Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 342. máls.

Þingskjal 418  —  342. mál.Tillaga til þingsályktunar

um tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2022.

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
    Alþingi ályktar, sbr. lög um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum, að á árunum 2011–2022 skuli unnið að fjarskiptamálum í samræmi við áætlun þessa sem felur í sér stefnumótun í fjarskiptamálum og helstu markmið sem vinna skal að og þannig lagður grunnur að framþróun íslensks samfélags.
    Í fjarskiptaáætlun verði lögð áhersla á að:
     a.      stuðla að atvinnuuppbyggingu, bættum lífsgæðum og jákvæðri byggðaþróun,
     b.      tryggja öryggi almennra fjarskiptaneta innan lands og tengingar við umheiminn,
     c.      styrkja samkeppni á fjarskiptamarkaði og auka samkeppnishæfni Íslands,
     d.      ná fram víðtæku samstarfi markaðarins, neytenda, opinberra stofnana og ráðuneyta um stefnumótun er varðar fjarskipti og skyld svið,
     e.      ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og hámarka jákvæð áhrif fjarskipta á hagvöxt og lífsgæði,
     f.      ná fram samræmdri forgangsröðun og stefnumótun, og skal forgangsröðun byggjast á mati á þörf fyrir úrbætur á landinu í heild og í einstökum landshlutum.
    Markmiðin stuðli að aðgengilegum, greiðum, hagkvæmum, skilvirkum, öruggum og umhverfisvænum fjarskiptum. Heimilt verði í fjarskiptaáætlun að skoða fjarskipti heildstætt í tengslum við aðra þætti samskipta, svo sem rafræn samskipti og samskipti sem byggjast á póstþjónustu.
    Í fjarskiptaáætlun verði jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fjögurra ára og leggi ráðherra fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um slíka áætlun. Aðgerðaáætlun verði endurskoðuð á tveggja ára fresti og má þá leggja nýja þingsályktunartillögu fyrir Alþingi. Sé það gert eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Í fjögurra ára áætlun sé gerð grein fyrir fjáröflun og útgjöldum eftir einstökum verkefnum eins og við á. Fjarskiptaáætlun og fjögurra ára aðgerðaáætlun hennar taki gildi þegar Alþingi hefur samþykkt þær sem þingsályktanir.

STEFNUMÓTUN


1. Markmið um aðgengileg og greið fjarskipti.
     a.      Uppbygging og endurnýjun ljósleiðarastofnnetsins innan lands taki mið af markmiðum stjórnvalda og þörfum notenda fyrir gagnaflutninga á hverjum tíma.
     b.      Ljósleiðarahringtenging nái að lágmarki til landsvæða/byggðakjarna með yfir 5.000/ 1.000 íbúa.
     c.      Byggðakjarnar með yfir 50 íbúa séu tengdir með ljósleiðara.
     d.      Þjóðfélagslega mikilvægir fjarskiptastaðir verði skilgreindir og tengdir raforku- og ljósleiðarastofnneti.
     e.      90% lögheimila og vinnustaða eigi kost á 30 Mb/s árið 2014, 100% árið 2022.
     f.      70% lögheimila og vinnustaða eigi kost á 100 Mb/s árið 2014, 99% árið 2022.
     g.      98% lögheimila og vinnustaða eigi kost háhraðafarneti árið 2014, 99,9% árið 2022.
     h.      80% af landi og hafsvæði kringum landið eigi kost á háhraðafarneti árið 2018.
     i.      Opinberar stofnanir hafi aðgang að nettengingum við hæfi.
     j.      Öllum landsmönnum verði tryggð jöfn aðstaða til að tileinka sér möguleika upplýsingatækninnar.
     k.      Innanríkisráðuneytið og stofnanir þess stuðli að framþróun og verði í fremstu röð við að nýta tækifæri til hagræðingar og framboðs á rafrænni þjónustu.

2. Markmið um hagkvæm og skilvirk fjarskipti.
     a.      Skilvirkt regluverk á fjarskipta- og póstmarkaði stuðli að framförum og samkeppni.
     b.      Regluverk stuðli að fjárfestingum á sviði fjarskipta og jafnvægi gagnvart samkeppnissjónarmiðum.
     c.      Tryggð verði skilvirk stjórnun tíðna gegnum regluverk um ráðstöfun og notkun tíðnisviðsins.
     d.      Úthlutun og verðlagning tíðna efli samkeppni, stuðli að aukinni útbreiðslu fjarskiptaþjónustu og vinni gegn markaðsbresti.
     e.      Verð á fjarskiptaþjónustu sé sambærilegt við það sem best gerist í Evrópu.
     f.      Viðhaldið verði og stuðlað að samkeppni og eigin fjárfestingum markaðsaðila í fjarskiptakerfum á grundvelli regluverks og úthlutun opinberra auðlinda.
     g.      Stuðlað verði að samnýtingu í fyrirliggjandi og nýjum fjarskiptakerfum þar sem ekki er talinn grundvöllur til samkeppni í fjarskiptanetum.
     h.      Tryggt verði aðgengi neytenda að skýrum og samanburðarhæfum upplýsingum um fjarskiptaþjónustu.
     i.      Dregið verði úr aðstöðumun fyrirtækja í dreifbýli og þéttbýli hvað varðar verð og framboð á fjarskiptaþjónustu.
     j.      Stuðlað verði að samkeppnishæfni og aukinni nýtingu sæstrengja.
     k.      Innkaup stjórnsýslunnar stuðli að hagkvæmni og framförum í fjarskiptatækni.
     l.      Nýttir verði kostir alþjónustu við að ná fram markmiðum áætlunarinnar um uppbyggingu gagnaflutningsþjónustu og til þess að koma til móts við óskir notenda varðandi hana.
     m.      Tryggt verði hagkvæmt og öruggt aðgengi að íslensku léni.
     n.      Íslenskir neytendur eigi kost á hagkvæmri og skilvirkri póstþjónustu.
     o.      Tryggð verði fjármögnun alþjónustu í pósti.

3. Markmið um örugg fjarskipti.
     a.      Regluverk á fjarskiptamarkaði efli öryggi fjarskipta og vernd neytenda.
     b.      Mótuð verði þjóðaröryggisstefna stjórnvalda um netöryggi og vernd innviða fjarskipta og upplýsingakerfa með samræmdum hætti til samræmis við aðrar Evrópuþjóðir.
     c.      Virkni neyðarfjarskiptakerfa verði skilgreind og bætt gagnvart skilgreindum áföllum.
     d.      Hagsmunaaðilar skilgreini, meti og bæti þol almennra fjarskiptaneta gagnvart skilgreindum áföllum.
     e.      Óánægðir viðskiptavinir fjarskiptafyrirtækja hafi einföld og hagkvæm úrræði til að fá úrlausn sinna mála.
     f.      Öryggi borgara á netinu verði viðhaldið og það eflt með skipulegri fræðslu og rafrænni auðkenningu.
     g.      Öryggi póstþjónustu verði tryggt og ekki lakara en annars staðar á Norðurlöndum.

4. Markmið um umhverfisvæn fjarskipti.
     a.      Upplýsingar um fjarskiptasendistaði séu aðgengilegar á myndrænu formi fyrir almenning.
     b.      Upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir verði aðgengilegar tímanlega og á myndrænu formi til að greiða fyrir samnýtingu framkvæmda við fjarskiptalagnir.
     c.      Förgun fjarskiptabúnaðar verði útfærð og innleidd.
     d.      Póstþjónustu- og fjarskiptafyrirtæki setji sér umhverfisstefnu.
     e.      Stjórnvöld stuðli að nýtingu fjarskipta til þess að stemma stigu við neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga.
     f.      Stuðlað verði að umhverfisvænni póstdreifingu.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


Inngangur.
    Með lögum nr. 78/2005, um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, var í fyrsta sinn mótuð heildstæð stefna í fjarskiptamálum fyrir Ísland þar sem kveðið var á um gerð fjarskiptaáætlunar. Samgönguráðherra ákvað gerð fjarskiptaáætlunar fyrir árin 2005–2010 og hafði hún að geyma mörg og metnaðarfull markmið auk verkefnaáætlunar sem hefur sett mikinn svip á þróun og þjónustu á sviði fjarskipta til allra landshluta. Sérstök áhersla var lögð á að bæta fjarskipti þar sem úrbóta var mest þörf. Kveðið var á um að öryggi vegfarenda yrði bætt með aukinni farsímaþjónustu á þjóðvegum og helstu ferðamannastöðum og að allir landsmenn sem þess óska gætu tengst háhraðaneti og notið hagkvæmrar og öruggrar fjarskiptaþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun ber að stuðla að framgangi stefnu stjórnvalda sem birtist í fjarskiptaáætlun.
    Árið 2009 lagði forsætisráðherra fram tillögu til þingsályktunar um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt, „Ísland 2020“ (þskj. 476, 332. mál), sem felur í sér að útbúin verði samræmd áætlun til nýrrar sóknar í íslensku atvinnulífi. Nokkrar helstu áætlanir stjórnvalda verða samþættar, þeirra á meðal samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun, byggðaáætlun, áætlun í ferðamálum og áætlun um stækkun sveitarfélaga. Í sóknaráætlun felst því samþætting áætlana sem varða m.a. atvinnuuppbyggingu, bætt lífsgæði og jákvæða byggðaþróun.
    Í kjölfar þessara breytinga var ákveðið að breyta áherslum fjarskiptaáætlunar til samræmis við aðra áætlunargerð ríkisins. Niðurstaðan felur í sér nýja og endurbætta fjarskiptaáætlun sem auk fjarskipta nær í ríkari mæli til rafrænna samskipta. Einnig er heimilt að líta til annarra samskiptaleiða, svo sem póstsamskipta. Efnistökum nýrrar fjarskiptaáætlunar er þannig ætlað að vera víðtækari en fjarskiptaáætlunar 2005–2010. Ný áætlun veitir heildstætt yfirlit yfir mismunandi fjarskiptaleiðir og samspil þeirra, auk þess sem hún tekur mið af stefnumörkun ríkisstjórnarinnar, Ísland 2020.

1. Forsendur fjarskiptaáætlunar.
    Með fjarskiptaáætlun sem hér birtist er sett fram stefna í fjarskiptamálum stjórnvalda, þ.e. fjarskiptamálum, póstmálum, rafrænum samskiptum og stafrænni miðlun. Horft er til þess að uppsetning, tímarammar og efnistök áætlunarinnar séu í samræmi við aðra áætlunargerð innanríkisráðuneytisins, einkum samgönguáætlunar. Gildistími nýrrar fjarskiptaáætlunar er tvíþættur. Annars vegar er um að ræða langtímaáætlun til 12 ára og hins vegar skammtíma (framkvæmda) áætlun til fjögurra ára. Langtímaáætlunin er hin raunverulega stefnumótun stjórnvalda. Slík stefnumótun verður að taka mið af öðrum markmiðum stjórnvalda, svo sem áherslum sóknaráætlunar 2020, líklegri tækniþróun og fjarskiptastefnu hjá ríkjum sem við viljum bera okkur saman við.
    Í áætluninni er fjallað um fjarskipti út frá fjórum áhersluatriðum sem eru í samræmi við áherslur samgönguáætlunar og eru að mörgu leyti rökrétt umfjöllunaratriði varðandi uppbyggingu og rekstur innviða samfélagsins. Þau eru aðgengileg, greið, hagkvæm, skilvirk, örugg og umhverfisvæn. Áætluninni er ætlað að fjalla um forsendur aðkomu stjórnvalda við að setja reglur um fjarskiptaþjónustu sem tryggja samkeppni á jafnræðisgrunni. Einnig setja stjórnvöld reglur sem ætlað er að stuðla að öryggi fjarskipta auk áforma um hvernig þau koma að öryggi með öðrum hætti en reglusetningu. Þá fjallar fjarskiptaáætlun um markaðsbresti, leggur til reglur og stefnuviðmið um hvernig skuli tryggja aðgengi ýmissa hópa að fjarskiptum, svo sem fatlaðra og þeirra sem búa utan þéttbýlis. Ein af forsendunum fyrir stefnumótun stjórnvalda eru landfræðilegar aðstæður og strjálbýli sem eru helstu hindranir í vegi fyrir uppbyggingu á háhraðanettengingum á markaðslegum forsendum. Loks fjallar fjarskiptaáætlun um umhverfismál og setur fram stefnu stjórnvalda um hvernig haga megi fjarskiptum svo að þau séu sem sjálfbærust eða stuðli að sjálfbærni annarra þátta.

Aðkoma ríkisins.
    Ein grunnforsenda áætlunarinnar er að fjarskipti séu þjónusta sem fyrirtæki á markaði bjóða í samkeppni hvert við annað. Fjarskiptaþjónusta fellur að mestu undir EES-samninginn og er byggð á grunni fjórfrelsisins.
    Sú stefnumarkandi áætlun sem hér birtist felur í sér stefnu stjórnvalda í fjarskiptamálum um framboð og umgjörð fjarskiptaþjónustunnar. Áætlunin tekur mið af því hlutverki stjórnvalda að sjá til þess að skýrar leikreglur greiði fyrir einkaframtaki og um leið að skyldur fyrirtækja á markaði og réttindi neytenda séu skýrar. Ekki er hægt að afgreiða samfélagslegt hlutverk stjórnvalda að öllu leyti með reglusetningu svo sem að leysa úr markaðsbresti og um öryggis- og umhverfismál. Í þeim tilvikum er hlutverk stjórnvalda skilgreint og sett fram verkefni sem lúta að því.
    Stjórnvöld hafa eftirlit með að leikreglunum sé fylgt. Ef ágreiningsmál rísa er það hlutverk þeirra að skera úr sem gera kröfur um hlutleysi í samskiptum við markaðsaðila.
    Stjórnvöld eru stórnotendur í fjarskiptaþjónustu og skapar það tækifæri til að ná fram settum markmiðum. Fjarskiptaáætlun horfir til þarfa stjórnsýslunnar og við undirbúning hennar var haft víðtækt samráð við öll ráðuneyti og farið yfir þau verkefni sem háð eru fjarskiptum. Reynt er að horfa til þess hvernig verkefni einstakra ráðuneyta fara saman, hverjar þarfir þeirra eru til framtíðar og hvernig fjarskiptaáætlun getur stutt við þau. Með sameiginlegum innkaupum má nálgast stefnumið áætlunarinnar, sem og markmið annarra aðila í stjórnsýslunni. Ná má fram hagkvæmni í innkaupum en um leið stuðla að frekari útbreiðslu þjónustunnar og samhliða því auknum afköstum fyrir aðra notendur.

Framtíðarþróun samskipta.
    Örar tækniframfarir einkenna fjarskipta- og upplýsingatæknimarkaðinn og er erfitt að sjá þróunina fyrir. Ómögulegt er geta sér til um hvaða tækni gæti komið fram á sjónarsviðið í framtíðinni. Um leið er að einhverju leyti alltaf til staðar tregðulögmál gagnvart breytingum. Með þessum fyrirvörum er hér á eftir aðallega fjallað um þau fræði sem liggja að baki sviðsmyndum sóknaráætlunar, um það mat sem önnur ríki leggja á þróun háhraðaneta og markmið þeirra um uppbyggingu. Þá eru settar fram tilgátur um upplýsingatækni á ýmsum sviðum.

Ljósleiðaranetið.
    Hér á eftir má annars vegar sjá dreifingu ljósleiðara landsins og hins vegar senda víðs vegar um landið. Fyrri myndin gefur glögga mynd af núverandi stöðu og sú síðari sýnir senda og tengingar þeirra við ljósleiðaranetið. Upplýsingarnar eru fengnar frá fjarskiptafyrirtækjum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.1.1     Stefna ríkisstjórnarinnar.
    Góðir innviðir fjarskipta og fjarskiptamála eru mikilvæg forsenda fyrir ýmis áherslumál sem koma fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar er m.a. lögð áhersla á að hún muni beita sér fyrir „opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum“. Stefnt skuli að bættu aðgengi íbúa að opinberri þjónustu og upplýsingum. Þá er lögð áhersla á að tryggja jafnrétti til náms, m.a. með því að efla fjarnám og tryggja öfluga fullorðinsfræðslu. Góð og örugg fjarskipti er snar þáttur í menntun og nauðsynlegur grundvöllur fjarnáms. Auk þess eru fjarskipti orðin nauðsynleg til þess að íbúar strjálbýlis hafi jafna möguleika til heimanáms á við íbúa í þéttbýli.

Ísland 2020 – sókn fyrir atvinnulíf og samfélag.
    Í janúar 2011 samþykkti ríkisstjórnin tillögu forsætisráðuneytisins að framtíðarsýn fyrir Ísland þar sem sett voru fram mælanleg markmið um árangur sem stefnt er að. Eftirfarandi eru markmið Íslands 2020 sem fjarskiptaáætlun stuðlar að.
    Samfélagsmarkmið:
          Að hlutfall Íslendinga á aldrinum 25–64 ára sem ekki hafa hlotið formlega framhaldsmenntun fari úr 30% niður í 10% árið 2020.
          Að 4% af landsframleiðslu sé varið til rannsókna, þróunar og nýsköpunar og að hlutfall framlags fyrirtækja verði 70% á móti 30% framlagi ríkisins í samkeppnissjóði og markáætlanir.
          Að Ísland verði meðal tíu efstu þjóða árið 2020 í rafrænni stjórnsýsluvísitölu og rafrænni þátttökuvísitölu Sameinuðu þjóðanna.
          Að Ísland taki að sér sambærilegar skuldbindingar og önnur Evrópuríki gagnvart loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna árið 2020 og nettólosun gróðurhúsalofttegunda utan viðskiptakerfis lækki um 38% frá árinu 2008.
    Góð fjarskiptaþjónusta er undirstaða framfara á sviði rannsókna og þróunar, nýsköpunar, menntunar, heilbrigðisþjónustu, atvinnuuppbyggingar og stjórnsýslu. Sama gildir um velferð og lífsgæði borgaranna. Viðfangsefni þessarar áætlunar er að stuðla að framþróun fjarskiptaþjónustu og tryggja að heimili og fyrirtæki eigi kost á lágmarksþjónustu óháð staðsetningu.

1.2     Sérstaða Íslands.
    Stærð Íslands og íbúafjöldi markar landinu ákveðna sérstöðu. Hinn 1. janúar 2011 var íbúafjöldi á Íslandi ríflega 318 þúsund og landið er feiknastórt eða 103 þúsund ferkílómetrar. Það þýðir að um þrír íbúar eru um hvern ferkílómetra. Á hinn bóginn búa um tvö hundruð þúsund manns á höfuðborgarsvæðinu þannig að dreifbýlið spannar langstærsta hluta landsins.
    Höfuðborgarsvæðið er um 1.000 km 2, eða um 1% af heildarlandsvæði Íslands. Samkvæmt því búa 63% íbúa á 1% landsvæðisins. Af því leiðir jafnframt að ríflega 118 þúsund manns búa á 102 þús. km 2, eða 1,15 manns á hvern ferkílómetra að meðaltali.
    Þess má jafnframt geta að 93,6% landsmanna búa á þéttbýlisstöðum með yfir 200 íbúum. Um 20.400 manns, eða 6,4% íbúanna, eru skráðir til heimilis í dreifbýli sem Hagstofan skilgreinir sem byggðakjarna með undir 200 íbúum, auk annars strjálbýlis.
    Uppbygging á háhraðanettengingu er mun óhagkvæmari í dreifbýli en þéttbýli. Aftur á móti verður ekki fram hjá því litið að þörfin fyrir netið er alveg jafnrík – ef ekki meiri á þessum svæðum landsins – til þess að rjúfa einangrun og tryggja öruggt fjarskiptasamband.
    Landfræðilegar aðstæður hafa mikil áhrif á póstdreifingu, einkum kostnað við dreifinguna. Íslandspóstur hefur einkaleyfi á dreifingu bréfa allt að 50 g. Einkaleyfinu fylgir alþjónustukvöð um að tryggja póstburð á bréfum og pökkum til allra landsmanna. Tekjum af einkaleyfisrekstri er ætlað að standa straum af kostnaði við dreifinguna þar sem óhagkvæmnin er mikil. Mun óhagstæðara er að veita póstþjónustu í dreifbýli en í þéttbýli og má færa rök fyrir því að póstþjónusta standi almennt ekki undir sér í dreifbýli. Í verstu tilfellunum er vandi í samgöngum takmarkandi fyrir póstþjónustu. Þetta þarf að hafa í huga við væntanlega opnun póstmarkaðar þegar tilskipun 2009/6/EB verður innleidd eftir þörfum en tryggja þarf að neytendur á landsbyggðinni fái nauðsynlega þjónustu.
    Dreifbýli, fámenni og landfræðilegar aðstæður hafa einnig ýmsar jákvæðar hliðar. T.d. er stjórnun tíðnimála vandalítil við þessar aðstæður samanborið við ríki í Evrópu sem deila landamærum. Hægt er að anna eftirspurn eftir tíðni fyrir farnetsþjónustu án mikilla vandkvæða og sömuleiðis eru yfirvöld, ólíkt flestum Evrópuríkjum, laus við samninga við önnur ríki um ráðstöfun á tíðnum við landamæri.

1.3     Fjarskipti og samruni tækninnar.
    Hefðbundin skil milli aðgangsneta fyrir myndflutning, tal og gögn sem áður einkenndi fyrirkomulag á fjarskiptamarkaði eru óðum að hverfa. Samruninn birtist m.a. í því að notendur fá aðgang að allri þjónustu með hvers kyns notendabúnaði, þ.e. myndefni, tali og neti, yfir sama aðgangsnetið. Notkun IP-staðalsins til miðlunar allrar stafrænnar þjónustu gerir þetta m.a. mögulegt. Tæknilega óháður aðgangur að stafrænni þjónustu gerir auknar kröfur til afkasta og eiginleika grunnneta og ekki síður aðgangsneta. Möguleg afköst og tæknieiginleikar aðgangsneta eru mismunandi. Fyrir liggur að takmarkanir ljósleiðara, svo sem flutningshraði, eru minni og annars eðlis en t.d. aðgangsneta sem nota koparheimtaugar eða eru þráðlaus. Vegna samrunans er svo hægt að veita ólíka þjónustu eftir sömu flutningsleiðinni, einkum ljósleiðara sem hefur mikla afkastagetu og ræður við flutning á hvers kyns margmiðlunarefni. Aukin afköst opna nýja möguleika, t.d. við dreifingu sjónvarpsefnis sem áður var nánast eingöngu dreift þráðlaust.
    Samruni tækninnar veldur því einnig að huga þarf að eftirliti og regluverki hins opinbera svo að það endurspegli þá þróun sem á sér stað. Mikilvægt er að reglur séu skýrar, t.d. um umsýslu höfundarréttar að efni sem miðlað er um mismunandi aðgangsnet.

