Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 333. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 409  —  333. mál.




Beiðni um skýrslu



frá fjármálaráðherra um áhrif lækkunar höfuðstóls húsnæðislána.



Frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Árna Johnsen, Ásbirni Óttarssyni,
Birgi Ármannssyni, Bjarna Benediktssyni, Einari K. Guðfinnssyni,
Illuga Gunnarssyni, Jóni Gunnarssyni, Kristjáni Þór Júlíussyni, Ólöfu Nordal,
Ragnheiði E. Árnadóttur, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, Tryggva Þór Herbertssyni,
Unni Brá Konráðsdóttur og Þorgerði K. Gunnarsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 53. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármálaráðherra flytji Alþingi skýrslu þar sem eftirfarandi atriði verði metin:
     1.      Áhrif þess að lækka höfuðstól húsnæðislána um 10–25% á:
              a.      hagkerfið,
              b.      lífeyrissjóðina,
              c.      réttindaávinnslu sjóðfélaga,
              d.      Íbúðalánasjóð,
              e.      aðrar fjármálastofnanir.
     2.      Áhrif þess að hækka lífeyrisaldur um eitt til þrjú ár í tengslum við niðurfærsluna.
     3.      Áhrif þess að aftengja vísitölu á lánum og réttindum næstu fimm árin.

Greinargerð.

    Flutningsmenn telja bæði efnahagsleg rök og réttlætisrök standa til þess að lækka höfuðstól íbúðalána. Nauðsynlegt er þó að meta áhrif þeirrar aðgerðar á hagkerfið, lífeyrissjóðina og réttindaávinnslu sjóðfélaga. Þá er einnig nauðsynlegt að meta áhrifin á Íbúðalánasjóð og aðrar fjármálastofnanir sem hafa lánað til húsnæðiskaupa og eru jafnvel með stóran hluta eignasafna sinna í húsnæðislánum og þá hvort unnt er að mæta þessari aðgerð með einhverjum mótvægisaðgerðum, svo sem að hækka lífeyrisaldur um eitt til þrjú ár og aftengja vísitölu á lánum og réttindaávinnslu sjóðfélaga tímabundið, t.d. í fimm ár.
    Til þess að koma efnahagslífi landsins í gang þarf að létta skuldabyrði af fólki sem stendur í íbúðakaupum. Fyrir liggur að mjög stór hópur fólks er reyrður í skuldaspennitreyju og á meðan svo er eru litlar líkur á því að hagvöxtur fari af stað en það er nauðsynleg forsenda framþróunar í íslensku þjóðlífi. Einnig má færa rök fyrir því að lánasöfn húsnæðislána séu ofmetin, þ.e. fasteignir eru of hátt skráðar miðað við raunverulegt verðmæti. Borið hefur á mikilli gremju hjá fólki, sem hefur með naumindum staðið í skilum með verðtryggð húsnæðislán og ekki fengið nokkra eða mjög litla leiðréttingu á sínum lánum, gagnvart öðrum sem fóru geyst, skuldsettu sig mikið (með erlendum lánum) og hafa fengið miklar niðurfærslur og leiðréttingar. Fyrir utan stökkbreytta höfuðstóla verðtryggðra húsnæðislána bætist við vandi vegna of lágra launa og hærri skatta samfara hærra verðlagi.
    Meiri hluti íbúðalána er hjá Íbúðalánasjóði eða um 65–75%. Íbúðalánasjóður er að langstærstum hluta fjármagnaður af lífeyrissjóðum landsmanna og mun því niðurfelling eða lækkun á höfuðstól hafa áhrif á lífeyrisréttindi þeirra. Lífeyrissjóðakerfi landsmanna hefur ekki enn náð að uppfylla þau markmið sem lagt var upp með (m.a. vegna tiltölulega stutts inngreiðslutíma) og því er enn mikið af lífeyrisþegum með lágan lífeyri. Til að koma í veg fyrir að þetta fólk fari illa út úr aðgerð sem þessari mætti hugsa sér þá mótvægisaðgerð að hækka lífeyrisaldurinn í áföngum þannig að það kæmi ekki niður á þeim sem nú hafa hafið töku lífeyris og enn fremur að hækka lífeyrisaldurinn þannig að þeir sem greiða nú í sjóðina mundu hefja töku lífeyris seinna en nú er.
    Einnig er vert að skoða hvort leiðrétting á lánum gæti farið þannig fram að vísitala þeirra lána sem nú eru verðtryggð yrði tekin úr sambandi í einhver ár ásamt vísitölutengingu lífeyris.
    Þessar aðgerðir munu skila sér í auknum kaupmætti fólks og örvun í hagkerfinu sem mun koma öllum til góða, ekki síst lífeyrissjóðunum sem þurfa á góðum fjárfestingarkostum að halda til að standa undir skuldbindingum sínum.