífeyrissjóðir landsmanna greiði til ríkissjóðs 1.400 millj. kr. vegna sérstakra vaxtaniðurgreiðslna til þeirra sem skulda húsnæðislán. Þetta eru sömu áform og voru uppi á þessu ári og hafa enn ekki verið fullnustuð og ekkert er frágengið fyrir næsta ár. Líkast til yrði svo Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins stærsti greiðandi þessa gjalds sem enn hefur ekki verið svarað hvort á að vera skattur eða fjárframlag til ríkissjóðs. Til að kóróna svo hringlandann í þessu máli má svo geta þess að ríkissjóður er í ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum lífeyrissjóðsins og þyrfti því að greiða sjálfum sér gjald vegna áforma ríkisstjórnarinnar.
    Framlög ríkissjóðs til Sjúkratrygginga Íslands eru enn eina ferðina vanmetin í fjárlagatillögum ríkisstjórnarinnar og svo ber við að um svipaða fjárhæð er að ræða og nauðsynlegt reyndist að taka inn við gerð fjáraukalaga ársins 2011 eða sem nemur um 1.300 millj. kr.
    Lækkun vaxtagjalda um 591 millj. kr. skýrist af því að útgáfa óverðtryggðra ríkisbréfa minnkar á árinu 2011 en á móti eykst útgáfa verðtryggðra ríkisbréfa. Þar sem verðbætur fara um höfuðstól er einungis verið að hlífa rekstrarreikningnum við gjaldfærslunni og því virðast gjöld ríkissjóðs lægri en þau í reynd eru.
    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur ekki gefið fjárlaganefnd umsögn um tekjugrein frumvarpsins né heldur óskað umsagnar fjárlaganefndar um einstök tekjufrumvörp ríkisstjórnarinnar svo sem þingsköp kveða á um.
    Enn hafa ráðuneyti ekki skilað Hagfræðistofnun Háskólans og Byggðastofnun umbeðnum upplýsingum svo að unnt sé að meta samfélagsleg áhrif þeirra aðgerða sem leiðir af fjárlagagerð „norrænu velferðarstjórnarinnar“. Samkomulag náðist milli allra stjórnmálaflokka á Alþingi að þetta verkefni yrði unnið og upplýsingar nýttar til að rýna fjárlagagerð fyrir árið 2012.
    Þrátt fyrir að fjármálaráðherra og fleiri ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi gefið áform um innheimtu kolefnisskatts upp á bátinn standa þau áform enn inni í frumvarpinu
    Enn hafa fjárlaganefnd ekki verið kynntar reglur, þrátt fyrir ítrekaðar óskir, um ráðstöfun þeirra fjármuna sem óskað er eftir að verði á fjárlagalið fjármálaráðuneytisins um óviss útgjöld.
    Enn fremur ber þess að geta að ekki eru metin fjárhagsleg áhrif þeirra heimildarákvæða sem er að finna í 6. gr. frumvarpsins og geta leitt til allverulegra útgjalda fyrir ríkissjóð og þar með aukið á þann hallarekstur sem við er að glíma.

Eftirlitsskylda fjárlaganefndar.
    1. minni hluti fjárlaganefndar telur málsmeðferð meiri hluta fjárlaganefndar ekki nægjanlega vandaða. Í 13. gr. þingskaparlaga segir um fjárlaganefnd: „Nefndin fjallar um fjármál ríkisins, fjárveitingar, eignir ríkisins, lánsheimildir og ríkisábyrgðir og lífeyrismál. Nefndin veitir efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um þingmál er varða tekjuhlið fjárlaga. Enn fremur skal nefndin annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga.“
    Ekkert álit var sérstaklega unnið af hálfu fjárlaganefndar um tekjuhlið fjárlaga og engin umsögn var send efnahags- og viðskiptanefnd þar að lútandi. Þetta er að mati 1. minni hluta mjög alvarleg yfirsjón þar sem miklu skiptir að Alþingi hafi sem gleggsta mynd af þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar tekjuáætlun fjárlaga. Ný þjóðhagsáætlun var kynnt að morgni 24. nóvember og fulltrúar Hagstofunnar komu á fund nefndarinnar kl. 15 sama dag. Lítill sem enginn tími gafst til að yfirfara efnahagsspána fyrir þennan fund nefndarinnar og þar með höfðu nefndarmenn takmarkaðar forsendur til þess að meta og ræða forsendur hagspárinnar við fulltrúa Hagstofunnar.
    1. minni hluti vekur einnig athygli á því hlutverki nefndarinnar að annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga, en skýrt er kveðið á um það hlutverk nefndarinnar í þingsköpum. Því hlutverki hefur ekki verið sinnt með skipulögðum hætti.