1.4     Áherslur innan Stjórnarráðsins og stofnana þess.
    Við gerð fjarskiptaáætlunar var leitað eftir áherslum ráðuneyta varðandi fjarskipti og rafræn samskipti næstu 12 árin. Var það liður í að kortleggja fjarskiptamál innan Stjórnarráðsins með það að markmiði að
          kortleggja verkaskiptingu ráðuneyta við málefni sem hafa snertiflöt við áætlunina,
          skoða framtíðarstefnu einstakra ráðuneyta með hliðsjón af kröfum til fjarskipta,
          greina afleidd samlegðaráhrif með tilliti til þarfa Stjórnarráðsins,
          styðja við áform stjórnsýslunnar við mótun markmiða í fjarskiptaáætlun og afleiddum verkefnum.
    Hér á eftir er stutt samantekt af áherslum ráðuneyta og dregnir fram snertifletir við fjarskiptaáætlun. Í köflunum sem fylgja þar á eftir er stillt upp markmiðum og verkefnum sem m.a. er ætlað að taka tillit til þessa og styðja við áform stjórnsýslunnar.

Forsætisráðuneytið.
    Stjórnarráðið, undir forustu forsætisráðuneytisins, vann áður að framkvæmd stefnunnar um upplýsingasamfélagið 2008–2012, „Netríkið Ísland“. Með samþykkt ríkisstjórnarinnar í október 2011 var ákveðið að málefni upplýsingasamfélagsins flyttust til innanríkisráðuneytisins 1. desember 2011. Þetta eru krefjandi verkefni og málaflokkur sem fellur vel að verkefnasviði innanríkisráðuneytisins. Fyrir liggur að móta þarf nýja stefnu í málaflokknum. Mun sú vinna hefjast í byrjun árs 2012 í samvinnu við önnur ráðuneyti. Ein mikilvægasta forsendan fyrir því að hægt sé að ná markmiðum stefnunnar er að borgarar og fyrirtæki hafi greiðan aðgang að öflugu fjarskiptakerfi. Markmiðum fjarskiptaáætlunar er ætlað að styðja við markmið stjórnvalda.
    Framtíðarsýn stefnunnar „Netríkið Ísland“ er að Íslendingar verði fremstir þjóða í rafrænni þjónustu og nýtingu upplýsingatækni. Stefnt er að því að opinberir aðilar veiti gæðaþjónustu í formi sjálfsafgreiðslu á netinu þar sem það er mögulegt. Þjónustan verði aðgengileg á einum stað á vefnum island.is. Komið verði á samræmdu heildarskipulagi í meðhöndlun opinberra upplýsinga þannig að gögn flæði á milli stofnana, stjórnsýslan verði einfaldari og skilvirkni kerfisins aukist. Einnig verði samkeppnishæfni landsins aukin með virku lýðræði, góðri menntun og öflugu atvinnulífi með notkun upplýsingatækni.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið.
    Verksvið efnahags- og viðskiptaráðuneytis snertir fyrirtæki á samskiptasviði, bæði varðandi fjarskipti og póstsamskipti. Samkeppniseftirlitið annast framkvæmd samkeppnislaga en markmið þeirra er að efla virka samkeppni í viðskiptum. Í gildi er sértæk samkeppnislöggjöf fyrir fjarskiptarekstur sem sett var til þess að afnema einkarétt ríkisins á rekstri á þessu sviði og opna fyrir samkeppni. Að sama skapi stendur til að opna póstmarkað eftir þörfum fyrir aukinni samkeppni og afnema einkarétt á póstþjónustu. Gert er ráð fyrir að þessi sértæka löggjöf falli niður og almenn samkeppnislöggjöf taki við að fullu þegar þessir markaðir hafa náð að þróast.
    Efnahags- og viðskiptaráðuneyti gegnir einnig mikilvægu hlutverki varðandi viðskipti almennt en sér í lagi varðandi rafræn viðskipti og rafræna þjónustu sem kemur inn á umfjöllunarefni fjarskiptaáætlunar. Rafræn viðskipti eru víðtækt hugtak sem nær yfir fjölbreytt viðskiptaleg samskipti fyrirtækja og einstaklinga sem fara fram á rafrænan hátt. Ráðuneytið vinnur að stefnumótun í tengslum við lög um rafræn viðskipti og rafrænar undirskriftir og til að stuðla að rafrænum viðskiptum. Tryggja á samræmt og skilvirkt umhverfi rafrænna viðskipta með tilliti til alþjóðasamfélagsins, sérstaklega með hliðsjón af þróun á innri markaði ESB.

Innanríkisráðuneytið.
    Íslenska flugstjórnarsvæðið er víðfeðmt og um það fer daglega mikill fjöldi flugvéla á leið yfir Atlantshafið. Örugg fjarskipti eru grundvallarforsenda flugleiðsöguþjónustu og flugrekstrar á flugstjórnarsvæði landsins.
    Isavia annast flugleiðsöguþjónustu fyrir alþjóðlegt flug og innanlandsflug. Félagið er með sitt eigið fjarskiptastjórnkerfi en fjarskipta- og kögunarbúnaður fyrirtækisins er staðsettur víðs vegar um landið og tengist stjórnstöðvum þess um fjarskiptanet sem fyrirtæki á markaði eiga. Tengingar senda og móttakara eru í öllum tilvikum hringtengdar vegna kröfu um 100% uppitíma. Miklu skiptir að hugað sé að þessum þáttum við uppbyggingu og rekstur fjarskiptaneta á markaði.
    Starfsemin krefst einnig öruggra millilandasambanda vegna fjarskipta- og kögunarbúnaðar í Færeyjum, Grænlandi, Skotlandi, Kanada og Noregi. Þörf á bandbreidd til þessara staða er mismunandi en í öllum tilvikum er reynt að hafa sambönd eftir tveimur leiðum til að tryggja samfelldan rekstur. Tvöfaldar tengingar eru til allra staða erlendis nema til Grænlands og er mikilvægt að bæta úr því með tilkomu Greenland Connect strengsins. Helstu vandamál við fjarskiptasambönd milli landa er hár rekstrarkostnaður og þá sérstaklega til Grænlands.
    Siglingastofnun hefur með höndum fjárhagslegt og faglegt eftirlit með Vaktstöð siglinga sem rekin er af Neyðarlínunni samkvæmt þjónustusamningi við Siglingastofnun. Landhelgisgæslan mannar vaktir í Vaktstöðinni, samkvæmt sérstökum samningi á milli Landhelgisgæslunnar og Neyðarlínunnar. Markmið þessa fyrirkomulags er að tryggja öryggi sjófarenda eins og kostur er. Það er gert með eftirliti með umferð, auðkennaskráningu, samskiptum við skip, miðlun upplýsinga um umhverfisþætti og stuðningi við björgunarþjónustu á sjó með aðkomu allra hlutaðeigandi aðila að rekstri vaktstöðvarinnar sem mesta reynslu og þekkingu hafa á vöktun, leit og björgun. Gott fjarskiptasamband er lykilatriði fyrir starfsemina.
    Öll íslensk skip skulu búin sjálfvirku tilkynningakerfi og fylgist Vaktstöð siglinga með að tilkynningar berist frá öllum fiskiskipum í lögsögunni í gegnum sjálfvirku tilkynningarskylduna (STK) og tengd kerfi. Kerfið hefur verið uppfært í svokallað AIS-kerfi sem öll stærri skip skulu búin samkvæmt Evrópureglum. Samkvæmt íslenskum reglum skulu öll íslensk skip sem gerð eru út í atvinnuskyni búin AIS-tækjum og er því ferli nánast lokið.
    Siglingastofnun rekur einnig upplýsingakerfi um umhverfisþætti eins og veður, ölduhæð, sjávarfallastrauma o.fl. Rauntímamælingar á þessum þáttum ásamt spám verða með tímanum öflug hjálpartæki sem stjórnendur í vaktstöð munu nota til að leysa vandamál sem upp koma varðandi siglingar og fiskveiðar og þegar mengunaróhöpp verða. Mælistöðvarnar gera kröfur um gott aðgengi að bæði þráðlausum og þráðbundnum fjarskiptum.
    Fjarskipta- og kögunarbúnaði vegna flug- og skipaumferðar er oftar en ekki komið fyrir á fjallatoppum þaðan sem útsýni er gott. Til þess að tryggja rekstraröryggi þessa búnaðar þarf aðbúnaður, svo sem vegslóði, hýsing, rafmagn og fjarskiptasambönd, að vera sem mest óháður staðsetningu og veðurskilyrðum. Fjarskiptafyrirtæki samnýta í sumum tilfellum slíka aðstöðu.
    Mikilvægt er að samkeppnishæf og framsækin landsþekjandi fjarskiptakerfi séu til staðar sem mæta þörfum Vegagerðarinnar og viðskiptavina hennar sem eru viðbragðsaðilar, þjónustuaðilar vegakerfisins, fjarskiptatengdur vegbúnaður og ekki síst almennir vegfarendur.
    Neyðar- og öryggisfjarskipti eru á vegum innanríkisráðuneytis. Neyðarlínan rekur neyðar- og öryggisfjarskipti fyrir land og sjó. Starfsemi Neyðarlínunnar, Landhelgisgæslunnar sem og löggæslu- og viðbragðsaðila er mjög háð öruggum fjarskiptum. Þörf er á víðtæku fjarskiptasambandi á hafi og hálendi fyrir neyðarfjarskipti viðbragðsaðila. Kröfur almennra notenda fara einnig vaxandi um stöðugt samband óháð staðsetningu í öryggisskyni. Auk þess að nýta almenn fjarskiptanet sjá framangreindir aðilar um uppbyggingu og rekstur sérstakra fjarskiptakerfa. Snertifletir eru víða við fjarskiptaáætlun.
    Bæði varðskip og eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar eru þannig útbúin að þau geta verið mikilvægur þáttur í neyðarfjarskiptum. Varðskip Landhelgisgæslunnar, Týr, Ægir og Þór, eru í dag búin Tetra-gátt og möguleiki er að tengja slíka gátt í gegnum gervihnattasambönd varðskipanna beint inn í Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð ef á þarf að halda, t.d. þegar fjarskiptasambönd rofna í einstökum landshlutum vegna náttúruhamfara. Á sama hátt má búa skipin GSM-farsímaendurvörpum til að koma á farsímasambandi við slík svæði og tengja inn í fjarskiptakerfið í landinu. Það er í athugun. Varðskipin eru vel búin hvort sem er til farsíma-, gervihnatta-,Tetra-,VHF-, sjó- og flug- og mið- og stuttbylgjufjarskipta. Þau eru hreyfanlegar fjarskiptamiðstöðvar. TF-SIF gæti að auki þjónað öllu landinu ef með þarf með flugi í hæfilegri hæð, sérstaklega í þágu Tetra- og farsímakerfisins.
    Fjarskipti fyrir sjófarendur þarf að byggja upp samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Til að geta sinnt skyldum og þjónustu sem krafist er þarf að byggja fjarskiptakerfið þannig upp og fjölga viðtækjum í samræmi við þá starfsemi sem haldið er úti. Það þýðir að á hverjum stað þarf að vera samfelld vöktun á VHF-neyðarrásunum 16 og 70 og á vinnurásinni 9 vegna krafna um handmeldingar í og úr höfnum auk þess sem AIS-dreifikerfið þarf að vera í samræmi við VHF-kerfið.

Velferðarráðuneytið.
    Yfirvöld velferðarmála vinna að uppbyggingu á heilbrigðisneti. Liður í því er að færa lyfseðla á rafrænt form, svo og lyfjakort sjúklinga, afsláttarkort, fæðingartilkynningar, kennitöluskráningar nýbura o.fl. Þessari vinnu fylgir mikil hagræðing fyrir starfsemina og notendur hennar. Grundvallaratriði í þessu sambandi er aðgengileg, greið og örugg háhraðanettenging.
    Þróun ráðuneytisins á rafrænum sjúkraskrám með tilheyrandi hagræði fyrir heilbrigðisstarfsmenn og sjúklinga er mikilvægt hagsmunamál fyrir heilbrigðisþjónustuna. Mögulegt hagræði skrárinnar veltur mikið á öruggum aðgangi heilbrigðisstofnana að bandbreidd gagnasambanda hvar sem þær eru staðsettar. Landsaðgangur að niðurstöðum rannsókna, myndgreiningu og hjartalínuritum hefði mikið hagræði í för með sér. Aðgengileg og greið fjarskipti stofnana gerir slíkt mögulegt á landsvísu.
    Áherslur velferðarráðuneytisins snúa einnig að því að sporna gegn svokallaðri stafrænni gjá, þ.e. þröskuldum fyrir fatlaða, aldraða og efnaminni miðað við aðra íbúa landsins, sem hindrar þá í að nýta sér til fulls þá fjarskiptaþjónustu sem er í boði.

Fjármálaráðuneytið.
    Fjármálaráðuneytið fer með yfirstjórn ríkisfjármála og er miðstöð nýsköpunar og almennra umbóta í ríkisrekstri. Til að rækja hlutverk sitt ber fjármálaráðuneytið ábyrgð á ýmsum málum er snerta nýtingu á upplýsingatækni hjá hinu opinbera og í rafrænni stjórnsýslu. Ráðuneytið á fulltrúa í nefndum forsætisráðuneytisins um upplýsingasamfélagið og rafræna stjórnsýslu og ber ábyrgð á þátttöku íslenska ríkisins í starfi IDABC/ISA, ásamt því að hafa umsjón með ýmsum sértækum verkefnum á þessu sviði.
    Ráðuneytið ber ábyrgð á tilteknum markmiðum og verkefnum í núverandi og fyrri stefnu stjórnvalda um upplýsingasamfélagið, m.a. aðgerðum sem varða samræmt heildarskipulag og einfaldari stjórnsýslu. Landsumgjörð fyrir samvirkni á Íslandi er ein mikilvægasta forsendan fyrir árangri. Ráðuneytið vinnur að uppbyggingu þessarar umgjarðar. Með henni verða teknar ákvarðanir um notkun samskiptastaðla fyrir rafræn viðskipti og þjónustu innan lands og til útlanda. Vandað val á stöðlum og samskipti ólíkra atvinnuvega er mikilvæg undirstaða fyrir vöxt og framþróun í rafrænu samfélagi.
    Ljóst er að áherslur fjármálaráðuneytisins næstu missirin og árin munu lúta að hagræðingu í rekstri hins opinbera. Lögð verður meiri áhersla á hagkvæma nýtingu fjarskiptatækni, aukið samstarf mismunandi ráðuneyta og stofnana, sem og útboð á þjónustu.

Iðnaðarráðuneytið.
    Iðnaðarráðuneytið fer m.a. með þróun byggðamála og orkumál. Áherslur ráðuneytis endurspegla á margan hátt áherslur sóknaráætlunar ríkisstjórnarinnar um eflingu byggða og atvinnuvega. Mikilvægt er að huga að aðgengi að háhraðaneti fyrir íbúa og fyrirtæki, ekki síst í ferðaþjónustu. Enn fremur verður að gæta vel að rekstraröryggi mikilvægra fjarskiptainnviða, svo sem raforkufyrirtækja og annarra veitufyrirtækja þar sem fjarskipti gegna lykilhlutverki.
    Góð fjarskipti eru nauðsynleg fyrir markaðssetningu nútímalegrar ferðaþjónustu svo að nýta megi þá miklu möguleika sem felast í þeirri atvinnugrein um allt land. Ferðaþjónustan hefur lagt áherslu á gott GSM-samband á þjóðvegum og fjölsóttum ferðamannastöðum og háhraðanettengingar fyrir ferðaþjónustufyrirtæki um allt land. Bæta mætti útbreiðslu útvarps á landsbyggðinni, ekki síst svo hægt sé að koma skilaboðum til erlendra ferðamanna ef vá steðjar að.
    Góð fjarskipti eru nauðsynleg fyrir kröftugt nýsköpunar- og frumkvöðlastarf. Þar verður m.a. að hafa í huga öflugt grunnnet fjarskipta sem annar þörf aðila sem stunda slíka starfsemi, svo sem mennta- og rannsóknarstofnanir, þekkingarfyrirtæki og tæknifyrirtæki. Gott og öruggt samband við útlönd skiptir einnig miklu máli.
    Miklir möguleikar eru nú fyrir hendi á uppbyggingu og rekstri gagnavera hérlendis. Slík starfsemi krefst afkastamikilla, öruggra og hagkvæmra gagnasambanda við umheiminn. Unnið hefur verið að því að efla innlenda innviði en ljóst er að landsvæðin standa þar misvel. Beintenging landsins við meginland Norður-Ameríku mundi styrkja samkeppnishæfni landsins í erlendri samkeppni.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
    Kröfur atvinnulífs um menntun starfsmanna fara vaxandi, ekki síst á tímum atvinnuleysis. Vinna þarf af auknum þunga að því að starfrækt verði samstarfsnet háskóla, framhaldsskóla, fræðslu- og símenntunarstöðva, þekkingarmiðstöðva, rannsókna- og fræðasetra og annarra menntunaraðila. Stefnt er að því að námsefni verði rafrænt og aðgengilegt öllum á netinu eða í sérstökum námsverum sem nemendur hafa aðgang að.
    Aðgengileg og greið fjarskipti mennta- og rannsóknarstofnana innbyrðis og við nemendur eru nauðsynlegur þáttur á vegferð þjóðfélagsins til framfara. Gott aðgengi að háhraðanettengingum gerir fólki kleift að stunda rannsóknir og nám óháð staðsetningu. Menntun er einn af burðarásum „Sóknaráætlunar 2020“ ásamt jákvæðri byggðaþróun. Huga þarf sérstaklega að því að færa dagskrá útvarps og sjónvarps á stafrænt form.
    Áform menntamálayfirvalda og áframhaldandi þróun menntakerfisins yfir á stafrænt form gera miklar kröfur til flutningsgetu og öryggis fjarskiptasambanda. Á það ekki síst við ef áætlanir um að námsefni, fyrirlestrar og kennsluefni verði aðgengilegt hvar sem er og hvenær sem er standast. Nú hafa ekki allar rannsóknastofnanir á landsbyggðinni greiða tengingu við rannsóknanetið til þess að nýta sér það til fulls. Sömuleiðis gera áform menntamálayfirvalda um samstarfsnet menntastofnana og um fjarnám miklar kröfur um hraða tenginga og aðgengi.
    Halda verður úti viðunandi háhraðatengingum íslenskra rannsókna- og háskólastofnana við erlend rannsóknanet svo að þátttaka í alþjóðlegu rannsóknastarfi verði möguleg. Krafa rannsóknarsamfélagsins er mikil og vaxandi og er þess ekki lengi að bíða að þörf verður fyrir meiri bandbreidd og er jafnvel rætt um 100 Gb/s í því sambandi milli landa. Þá er það vandamál að mennta- og rannsóknastofnanir á landsbyggðinni eiga fæstar kost á 10 Gb/s sambandi og geta því ekki nýtt sér RH-netið eins og best verður á kosið.
    Allir framhaldsskólar og símenntunarmiðstöðvar tengjast nú við FS-netið með a.m.k. 100 Mb/s tengihraða. Vert er að skoða möguleika og hagræði við að stækka netið, þ.e. með því að fjölga aðilum sem geta tengst eða sameina öðrum sambærilegum netum, svo sem RH-neti.
    Samkvæmt Evrópureglum þarf að slökkva á hliðrænu dreifikerfi RÚV fyrir árslok 2012.
    Nefnd skipuð starfsmönnum fjögurra ráðuneyta vann að stefnumótun í stafrænni sjónvarpsdreifingu. Nefndin hefur skilað áfangaskýrslu. Í henni er að finna ýmis markmið um aðgengi að myndefni á sambærilegum stafrænum gæðum og íbúar annarra Norðurlanda búa við, sömuleiðis að aðgangur almennings verði jafn eins og kostur er á öllu landinu.
    Framangreind markmið krefjast afkastamikilla gagnaflutningssambanda, helst ljósleiðaratenginga í hús eða í senda sem útvarpa slíkum dagskrám. Hagsmunir RÚV eru að víðtæk uppbygging slíkra sambanda eigi sér stað og eru í samræmi við umfjöllun þessarar greinargerðar um uppbyggingu ljósleiðarasambanda.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, með hliðsjón af þeim málaflokkum sem undir það heyra, leggur áherslu á víðtæka útbreiðslu allrar almennrar fjarskiptaþjónustu. Skiptir þar ekki máli hvort um er að ræða aðgang vegna fiskiskips á hafi úti eða vegna eftirlits á hálendinu. Litið er til háhraðanettengingar, stafrænnar farsímaþjónustu og sjónvarps alls staðar þar sem fólk hefur fasta búsetu, atvinnu eða ver frístundum sínum.
    Einnig þarf að huga að verðlagningu á gagnaflutningum til sjós og til hinna dreifðu byggða. Töluvert misræmi er í gjaldskrá eftir staðsetningu notenda.
    Fjarskipti leika lykilhlutverk í nútíma fjareftirlitskerfum, ekki síst vegna fiskiskipa. Leitast skal við að stækka þjónustusvæði fjarskipta jafnframt því að fækka sambandslausum blettum innan þjónustusvæða.

Umhverfisráðuneytið.
    Flest bendir til að vægi umhverfismála vaxi áfram á komandi árum og fjarskiptatæknin verði í auknum mæli nýtt í þágu þeirra. M.a. byggist sjálfbær nýting auðlinda, svo sem fiskstofna, á öflugri vöktun á lífríkinu og náttúrunni í heild og gegna þar fjarskipti veigamiklu hlutverki.
    Vöktun á náttúru Íslands, m.a. með tilliti til mengunar í lofti eða vatni, vöktun á eldvirkni, hreyfingum jarðskorpunnar eða ofanflóðum, hefur farið vaxandi ekki síst vegna tækniframfara sem efla þessa vöktun og opna sífellt fleiri möguleika til eftirlits. Við vöktun eykst þekking á orsakasamhengi í náttúrunni og gefur m.a. færi á að spá fyrir um eldgos. Vöktunartæki eru háð fjarskiptum til þess að koma mikilvægum upplýsingum til skila þar sem þær eru greindar. Oft er þessi búnaður fjarri mannabyggðum.
    Umhverfisstjórnun og hvers konar vöktun í þágu umhverfisins fer vaxandi. Stjórnvöld horfa m.a. til möguleika sem felast í vöktun á villtum dýrum, skipulagi áburðardreifingar, dýraveiðum, eftirliti með hættulegum efnum, úrgangi og nýtingu orkuauðlinda.
    Á undanförnum árum hefur Alþingi sett margvíslega löggjöf á umhverfissviði um landnýtingu. Aukin og bætt fjarskipti gera kröfur um aðgang að landi fyrir línulagnir eða aðstöðu fyrir þráðlaus fjarskipti og í þeim efnum skipta umhverfisjónarmið miklu máli. Tryggja þarf samnýtingu fjarskiptamannvirkja eins og kostur er á til þess að koma í veg fyrir óþarfa uppbyggingu. Aðgengi stjórnvalda og almennings að opinberum landupplýsingum kann að auka verulega möguleika á markvissari og upplýstari ákvörðunartöku.
    Nauðsynlegt er að skilgreina hvaða gögn tengd fjarskiptum skulu vera til og aðgengileg á vegum stjórnvalda. Skoða verður hvort breyta þarf lögum eða reglugerðum í þessu skyni. Einnig er nauðsynlegt að bæta upplýsingamiðlun eða samstarf þeirra sem eiga hliðstæða hagsmuni varðandi landnýtingu. Þá þarf að athuga hvernig hægt er að nýta samræmda áætlanagerð og landupplýsingakerfi til þess að ná settum markmiðum.
    Ljóst er að mikið hagræði hlytist af því að hið opinbera sameinaðist um einn landupplýsingagrunn sem stofnanir gætu sett eigin þekjur ofan á. Við uppsetningu fjarskiptamannvirkja og lagningu fjarskipta- og rafstrengja í jörð þarf að taka tillit til sjónarmiða landeigenda. Einnig er nauðsynlegt að samnýta jarðvinnuframkvæmdir til þess að leggja þar samhliða allar nauðsynlegar og eða æskilegar lagnir í þágu hagkvæmni og skilvirkni.
    Umhverfisráðherra lagði fyrir Alþingi vorið 2010 frumvarp til laga um grunngerð landupplýsinga en með frumvarpinu er ætlunin að ráða bót á þessum vanda og er um leið innleidd tilskipun Evrópusambandsins 2007/2/EB um notkun og miðlun landupplýsinga sem nefnd hefur verið INSPIRE (e. Infrastructure for Spatial Information in the European Community). Frumvarpinu er ætlað að bæta verulega úr hvað varðar stefnu stjórnvalda um landupplýsingar. Jafnframt er mikilvægt að samræma öflun og innkaup landupplýsinga hér á landi. Þar þarf að koma til víðtækt samstarf opinberra aðila til að tryggja sem hagkvæmastar lausnir á þessu sviði og að landupplýsingar nýtist sem víðast í samfélaginu. Frumvarpið tekur jafnframt til upplýsinga um staðsetningu fjarskiptamannvirkja. Nefna má að heimildir Póst- og fjarskiptastofnunar til þess að afla og birta upplýsingar um staðsetningu fjarskiptamannvirkja voru efldar með lagasetningu 2011.

Utanríkisráðuneytið.
    Helstu snertifletir fjarskiptaáætlunar og utanríkisráðuneytisins eru í tengslum við öryggisskuldbindingar Íslands gagnvart Atlantshafsbandalaginu og skyld málefni, svo sem rekstur gagnatenginga við þau upplýsingakerfi sem ríkið hefur aðgang að hjá Atlantshafsbandalaginu og rekstur íslenska loftvarnakerfisins sem byggist m.a. á fjórum ratsjárstöðvum auk þess að annast rekstur lokaðs fjarskiptakerfis (ljósleiðara) milli ratsjárstöðvanna við Stokksnes, á Gunnólfsvíkurfjalli, Bolafjalli og Miðnesheiði. Þrátt fyrir að ljósleiðararnir séu formlega í eigu Atlantshafsbandalagsins er íslenska ríkinu heimilt að nýta þá á friðartímum.
    Mikilvægt er að tryggja eftir sem áður öryggi þeirra fjarskiptainnviða sem notaðir eru í framangreindum verkefnum. Vilji er til þess hjá stjórnvöldum að nýta vannýtta ljósleiðara Atlantshafsbandalagsins til borgaralegra nota til þess m.a. að efla samkeppni í gagnaflutningum á landsbyggðinni.

1.5     Þróun og áherslur erlendis.
    Hagkerfi Vesturlanda er á margan hátt að breytast þar sem fjarskipta- og upplýsingatækni gegnir æ stærra hlutverki. Þróuð ríki rekja 50% hagvaxtar til fjarskipta- og upplýsingatækni og sjá hana sem mikilvægan þátt í umbreytingu atvinnulífsins. Margar ríkisstjórnir hafa mótaðar áætlanir um háhraðavæðingu og ýmsar ráðstafanir sem ætlað er að styðja við þessa þróun.

EES-samningurinn og fjarskipti.
    Fjarskiptamál eru ofarlega á dagskrá framkvæmdastjórnar ESB og víða er á vettvangi hennar unnið að þróun þeirra. Auk þess vinnur ESB að verkefnum sem snerta samskiptamál með einum eða öðrum hætti, svo sem á vettvangi rannsókna, menntamála, heilbrigðismála, innri markaðsmála, staðlamála o.fl. Þá hefur ESB nýlega gefið út aðgerðaáætlun um rafræna stjórnsýslu 2011–2015 (The European eGovernment Action Plan 2011–2015) sem vikið er að í undirkafla áætlunarinnar um rafræna stjórnsýslu. Ísland tekur þátt í flestum þessum áætlunum fyrir tilstilli EES-samningsins. Mörg þessara verkefna koma inn á verksvið nokkurra ráðuneyta en hér á eftir er gerð grein fyrir því helsta sem tengist umfjöllunarefni fjarskiptaáætlunar að hluta eða öllu leyti.

Áætlun um stafræna dagskrá.
    Evrópusambandið birti í maí 2010 orðsendingu sem útlistar áætlun um stafrænt samfélag (e.Digital Agenda) eða sameiginlegan stafrænan markað sem byggist á öflugu háhraðaneti. Hún er ein sjö meginstoða svokallaðrar 2020 áætlunar ESB sem ætlað er að stuðla að samkeppnishæfi, hagvexti og nýsköpun innan ríkja sambandsins og tekur við af fyrri áætlun sem kölluð var 2010 áætlunin. Í stafrænni dagskrá er lagt til að ráðist verði í fjölda aðgerða bæði á vettvangi sambandsins og einstakra aðildarríkja sem ryðji hindrunum úr vegi og stuðli að stafrænu samfélagi. Í orðsendingunni eru eftirtalin atriði talin standa þróun stafrænna markaða fyrir þrifum.
          Markaðir skiptast við landamæri.
          Skortur á samræmingu og notkun staðla við samskipti, ekki síst yfir landamæri.
          Vaxandi glæpastarfsemi á netinu og takmarkað traust.
          Vanþekking og skortur á færni til að nota netið.
          Ónóg fjárfesting í uppbyggingu netsins.
          Takmarkaðar rannsóknir og nýsköpun.
          Vannýttir möguleikar til að sinna samfélagslegum þörfum, svo sem að veita opinbera þjónustu, styðja við fatlaða og aldraða.
    Komið hefur verið á fót stýrinefnd háttsettra embættismanna sem hefur yfirumsjón með framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar. EES- og EFTA-ríkin eiga aðild að henni án atkvæðisréttar.
    Umfjöllun fjarskiptaáætlunar er að flestu leyti í samræmi við áætlun um stafræna dagskrá og horfir til þess að nýta og taka mið af aðgerðum hennar.

EES-samningurinn og fjarskipti.
    Viðamikið og sértækt regluverk gildir á EES-svæðinu um fjarskipti. Upphaflega var það sett til þess að opna fjarskiptamarkaði aðildarríkja fyrir samkeppni í kjölfar afnáms einkaleyfis ríkja til fjarskiptareksturs sem var alfarið í höndum póst- og fjarskiptastofnana þeirra. Þegar markmiði um opnun fjarskiptamarkaðar er náð er miðað við að fjarskiptamarkaðurinn fari undir almenna samkeppnislöggjöf. Nokkuð er enn í land að þetta markmið náist en nýlega birti ESB breytingar á fjarskiptaregluverki sínu sem tóku gildi í maí 2011. Með þessum lagapakka er reynt að renna styrkari stoðum undir sameiginlegan fjarskiptamarkað og auka neytendavernd en einnig eru stigin nokkur skref til þess að stuðla að samræmi í skipulagi tíðnimála.
    Fleiri mál er tengjast fjarskiptum eru ofarlega á baugi innan ESB. T.d. er umræðan um næstu kynslóð neta (Next Generation Networks, NGN) ofarlega á baugi en hún lýtur einkum að ljósleiðaravæðingu. Tölfræði sýnir að Evrópuríkin eru töluvert á eftir öðrum þróuðum ríkjum í ljósleiðaravæðingu fyrirtækja og heimila, einkum ríkjum í Asíu, svo sem Japan. ESB leitar leiða til þess að örva ljósleiðaravæðingu innan sambandsins og eru t.d. væntanlegar í regluverk þess heimildir fyrir markaðsráðandi fjarskiptafyrirtæki að reikna sér hærra áhættuálag á fjárfestingar en tíðkast hefur hingað til.
    Annað mál þessu skylt er brúun svokallaðrar stafrænnar gjár, ekki síst með uppbyggingu háhraðanets fyrir heimili og fyrirtæki í dreifðari byggðum landsins. Evrópusambandið hefur sett fram markmið fyrir aðildarríkin er lýtur að aðgengi íbúa að háhraðaneti og hefur tekið frá fé í uppbyggingarsjóðum sambandsins til þessara verka. Fjárhæðin nemur um einum milljarði evra og var veitt til sjóðanna þegar kreppan hófst. Þetta framtak á að vera mótvægisaðgerð gegn efnahagslegum samdrætti.
    Nefna má umfjöllun á vettvangi sambandsins og reyndar víðar sem snýr að hlutleysi neta. Við stigvaxandi og óhefta umferð upplýsinga um netin vill bera á því að því að svokallaðir „flöskuhálsar“ myndist. Hætt er við að fjarskiptafyrirtæki sjái sig knúin til þess að stýra og/eða forgangsraða umferðinni um netin eftir forsendum sem hætt er við að verði hagsmunatengdar. Umræðan snýst um hvort og/eða hvernig eigi að forgangsraða og stýra umferðinni.
    Þá starfrækir ESB stofnun á sviði upplýsingaöryggis, ENISA-stofnunina (http://www. enisa.europa.eu/). Hlutverk hennar er að vinna með aðildarríkjunum að öryggi fjarskipta og upplýsingatækni innan vébanda sambandsins. Ísland er aðili að stofnuninni og á fulltrúa í stjórn hennar án atkvæðisréttar.
    ESB hefur látið mikið til sín taka um málefni sem varða vernd mikilvægra innviða og sett tilskipun um það mál. Hún nær til allra innviða, þ.m.t. samgöngumannvirkja og fjarskiptavirkja.

EES og rafræn stjórnsýsla.
    Stefnumótun og verkefni rafrænnar stjórnsýslu er á vegum forsætisráðuneytisins sem hefur birt stefnu um upplýsingasamfélagið 2008–2012, „Netríkið Ísland“. Á vettvangi EES- samstarfsins tekur Ísland þátt í starfi um rafræna stjórnsýslu og í desember 2010 gaf framkvæmdastjórn ESB út aðgerðaáætlun um rafræna stjórnsýslu 2011–015 sem tekur við fyrri áætlun. Í henni eru sett fram fjögur forgangsmál:
          Rafræn þjónusta verði í þágu fyrirtækja og einstaklinga í samvinnu við þá með áherslu á aukinn aðgang að opinberum gögnum, gagnsæi og samráð.
          Rafræn þjónusta greiði fyrir stofnun fyrirtækja hvar sem er innan EES sem og námi, vinnu, dvöl og því að fara á eftirlaun.
          Stuðlað að hagkvæmni og skilvirkni með því að vinna stöðugt að því að bæta verklag hins opinbera, draga úr íþyngjandi reglum og stuðla að minni kolvetnisnotkun.
          Greitt skuli fyrir framgangi forgangsatriða með því að skapa kjöraðstæður til að þau nái fram að ganga og útbúa lagaleg og tæknileg skilyrði.
    Aðgerðaáætlunin lýsir helstu aðgerðum bæði er lýtur að framkvæmdastjórn ESB og aðildarríkjunum sem nauðsynlegar eru fyrir framgang verkefnisins og helstu tímasetningar. Í henni kemur m.a. fram það sjónarmið að lykilatriði fyrir framgang áætlunarinnar sé efni tilskipunar um rafræna undirskrift og ákvörðunar sambandsins um gagnkvæma viðurkenningu á rafrænni auðkenningu.

EES-samningurinn, nýsköpun og þróun rafrænna samskipta.
    Íslensk stjórnvöld taka þátt í viðamiklu verkefni ESB þar sem fyrirtækja- og iðnaðarskrifstofa ESB (Enterprise and Industry) heldur utan um samkeppnis- og nýsköpunarverkefni (CIP – Competitiveness and Innovation Programme ec.europa.eu/cip/index_en.htm). Það skiptist í þrjá hluta. Einn þeirra fjallar um nýsköpun á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni (The Information Communication Technologies Policy Support Programme ec. europa.eu/cip/ict-psp/index_en.htm). Á þeim vettvangi er m.a. stutt við verkefni á sviði stjórnsýslu, heilsugæslu, notkunar veraldarvefsins og rafrænna bókasafna auk verkefna sem ætlað er að brúa svokallaða stafræna gjá. Verkefni þessarar áætlunar koma inn á starfssvið margra ráðuneyta hér á landi. Fjarskiptaáætlun fjallar um verkefni allra ráðuneyta með hliðsjón af fjarskiptum og er unnið að mörgum þeirra á vettvangi svonefnds CIP-verkefnis ESB. Þá er vísað til umfjöllunar hér að framan um stafræna dagskrá (Digital Agenda) sem varðar að miklu leyti rafræn samskipti.

EES-samningurinn og póstmál.
    Ráðherraráð Evrópusambandsins og Evrópuþingið samþykkti í árslok 2007 tillögu að tilskipun um opnun póstmarkaða og var birt í ársbyrjun 2008 (tilskipun 2008/6/EC um afnám einkaréttar á dreifingu bréfa allt að 50 g). Hún er sú þriðja og síðasta í röð tilskipana sem hafa allar miðað að því að draga úr einkaleyfisrekstri og með þessari tilskipun er markaðurinn opnaður að fullu, þó með ráðstöfunum sem ætlað er að tryggja hag neytenda.
    Svo vill til að síðasti áfanginn í því skyni að opna póstmarkaðinn kemur þegar miklar umbreytingar eru í almennri póstþjónustu þar sem dreifing bréfa hefur dregist hratt saman á milli ára. Þetta gerist að miklu leyti fyrir tilstilli hraðvaxandi rafrænna samskipta þar sem rafrænn flutningur á gögnum hefur komið í stað bréfa. Breytingar á póstmarkaði eru óumflýjanlegar þar sem ljóst er að í kjölfar færri bréfa munu tekjur vegna einkaleyfis fara hratt lækkandi og munu fljótt ekki standa undir dreifingu þeirra þar sem hún er óhagkvæm, einkum í dreifbýli. Vaxandi rafræn viðskipti leiða hins vegar til aukningar á böggla- og pakkasendingum þar sem algengt er að viðskiptavinir nýti sér að fá vörur sendar með þeim hætti.
    ESB kemur víðar inn á samskipti en hér að framan greinir. T.d. er viðamikið staðlastarf unnið á vettvangi sambandsins. Þá koma rannsóknaáætlanir ESB víða inn á samskiptatækni. Loks vinnur sambandið að málefnum fjölmiðla og dreifikerfi þeirra sem hefur ríka skírskotun til rafrænna samskipta.

1.6     Stefnumótandi markmið Alþjóðafjarskiptasambandsins.
    Allsherjarþing Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU) var haldið með þátttöku íslenskra stjórnvalda haustið 2010. Hlutverk sambandsins sem undirstofnun Sameinuðu þjóðanna er að móta, semja og samræma vinnureglur sem aðildarríkin vilja skuldbinda sig til að starfa eftir. Stofnunin leggur þar með grunn að tækniþróun í fjarskiptum á heimsvísu.
    Eitt af veigamestu áherslumálum allsherjarþingsins voru áherslur sambandsins á frekara samstarf og samráð við þau samtök sem hafa hvað mest um málefni internetsins að segja. Má þar m.a. nefna samtök eins og ICANN (Internet Corporation for Assigned Names and Numbers), svæðisbundin samtök um lénaskráningar (RIRs), IETF ( Internet Engineering Task Force), ISOC ( the Internet Society) og W3C (World Wide Web Consortium). Tillögur Alþjóðafjarskiptasambandsins taka mið af samhæfingu sem snertir þróun IP-fjarskiptanetkerfa og framtíð internetsins, byggðri á samstarfssamningum til að örva þátttöku og hlutverk sambandsins í stjórnun internetsins. Þá hefur sambandið lagt fram ályktanir sem tengjast öryggismálum internetsins (Cyber Security) og misnotkun á upplýsinga- og fjarskiptatækni.
    Ein af nýlegum ályktunum þingsins tekur mið af uppbyggingu mikilvægra fjarskiptainnviða, auknu vægi upplýsinga og fjarskiptatækni og þeim ógnum sem skapast af ólögmætri notkun slíkrar tækni. Jafnframt er skilgreint hvernig ólögmæt notkun upplýsingatækni geti haft skaðleg og afdrifarík áhrif á fjarskiptainnviði, þjóðaröryggi og efnahagsþróun. Þeim tilmælum var beint til framkvæmdastjóra Alþjóðafjarskiptasambandsins að taka nauðsynleg skref til að:
          auka skilning aðildarríkjanna á þeim skaðlegu áhrifum sem geta skapast við ólögmæta notkun upplýsinga og fjarskiptatækni,
          viðhalda hlutverki Alþjóðafjarskiptasambandsins sem samstarfsaðila annarra stofnana Sameinuðu þjóðanna í baráttu gegn ólögmætri notkun upplýsinga- og fjarskiptatækni.
    Ályktunin undirstrikar mikilvægi niðurstaðna frá alheimsráðstefnu um upplýsingasamfélagið þar sem bent er á lausnir til að byggja upp öryggi og traust á upplýsinga- og fjarskiptatækni. Aðildarríkin og viðeigandi hagsmunaaðilar eru hvött til að ræða margbreytilegar nálganir við að leysa þau vandamál sem upp hafa komið og leita allra leiða til að stöðva misnotkun. Slík nálgun þarf að eiga sér stað á sama tíma og heildarhagsmunir upplýsinga- og fjarskiptaiðnaðarins eru hafðir að leiðarljósi.
    Framkvæmdastjóra Alþjóðafjarskiptasambandsins hefur verið falið að afla gagna um þær aðferðir sem reynst hafa vel hjá aðildarríkjunum í baráttu þeirra við ólögmæta notkun upplýsinga- og fjarskiptatækni og ennfremur að veita aðstoð til þeirra ríkja sem á þurfa að halda.
    Aðildarríkin og viðkomandi hagsmunaaðilar í upplýsinga- og fjarskiptatækni eru hvött til að halda áfram viðræðum innan sinna raða til að reyna að komast að niðurstöðum og veita þann stuðning sem nauðsynlegur er til að framfylgja þessari ályktun.
    Fleiri mál sem tengjast fjarskiptum eru einnig ofarlega á baugi hjá Alþjóðafjarskiptasambandinu og má þar nefna ályktanir á sviði umhverfismála, viðvörunarkerfa vegna náttúruhamfara, málefna um verndun barna á netinu, jafnréttismála o.fl.

1.7. Framtíðarsýn.
Stefnumótun í nágrannaríkjunum.
    Efni þessa kafla byggist á umfjöllun sem á sér stað í Evrópu og jafnvel víðar, einkum um stefnumótun um uppbyggingu háhraðaneta. Þar beinist athyglin bæði að nýlegri þróun en einnig er reynt að skilgreina helstu áhrifavalda þegar til lengri tíma er litið. Þörf fyrir flutningsgetu í framtíðinni er einkum fundin með því að framreikna gögn um þróun í flutningsgetu neta. Gerð er tilraun til þess að átta sig á þörfinni til framtíðar og skoða möguleg samskipti heimila, fyrirtækja og annarra eftir tíu ár, 20 ár eða jafnvel enn lengra fram í tímann.
    Mörg ríki hafa gert áætlanir um uppbyggingu háhraðaneta. Gert er ráð fyrir að þörf fyrir hraða muni margfaldast á komandi árum. Í Danmörku er t.d. miðað við allt að 50 Mb/s árið 2014 fyrir kröfuharða notendur og allt að 1 Gb/s árið 2020. Stefna danskra stjórnvalda er að öll heimili og fyrirtæki eigi kost á a.m.k. 100 Mb/s tengingu árið 2020. Umfjöllun ráðuneyta hér að framan um áform og þörf fyrir fjarskipti til þess að mæta þörf á skilvirkari og hagkvæmari hátt sýna fram á mikla þörf fyrir uppbyggingu háhraðaneta í náinni framtíð. Þörfin virðist ekki síðri hjá heimilum og atvinnulífi.

Fjarskipti og Ísland framtíðarinnar.
    Góðir samskiptainnviðir eru lykilatriði fyrir Ísland framtíðarinnar er lýtur að velferð, lífsgæðum og atvinnuuppbyggingu. Aðgangur að öruggri og afkastamikilli samskiptatækni er lífsnauðsynlegur fyrir velflest atvinnufyrirtæki sem starfa innan lands eða á alþjóðlegum mörkuðum og skiptir höfuðmáli í samkeppnishæfni á alþjóðamörkuðum. Örugg og afkastamikil gagnasambönd til útlanda leggja grunninn að margs konar atvinnuuppbyggingu, svo sem á sviði gagnavera, ferðaþjónustu, fjármálaþjónustu og viðskiptum. Öflugir samskiptainnviðir eru því einnig grunnforsenda til að laða að erlenda fjárfestingu til landsins.

Fjarskipti heimila.
    Afþreying verður eftir sem áður stór þáttur í heimili framtíðarinnar. Gert er ráð fyrir miklu framboði á fjölmiðlunarefni auk afþreyingarefnis í háskerpu og þrívídd. Gagnvirkt sjónvarp og efnisveitur verða enn aðgengilegri en fyrr. Sérhver fjölskyldumeðlimur getur horft á sitt efni í sjónvarpi eða tölvu. Þá er gert ráð fyrir að framboð á leikjum sem fara fram á netinu muni aukast.
    Fjarskipti einstaklinga halda áfram að þróast og má búast við enn meiri fjarskiptum með myndefni yfir netið. Í dag hafa sk. tölvuský leitt til aukinna fjarskipta þar sem hvers kyns tölvur sækja hugbúnað, gögn og miðlæga þjónustu yfir netið.
    Þá eru bókasöfn að þróast yfir í þekkingar- og upplýsingaveitur þar sem hægt er að nálgast alls kyns efni, svo sem fréttaþætti, skáldskap og fræði, hvort sem er á formi ritaðs máls, myndar eða kvikmyndar.
    Samskipti heimila og einstaklinga við ríki og sveitarfélög er varða skattamál, utanumhald félagslegar þjónustu o.fl. verða á rafrænu formi.
    Menntun fer í auknum mæli fram á netinu. Hægt er að eiga samskipti um fjarfundabúnað eða hlusta á fyrirlestra á netinu og nálgast þá eftir þörfum. Námsframboð og aðgangur að hvers kyns kennsluefni, námskeiðum og fræðsluefni verður auðveldari fyrir heimilin. Samskipti við heilbrigðisþjónustu verða í auknum mæli rafræn, tímapantanir og jafnvel rauntímasamskipti við heilbrigðisstarfsmenn verða að nokkru leyti rafræn. Hætt er við að bréfleg samskipti dragist saman áfram og leggist jafnvel af. Hins vegar er líklegt að innkaup og viðskipti fari í auknum mæli fram rafrænt sem leiðir til aukinna bögglasendinga og annarra heimsendinga.
    Samskipti heimila framtíðarinnar gera kröfur um mikla tækni og háhraðanet, hvort tveggja þráðbundið og þráðlaus. Aðgangur verður auðveldaður að tækjum heimilanna, þau nettengd hvaða nafni sem þau nefnast og hvar sem þau eru innan veggja heimilisins. Þá má ætla að þjónusta, svo sem fjarvöktun, bilanagreiningar o.fl., fari fram á netinu í auknum mæli.