Efnahagstillögur þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
    Eitt helsta markmið samstarfssamnings ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í ríkisfjármálum var að ná frumjöfnuði í afkomu ríkissjóðs árið 2011 og heildarjöfnuði árið 2013. Nú liggur fyrir að þessi áform munu ekki ganga eftir og hafa stjórnvöld sett sér nýtt markmið um jöfnuð árið 2014. Halli á ríkissjóði samkvæmt ríkisreikningi 2010 varð 123 milljarðar kr. eða 25 milljarðar kr. umfram fjárlög. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 er halli á ríkissjóði áætlaður 42 milljarðar kr. árið 2011 og 17,7 milljarðar kr. á næsta ári, eða 1,0% af vergri landsframleiðslu. 1. minni hluti hefur sett fram athugasemdir sínar við þá útreikninga og hefur fært fyrir því rök að hallareksturinn sé umtalvert meiri en áætlanir ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir. Skuldir ríkissjóðs aukast því enn.
    Til að auðvelda stjórnvöldum að ná þeim markmiðum sem sett voru um hallalausan ríkisrekstur unnu aðilar vinnumarkaðarins að gerð stöðugleikasáttmála ásamt ríkisstjórn og Sambandi íslenskra sveitarfélaga í júní 2009. Þar voru útlistaðar fjölmargar aðgerðir sem áttu að stuðla að endurreisn efnahagslífsins og bættri afkomu ríkissjóðs. Aðgerðir stjórnvalda til að stuðla að aukinni fjárfestingu og fjölgun starfa hafa litlar orðið. Viðvarandi halli er á ríkissjóði, auknar skuldir og hærri vaxtagreiðslur munu smám saman skaða innviði samfélagsins, rýra almannaþjónustu, draga úr mætti atvinnulífsins til atvinnusköpunar og skerða kjör alls almennings.
    Formaður Sjálfstæðisflokksins mælti fyrr í þessum mánuði fyrir tillögum þingflokks Sjálfstæðisflokksins á þingskjali 142 í 142. máli um breytta stefnu í efnahagsstjórn landsins. Þar eru gerðar tillögur um leiðir út úr þeim vanda sem núverandi stjórnvöld virðast ekki ráða við.
    Tillögunum er aðallega beint að þremur meginviðfangsefnum:
     1.      Leita þarf allra leiða til að koma atvinnulausum í vinnu og minnka með því kostnað ríkissjóðs og atvinnulífsins og endurheimta skattgrunna.
     2.      Endurskipuleggja þarf rekstur ríkissjóðs með það fyrir augum að fá meiri þjónustu fyrir minna fé.
     3.      Greiða þarf niður skuldir ríkissjóðs til að minnka vaxtabyrðina.

    Ljóst er að núverandi efnahagsstefna stjórnvalda sem felst í skattheimtu og niðurskurði mun ekki skila þeim árangri sem vænst er. Því er mikilvægt að skipta um stefnu við stjórn efnahagsmála.

Alþingi, 29. nóv. 2011.Kristján Þór Júlíusson,


frsm.


Ásbjörn Óttarsson.


Illugi Gunnarsson.