Fyrirtæki framtíðarinnar og fjarskipti.
    Samskipti fyrirtækja við viðskiptavini, birgja og stjórnsýslu ná öðru stigi í rafrænum samskiptum. Aukin sjálfvirkni í samskiptum og viðskiptum leiðir til þess að pappírsnotkun getur dregist verulega saman. Greiðslur verða í auknum mæli rafrænar, skattskil o.s.frv.
    Þá verði hvers kyns búnaður, tæki, framleiðslutæki o.fl. nettengd og þjónusta vegna þeirra fari í auknum mæli fram á netinu. Sömuleiðis þjónusti fyrirtæki viðskiptavini sína og búnað þeirra á netinu.
    Góð skilyrði eru fyrir gagnaver hér á landi með tilliti til umhverfis og orku og hefur stefna stjórnvalda miðað að því að sá iðnaður nái að festa sig í sessi. Það þýðir að huga þarf sérstaklega að aðgengi og öryggi ljósleiðarasambanda bæði innanlands og tenginga til útlanda. Við þessar aðstæður gætu skapast skilyrði fyrir að nýr sæstrengur verði lagður milli Íslands og Bandaríkjanna.

Stjórnsýsla og öryggi netheima.
    Fjarskipti gegna sífellt stærra hlutverki í samskiptum stjórnvalda, fyrirtækja og almennings. Stefnt er að því að almenningur og stjórnvöld geti átt að meira eða minna leyti öll sín samskipti rafrænt. Sama gildir um fyrirtæki.
    Fjarskipti í samgöngum aukast þar sem bifreiðar tengjast netinu.
    Lykilatriði fyrir framþróun netsins er að notendur telji sig vera óhulta og örugga þegar þeir eru nettengdir og eiga viðskipti eða sækja þjónustu yfir netið. Eftir því sem fjarskipti hafa færst meir og meir á rafrænt form hefur netið í vaxandi mæli orðið vettvangur ólögmætrar starfsemi. Þá er mikið framboð á ólöglegu efni á netinu. Fram undan eru því miklar áskoranir við að halda uppi lögum og reglu í netheimum án þess að slíkt hamli notagildi þess og frelsi. Að auki er afar mikilvægt að vernda fjarskiptakerfin fyrir hryðjuverkum og hvers kyns vá sem stafar frá náttúru eða mannlegum aðgerðum. Um leið þarf að gæta persónuverndarsjónarmiða.

Öryggismál og fjarskipti.
    Mikilvægt er að virkni fjarskiptainnviða sé tryggð eins og kostur er þegar vá ber að höndum. Þetta á hvort tveggja við um neyðarfjarskipti og almenna fjarskiptaþjónustu.

Heilbrigðisþjónusta.
    Öflug fjarskipti munu bjóða upp á miklar framfarir í heilbrigðisþjónustu en forsenda fyrir þeim er mikil flutningsgeta og öryggi. Sjúkraskrá einstaklinga verður aðgengileg hvar sem viðkomandi þarf á heilbrigðisþjónustu að halda en þó stýrt þannig að hver hafi aðgang að viðeigandi upplýsingum. Aðgengið þarf að vera með öruggum hætti og nægilega afkastamikið að það ráði við miðlun rannsóknagagna af vettvangi, sem og annarra upplýsinga. Hægt verður að stunda rafræn samskipti með alla helstu þætti heilbrigðisþjónustunnar, svo sem fjarlækningar, pöntun á þjónustu, samskipti vegna tryggingamála, eftir atvikum niðurstöður rannsókna, tímapantanir og myndsamband við sérfræðinga og heilbrigðisstarfsmenn. Sömuleiðis gerir þessi tækni fjarvöktun sjúkra og aldraðra mögulega.

Umhverfismál.
    Síaukin áhersla er lögð á umhverfisvöktun. Áhersla er lögð á mikla og nákvæma jarðfræðilega vöktun í nálægð við virk eldfjalla- og skjálftasvæði til þess að byggja upp þekkingu á jarðfræði svæðanna og fylgjast í rauntíma með þróun mála. Unnið er að því að byggja upp þekkingu sem m.a. má nota til að spá fyrir um náttúruhamfarir. Í framtíðinni verður aukin áhersla lögð á að rannsaka og vakta dýralíf. Þessi starfsemi gerir miklar kröfur til fjarskipta. Tækniframfarir og aukin ferðamennska kalla á áframhaldandi uppbyggingu farsambanda.
    Bætt fjarskipti draga úr þörf fyrir samgöngur og geta í það minnsta komið í stað samgangna í ýmsum tilvikum. Á móti veldur tæknin aukinni orkunotkun. Taka verður mið af því og leita leiða til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum á því sviði.

Rannsóknir og þróun.
    Rannsóknastarfsemi beinist mjög að afkastagetu háhraðaneta. Þegar er rannsóknarnet háskólanna tengt með 10 Gb/s tengingu við rannsóknarnet Norðurlandanna um DANICE-sæstrenginn. Að auki hefur rannsóknarnetið nokkru minni tengingar um Farice-strenginn (2,5) og Greenland Connect strenginn. Allar helstu rannsóknastofnanir hérlendis tengjast netinu. Þörf rannsóknasamfélagsins fyrir aukinn gagnaflutning vex jafnt og þétt.

Póstdreifing.
    Íslandspóstur hefur einkaleyfi á dreifingu á pósti allt að 50 grömmum. ESB hefur gefið út tilskipun um opnun póstmarkaða sem tók gildi í ríkjum ESB 1. janúar 2011 að 11 ríkjum undanskildum þar sem tilskipunin tekur gildi 1. janúar 2013. Íslensk stjórnvöld hafa kynnt EFTA að vilji standi til að innleiða tilskipunina og opna íslenskan póstmarkað 2013. Almenningur á rétt á alþjónustu sem felur í sér dreifingu á bréfum og bögglum fimm daga vikunnar til allra heimila með örfáum undantekningum. Eins og er standa tekjur af einkaleyfisstarfsemi Íslandspósts straum af kostnaði við alþjónustu. Við opnun póstmarkaðar þarf að finna aðrar leiðir til þess að fjármagna alþjónustu, annaðhvort með beinum framlögum úr ríkissjóði eða með því að leggja á greinina svokallað alþjónustugjald.
    Eftir því sem gagnaflutningum vex fiskur um hrygg og rafrænum samskiptaleiðum fjölgar dregur úr árituðum bréfasendingum. Meiri afkastageta gagnatenginga greiðir fyrir þessari þróun. Sömuleiðis mun vaxandi fjöldi staðla greiða fyrir henni, svo sem staðall fyrir rafræna reikninga, rafrænar pantanir og rafræn innflutningsskjöl. Á hinn bóginn styður núverandi hefð á dreifingu jólakorta póstsendingar. Einnig er nokkur hópur fólks sem er ólæs á tölvur og vill fá allar póstsendingar á venjubundnu formi.
    Um leið og dregið hefur úr sendingum á árituðum bréfum hefur óáritaður og B-flokkaður póstur aukist. Sömuleiðis er töluverður vöxtur í pakkasendingum ekki síst vegna viðskipta á netinu. Gera má ráð fyrir að áfram muni póstþjónusta blómstra en að samkeppni verði harðari. Merkja má virkari samkeppni og framboð á pakkaflutningi, t.d. frá farmflytjendum bæði með flugi og landflutningum.

2. Staða og horfur.
    Mikil uppbygging og breytingar hafa orðið undanfarin missiri í fjarskiptagreinum. Hér á eftir er fjallað um stöðu og horfur í fjarskiptum.
    Í skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum – WEF) er að finna tölfræði frá 134 ríkjum sem ætlað er að gefa vísbendingar um samkeppnishæfni ríkja. Tölfræðin nær til ýmissa sviða og raðar ríkjum í sæti fyrir hvern þátt. Almennt er stefna stjórnvalda í fjarskiptamálum sú að Ísland skipi sér í röð tíu samkeppnishæfustu ríkja á lista WEF. Einnig er markmiðið að fjarskiptakerfi og fjarskiptaþjónusta stuðli að bættum lífsgæðum, fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu, jákvæðri byggðaþróun og að innlend fyrirtæki nái forskoti í að hagnýta fjarskiptatækni.
    Nokkrir þeirra 110 mælikvarða í alls 12 flokkum sem sjónum var beint að í samanburðarskýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins fyrir árið 2010 snúa að fjarskiptum með beinum eða óbeinum hætti. Í töflu 1 má sjá niðurstöðu skýrslunnar varðandi fjarskipta- og upplýsingatæknitengda mælikvarða á Íslandi.

Tafla 1.
Mælikvarði Sæti
Fjöldi símalína á hverja 100 íbúa 7
Fjöldi farsímaáskrifta á hverja 100 íbúa 50
Hlutfall skóla með háhraðanettengingu 1
Framboð á nýjustu tækni 2
Tæknistig fyrirtækja 1
Erlend fjárfesting í tækniiðnaði og tækniyfirfærsla 82
Hlutfall netnotenda 1
Hlutfall notenda háhraðanettenginga 7
Hraði nettenginga 4

Heimild – Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum).    Samkeppnishæfni Íslands er á margan hátt góð samkvæmt þessum samanburðartölum.

Samanburðartölur í samræmi við skýrslur um framkvæmd fjarskiptaáætlunar.
    Þrjátíu ríki innan Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) eru notuð til samanburðar. Ríkjunum er skipt í fjóra flokka. Í flokki 1 eru efstu sjö ríkin, flokki 2 ríki 8 til 15, flokki 3 ríki 16 til 23 og flokki 4 ríkin í sæti 24 til 30.
    Gengið er út frá því markmiði að Ísland sé í flokki 1 af OECD-löndum hvað varðar framboð, verð og notkun fjarskiptaþjónustu.
    Í töflu 2 má sjá yfirlit um stöðu Íslands í samanburði við önnur lönd á árinu 2009 út frá framangreindum markmiðum. Í samræmi við áætlunina er stefnan sú að viðhalda því forskoti sem fyrir er og stuðla að úrbótum þar sem á skortir.

Tafla 2.

Staða Íslands í samanburði við önnur OECD-lönd árið 2010.

Forskot Fastanet talsíma Farsímanet Háhraðanettengingar
Áskriftir Kort
Forskot
Notkun
Verð Nei
          Heimild: Póst- og fjarskiptastofnun.

    Áætlunin sem hér birtist er um frekari markmið og verkefni sem ætlað er að stuðla að framgangi þeirra.

2.1 Aðgengileg og greið samskipti.
2.1.1 Fjarskipti.
    Ríkisstjórnir víðast hvar horfa til næstu kynslóðar neta (NGN) sem aflvaka fyrir aukinn hagvöxt og að hagstætt sé við núverandi erfitt efnahagsástand að styrkja og stuðla að framkvæmdum við uppbyggingu innviða sem ljósleiðaralagnir eru. Fjárfesting í slíkum verkefnum er talin arðbær til lengri tíma litið og talið að hún stuðli að sama skapi að aukinni samkeppnishæfni þjóðfélagsins. Hlutfall ljósleiðaratengdra heimila á Íslandi af heildarfjölda þráðbundinna háhraðatenginga er þegar nokkuð minna en hjá þeim þjóðum sem við berum okkur gjarnan saman við eða 10%, samanborið við 13% í Danmörku, 16% í Noregi og 26% í Svíþjóð. Ljósleiðari er talin ákjósanleg tæknileg lausn á tengingum heimila og fyrirtækja vegna þeirrar miklu bandbreiddar sem ljósleiðarinn ræður við óháð fjarlægð frá sendistöð.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á myndinni má sjá samanburð milli ríkja OECD en myndin sýnir hlutfall ljósleiðaratenginga af heildar breiðbandstengingum ríkjanna.

Ljósleiðarastofnnet.
    Stofnnetstenging um ljósleiðara er orðin forsenda fyrir nútímafjarskiptum í flestum íbúakjörnum. Sem dæmi þarf að lágmarki 1 Gb/s tengingu til ADSL-búnaðar sem ræður við dreifingu á stafrænu sjónvarpsefni. Sú þjónusta er í boði í flestum íbúakjörnum og er ljósleiðari eina burðarlagið sem getur annað slíkri bandbreidd með góðu móti. Sama máli gegnir um tengingar til og frá sendistöðum fyrir þráðlaus fjarskipti sem þjóna nokkrum aðgangsnetum (heimtaugum). Þar eru yfirburðir ljósleiðarans áberandi, samanborið við örbylgjutengingu, þ.e. mikil afköst, hagkvæmni í rekstri, lega í jörðu, þ.e. ónæmi fyrir veðri, svo sem ísingu. Nýting ljósleiðara fyrir baknetstengingar fyrir aðgangsnet er því nánast forsenda fjarskiptaþjónustu sem byggist á mikilli og vaxandi bandbreidd.
    Þrátt fyrir mikla afkastagetu getur ljósleiðari eða búnaður honum tengdur auðveldlega bilað eða hann t.d. verið grafinn í sundur. Huga þarf að varaleiðum þar sem öryggi er mikilvægt. Best er að grunnnetstengingar séu hringtengdar, þ.e. a.m.k. tvær og aðskildar. Komi til þess að annar leiðarinn rofni fer öll gagnaumferð sjálfkrafa yfir á hinn leiðarann. Annars konar varasambönd, aðallega örbylgjusambönd eða koparleiðarar, eru nokkuð algeng sérstaklega þar sem ljósleiðarastofnnet nær ekki um heilt landsvæði eða íbúakjarnar eru ekki nálægt ljósleiðarahringnum sem liggur um landið.
    Þegar rætt er um fjarskiptastaði er átt við sendistöðvar, símstöðvar og sambærileg fjarskiptamannvirki. Sömuleiðis þegar fjallað er um tengingar byggðakjarna er átt við tengingar fjarskiptastaða sem staðsettir eru í eða við viðkomandi byggðakjarna. Frá þessum fjarskiptastöðum fá notendur tengingar ýmist um ljósleiðara, koparlínur (ADSL) eða þráðlausar tengingar (t.d. WiFi eða 3G).

Ljósleiðaragrunnnetstengingar fjarskiptastaða í byggðakjörnum.
          Tvö landsvæði með yfir 5.000 íbúa eru án ljósleiðarahringtengingar, Vestfirðir og Snæfellsnes.
          Samtals eru 98 skilgreindir byggðakjarnar á landinu. Þar búa, miðað við árið 2010 300.923 manns eða 94,7% landsmanna.
          29 byggðakjarnar eru tengdir einni tengingu (eða um einfalda tengingu) við ljósleiðara. Þar búa 14.554 manns eða 4,6% landsmanna.
          Átta byggðakjarnar eru ekki tengdir ljósleiðara. Þar búa 1.314 manns sem er 0,4% landsmanna.
    Almennt er það verkefni fjarskiptafyrirtækja að bjóða fjarskiptaþjónustu á samkeppnisforsendum og koma upp nauðsynlegum lögnum til að veita þjónustuna. Á hinn bóginn eru þær aðstæður fyrir hendi þar sem markaðsbrestur er og kemur þá til af því að fjarskiptafyrirtæki meta arðsemi ónóga til þess að réttlæta nauðsynlegar fjárfestingar. Gert hefur verið lauslegt kostnaðarmat á því að tengja ótengda byggðakjarna annars vegar og hins vegar landsvæði sem ekki eru hringtengd. Áætlunin er gróf og er aðeins ætluð til að gefa hugmynd um stærðargráðu verkefnis með innan við 25% óvissu og án endabúnaðar.
          Ljósleiðaratengja ótengda byggðakjarna með einni tengingu          320 m.kr.
          Ljósleiðarahringtengja Vestfirði og Snæfellsnes          270 m.kr.
    Jafnframt var gerð lausleg kostnaðaráætlun fyrir tvítengingu allra eintengdra byggðakjarna.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Ljósleiðaragrunnnetstengingar fjarskiptastaða utan byggðakjarna árið 2010.
Heimild: Hagstofan.

    Til eru nokkuð góðar upplýsingar um staðsetningu flestra sendistaða á landsbyggðinni, þ.e. flestra staða utan stærstu byggðakjarna sem flokkast geta sem fjarskiptastaðir eða eru notaðir sem aðstaða fyrir fjarskiptasendingar af einhverju tagi. Gerð hefur verið lausleg kostnaðaráætlun fyrir ljósleiðaratengingu sendistaða utan þéttbýlis. Til grundvallar kostnaðaráætlun var miðað við að um 630 sendistaðir væru utan byggðakjarna á Íslandi og af þeim væru um 230 innan við 30 km frá byggðakjarna, ekki tengdir ljósleiðara og með í kostnaðaráætlun. Áætlunin nær til þess að tengja ótengda sendistaði fjarskipta við ljósleiðarastofnnet. Um er að ræða núverandi fjarskiptasendistaði sem nýst geta fyrir háhraðanettengingu flestallra fasteigna með lögheimili og heilsársbúsetu eða atvinnustarfsemi allt árið. Undanskildir eru nokkrir staðir sem er sérstaklega erfitt að tengja, þ.e. þeir staðir í háhraðanetsverkefni fjarskiptasjóðs sem tengdir eru með gervihnattasambandi.
    Samanlagt er umfang ljósleiðaratenginga fjarskiptastaða rúmlega 2.000 km og kostnaður áætlaður um 3.300 milljónir króna. Upphæðir eru án viðisaukaskatts (vsk.). Óvissa er áætluð vera innan við 25%. Þessar tölur gefa vísbendingu um umfang og kostnað verkefnisins í heild án tillits til samlegðaráhrifa með öðrum framkvæmdum sem geta eingöngu leitt til lækkunar á þessu umfangi og kostnaði.

Horfur.
    Stór hluti ljósleiðarastofnnetsins sem liggur umhverfis landið er í eigu Mílu hf. og Atlantshafsbandalagsins, auk þess sem önnur fjarskiptafyrirtæki eiga hluta þess. Íslensk stjórnvöld hafa umsjón með þremur ljósþráðum af átta sem allir eru í eigu Atlantshafsbandalagsins. Fleiri fyrirtæki hafa byggt upp ljósleiðarastofnnet á afmarkaðri landsvæðum, svo sem Orkuveita Reykjavíkur (OR) og Landsnet.
    Nýir stórnotendur gagnaflutninga, svokölluð gagnaver, þarfnast mjög afkastamikilla og öruggra tenginga bæði innan lands og við umheiminn. Horft er m.a. til gæða stofnnetstenginga og kostnaðar við uppfærslu þeirra við staðarval fyrir þau. Ef slík fyrirtæki ná fótfestu hér á landi, eins og vilji stjórnvalda stendur til, þarf líklega að leysa sérstaklega úr flutningsþörf þeirra innan lands.
    Í framtíðarkafla er fjallað um mat ýmissa ríkja á þörf fyrir flutningsgetu til og frá heimilum, stofnunum og fyrirtækjum. Spáð er að þörfin margfaldist á næstu árum, m.a. vegna þess að sjónvarpssendingar komi til með að verða fluttar í auknum mæli eftir neti í hús. Sömuleiðis er spáð að afkastageta farsambanda margfaldist t.d. við uppbyggingu á fjórðu kynslóðar farsímanetum. Byggja þarf upp ljósleiðarastofnnetið til þess að taka við þessari aukningu og bæta við það svo það nái til fleiri sendistaða fyrir farsímanet sem oft hýsa einnig aðra þráðlausa þjónustu, svo sem sjónvarpsútsendingar, neyðarkerfi og önnur fjarskiptakerfi. Opnast geta ýmsir möguleikar til að koma þráðbundinni tengingu til heimila sem búa við þráðlaus sambönd eingöngu og þar með gefst færi á fyrir þá sem þar búa til að nýta það fyrir móttöku efnis sem krefst afkastamikilla tenginga, svo sem sjónvarps og annars myndefnis.

Næsta kynslóð neta (e. NGN).
    Mikið hefur verið rætt undanfarin ár um næstu kynslóð neta. Hugtakið sem slíkt er ekki skýrt og hafa netbúnaðarframleiðendur mismunandi sýn á hvað það þýðir. Í skýrslu OECD frá júní 2008 (Convergence and Next Generation Networks) segir að þegar rætt er um NGN aðgangsnet sé venjulega átt við heimtaug í formi ljósleiðara. Aðrir telja þó að hugtakið nái einnig til kopartenginga sem hafa tekið stórstígum framförum varðandi hraða á undanförnum árum. Ljósleiðarinn er sá miðill sem best er til þess fallinn að fullnægja þörfum bæði notenda og þjónustuveitenda og því telst nýfjárfesting í ljósleiðaranetum vera hvað varanlegust gagnvart tækniþróun og kröfum neytenda. Þess ber þó að gæta að tækniþróun gerir kleift að uppfylla bandbreiddar- og þjónustuþörf stórs hluta íbúa með koparlínum eða jafnvel þráðlausri tækni á skemmri vegalengdum. Kopartengingar liggja víðast í jörðu til allra heimila. Stofnkostnaður ljósleiðaragrunnneta og heimtauga er mjög hamlandi þáttur í endurnýjun neta. Þess vegna er mikill hvati fyrir fjarskiptafyrirtæki að nýta áfram koparlínurnar sem eru til staðar.

Aðgangsnet – aðgengi fyrir alla.
    Skýrsla Evrópusambandsins, Europe's Digital Competitiveness Report, 1 sem inniheldur tölfræði um háhraðanettengingar og netnotkun ríkja á EES-svæðinu sýnir afar góða stöðu Íslands í þessum samanburði.
    Helstu niðurstöður skýrslu ársins 2009 fyrir Ísland:
          Yfir 90% heimila landsins eru tengd netinu þar af 97% með háhraðanettengingum.
          Nánast öll fyrirtæki eru tengd háhraðaneti.
          Um 90% þjóðarinnar nota netið. Svíþjóð næst á eftir með 86%.
          82% þjóðarinnar nota netið mikið. Danmörk næst á eftir með 72%.
          Eingöngu 6% hafa aldrei notað netið. Svíþjóð næst á eftir með 9%.
    Í skýrslu WEF (World Economic Forum) situr Ísland í 17. sæti hvað varðar fjölda netnotenda en var árinu áður í því 11. Þessar upplýsingar stangast á við upplýsingar úr skýrslu Evrópusambandsins sem vikið var að hér að framan. Í henni eru internetnotendur áætlaðir um 90% þjóðarinnar (93% samkvæmt vef Hagstofunnar) sem ætti að skila 2. sæti. WEF telur engu að síður að 17. sætið skili samkeppnisforskoti.
    Þessar tölur um stöðu Íslands sýna að vel hefur tekist til við uppbyggingu fjarskipta á liðnum árum. Hins vegar verður að hafa í huga að framfarir á þessu sviði eru mjög örar og því stöðug þörf á endurnýjun. Framboð og eftirspurn háhraðanettenginga og netnotkun er með því mesta sem þekkist í samanburðarlöndunum.
    Í árslok 2010 munu um 99% lögheimila með heilsársbúsetu og fasteignir með heilsársatvinnustarfsemi hafa aðgang að háhraðanettengingum sem afkasta að lágmarki allt að 2 Mb/s gagnaflutningshraða til notanda. Þessi lágmarkshraði er vel samanburðarhæfur við það sem gerist og gengur hjá öðrum þjóðum sem hafa náð langt á þessu sviði. T.d. miða Frakkar við 512 kb/s og Finnar við 1 Mb/s. Þetta er því einn besti árangur sem Evrópuþjóð getur státað af.
    Meðfylgjandi tafla gefur vísbendingu um mögulegar tæknilausnir og samkeppni fyrirtækja á markaði fyrir háhraðanettengingar. Á meðan að 98% íbúa í þéttbýli geta valið um tvo eða fleiri þjónustuaðila háhraðanettenginga þá býr ríflega fjórðungur íbúa í dreifbýli við nokkurs konar einokun, þ.e. á eingöngu kost á þjónustu frá einu aðgangskerfi/þjónustuveitanda 2 .

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Meðfylgjandi tafla segir til um hlutfall íbúa í þéttbýli og dreifbýli sem hefur aðgang að þráðbundnum heimtaugum (koparlínu<5km og/eða ljósleiðara) sem segir til um það hvort ADSL og/eða ljósleiðarasamband sé í boði, eingöngu þráðlaust samband (WiFi eða 3G) eða hvort tveggja. Innan við 1% íbúa í þéttbýli á eingöngu kost á þráðlausri heimtaug en samsvarandi hlutfall í dreifbýli er um 54%. Hafa ber í huga að aðgengi að þráðbundnum tengingum í dreifbýli einkennist að miklu leyti af því hversu mörg heimili þar eru utan við drægni ADSL-tækninnar, eitthvað sem er undantekning í þéttbýli.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Horfur.
    Stöðugar framfarir eru í tækni og nýta hérlend fjarskiptafyrirtæki þær við áframhaldandi þróun háhraðaneta sinna og bjóða sífellt afkastameiri tengingar. Eitt fjarskiptafyrirtæki hefur lýst yfir að tæknin leyfi 100 Mb/s hraða á hverri koparlínu til um það bil 60% heimila eða 40.000 heimila á höfuðborgarsvæðinu. Stefnt er að því að þetta verði að veruleika fyrir árið 2012. Til þess að ná þessu markmiði þarf ljósleiðari að liggja í tengiskáp í götu en nægilegt er að símalínur liggi frá tengiskáp í hús. Algengast er að fjögur pör af símalínum liggi í hvert hús sem þýðir að í þeim tilfellum væri tæknilega hægt að bjóða samtals 400 Mb/s sambönd. Þá hefur verið unnið markvisst að því að leggja ljósleiðara í þéttbýli og eru þeir nú lagðir í allar nýbyggingar á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem þeir eru smám saman lagðir í eldri hverfi.
    Erfiðara er að spá fyrir um þróunina í dreifbýli og um uppbyggingu á forsendum samkeppni. Gömlu NATO-strengirnir voru lykillinn að uppbyggingu háhraðanetsins í dreifbýli á markaðslegum forsendum. Heildsöluverðskrá fyrir aðgang að þeim tekur mið m.a. af fjarlægð á milli tengipunkta. Meiri fjarlægð jafngildir hærra heildsöluverði. Heildsölukostnaðurinn dreifist svo á endanotendur og er hætt við að arðsemi verði lág séu þeir fáir og langt frá viðmiðunarstað heildsölugjaldskrár.
    Langflestir íbúar landsins, eða yfir 99% íbúa, eiga þegar kost á háhraðanettengingum sem afkasta vel yfir 2 Mb/s. Þar að auki eiga um 97% íbúa kost á a.m.k. tveimur mismunandi gerðum af háhraðanettengingum sem er vísbending um að samkeppni ríki á þeim markaði. Um 1% heimila búa við þráðlaust gagnasamband eingöngu.
    Heimili í dreifbýli, sem ekki eiga kost á þráðbundnum lausnum, eru einkum tengd með svokölluðu WIMAX, WIFI eða 3G farsímatækni. Á markaðinn er komin fjórða kynslóðar farsímatækni og er horft til þess að hún leyfi fljótlega afköst sem svarar til 300 Mb/s. Við tilraunir hefur náðst allt að 1 Gb/s hraði við skilyrði þar sem bandbreidd er næg. Hafa ber í huga að hámarksafköst hvers sendis geta verið samnýtt af mörgum notendum samtímis auk þess að minnka eftir því sem að fjarlægð notanda frá sendinum eykst. Þráðlausar lausnir eru notaðar víðast hvar á strjálbýlum svæðum í Evrópu og eru metnar fljótvirkasta og hagkvæmasta leiðin til þess að tryggja aðgang dreifðari byggða að háhraðanettengingum.
    Fjarskiptasjóður var stofnaður m.a. til þess að bregðast við markaðsbresti varðandi aðgengi heimila að háhraðaneti. Verkefni Fjarskiptasjóðs hafa leitt til þess að nú eiga allir landsmenn kost á háhraðanettengingu – sítengdu interneti.
    Á lista sjóðsins í ársbyrjun 2011 voru 1.676 staðir og miðað við það búa um 1,5% heimila við markaðsbrest. Af þeim 62% staða sem þegar hafa pantað þjónustu eru 53% sem tengjast UMTS, 42% sem tengjast ADSL og um 5% tengjast annaðhvort yfir gervihnött eða með WiFi. Stór hluti þeirra sem getur tengst með ADSL á einnig kost á að tengjast með 3G.

Tenging opinberra stofnana.
Staða.
    Þörf opinberra stofnana fyrir háhraðanettengingar er mikil en þó misjöfn. Allar stofnanir hins opinbera hafa aðgang að einhverjum háhraðanettengingum en aðgengið er mismunandi eftir staðsetningu stofnunar.
    Í samanburðarskýrslu WEF er Ísland í 1. sæti, sbr. töflu hér að framan varðandi nettengingar skóla sem verður að teljast afburða árangur. Háhraðanetsverkefni Fjarskiptasjóðs hefur stuðlað að því að þeir örfáu skólar sem ekki höfðu háhraðanettengingu á síðustu árum eiga nú kost á þjónustunni.

Horfur.
    Fyrir liggur að kröfur eru sífellt að aukast um flutning á rafrænum gögnum milli íbúa og stofnana og ekki síst milli stofnananna sjálfra.
    Einnig er eðlilegt að haldið verði áfram að vinna markvisst að því auka samnýtingu tenginga meðal stofnana, samtengja fyrirliggjandi net og bjóða saman út þjónustu mismunandi stofnana til þess að ná fram betra aðgengi fyrir heildina og fjárhagslegri hagræðingu fyrir hið opinbera.

Fastlínusímaþjónusta.
Staða.
    Í skýrslu World Economic Forum (WEF) er að finna mælikvarða um aðgengi að fastlínusíma. Þar kemur fram að Ísland er í 7. sæti í fjölda koparheimtauga/símalína til heimila og fyrirtækja. Þetta er afburðastaða og vart lengra komist enda eru símalínur enn lagðar að nánast öllum íbúðarhúsum og fyrirtækjum í byggð.

Farsamband.
Staða.
    Mikil uppbygging farsambanda hefur átt sér stað á undanförnum árum fyrir tilstuðlan aðila á markaði og Fjarskiptasjóðs. Uppbygging farsímakerfa á undanförnum árum hefur tryggt öruggt farsímasamband á yfir 99% heimila landsins, á langstærstum hluta þjóðvegakerfisins og víða á miðum umhverfis landið og á hálendinu. Þjónustan nær til allra þéttbýlissvæða. Fyrir tilstilli Fjarskiptasjóðs nær hún einnig til alls stofnvegakerfisins og til ýmissa fjölsóttra ferðamannastaða. Enn fremur hefur uppsetning sendistaða á vegum fjarskiptasjóðs og Neyðarlínunnar í samstarfi við fjarskiptafyrirtækin stuðlað að enn frekari uppbyggingu.
    Víða er þó enn ekki hægt að komast í farsamband. Ástæðan er bæði sú að erfitt og óhagkvæmt er að setja upp senda víða á hálendinu og einnig lætur nærri að til farsímasambanda þurfi sjónlínu milli notenda og farsímastöðva. Skuggar myndast því víða í landslaginu, svo sem í dalverpum. Afar kostnaðarsamt er og marga senda gæti þurft til þess að ná til erfiðustu svæðanna og er ávinningurinn tiltölulega lítill. Engu síður mun uppbygging farsímaþjónustu halda áfram, einkum fyrir tilstuðlan bættrar tækni auk hugsanlegs samstarfs opinberra aðila við einkaaðila.
    Útbreiðsla 3G farnets hefur aukist til muna á undanförnum árum og nær nú t.d. allt að 70 km út frá ströndinni víðast hvar nema á norðanverðum Vestfjörðum. Eftirspurn eftir þessari þjónustu er mikil og fer vaxandi hjá skipaflotanum á hafsvæðinu kringum landið, þeim sem eru með starfsemi á hálendinu og svo hjá ferðamönnum. Aukin áhersla stjórnvalda á vöktun dýra og ekki síst umhverfisins hefur aukið enn á mikilvægi þess að þjónustan nái sem víðast utan byggða. Uppbygging þjónustunnar hefur að miklu leyti verið á markaðslegum forsendum fram til þessa.
    Ör og samfelld þróun á sér stað bæði á 3G og svokölluðum 4G kerfum þar sem afköst aukast og gæði veittrar þjónustu eykst. Nýjungar hafa að jafnaði skilað sér tiltölulega fljótt til neytenda á og sérstaklega á helstu samkeppnissvæðunum. Hætt er við að erfitt árferði í efnahagslífinu hægi á þróuninni, ekki síst á landsbyggðinni.

Horfur.
    Áframhaldandi uppbygging er þó nauðsynleg einna helst með 3G tækni og 4G tækni eftir því sem unnt er. Tækniframfarir munu eflaust leiða til frekari útbreiðslu en fram til þessa hefur yfirleitt tekið nokkurn tíma fyrir nýja tækni, svo sem 4G, að breiðast út um landið. Hætt er við að í erfiðu árferði verði útbreiðslan hægari en ella. Áfram má búast við markaðsbresti og finna þarf leiðir til að vinna gegn honum til þess að ná fram markmiðum um útbreiðslu.

Uppbygging sendistaða.
Staða.
    Þráðlaus fjarskipti, hvort heldur er farsíma-, gagnaflutnings-, sjónvarps- eða útvarpsþjónusta, eru háð góðri staðsetningu senda og tilfallandi mannvirkja. Á undanförnum árum hefur átt sér stað mikil uppbygging sendistaða fyrir fjarskipti í dreifbýli, einkum fyrir farsambönd. GSM verkefni fjarskiptasjóðs, auk uppbyggingar Tetrakerfis Neyðarlínunnar hafa m.a. leitt til fjölgunar og eflingar aðstöðu fyrir slík aðgangsnet. Stór hluti kostnaðar við GSM þjóðvegaverkefni Fjarskiptasjóðs fór í aðstöðusköpun og lagningu rafmagns. Miklu skiptir út frá hagkvæmnis- og náttúruverndarsjónarmiðum að undirbúningur og uppbygging slíkra sendistaða rúmi fyrirsjáanlega starfsemi og sé vönduð og varanleg. Í því sambandi er t.d. ákjósanlegt að greiðfær vegslóði liggi að staðnum og lagt sé bæði veiturafmagn og ljósleiðari. Heppilegt er að fyrirsjáanleg starfsemi rúmist í einu tækjahúsi og einu mastri. Kostnaður við uppbyggingu og rekstur erfiðra sendistaða er oft það mikill að ekki verður séð að það verði gert á markaðslegum forsendum samkeppni. Þetta á jafnvel við um suma staði á láglendi sem ná eingöngu til lítils og/eða fámenns landsvæðis.

Horfur.
    Aukin krafa um aðgengi og öryggi farnets í dreifbýli, á sjó og hálendi veldur því að staðsetja þarf fjarskiptabúnað þar sem oft er bæði kostnaðarsamt og erfitt að byggja upp og viðhalda honum. Sömuleiðis eru auknar kröfur um uppbyggingu farnetssambanda en afkastageta þeirra fer vaxandi. Horft er til þess að afkastageta farnetskerfa aukist jafnt og þétt á næstu árum. Það eykur kröfurnar um afkastamikla og örugga baknetstengingu slíkra sendistaða. Auk þess þarf að horfa til þess að stuðla með beinum eða óbeinum hætti að uppbyggingu sendistaða á stöðum sem eru þjóðhagslega mikilvægir og eftirsóttir fyrir rekstraraðila fjarskipta með tilliti til öryggis og þjónustu við íbúa, ferðamenn og viðbragðsaðila.

Önnur þráðlaus fjarskipti.
    Mikil þróun á sér stað á sviði þráðlausra fjarskipta. Margs konar önnur þráðlaus fjarskipti en fjallað er um hér að framan eru fyrir hendi eða stunduð á vegum einkaaðila. Ekki er ástæða til þess að fjalla nánar um þau að öðru leyti en er varðar sjónvarp og hljóðvarp.

Stafrænt sjónvarp og hljóðvarp.
    Aðgengi að fjölbreyttu úrvali af stafrænu sjónvarpsefni er krafa í nútímasamfélagi. Dreifing á stafrænu sjónvarpi nær þegar til um 99% þjóðarinnar og eiga flestir íbúakjarnar val um a.m.k. tvö aðgangsnet fyrir sjónvarpsdreifingu. Sjónvarpsefni er dreift þráðlaust með hliðrænni tækni á hefðbundnum sjónvarpsrásum auk þess sem stafrænu sjónvarpi er dreift með svokallaðri MMDS-tækni á tíðnibandi ætluðu farsímaþjónustu og með DVB-T-tækni á UHF bandi.
    Dreifing sjónvarpsefnis eftir þráðbundnum háhraðanettengingum, svo sem koparlínum (ADSL) eða ljósleiðara, er einnig orðin þróuð lausn sem er í boði víðast hvar. Dreifing hágæða stafræns sjónvarps getur átt sér stað hvort heldur er þráðlaust eða þráðbundið. Kostir þráðbundinna lausna er minni takmörkun samnýtingar, fjölda samtímanotenda, á afkastagetu hvers sendis. Mun auðveldara er því t.d. að bjóða þáttasölu (Video on Demand) yfir þráðbundin kerfi.
    Reyndar er svo komið að hefðbundið áhorf á sjónvarpsefni eða myndefni hvers konar hefur breyst mikið með tilkomu internetsins og hraðvirkari nettenginga. Hægt er að nálgast svo til allt sjónvarpsefni með hvers konar tölvubúnaði yfir netið frá vefþjónum um allan heim gegn gjaldi eður ei. Hins vegar gerir slík þjónusta kröfur um mikla flutningsgetu nettenginga svo koma megi stafrænu sjónvarpsefni til skila. Í dag er slík afkastageta ekki til reiðu víða, einkum á landsbyggðinni.
    Evrópusambandið hefur lagt til við aðildarríki að lagðar verði niður hliðrænar útsendingar fyrir árslok 2012. Flest Evrópulönd hafa þegar náð þessum áfanga eða eru langt komin með það. Dreifikerfi RÚV er gamalt hliðrænt kerfi sem þó nær til nánast allra landsmanna. Fjölmargir notendur, sérstaklega á landsbyggðinni, nota eingöngu hliðrænt merki RÚV og er aðgangur að því ekki háður sérstöku áskriftargjaldi. Menntamálaráðuneytið og RÚV vinna að því að yfirfæra sjónvarpsútsendingar á stafrænt form. Tækifæri gætu skapast við þessi áform að auka afkastagetu netþjónustu á landsbyggðinni.

Samband við útlönd.
    
Tveir fjarskiptasæstrengir eru í rekstri milli Íslands og Evrópu og einn milli Íslands og Norður-Ameríku. Beintenging við Norður-Ameríku með nýjum sæstreng mundi styrkja samkeppnisstöðu landsins gagnvart staðarvali og rekstrargrundvelli netþjónabúa.

Aðgengi fatlaðra, aldraðra og þeirra sem búa við skertan kaupmátt.
    Netnotkun á Íslandi er mest innan OECD-landanna og hér er minnst hlutfall íbúa sem aldrei hafa notað internetið. Með um 100% aðgengi að farsíma- og netþjónustu og miklu upplýsingalæsi er almennt gert ráð fyrir að fólk geti átt samskipti eða viðskipti gegnum farsíma og/eða tölvu. Þessi mikla notkun tækninnar getur orsakað meiri einangrun og minni þjóðfélagsþátttöku þeirra sem ekki geta eða kunna að nýta sér grundvallaratriði tækninnar. Mikilvægt er að stuðla að því að það fólk sem verst stendur gagnvart eðlilegum afnotum af fjarskiptaþjónustu hafi úrræði og geti leitað lausna á vandamálum sínum hvort heldur er um að kenna erfiðleikum með aðgengi, litlum kaupmætti eða þekkingarleysi.

2.1.2 Rafræn samskipti
Rafræn opinber þjónusta.
Staða.
    Samanburður við aðrar Evrópuþjóðir hefur leitt í ljós að þrátt fyrir mjög hátt upplýsingalæsi meðal Íslendinga og gott aðgengi að interneti virðist framboði á opinberri þjónustu á vegum hins opinbera vera ábótavant.
    Ýmsar grunnskrár þjóðfélagsins eru á verkefnasviði innanríkisráðuneytisins og eru notaðar daglega á mörgum sviðum, svo sem Þjóðskrá, Skipaskrá og Ökutækjaskrá. Hlutverk Þjóðskrár er sérstaklega mikilvægt í þessu samhengi af því að kennitölur og lögheimili eru notuð í nánast öllum opinberum kerfum og mörgum kerfum utan stjórnsýslunnar. Þjóðskrá gegnir einnig miðlægu hlutverki við útgáfu skírteina til auðkenningar. Það er nærtækt að útgáfa rafrænna skilríkja til auðkenningar sé líka hlutverk Þjóðskrár og umsýsla með ríkisnetföng o.fl. sem tengist rafrænum samskiptum einstaklinga.
    Með aukinni rafrænni stjórnsýslu færist álag af sértækri afgreiðslu á vegum innanríkisráðuneytisins og stofnana þess á skírteinum, vottorðum og fleiru yfir á netið.

Rafræn auðkenning.
Staða.
    Auðkenning aðila sem eiga samskipti á internetinu er mikilvægur þáttur fyrir öll viðskipti auk þess að skipta miklu máli vegna öryggis barna og fullorðinna á netinu. Rafræn skilríki frá traustum þekktum opinberum aðila eru ein leið til að tryggja slíka auðkenningu. Vert er að skoða hvaða þjónustu er unnt að bjóða á öruggan máta fyrir notendur og hvaða kröfur eigi að gera til þeirrar þjónustu eins og t.d. samskiptaforrita sem börn nota. SAFT-verkefnið er mikilvægur vettvangur til samstarfs um þessi mál. Þar hefur margt gott áunnist í samvinnu margra aðila en þörf er á að veita þessum málaflokki frekari athygli, m.a. með tilliti til fyrirbyggjandi úrræða.

Rafræn viðskipti.
Staða.
    Þrátt fyrir mjög góða tækniþekkingu og notkun á upplýsingatækni, ekki síst hjá fyrirtækjum, virðast Íslendingar ekki nýta sér rafræn viðskipti í jafnríkum mæli og víðast hvar erlendis. Rafræn viðskipti leiða til hagræðingar og betri þjónustu fyrir neytendur. Því mætti bæta úr aðgengi að rafrænum viðskiptum, til að mynda með skýrari löggjöf og aðlögun staðla. Þá má styðja við rafræn viðskipti með því að stuðla að aukinni þekkingu á notkun þeirra og lykilþáttum í umhverfi þeirra og innleiðingu.

2.1.3. Póstmál.
Staða á póstmarkaði.
    Póstþjónusta er nauðsynlegur þáttur í grunngerð nútímasamfélags þar sem skjót og traust samskipti á milli manna, opinberra stofnana og fyrirtækja skipta verulegu máli. Íslenska ríkinu ber að tryggja öllum landsmönnum á jafnræðisgrundvelli aðgang að ákveðnum þáttum póstþjónustu, alþjónustu, með ákveðnum gæðum og á viðráðanlegu verði samkvæmt lögum um póstþjónustu.
    Póstþjónusta er í lögum skilgreind sem þjónusta sem nær til móttöku, söfnunar, flokkunar, flutnings og skila á póstsendingum gegn greiðslu. Getur hún bæði verið með eða án áritunar á umbúðir. Auk bréfa teljast til póstsendinga bækur, verðskrár, dagblöð, tímarit og bögglar sem innihalda varning, hvort sem hann er einhvers virði eða ekki.
    Í alþjónustu felst póstþjónusta vegna bréfa, markpósts, dagblaða, tímarita, bóka og verðlista, ábyrgðarsendinga, tryggðra sendinga, blindrasendinga allt að tveimur kílóum og böggla allt að tuttugu kílóum. Þá felst í alþjónustunni aðgangur að póstafgreiðslu. Alls eru nú 74 póstafgreiðslustaðir um land allt, þar af 11 á höfuðborgarsvæðinu. Að auki eru 218 póstkassar um allt land og eru þeir tæmdir daglega. Sums staðar á landinu eru svonefndir landpóstar staðgenglar hefðbundinna afgreiðslustaða og sjá þeir jafnframt um dreifingu til allra byggða í dreifbýli og fáeinna staða í byggðakjörnum.
    Allir landsmenn eiga rétt á því að fá póstþjónustu fimm daga vikunnar nema því aðeins að sérstakar aðstæður, svo sem landfræðilegar, hindri slíkt. Alls eru um 120 þúsund heimili á landinu og tíu þúsund fyrirtæki og nær fimm daga dreifing pósts til nánast allra heimila. Einungis 156 aðilar fá ekki þjónustu fimm daga vikunnar eða um 0,13% af öllum heimilum. Er þá yfirleitt um að ræða mjög afskekkta staði þar sem póstdreifing er háð flugsamgöngum, svo sem í Grímsey eða samgöngum á sjó, t.d. í Mjóafirði, sem gerir það ómögulegt að dreifa pósti fimm sinnum í viku.
    Alþjónustuveitanda ber að bjóða sama verð á bréfapósti um allt land.
    Samkvæmt núgildandi lögum um póstþjónustu hefur ríkið einkarétt á póstþjónustu vegna póstsendinga bréfa allt að 50 g að þyngd. Auk þess hefur ríkið einkarétt á útgáfu frímerkja og uppsetningu póstkassa.
    Póst- og fjarskiptastofnun veitir leyfi til þess að starfrækja póstþjónustu og hefur eftirlit með póstmálum og framkvæmd laga um póstþjónustu. Heimildir til að starfrækja póstþjónustu eru annars vegar almennar heimildir og hins vegar rekstrarleyfi. Rekstrarleyfi þarf eingöngu til að veita alþjónustu. Stofnunin hefur eftirlit með skilmálum póstrekenda og gjaldskrá fyrir alþjónustu. Gjaldskrá fyrir þjónustu sem fellur undir einkarétt ríkisins skal senda stofnuninni til samþykkis. Í skilmálum fyrir alþjónustu á að skilgreina aðgengi notenda að þjónustunni og gæði hennar. Póst- og fjarskiptastofnun framfylgir auk þess reglum um póstmeðferð og óskilasendingar. Stofnuninni er heimilt að leggja á kvaðir um alþjónustu alls staðar á landinu eða afmarkaða þætti alþjónustu á tilgreindu svæði.
    Íslenska ríkið hefur falið Íslandspósti hf. að annast einkaréttinn. Íslandspóstur hefur yfirburðastöðu á íslenska bréfamarkaðnum og hefur verið útnefnt til þess að sinna alþjónustuskyldum. Fyrirtækið er hlutafélag að fullu í eigu ríkisins og fer með einkarétt ríkisins en starfar að öðru leyti á samkeppnismarkaði. Hjá fyrirtækinu starfa 862 starfsmenn á fjölmörgum vinnustöðum um land allt og er það einn af stærstu atvinnurekendum landsins.

Horfur á póstmarkaði.
    Nokkrar breytingar hafa orðið á póstmarkaði á undanförnum árum og ber þar fyrst að nefna minnkandi magn póstsendinga. Ástæður þess að póstmagn fer sífellt minnkandi er fyrst og fremst aukin notkun á rafrænum miðlum, svo sem tölvupósti, notkun rafrænna reikninga, launaseðla o.s.frv.
     Minnkandi magn pósts: Árið 2006 dreifði Íslandspóstur rúmlega 58 milljón bréfum, þar af voru 51 milljón innan einkaréttar. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti er skipting bréfapósts þannig að rúm 90% eru frá stórum fyrirtækjum og opinberum aðilum en annar póstur frá einkaaðilum og smærri fyrirtækjum. Athyglisvert er að einungis sex stórir aðilar senda 48% af heildarmagni bréfapósts. Árið 2010 dreifði Íslandspóstur rúmlega 650.000 bögglum sem voru undir 20 kg. Engar upplýsingar liggja fyrir um fjölda böggla sem fluttir eru með almennum vöruflutningum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á mynd hér á eftir má sjá heildarfjölda áritaðra bréfa árin 2006–2010 sem borin voru út. Bláa súlan sýnir heildarfjölda bréfa innan einkaréttar en sú rauða heildarfjölda bréfa utan einkaréttar. Inni í tölum áranna 2009–2010 eru tölur frá Póstdreifingu (Pósthúsið) um dreifingu á póstsendingum utan einkaréttar.

Heildarfjöldi áritaðra bréfa sem borin voru út árin 2006–2010.
Heimild: Póst- og fjarskiptastofnun.

2.2 Hagkvæm og skilvirk fjarskipti.
2.2.1 Markaðsbrestur á fjarskiptasviði.
    Allir landsmenn hafa aðgang að fjarskiptaþjónustu frá lögheimili sínu, bæði hefðbundinni símaþjónustu, 128 Kb/s gagnaflutningsþjónustu og háhraðagagnaflutningsþjónustu þótt hún sé misjöfn að gæðum eftir fyrirtækjum og svæðum. Það er í höndum fyrirtækja á markaði að veita þessa þjónustu og stjórnvalda að setja samkeppnisreglur, gagnsæjar og sanngjarnar þannig að þær stuðli að bættum hag neytenda. Stjórnvöld fylgjast með markaðnum og safna tölfræðiupplýsingum í því skyni.
    Engu síður er víðast hvar að finna markaðsbrest sem leiðir til þess að án aðkomu stjórnvalda hafa sum heimili ekki aðgang að þjónustu á þessu sviði. Sem dæmi er mjög kostnaðarsamt að bera út póst fimm daga vikunnar í dreifbýli. Slík þjónusta stæði íbúum í dreifbýli ekki til boða á sambærilegu verði og íbúum í þéttbýli án afskipta stjórnvalda. Erfitt er að skilgreina hvar mörk markaðarins liggja sérstaklega er varðar fjarskipti – ekki síst vegna örra framfara í tækni sem leiðir oft til uppbyggingar á svæðum sem áður lágu utan marka hagkvæmni. Þá á uppbygging varanlegra innviða fjarskipta, svo sem ljósleiðarakerfis, sér oft langan aðdraganda. Jafnvel á höfuðborgarsvæðinu hefur verið unnið að ljósleiðaravæðingu í fjöldamörg ár og á enn töluvert í land að öll heimili séu tengd ljósleiðarakerfinu. Höfuðborgarsvæðið er engu síður mun betur sett en landsbyggðin, einkum vegna þess að flestir tengiskápar eru ljósleiðaravæddir og heimtaugin frá tengiskáp er stutt sem leyfir mjög hraða DSL-tengingu. Jafnvel við þessar aðstæður tekur það nokkur ár að uppfæra tengingar á höfuðborgarsvæðinu svo bjóða megi upp á meiri hraða.
    Í fjarskiptaáætlun 2005–2010 voru þrjú meginverkefni skilgreind með hliðsjón af markmiðum áætlunarinnar. Afmörkun verkefnanna fólst í því að finna út hvar á landinu skilgreind lágmarksþjónusta, 2 Mb/s gagnasamband, yrði ekki í boði í næstu framtíð á markaðslegum forsendum. Styrkir til uppbyggingar fjarskiptainnviða og/eða þjónustu til þess að tryggja íbúum og vegfarendum aðgang að skilgreindri lágmarksþjónustu voru boðnir út eftir að þessi greining lá fyrir. Stjórnvöld náðu markmiðum sínum haustið 2010 um að útrýma fyrirliggjandi markaðsbresti gagnvart aðgengi að háhraðanettengingum fyrir öll lögheimili á Íslandi á grundvelli eins meginmarkmiðs fjarskiptaáætlunar 2005–2010, þ.e. að „allir skuli eiga kost á háhraðanettengingu“.
    Tækniframfarir í fjarskiptum eru örar og hætt er við að kröfur um sívaxandi afköst tenginga (100 Mb) leiði til þess að markaðsbrestur komi fram á ný. Það er stjórnvalda að fylgjast með og leita leiða til úrbóta þegar kreppir að á þessu sviði. Það er m.a. hlutverk þessarar áætlunar.
    Aðrar aðstæður ríkja á póstmarkaði. Íslandspóstur hefur einkaleyfi til dreifingar bréfa allt að 50 g og stendur jafnaðargjald undir kostnaði við dreifingu þar sem hún er óhagkvæm. Þar sem fjöldi bréfa 50 g og undir fer hraðminnkandi er smám saman að fjara undan þessu fyrirkomulagi. Einnig stendur fyrir dyrum að innleiða tilskipun ESB um opnun póstmarkaða. Finna þarf nýtt fyrirkomulag til þess að leysa úr markaðsbresti vegna bréfburðar.

2.2.2 Fjarskipti.
Skilvirkt regluverk.
    Grundvöllur þess að fjarskiptamarkaður starfi á skilvirkan og hagkvæman máta er að til staðar sé skilvirkt regluverk. Hér á landi er það að afar miklu leyti byggt á regluverki Evrópusambandsins sem gildir um allt EES-svæðið. Markmiðið er að stuðla að samkeppni og framþróun, tryggja lágmarksþjónustu og vernd neytenda, stuðla að öryggi fjarskipta og skapa heildstæðan fjarskiptamarkað. Með því að tryggja sambærilegar reglur á fjarskiptamarkaði á öllu EES-svæðinu er stefnt að opnun markaða og auknum viðskiptum yfir landamæri. Var svonefndur „fjarskiptapakki“ leiddur í íslensk lög með fjarskiptalögum, nr. 81/2003, og byggist hann á fimm tilskipunum ESB. Hefur regluverki um fjarskipti nú verið breytt umtalsvert og því liggur fyrir að hefja þarf undirbúning að innleiðingu þeirra. Breytingarnar fela í sér tvær tilskipanir og eina nýja reglugerð („nýi fjarskiptapakkinn“).
    Reglur á fjarskiptamarkaði eiga að vera fyrirsjáanlegar, gagnsæjar og leyfa framþróun í nýrri tækni en ekki hamlandi fyrir stærð þjónustusvæða.
    Mikilvægt er að tryggja jafnvægi milli samkeppnissjónarmiða og hvata til fjárfestinga. Eftirlit Samkeppniseftirlitsins og Póst- og fjarskiptastofnunar hefur stuðlað að því að efla samkeppni á fjarskiptamarkaði, t.d. með því að opna aðgang að fjarskiptanetum á kostnaðartengdum grunni. Þetta hefur leitt til samkeppnishæfs verðs og aukinnar samnýtingar heildsöluþátta markaðsráðandi aðila. Getur það hins vegar gert aðilum á markaði erfiðara fyrir við að stuðla að framþróun og fjárfestingum í fjarskiptaþjónustu. Æskilegt væri að skoða þætti er varða hvata til fjárfestinga með sérstaka áherslu á fjárfestingar í dreifbýli og þar sem er síður fýsilegt að byggja upp á markaðslegum forsendum.

Horfur.
    Vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum ber íslenskum yfirvöldum að innleiða nýjar reglur á sviði fjarskipta sem settar eru á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins. Mun regluverk fjarskiptamarkaðarins því fylgja þróun í Evrópu. Nauðsynlegt er að tryggja að innleiðing ESB-reglna taki mið af íslenskum aðstæðum um leið og búið er svo um hnútana að samkeppnissjónarmiðum og öðrum atriðum, svo sem um áframhaldandi uppbyggingu og þróun á fjarskiptamarkaði, sé sinnt að sama skapi.

Ráðstöfun og notkun tíðnisviðsins.
Tíðnimál.
    Þráðlausri tækni og þjónustu sem byggist á henni hefur fleygt fram á undanförnum árum auk þess sem kröfur um afköst hafa aukist. Undanfarið hefur farsímaþjónusta verið fremst í flokki og er hún að þróast í farnetsþjónustu sem býr við hraðvaxandi eftirspurn. Ný tækni leiðir til hraðari gagnaflutninga ef tíðnisvið eru fyrir hendi og kallar oftast á þörf fyrir aukna tíðninotkun.
    Mikil eftirspurn og eðlisfræðilegar takmarkanir hafa knúið ríki til þess að skipuleggja utanumhald tíðnimála og finna lausnir sem leiða til hagkvæmni í nýtingu þeirra. Tíðnir virða ekki landamæri og er víðast hvar, ekki síst í Evrópu, rík þörf fyrir alþjóðlegt samstarf við stjórnun tíðnimála. Þörf fyrir alþjóðlega samvinnu kemur til af fleiri atriðum t.d. að alþjóðleg þjónusta, svo sem neyðarþjónusta, sé samræmd á sama tíðnisviðinu svo að skip hafi aðgang að henni hvar sem það er statt. Sama gildir um farsímaþjónustu, þ.e. að hægt sé að nota eigin farsíma víðar en í heimalandinu. Raunar gildir þetta um flest tilfelli, þ.e. að viðkomandi þráðlaus þjónusta sé nægilega vel skilgreind og stöðluð svo að hagkvæmt sé fyrir fyrirtæki að þróa og markaðssetja alþjóðlegan búnað sem byggist á tilteknu tíðnisviði.
    ESB væntir mikils af markaði fyrir þjónustu og búnað sem byggist á þráðlausri tækni og sér fram á áframhaldandi mikinn vöxt hans og framlag til þjóðarframleiðslu ríkjanna. Auk þess gegnir þráðlaus búnaður stóru hlutverki við að brúa svokallaða stafræna gjá og koma á netsambandi við dreifðar byggðir víða í Evrópu. Sambandið hefur því undanfarið lagt þunga áherslu á tíðnimál og betri nýtingu tíðna og unnið að því að brjóta niður múra á milli markaða. Í nýrri löggjöf sambandsins eru ákvæði sem ætlað er að stuðla að úthlutun tíðna án skilyrða um tækni eða þjónustu. Vonast er til að slík ákvæði greiði fyrir þróun nýrrar tækni og þjónustu sem geti samnýtt tíðnir.
    Mikil aukning hefur verið á eftirspurn eftir tíðnisviðum undanfarið og ekki séð að þar verði lát á. Framfarir í símatækni og þráðlausum gagnasamböndum, 3G og 4G, hafa leitt til notkunar sem krefst mikilla afkasta. Unnið er að því að losa tíðnisvið til þess að taka við aukinni eftirspurn á þessu sviði, m.a. á vettvangi ESB og í Norður-Ameríku.
    Stórt tíðnisvið er frátekið fyrir skilgreinda notkun, svo sem neyðarfjarskipti, öryggisfjarskipti, gervihnattaþjónustu o.s.frv. Almennt er þróunin sú að notendur vilja þróa viðkomandi þjónustu og nýta tíðnirnar til þess að flytja aukið magn upplýsinga í því skyni. Ræðst það af gríðarlegri eftirspurn eftir þráðlausum samböndum þar sem farnetsþjónusta er fyrirferðarmest.
    Í fjarskiptatíðnum felst takmörkuð auðlind sem fjárhagsleg verðmæti eru bundin við, líkt og fram kemur í álitsgerð auðlindanefndar um stjórn auðlinda Íslands frá árinu 2000 3 . Án varfærinnar skipulagningar og stjórnunar geta skaðlegar truflanir haft afar slæm áhrif á tíðnisvið sem grundvallarsamskiptamiðla og er notkun tíðnisviða af þeim sökum háð leyfum frá Póst- og fjarskiptastofnun. Við úthlutun þessara gæða skiptir sköpum að farið sé eftir hlutlægum og gagnsæjum sjónarmiðum á grundvelli fyrirframákveðinna reglna þannig að sem best verði tryggt að markmiðum um sanngirni og jafnræði sé náð. Að sama skapi þarf úthlutun tíðnisviða að þjóna almannahagsmunum með tilliti til útbreiðslu og aðgengis að fjarskiptaþjónustu um landið allt.
    Reglum um stjórnun og úthlutun tíðna er ætlað að auka á hagkvæmni og skilvirkni stjórnunar þessara gæða. Byggjast þær reglur að hluta til á ákvæðum Evrópulöggjafar. Skilvirk umsýsla með tíðnir ýtir undir tæknilegar og efnahagslegar framfarir í fjarskiptum og er því lagt til að dregið verði úr hömlum á tíðninotkun. M.a. er opnað fyrir möguleika á framsali eða leigu á tíðniréttindum. Um leið verður að sjá til þess að stjórnun tíðna sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar en þær geta kveðið á um samræmda notkun tiltekinna tíðnisviða.
Þróun tækni og markaðar hefur breytt aðstæðum fyrir þráðlaus fjarskipti og stjórnun hinnar takmörkuðu auðlindar sem felst í tíðnirófinu. Bætt tækni opnar fyrir ný tækifæri í samskiptum og leiðir til aukinnar eftirspurnar eftir þráðlausri þjónustu. Það leiðir af sér aukna eftirspurn eftir tíðnum og því þarf sífellt að endurskoða skipulag og stjórnun tíðnirófsins.
    Er almennt talið að gífurleg verðmæti felist í tíðnum. Sem dæmi má nefna að áætlað virði tíðninotkunar sé 2,2% af vergri landsframleiðslu (GDP) í Evrópusambandinu. Aðstæður hérlendis eru þó nokkuð sérstakar, ekki síst fyrir þær sakir að markaðurinn er afar lítill í alþjóðlegum samanburði og fjarskiptafyrirtæki fá. Þá eigum við ekki við það vandamál að stríða sem flest önnur Evrópulönd glíma við að deila tíðnum með öðrum ríkjum vegna landamæra.

Horfur.
    Margir telja að framboð og notkun tíðna sé lykilatriði varðandi framþróun á þjónustu við upplýsingatækni og fjarskipti. Því þurfi að móta umhverfi sem stuðli að fjárfestingum og leiði til víðtækrar þjónustu um allt land. Til að tryggja framþróun þarf að vinna að því að nýjar úthlutanir séu óháðar tækni ef kostur er.
    Tíðnisvið sem bjóða upp á góða útbreiðslu eru afar mikilvæg. Mikill ávinningur er almennt talinn hljótast af því þegar hliðrænum sjónvarpsútsendingum verður hætt því þá losni afar verðmætt tíðnisvið ( digital dividend).
    Með nýja fjarskiptapakkanum verða gerðar nokkrar breytingar á regluumhverfi um stjórnun og úthlutun tíðna og er unnið að frumvarpi þess efnis í innanríkisráðuneytinu, auk þess sem unnið er að reglugerð um stjórnun og úthlutun tíðna til að skýra regluverkið enn frekar.
    Almennt virðist stefnan sú í Evrópu að auka beri sveigjanleika við ráðstöfun og notkun tíðna. T.d. stendur til að opna fyrir verslun/framsal á tíðnum en það er ekki heimilt hér á landi sem stendur.

Verðlag fjarskiptaþjónustu.
Staða.
    Framboð og þjónusta á fastlínusíma er einnig gott hér á landi og er þjónustan sú ódýrasta innan OECD. Notkun hefur farið minnkandi frá árinu 2005.

Tafla 3.

Verð á fjarskiptaþjónustu.


Verðsamanburður Sæti innan OECD ár hvert
Ár/þjónusta 2009 2008 2007 2006 2005
Heimilissími 1 1 1 1 1
Fyrirtækjasími 1 1 1 1 1
GSM-eftirágreitt 2 1 1 2 2
GSM-fyrirframgreitt 1 2 2 2 1
                              Heimild: Teligen.
                            Skýring: Talan 1 merkir að Ísland sé í hópi sjö landa með hagkvæmasta verðið fyrir tiltekna þjónustu.

    Verðlag á íslenskum fjarskiptamarkaði virðist vera almennt samkeppnishæft við það sem gengur og gerist í Evrópu. 4 Póst- og fjarskiptastofnun gefur út skýrslu um tölfræði á fjarskiptamarkaðnum og safnar í þeim tilgangi upplýsingum frá skráðum fjarskiptafyrirtækjum hér á landi. Markmiðið er m.a. að bæta upplýsingagjöf og auka gagnsæi á fjarskiptamarkaðnum. Mikilvægt er að sjá svo um að upplýsingar um verðlagningu liggi á lausu þannig að neytendur hafi raunhæfan samanburð. Í þeim tilgangi hefur Póst- og fjarskiptastofnun jafnframt sett á fót sérstaka reiknivél fyrir neytendur þar sem þeir geta með auðveldum hætti borið saman mismunandi verð fjarskiptafyrirtækja fyrir mismunandi fjarskiptaþjónustu. Verður að telja þetta mjög jákvætt skref fram á við til að tryggja aðgengi að gagnsæjum upplýsingum.

Horfur.
    Í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 hefur verðlag hér á landi almennt farið hækkandi. Verð á fjarskiptaþjónustu virðist þó hafa staðið nokkurn veginn í stað, sbr. upplýsingar frá Hagstofu Íslands.

Alþjónusta í fjarskiptum.
    Til alþjónustu í fjarskiptum teljast þeir þættir sem boðnir eru öllum neytendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu. Skv. 19. gr. fjarskiptalaga, nr. 81/2003, og reglugerð um alþjónustu í fjarskiptum, nr. 1356/2007, er eftirfarandi þjónusta skilgreind sem alþjónusta:
          Almenn talsímaþjónusta.
          Handvirk þjónusta (aðstoð talsímavarðar).
          Þjónusta við öryrkja eða notendur með sérstakar þarfir.
          Gagnaflutningsþjónusta með 128 kb/s flutningshraða.
          Aðgangur að símaskrá með öllum númerum og upplýsingaþjónusta um öll símanúmer.
          Almenningssímar.
          Aðgangur að neyðarþjónustu og svörun neyðarsímtala.
    Í tengslum við innleiðingu á nýja fjarskiptapakkanum er sú spurning réttmæt hvort tímabært sé að huga að því að endurskilgreina alþjónustu. Sem dæmi má nefna lágmarkshraða internets sem nú er 128 kb/s. Nokkur lönd hafa þegar aukið þennan hraða, þar á meðal Finnland (1 MB/s), Bretland (2 MB/s) og önnur Norðurlönd eru einnig að velta fyrir sér hvort æskilegt sé að hækka alþjónustulágmarkið að þessu leyti. Í ljósi þess að háhraðanetsverkefni Fjarskiptasjóðs lýkur í árslok 2011, þegar öll heimili á landinu eiga kost á hraðara netsambandi en sem nemur 128 kb/s, má velta fyrir sér hvort hægt sé að breyta þessum lágmarkshraða í samræmi við þann hraða sem almennt er boðið upp á hér á landi. Háhraðanetsverkefni Fjarskiptasjóðs miðar almennt við 2 Mb/s en kanna verður hvaða þjónustu fyrirtækin veita almennt svo að hægt sé að meta hæfilegan hraða.

Samnýting opinberra innkaupa.
Staða.
    Mikil hagræðing getur falist í aukinni samnýtingu opinberra innkaupa og margir möguleikar eru vel þess virði að skoða nánar, ekki síst fyrir tilstilli tæknisamrunans. T.d. verður RÚV að uppfæra dreifikerfi sitt og færa útsendingar yfir í stafrænt sjónvarp. Tæknisamruninn leyfir að vel er hægt að flytja stafrænt sjónvarp eftir háhraðanetum þar sem þau eru fyrir hendi. Sömuleiðis þarf að flytja dagskrár til útsendingarstaða sem best er gert með ljósleiðurum. Forsendur gætu verið fyrir að ná fram markmiðum um uppbyggingu háhraðatenginga samhliða uppbyggingu á nýju dreifikerfi RÚV. Slík samnýting getur bæði leitt til hagkvæmni í betra verði og bættri þjónustu um allt land.
    Samnýting opinberra innkaupa á fjarskiptaþjónustu fyrir opinberar stofnanir getur dregið vagninn og flýtt fyrir framþróun fjarskiptaþjónustu á landinu, ekki síst varðandi háhraðainternet. Margar opinberar stofnanir um allt land kaupa nettengingar og er að jafnaði um að ræða staðbundin útboð. Með því að samræma framkvæmd slíkra útboða og samnýta þau má ná fram betri og ódýrari þjónustu.
    Áður hefur verið reynt að stuðla að samræmdum innkaupum en það hefur ekki tekist sem skyldi. Meta þarf hvort láta eigi reyna á aukið samstarf og samnýtingu í opinberum innkaupum. Sem dæmi má nefna að í litlu sveitarfélagi gæti það verið til mikilla bóta ef skóli, heilbrigðisstofnun og jafnvel fleiri stofnanir nýttu sameiginleg innkaup og fengju með þeim hætti betri nettengingar sem kæmu öllum að notum í viðkomandi sveitarfélagi.

Stjórnunarhættir internetsins.
Staða.
    Eitt megineinkenni internetsins er að það hefur þróast afar hratt frá því það kom fyrst fram á sjónarsviðið. Sérstaða netsins sem altæks samskiptamiðils er m.a. fólgin í því að allir geta tengst því með ólíkum vélbúnaði og með ólíkum hætti, hvort sem um er að ræða símalínur eða gervihnetti. Þannig eru allar tölvur á netinu jafnréttháar án þess að einhvers konar miðstöð eða ómissandi hlekkur sé í keðjunni. Það sem sameinar þær er hið staðlaða samskiptaform IP-samskiptastaðla sem með samspili við lénsheitakerfið gerir samskipti í gegnum netið möguleg. Umferð um netið er háð samstarfi þeirra sem veita netþjónustu og því halda margir fram að á internetinu ríki hálfgert stjórnleysi. Til að ráða bót á því hafa mörg ríki heims tekið höndum saman og fjöldi samtaka reynt að stuðla að samræmdri þróun og stjórn internetsins.
    Fjöldi álitaefna lýtur að stjórn netsins. Í árdaga þess lutu álitaefnin fyrst og fremst að þróun og útfærslu tæknilegra eiginleika. Á síðustu missirum hefur umræða um stjórnhætti þess að miklu leyti snúist um yfirstjórn, ekki hvort og að hvaða marki ætti að stjórna netinu heldur miklu fremur hvaða aðilar. Vinnuskilgreining starfshóps á vegum Sameinuðu þjóðanna um stjórnhætti netsins felur í sér aðkomu stjórnvalda og einkaaðila að lagalegum, stefnumarkandi og tæknilegum þáttum netsins. Jafnframt er í skilgreiningunni lögð áhersla á að stjórnhættir netsins eigi ekki aðeins að þróast með vísan til tæknilegra þátta á borð við IP-vistföng heldur einnig að stefnumótun er lýtur að almannahagsmunum eins og net- og upplýsingaöryggi. Enn fremur er lögð áhersla á fullveldi ríkja hvað varðar almenna stefnumótun í málefnum landsléna sem þeim ber bæði réttur og skylda til að sinna.
    Hér á landi hefur hingað til ekki verið lögð mikil áhersla á samstarf við erlenda aðila, ríki jafnt sem samtök, í tengslum við internetið. Fjölmörg ríki beita sér á því sviði enda er víða umdeilt að sum ríki hafi afar mikið að segja um stjórnarhætti á internetinu. Þá starfa fjölmörg samtök um stjórnun internetsins, t.d. WSIS (World Summit on the Information Society) og IGF (Internet Governance Forum) á vegum Sameinuðu þjóðanna og hefur Alþjóðafjarskiptasambandið (ITU) beitt sér á þeim vettvangi. Í Evrópu hefur verið fjallað um stjórnun veraldarvefsins bæði á vettvangi Evrópuráðsins og Evrópusambandsins. Á vegum ESB er m.a. starfrækt nefnd undir heitinu HLIG (High Level Group on Internet Governance). Á sviði lénamála gegnir ICANN lykilhlutverki (Internet Corporation for Assigned Names and Numbers) en stjórnvöld hafa aðkomu að ICANN í gegnum GAC (Governmental Advisory Committee).
    Allar þessar stjórnarstofnanir netsins eru dreifðar og hlutverk þeirra í stjórnun og framþróun netsins skarast að mörgu leyti. Valdheimildir þessara stofnana, sem fæstar eru þó stofnanir í hefðbundnum skilningi þess orðs heldur fyrirtæki, eru jafnframt óformbundnar, helgaðar venju og í sumum tilvikum umdeildar. Regluumhverfi netsins á alþjóðlegum grundvelli er ekki aðeins markað venjubundnum réttarheimildum í skilningi laga. Það einkennist jafnframt af almennt viðurkenndum tæknistöðlum, starfsreglum og samþykktum fyrirtækja sem sinna utanumhaldi á grundvelli einkaréttarlegs samnings við bandarísk stjórnvöld, umræðuskjala, auk þess sem umsjón léna byggist á einkaréttarlegum samningum aðila. Íslensk yfirvöld þurfa því að móta sér afstöðu að hve miklu leyti þau vilja taka þátt í þessari þróun á alþjóðlegum vettvangi.

Stjórnunarhættir internetsins á Íslandi.
    Engin íslensk lög fjalla enn sem komið er sértækt um stjórnunarhætti internetsins. Fjarskiptalög gilda um fjarskiptanet, þ.m.t. internetið en þó aðeins upp að ákveðnu marki. Tekið er sérstaklega fram í fjarskiptalögum að þau gilda ekki um efni sem fer um net heldur eingöngu um flutninginn sjálfan sem slíkan yfir fjarskiptanetin.
    Ýmsar kröfur má leggja á fjarskiptafyrirtæki sem skilyrði almennrar heimildar, þ.m.t. skilyrði er varða fjarskiptaþjónustu, rekstraröryggi neta, tryggingu um samstæð net og samhæfni. Verja skal upplýsingar sem fara um fjarskiptanet gegn því að þær glatist, skemmist, breytist fyrir slysni eða að óviðkomandi fái aðgang að þeim. Af framangreindu má sjá að ýmsar reglur gilda samkvæmt fjarskiptalögum um stjórnun internetsins.
    Ljóst er að með tilkomu nýrrar tækni og internetsins hefur stjórnun netsins þróast innan stjórnsýslunnar með ýmsu móti og er víða innan hennar að finna verkefni er lúta að þeim. Sem dæmi má nefna að auk þess sem ábyrgð á fjarskiptalögum hvílir á innanríkisráðuneytinu er fjallað almennt um samvirkni og stöðlun í fjármálaráðuneyti og um samvirkni og stöðlun á sviði rafrænna viðskipta í efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Þá heyrir upplýsingasamfélagið almennt undir forsætisráðuneytið en margir þættir er lúta að efni á internetinu heyra undir menntamálaráðuneyti, svo sem varðandi höfundarrétt.
    Einnig hafa ýmis svið um stjórn internetsins fallið milli skips og bryggju. Þar má helst nefna málefni um úthlutun léna og ekki síst stjórnun landslénsins is. Líkt og segir í leiðbeiningarreglum GAC eru landslén opinberar auðlindir. Íslenska ríkið getur því á grundvelli valdheimilda áskilið sér umráða- og yfirráðarétt yfir landsléninu .is með lagasetningu. Slík lagasetning þarf þó að samræmast efni alþjóðlegra samninga og skuldbindinga, þ.m.t. gagnvart ICANN.
    Vinna við að bæta umgjörð lénamála hér á landi hefur staðið frá árinu 2005. Innanríkisráðherra lagði frumvarp til nýrra laga um lénamál fyrir 139. löggjafarþing (2010–2011) en ekki náðist samkomulag um útfærslu þess. Verður það því lagt fram á ný til frekari meðferðar á Alþingi.

2.2.3. Póstmál.
Staða.
Alþjónusta og íslenskur póstmarkaður.
    Íslenskur póstmarkaður hefur ákveðna sérstöðu gagnvart erlendum mörkuðum að því leyti hversu strjálbýlt landið er – strjálbýlast allra landa í Evrópu með um þrjá íbúa á hvern ferkílómetra. Það felur í sér að mikill munur er á dreifingarkostnaði eftir því hvort um er að ræða þéttbýli eða dreifbýli. Til að tryggja hag neytenda í dreifbýli gildir sama verð fyrir bréfapóst um allt land. Af því leiðir að við innleiðingu pósttilskipunarinnar og opnun póstmarkaða felst ákveðin áskorun við að tryggja alþjónustu fyrir neytendur á „markaðslega óhagkvæmum“ svæðum.
    Ljóst er að kröfur um alþjónustu og gæðakröfur sem settar hafa verið, svo sem krafa um fimm daga þjónustu og krafa um að 85% af pósti skuli borin út daginn eftir póstlagningu, geta í sumum tilfellum verið afar kostnaðarsamar og falið í sér langt um meiri kostnað en þær tekjur sem rekstraraðili hefur af því að veita þjónustuna. Helgast það af þeirri staðreynd að sama gjaldskrá er fyrir sendingu bréfa um allt land, óháð því hvaðan og hvert sent er innan lands. Í gjaldskrá Íslandspósts er þannig jöfnun eða millifærsla þar sem einkarétturinn greiðir niður þjónustu við hinar dreifðu byggðir. Póstsendingar á svæðum sem ódýrt er að þjóna, svo sem á höfuðborgarsvæðinu, eru verðlagðar yfir kostnaði við að veita þjónustuna en sendingar út á land eru aftur á móti verðlagðar langt undir kostnaði.
    Við opnun markaðar með afnámi einkaréttar er líklegt að nýir aðilar muni fyrst og fremst einbeita sér að þeim svæðum á landinu þar sem verðlagning Íslandspósts fyrir þjónustuna er yfir kostnaði eins og á höfuðborgarsvæðinu. Við það gæti fyrirtækið orðið fyrir umtalsverðum tekjumissi.
    Óbreyttar kröfur um alþjónustu, minnkandi bréfamagn og væntanleg samkeppni á þeim svæðum þar sem hagstæðast er að reka póstþjónustu vekur upp spurningar um hvernig eigi að fjármagna sama þjónustustig og nú er við lýði. Þá er jafnframt nauðsynlegt að fram fari umræða um alþjónustu og útfærslu hennar í ýmsum tilvikum.
    Við innleiðingu tilskipunar ESB um opnun markaðar fyrir samkeppni, sem stefnt er að því að innleiða eftir þörfum, er mikilvægt að tryggja og samþætta tvö meginmarkmið. Í fyrsta lagi þarf að búa þannig um hnútana að raunveruleg samkeppni geti komist á þegar einkarétturinn verður aflagður með því að setja fyrirframákveðnar leikreglur til að hjálpa nýjum aðilum að fóta sig á markaðnum. Í öðru lagi þarf að tryggja að allir hafi aðgang að ákveðinni grunnþjónustu, alþjónustu, óháð því hvar á landinu þeir búa. Nauðsynlegt er að umræða eigi sér stað um alþjónustu þar sem leitað verði eftir sjónarmiðum íbúa í dreifbýli og þéttbýli og afstöðu Íslandspósts, Póstmannafélags Íslands, Neytendasamtakanna, Samtaka atvinnulífsins og ef til vill fleiri aðila um það með hvaða hætti eigi að opna markaðinn fyrir samkeppni.
    Skörun póstflutninga og vöruflutninga er ótvíræð sérstaklega er varðar pakkasendingar og skilgreining á því hvað telst vera póstsending eða vörusending getur oltið eingöngu á því hvort flytjandinn er póstflytjandi eða vöruflutningafyrirtæki. Þannig er oft túlkað að póstsendingar séu sendingar sem póstfyrirtæki flytja en vörusendingar og farmur þær sendingar sem vöru- og farmflutningafyrirtæki flytja þótt um sambærilegar sendingar að öllu leyti sé að ræða. Þá er ákveðin mismunun eftir rekstrarformi, t.d. greiðir póstflutningafyrirtæki rekstrargjald og jöfnunarsjóðsgjald, en ekki vöruflutningafyrirtæki. Það er orðið tímabært að endurskoða og samræma reglur sem gilda um vöru- og póstflutninga til að leiðrétta það ósamræmi sem byggist eingöngu á því hvort flutningsaðili er póstfyrirtæki eða er skilgreint sem vöru- og farmflutningafyrirtæki.

Aðilar á póstmarkaði.
    Eftirfarandi fyrirtæki eru skráð hjá Póst- og fjarskiptastofnun með leyfi til þess að starfrækja póstþjónustu:
          Íslandspóstur hf. með rekstrarleyfi dags. 2. desember 2007 en fyrirtækið fer jafnframt með einkarétt ríkisins á dreifingu bréfa undir 50 grömmum. Einnig hefur fyrirtækið verið útnefnt með skyldu til að veita alþjónustu alls staðar á landinu.
          Póstdreifing ehf. (áður Pósthúsið) með rekstrarleyfi dags. 21. júní 2011. Kjarnadreifingarsvæði fyrirtækisins er höfuðborgarsvæðið og Akureyri þar sem boðið er upp á heildreifingu sex daga vikunnar inn á öll heimili. Að auki er boðið upp á dreifingar á aðra landshluta eftir þörfum. Fyrirtækið dreifir m.a. póstsendingum utan einkaréttar, fjölpósti, blöðum, tímaritum o.fl., auk þess sem Póstdreifing safnar saman einkaréttarpósti og afhendir Íslandspósti til dreifingar.
          Prentsmiðjan Oddi ehf. skráð með almenna heimild dags. 19. nóvember 2008, Póstmarkaðurinn skráður með almenna heimild dags. 29. apríl 2010 og Burðargjald ehf. skráð með almenna heimild dags. 5. nóvember 2010. Þessi þrjú fyrirtæki safna saman einkaréttarpósti og afhenda Íslandspósti til dreifingar.

Regluverk EES.
    Á vettvangi Evrópusambandsins hefur þegar verið hafist handa við að afnema einkarétt ríkja á póstþjónustu til þess að opna fyrir samkeppni. Eftir mikla umfjöllun og nokkur átök á vettvangi ráðherraráðs Evrópusambandsins og Evrópuþingsins var tillaga að tilskipun um opnun póstmarkaða samþykkt og í kjölfar þess var tilskipun 2008/6/EC um afnám einkaréttar gefin út. Tilskipunin er sú þriðja og síðasta í röð tilskipana sem hver og ein hefur verið skref til að draga úr einkaleyfisrekstri og með henni er markaðurinn opnaður að fullu þó með ráðstöfunum sem ætlað er að tryggja hag neytenda.
    Samkvæmt tilskipuninni bar aðildarríkjum Evrópusambandsins að hafa afnumið einkarétt fyrir 31. desember 2010. Þó fengu 11 aðildarríki 5 leyfi til þess að fresta afnámi einkaréttar til 31. desember 2012. Ekki er heimilt að fresta gildistöku tilskipunarinnar lengur. Nokkur ríki, þar á meðal Svíþjóð, Þýskaland, Finnland, Eistland og Bretland, hafa þegar afnumið einkarétt til póstþjónustu.
    Tilskipunin er merkt EES-tæk og kemur til með að gilda að öllu óbreyttu á Evrópska efnahagssvæðinu. Íslensk yfirvöld tilkynntu í lok árs 2009 að þau hygðust einnig sækja um frest til að innleiða tilskipunina, fyrst og fremst með vísan til strjálbýlis og landfræðilega erfiðra aðstæðna sem fela í sér að þörf er fyrir meiri tíma við undirbúning á innleiðingu tilskipunarinnar og opnun póstmarkaðar. Þá hefur tilskipunin mætt nokkurri andstöðu í Noregi.
    Við afnám einkaréttar til póstdreifingar innan EES færist gjarnan rekstur póstþjónustu til almennra fyrirtækja frá stofnun eða fyrirtæki í eigu viðkomandi ríkis líkt og er tilfellið á Íslandi.
    Engu síður þarf að tryggja að neytendur á landsvísu hafi aðgang að póstþjónustu. Geti markaðsöflin ekki tryggt neytendum aðgang að þeirri póstþjónustu sem þeir eiga rétt á hafa aðildarríki val um aðferðir við að tryggja öllum landsmönnum póstþjónustu. Í stað þess að dreifa kostnaði við að þjóna afskekktum byggðum á neytendur í krafti einkaleyfis geta aðildarríki útnefnt alþjónustuveitanda sem styrkja má með ríkisstyrkjum, jöfnunarsjóði eða mögulega að undangengnu útboði. Í því sambandi þarf að skoða flutninga þá sem falla undir alþjónustu heildstætt en í dag nær hún t.d. til böggla allt að 20 kg sem fluttir eru af mörgum aðilum í samkeppni á flutningamarkaði.

2.3 Umhverfisvæn fjarskipti.
Umhverfismál.
    Margir snertifletir eru á milli samskiptamála og umhverfismála. Á síðustu árum hefur samspil þessara þátta fengið aukið vægi í stefnumörkun fjarskiptamála á alþjóðlegum vettvangi. Þar má nefna ITU, OECD og Evrópusambandið en þar að auki hafa ríki heims, m.a. Svíar, Danir og Bretar, lagt mikla áherslu á víxlverkan og samþættingu umhverfissjónarmiða við langtímastefnumörkun og framþróun fjarskipta- og upplýsingatækni. Vaxandi áhersla er lögð á góða orkunýtingu fjarskiptatækninnar auk þess sem beita má henni til þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum svo sem að nýta hana við stjórn samgangna og einnig í stað samgangna.

2.3.1 Fjarskipti.
    Flest bendir til að vægi umhverfismála haldi áfram að aukast á komandi árum og fjarskiptatæknin verði í auknum mæli nýtt í þágu þeirra. M.a. byggist sjálfbær nýting auðlinda, svo sem fiskstofna, á öflugri vöktun á lífríkinu og náttúrunni í heild og gegna fjarskipti þar lykilhlutverki.

Hagnýting fjarskipta við vöktun náttúrunnar.
    Vöktun á náttúru Íslands, svo sem með tilliti til mengunar í lofti eða vatni, vöktun á eldvirkni, hreyfingum jarðskorpunnar eða ofanflóðum hefur farið vaxandi. Er það ekki síst vegna framþróunar í tækni sem eflir þessa vöktun og opnar fyrir sífellt fleiri möguleika. Við vöktun eykst þekking á orsakasambandi í náttúrunni og opnar möguleika til nýtingar t.d. til að spá fyrir um eldgos. Búnaður til vöktunar nýtir fjarskipti til þess að koma mikilvægum upplýsingum til skila í rauntíma þar sem þær eru greindar. Oft er þessi búnaður fjarri mannabyggðum.
    Ljóst er að áhersla á umhverfisstjórnun og hvers konar vöktun í þágu umhverfisins fer vaxandi. Íslensk stjórnvöld horfa til þeirra möguleika sem felast í vöktun á villtum dýrum, skipulagi áburðardreifingar, veiðum dýra, eftirliti með hættulegum efnum, úrgangi og nýtingu orkuauðlinda. Bætt fjarskipti auka hvers kyns möguleika á þessu sviði.

Kortlagning og samnýting framkvæmda og fjarskiptamannvirkja.
Staða.
    Aðgangur að lögnum er grundvallarforsenda fyrir því að auðvelda og hvetja til frekari framþróunar háhraðanets. Allt að 80% kostnaðar við að leggja ljósleiðara felst í því að grafa skurð fyrir lögnina, með því að nýta aðrar framkvæmdir má því spara umtalsverðar upphæðir. Stuðla má að aukinni hagkvæmni við lagningu ljósleiðara og uppbyggingu fjarskiptaneta, t.d. með því að nýta opinberar framkvæmdir, svo sem við lagningu og endurnýjun veitulagna og jafnvel vega.
    Þegar nýir vegir eru lagðir eða skurðir grafnir ætti því að íhuga lagningu ljósleiðara eða í öllu falli lagna. Aðgangur að lögnum ætti að vera aðgengilegur öllum markaðsaðilum á sanngjörnum skilmálum og með hliðsjón af jafnræðisreglu. Finnar og Svíar hafa gripið til aðgerða í þessu sambandi. Finnar hafa sett lög um að framkvæmdir við skurði skuli nýttar og ljósleiðarar skuli ávallt vera lagðir ofan í skurð. Svíar hafa gert breytingar í þágu fjarskipta í skipulagslöggjöf og jafnframt hafa þeir lagt ákveðnar skyldur á sveitarfélög til að stuðla að uppbyggingu.
    Umhverfissjónarmið skipta einnig miklu máli varðandi ráðstöfun á landi fyrir fjarskiptalagnir í jörðu eða aðstöðu fyrir þráðlausa sendistaði. Kröfur fara vaxandi um að áætlanir um uppbyggingu fjarskiptavirkja fari inn í skipulagsáætlanir til jafns við önnur mannvirki sem og kortlagning fjarskiptavirkja. Á undanförnum árum hefur Alþingi sett margvíslega löggjöf á umhverfissviði er varðar landnýtingu. T.d. voru nýlega samþykkt lög á Alþingi um rekstur landupplýsingagrunns og fyrir liggur að skipuleggja og safna gögnum í hann. Rekstur slíks grunns býður upp á ýmis tækifæri til þess að bæta upplýsingamiðlun og samstarf þeirra sem eiga hliðstæða hagsmuni er varðar landnýtingu, sbr. hér að framan. Skoða þarf hvernig hægt er að nýta samræmda áætlanagerð og landupplýsingakerfi til þess að ná fram slíkum markmiðum, einnig hvort breyta þarf reglum, svo sem um kostnaðarhlutdeild við áætlun um framkvæmdir.

Lágmörkun neikvæðra umhverfisáhrifa.
    Mikilvægur þáttur í umhverfisvernd er að draga út notkun pappírs og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Víða er komið inn á þetta í þessari áætlun og styðja mörg markmið og verkefni við þetta atriði beint og óbeint, svo sem að allir landsmenn verði tengdir háhraðaneti og að stofnanir innanríkisráðuneytisins taki upp rafræna stjórnsýslu sem og viðskipti eins og unnt er. Með notkun fjarskipta bjóðast ýmis tækifæri til þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. M.a. geta íslensk stjórnvöld stuðlað að því í auknum mæli að senda bréf rafrænt í stað þess að senda þau í almennum pósti. Aukin áhersla á rafræn viðskipti getur einnig dregið úr pappírs- og ferðakostnaði. Þróunin er í þá átt að rafræn samskipti draga úr póstumfangi og þar af leiðandi akstri. Á móti kemur að rafræn viðskipti leiða gjarnan til aukningar í bögglasendingum þannig að um formbreytingu er að ræða sem engu síður leiðir til minni aksturs og minni losunar á gróðurhúsalofttegundum.
    Með auknum rafrænum samskiptum hefur úrgangur þeim tengdur margfaldast á Íslandi. Því mun það verða hlutverk stjórnvalda að skoða þennan málaflokk sérstaklega til að tryggja að rafeindatæki eins og farsímar, sjónvörp, tölvur og tölvuskjáir falli undir Úrvinnslusjóð.

2.3.2     Rafræn samskipti.
    Eitt af helstu stefnumálum ITU hvað varðar fjarskiptamál er umhverfismál. 6 Í því skyni hafa samtökin lagt áherslu á nýtingu fjarskipta til þess að stemma stigu við áhrifum loftslagsbreytinga. Í skýrslu sem unnin var af samtökunum og gefin út árið 2006 7 kemur fram að samtökin telji það eina af höfuðskyldum sínum að stuðla að því að aðildarríki samtakanna nýti upplýsingatækni og fjarskipti til þess að stemma stigu við áhrifum loftslagsbreytinga. 8 Rannsóknir Japansdeildar ITU hafa sýnt að þrátt fyrir að fjarskipti, notkun þeirra og búnaður hafi mengandi áhrif á umhverfið stuðli notkun fjarskipta að mun minni mengun í samfélaginu, fyrst og fremst vegna upptöku hagkvæmari tenginga, þá fyrst og fremst ljósleiðara, og þeirra möguleika sem felast í fjarvinnu, fjarnámi og fundum. 9
    Mörg þeirra ríkja sem Ísland ber sig helst saman við hafa samþykkt sérstaka stefnu í umhverfismálum og fjarskiptum. Þar má m.a. nefna stefnu danskra stjórnvalda „Grön IT“. 10 Til þess að stuðla að framgangi áætlunarinnar vörðu dönsk stjórnvöld árið 2008 36 milljónum danskra króna til þess að styðja við nýsköpunarverkefni í upplýsingatækni og fjarskiptum sem eru til þess fallin að auka umhverfisvernd eða minnka áhrif loftslagsbreytinga í heiminum. Danir hýstu einnig vinnufund OECD um græn fjarskipti sem haldinn var í maí 2008. 11 Í Svíþjóð hafa aðilar á fjarskipta- og upplýsingatæknimarkaði tekið sig saman um að auka meðvitund um umhverfisvernd upplýsingatækni og fjarskipta. 12

2.4. Öryggi fjarskipta.
    Mikið liggur við að hægt sé að tryggja öryggi fjarskipta nægilega en á þeim eru margar hliðar. Gæta þarf að öryggi fjarskiptavirkjanna sjálfra gagnvart ýmiss konar vá og vernda þau fyrir ólögmætum aðgerðum. Fjarskipti ættu ekki að rofna þó svo að einstakar einingar eða hlutar kerfisins bili sem m.a. er horft til við skipulagningu fjarskiptakerfisins að hluta eða í heild. Mikið hefur verið gert á undanförnum árum til að tryggja öryggi en eftir því sem fjarskipti verða yfirgripsmeiri og mikilvægari þáttur í samskiptum innan lands og utan þarf að auka öryggi og bregðast við nýjum hættum.

Öryggi fjarskiptaþjónustu.
    Ýmsar kröfur má leggja á fjarskiptafyrirtæki sem skilyrði almennrar heimildar, þ.m.t. skilyrði varðandi rekstraröryggi neta, tryggingu um samstæð net og samhæfni. Póst- og fjarskiptastofnun hefur sett reglur um virkni almennra fjarskiptaneta og kveða þær m.a. á um að hlíta skuli tilteknum stöðlum, vernd almennra fjarskiptaneta, afkastagetu og flæði umferðar um almenn fjarskiptanet, stjórn almennra fjarskiptaneta, virkni tölvupóstkerfa o.fl.

Vernd grunnstoða í fjarskipta- og upplýsingatækni er varða þjóðaröryggi (CIIP).
    Þjóðfélagið treystir á góðar grunnstoðir fjarskipta- og upplýsingatækni. Þessar grunnstoðir bera uppi svo mikilvæga þjónustu að það varðar þjóðaröryggi (CII) ef þær laskast. Þær eru ómissandi fyrir rekstur annarra grunngerða samfélagsins, svo sem fjármálakerfis, raforkuflutnings eða löggæslu, og því gætu brestir í þeim valdið því að þjóðfélagið yrði fyrir alvarlegum skakkaföllum.
    Náttúruhamfarir og vá af ýmsum toga, svo sem skemmdarverk, netárásir, víðtæk truflun á dreifingu rafmagns og mikið yfirálag fjarskiptaneta, getur lamað eða dregið úr virkni grunnstoða í fjarskipta- og upplýsingatækni. Að auki leiðir lömun fjarskipta til erfiðleika við að veita nauðsynlega þjónustu í samfélaginu. Setja þarf upp viðbragðsáætlanir fyrir ólíkar aðstæður til verndar netum og þjónustu.
    Mikilvægt er að vinna með öðrum þjóðum við að vernda grunnstoðirnar gegn atvikum og aðstæðum sem einstök lönd ráða ekki við og þurfa að eiga samvinnu um. Mörg fjarskiptanet ná milli landa og geta áföll í þeim varðað milliríkjahagsmuni. Í þeim tilgangi að styrkja alþjóðlega vernd þessara stoða þarf því að vera skilvirk og vel skilgreind samvinna milli þeirra aðila sem koma að málum, þ.m.t. um ábyrgð, heimildir o.fl.
    Evrópusambandið hefur birt tilskipun um greiningu á mikilvægum innviðum og vernd þeirra. Tilskipunin er liður í að framkvæma stefnu um vernd innviða aðildarríkja sambandsins. Hún fellur undir ábyrgð almannavarna en snertir málaflokka nokkurra ráðuneyta. Það er innanríkisráðuneytisins og stofnana þess að koma að málum um vernd innviða á þessu málefnasviði.

Áfallastjórnun (CM – Crisis Management).
    Á neyðarstundu þarf að samhæfa aðgerðir óskyldra aðila til þess að fyrir hendi sé virkni fjarskipta á hættusvæði. Markmið áfallastjórnunar er m.a. að tryggja aðkomu þeirra sem gegna hlutverki við að halda uppi öruggum rafrænum samskiptum viðbragðsaðila og þeirra sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna hverju sinni og einnig við að koma áríðandi skilaboðum til almennings.
    Örar tækniframfarir valda því að erfitt er að viðhalda þekkingu og vinna viðbragðsáætlanir í smáatriðum. Miklu skiptir að við stjórnun á tímum neyðarástands sé mögulegt að grípa til viðeigandi ráðstafana til verndar netum og þjónustu. Sérstaklega verður að bregðast skjótt við eyðileggingu eða rofi fjarskiptaleiða. Á neyðarstundu þarf viðkomandi að búa yfir þekkingu og lögbundnu valdi til að setja reglur, framfylgja eftirliti, veita ráðgjöf og skipa fyrir með fyrrgreint markmið að leiðarljósi. Undir slíkum kringumstæðum gæti þurft að víkja samkeppnissjónarmiðum tímabundið til hliðar.
    Nýfengin reynsla af hamförunum í Eyjafjallajökli sýnir að miklar kröfur eru gerðar til áreiðanleika neyðar- og öryggisfjarskipta bæði til að samhæfa aðgerðir viðbragðsaðila við upphaf hamfara og síðan við áframhaldandi aðgerðir. Horfur eru á að öryggi muni aukast enn frekar. Einnig eru gerðar ríkar kröfur um fjarskipti við almenning á hamfarasvæði.

Trygg fjarskipti viðbragðsaðila.
    Öryggisfjarskipti eru frábrugðin öðrum fjarskiptum að því leyti að meiri kröfur eru gerðar um rekstraröryggi. Öryggissjónarmið ráða för frekar en hagkvæmnissjónarmið. Opinbert fé þarf því til í mörgum tilfellum en gæta verður þess jafnframt að raska sem minnst viðskiptum og þróun á almennum fjarskiptamarkaði.
    Öryggisfjarskipti eru umfangsmikill málaflokkur sem er sinnt af mörgum aðilum, svo sem fyrirtækjum á fjarskiptamarkaði, Landhelgisgæslunni, ríkislögreglustjóra, Neyðarlínunni, Vaktstöð siglinga, RÚV og Isavia. Málaflokkurinn tengist einnig alþjóðlegum verkefnum, t.d. á vegum Schengen-samstarfsins og NATO. Öryggisfjarskipti eru ekki einungis tæknimálefni, heldur stjórnskipulags- og löggjafarmálefni sem oft kallar á samvinnu út fyrir ramma einstakra ráðuneyta.
    Almannavarnalög gilda um öryggisfjarskipti opinberra aðila en ábyrgð og skyldur er varðar rekstur þeirra mættu vera skýrari, t.d. er varðar tæknilegar lágmarkskröfur til öryggisfjarskipta og eftirlit. Samkvæmt almannavarnalögum eru einstök ráðuneyti ábyrg fyrir gerð viðbragðsáætlana um ráðstafanir á neyðarstundu en vaxandi skilningur er á að málaflokkinn þarf að meðhöndla á heildstæðan máta í löggjöf og stjórnskipulagi.
    Mikil fjárfesting undanfarinna ára hefur skilað sér í góðum búnaði og kerfum en endurskoða þarf laga- og stjórnskipulagsramma með hliðsjón af því. Úrbætur í þessum málaflokki eru því fremur stjórnsýsluverkefni en tækniverkefni.

Samstarf um eflt röskunarþol (P3R – Private Public Partnership for Resilience).
Staða.
    Nauðsynlegt er að stuðla að auknu öryggi almennings í rafrænum samskiptum. Hluti af því er að auka þol innviða almennra fjarskiptaneta gagnvart áföllum af ýmsu tagi. Þörf er á samstarfi stjórnvalda og einkafyrirtækja við að bregðast við öryggisógnum. Meðal fyrirbyggjandi aðgerða er að innleiða nýja nettækni sem er til þess fallin að auka þol innviða gagnvart röskun í rekstri. Hafa ber í huga í þessu sambandi að innviðirnir ná oft milli landa og auk þess stunda nokkur fjarskiptafyrirtæki viðskipti og rekstur í fleiri en einu landi. Innan Evrópusambandsins er nú þegar rætt um samstarf í víðara samhengi milli aðildarríkja þess, sem og landa EES-svæðisins (EP3R – European P3R). Slíkt samstarf yrði á vettvangi CSIRT þar sem landstengiliður sæi um öll samskipti við Evrópu.

Æfingar á viðbrögðum gegn stóráföllum og öðrum hættulegum atburðum (National Exercises).
    Til að treysta neyðarviðbúnað og áfallaþol innviða er varða þjóðaröryggi enn frekar er nauðsynlegt að stjórnvöld leiði reglubundnar æfingar á landsvísu með skipulagningu og þátttöku þeirra sem eiga og reka innviðina og tengdra aðila. Hafa ber í huga að fjarskiptainnviðir er varða þjóðaröryggi geta teygt sig milli landa, svo sem mikils háttar tengingar netsins. Truflanir og áföll í einu landi geta því haft áhrif á innviði í öðru. Þess vegna færist ört í vöxt að viðeigandi æfingar séu gerðar með þátttöku nokkurra landa innan Evrópu og víðar. Fyrrgreindar tengingar eiga sér engin landamæri og nauðsynlegt er að Ísland taki virkan þátt í þessum og öðrum sameiginlegum æfingum með það að markmiði að viðhalda og bæta þekkingu og áfallastjórnun.
    Undirbúningur og framkvæmd slíkra æfinga gæti verið á höndum ráðuneytis eða eftirlitsaðila, svo sem PFS, eða þjóðar-CSIRT-hóps, sérstaklega ef hann hefur einnig á sinni könnu málefni innviða er varða þjóðaröryggi.

Neytendavernd.
Staða.
    Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) fer m.a. með framkvæmd laga nr. 81/2003, um fjarskipti, hefur eftirlit með aðilum markaðarins og er ætlað að stuðla að því að markmið laganna náist. PFS setur ýmis stjórnvaldsfyrirmæli og nánari reglur um fyrirkomulag eða útfærslu á efni ýmissa ákvæða fjarskiptalaga eins og þar er nánar kveðið á um. Einnig beinir stofnunin tilmælum um breytingar á fjarskiptalögum og fjarskiptareglum til innanríkisráðherra.
    Meginmarkmið fjarskiptalaga er að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti og efla virka samkeppni á fjarskiptamarkaði, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 81/2003. Hvort tveggja er til hagsbóta fyrir neytendur. Í lögunum eru ýmis ákvæði sem snúa að réttindum neytenda, svo sem að öllum landsmönnum sé tryggður lágmarksaðgangur að fjarskiptum, að virkni og öryggi fjarskiptaneta sé tryggt og að allir landsmenn hafi aðgang að öryggisnúmerinu 112, auk ýmissa ákvæða sem ætlað er að auðvelda neytendum samskipti við fjarskiptafélög, svo sem vegna númeraflutninga þegar notendur vilja færa viðskipti sín milli fyrirtækja.
    Hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunarinnar gagnvart neytendum er einnig skilgreint í lögum um stofnunina, nr. 69/2003. Í 3. gr. laganna er kveðið á um að stofnunin skuli gæta hagsmuna almennings með því m.a. að:
          vinna að því að allir landsmenn eigi aðgang að alþjónustu,
          stuðla að vernd neytenda í viðskiptum þeirra við fjarskiptafyrirtæki og póstrekendur,
          vinna að ráðstöfunum til að vernda persónuupplýsingar og friðhelgi einkalífs,
          stuðla að birtingu skýrra upplýsinga fyrir notendur og krefjast gagnsæis gjaldskráa og skilmála fyrir notkun almennrar fjarskipta- og póstþjónustu,
          tryggja hag notenda, þ.m.t. einstakra þjóðfélagshópa eins og öryrkja svo dæmi sé tekið, sem best að því er varðar val, verð og gæði,
          tryggja að heildstæði og öryggi almennra fjarskiptaneta sé viðhaldið.
    Það svið neytendamála sem heyrir undir PFS er á síbreytilegum markaði, bæði hvað varðar framboð, verð og gæði á þjónustu fyrirtækja og tækniþróun. Stöðugt þarf því að endurskoða og uppfæra vinnubrögð, upplýsingagjöf og þjónustu við neytendur á þessum markaði.

Tölfræðiskýrslur um íslenskan fjarskiptamarkað.
    Tvisvar á ári er birt tölfræðiskýrsla PFS um þróun, samkeppni og verð á íslenskum fjarskiptamarkaði. Skýrslur þessar gefa greinargott yfirlit yfir þennan markað og verða að teljast góðar almennar upplýsingar fyrir neytendur þó svo að framsetning þeirra beinist fyrst og fremst að markaðsaðilum.

Kvartanir frá neytendum.
    Samvinna og samráð þeirra aðila sem vinna að málefnum neytenda er mikilvægur þáttur neytendaverndar.
    Póst- og fjarskiptastofnun leggur áherslu á slíka samvinnu við stofnanir og hagsmunaaðila á sviði neytendaverndar, svo sem Neytendastofu, talsmann neytenda og Neytendasamtökin. M.a. verður unnið að því að útfæra tillögur að hentugri og einfaldri kæruleið fyrir neytendur fjarskipta- og póstþjónustu.
    Neytendur geta leitað til PFS með kvartanir sínar telji þeir að fjarskiptafyrirtæki eða póstrekandi brjóti gegn þeim skyldum sem kveðið er á um í lögum og reglum eða almennum heimildum og rekstrarleyfum. Upplýsingum um kvartanir er haldið saman og þær lagðar fram í upplýsingasöfnun fyrir Evrópuverkefnið Skorkort neytendamála sem Neytendastofa heldur utan um hér.

Eftirlit með gjaldskrám og upplýsingar til neytenda.
    Póst- og fjarskiptastofnun fylgist með gjaldskrám og gæðum í þjónustu fjarskipta- og póstfyrirtækja. Á vefsíðu PFS eru birtar upplýsingar um verð á fjarskiptaþjónustu sem uppfærðar eru mánaðarlega. Auk verðupplýsinga er þar birtur fróðleikur, leiðbeiningar og gagnlegar upplýsingar fyrir neytendur um fjarskipta- og póstþjónustu.

Upplýsingar um staðsetningu radíósenda.
    Erlendis hefur almenningur víða góðar upplýsingar um staðsetningu radíósenda og útsendingarafl þeirra. Neytendur geta því tekið mið af þessum upplýsingum við staðarval með tilliti til góðrar fjarskiptaþjónustu og fleiri þátta. Leitast skal við að hafa upplýsingar um staðsetningu radíósenda og aðgengi að fjarskiptaþjónustu sem byggist á radíóþjónustu þannig að almenningur geti metið stöðu sína gagnvart þessari þjónustu og valið sér búsetu með tilliti til þess. Hér þarf þó einnig að hafa í huga öryggissjónarmið varðandi birtingu slíkra upplýsinga.

Aðgengi og réttindi allra.
    Greina þarf hvernig fötluðum, öryrkjum, öldruðum og innflytjendum verður tryggður fullur og óheftur aðgangur að fjarskiptum.

2.4.1. Rafræn samskipti.
    Um leið og rafræn samskipti verða mikilvægari fyrir stjórnsýslu, viðskipti og einstaklinga verða þau freistandi fyrir hryðjuverkahópa og hvers kyns glæpastarfsemi. Áframhaldandi vöxtur rafrænna samskipta á allt undir því að almenningur beri traust til þeirra. Því er afar mikilvægt að vinna að öryggi rafrænna samskipta og grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að stuðla að þeim.
    Rafræn samskipti fara að miklu leyti yfir landamæri en öryggi og vernd þeirra er viðfangsefni stjórnvalda um allan heim. Afar mikilvægt er að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði. Íslensk stjórnvöld hafa í þessu skyni tilnefnt fulltrúa PFS í stjórn Net- og upplýsingaöryggisstofnunar Evrópu (ENISA). Þá hafa íslensk stjórnvöld falið PFS að koma á laggirnar svokölluðum þjóðar-CSIRT-teymi (Computer Security and Incident Response Team – þ.e. „teymi er sinnir tölvuöryggi og veitir viðbúnað gegn öryggisatvikum“) sem ætlað er að eiga samvinnu við hliðstæð teymi í nágrannaríkjunum.
    Sjálfgefið hlutverk hópsins yrði að stuðla að vernd netsins með margs konar viðbúnaði og vera eins konar slökkvilið sem „slekkur elda innan netheima“.
    Á heimsvísu mynda CSIRT hópar samstarfs- og tengslanet sín á milli og er þjóðar- CSIRT-hópurinn svokallaði landstengiliður (PoC – Point of Contact). Hann er sá aðili sem sér um öll samskipti fyrir hönd síns lands við slíka hópa í öðrum löndum um þau atvik sem geta komið upp og stofna öryggi fjarskiptaneta hvarvetna í hættu – svokölluð öryggisatvik sem fyrr voru nefnd. Gagnkvæmt traust og góð samskipti í samfélagi CSIRT-hópa skiptir því verulegu máli, hliðstætt samböndum og samstarfi milli aðila innan t.d. InterPol.

Horfur.
    Milli núverandi þjóðar-CSIRT-hópa Norðurlandaþjóðanna, Svíþjóðar, Noregs og Finnlands, ríkir samvinna og gagnkvæmt traust. Frekari samvinna er í bígerð meðal allra Norðurlandanna um uppbyggingu á öruggu upplýsingamiðlunarneti til notkunar sín á milli þegar vá vofir yfir. Póst- og fjarskiptastofnun hefur með öðrum Norðurlöndum tekið þátt í gerð tillagna um hvernig byggja megi upp slíkt upplýsingamiðlunar- og fjarskiptanet. Æskilegt er að Ísland taki þátt í samstarfinu um rekstur þess.

Net- og upplýsingaöryggi almennings.
    PFS vinnur að net- og upplýsingaöryggi almennings, m.a. með því að halda úti upplýsinga- og leiðbeiningavefnum netöryggi.is. Stofnunin er einnig í samstarfi við SAFT-verkefnið hjá Heimili og skóla. Fulltrúi PFS situr í stýrihóp verkefnisins og saman standa þessir aðilar að vefsíðunni netsvar.is ásamt Barnaheillum. Sá vefur inniheldur gagnlegar upplýsingar um örugga netnotkun og tekur við fyrirspurnum netnotenda. Nauðsynlegt er að efla þessar vefsíður og kynna markvisst fyrir almenningi.

Gæði fjarskiptaþjónustu.
    Nokkur fyrirtæki bjóða heimilum og fyrirtækjum netþjónustu. Fyrirtækin nýta ýmsar tæknilausnir við að veita þjónustuna eftir aðstæðum, bæði þráðbundnar og þráðlausar. Mikilvægt er að þjónusta í boði sé vel skilgreind svo að neytendum sé ljóst hver hún er, þ.e. gagnaflutningshraði, uppitími og gæði. Efla þarf neytendavernd í tengslum við framboð netþjónustu og skýra þarf réttindi neytenda, t.d. um hraða og magn niðurhals og hvort fjarskiptafélög geti sett skorður við aðgangi að tiltekinni þjónustu.

Rafræn auðkenning.
    Auðkenning aðila sem eiga samskipti á internetinu er mikilvægur þáttur fyrir öll viðskipti, auk mikilvægis gagnvart öryggi barna og fullorðinna á netinu. Rafræn skilríki frá traustum þekktum opinberum aðila eru ein leið til að tryggja slíka auðkenningu. Vert er að skoða hvaða þjónustu er unnt að bjóða á öruggan máta fyrir notendur og hvaða kröfur eigi að gera til þeirrar þjónustu eins og t.d. samskiptaforrita sem börn nota. SAFT-verkefnið er mikilvægur vettvangur til samstarfs um þessi mál. Þar hefur margt gott áunnist í samvinnu margra aðila en þörf er á að veita þessum málaflokki frekari athygli, m.a. með tilliti til fyrirbyggjandi úrræða.Viðauki.

STEFNUMÓTUN ANNARRA RÍKJAMarkmið og verkefni annarra ríkja varðandi uppbyggingu á háhraðaneti.
    Mörg ríki hafa lagt í mikla vinnu í að meta þörf fyrir bandbreidd í framtíðinni auk þess sem ESB hefur sett fram tillögur varðandi þetta efni. Mikilvægt er að uppbyggingin hér á landi verði ekki lakari en hjá þeim ríkjum sem Ísland ber sig saman við. Þannig má nýta tækifæri sem fylgja nýjustu tækni og möguleika á forskoti við nýtingu hennar.
    Helsta spálíkan fyrir framþróun á upplýsingatækni er byggt á sk. Moore-kenningu. Samkvæmt henni tvöfaldast reiknigeta örgjörva á 18 mánaða fresti. Þessi aukna afkastageta leiðir af sér meiri möguleika og þarfir fyrir aukinn hraða neta.
              Þörf fyrir breiðband veltur eðli málsins samkvæmt mjög á hvers konar stafræna þjónustu heimili munu nýta sér í framtíðinni. T.d. gera háskerpumyndir, svo sem háskerpusjónvarp, miklar kröfur um bandbreidd. Sama gildir ef þörf er fyrir að nota samtímis margs konar stafræna þjónustu, svo sem að hver fjölskyldumeðlimur horfði á sína sjónvarpsrás, heimilið væri vaktað með fjareftirlitskerfi, fjarfundabúnaður væri mikið notaður eða heimilisfólk nýtti sér fjarkennslu. Niðurstaða nefndar danskra stjórnvalda um uppbyggingu háhraðanets er að árið 2013 duga tengingar með flutningsgetu fyrir 10 Mb/s niður og 5 Mb/s upp fyrir neytendur sem ekki hafa þörf fyrir háskerpusjónvarp yfir breiðband. Árið 2013 þurfa notendur að jafnaði tengingar með lágmarkshraða 50 Mb/s niður og 10 Mb/s upp.
              Til lengri tíma, þ.e. 2020, gerði nefndin ráð fyrir að þörf fyrir flutningsgetu ykist til mikilla muna. Hún yrði nálægt 1 Gb/s fyrir kröfuharðari neytendur.
              Sænsk stjórnvöld birtu einnig á síðasta ári stefnu sína um aðgengi heimila og fyrirtækja að háhraðaneti sem þau leggja áherslu á að standist allan alþjóðlegan samanburð. Í henni er miðað við að allt að 90% heimila og fyrirtækja ættu að hafa aðgang að 100 Mb/s lágmarkshraða árið 2020 og að um 40% íbúa hafi aðgang að slíkum hraða árið 2015.
              Þá hefur framkvæmdastjórn ESB unnið að stefnumörkun um stafrænt þjóðfélag. Þar eru hugmyndir uppi um markmið um að allir Evrópubúar skuli eiga kost á aðgangi að háhraðaneti 2013 og að minnsta kosti 50% þeirra skuli eiga aðgang að háhraðaneti sem flytur a.m.k. 30 Mb.
              Finnsk stjórnvöld hafa einnig mótað stefnu um uppbyggingu háhraðaneta. Markmið þeirra var þegar hún var gefin út að sérhvert heimili og fyrirtæki ætti kost á a.m.k. 1 Mb/s niður í árslok 2010 og að sá hraði yrði skilgreindur sem alþjónusta sem borgararnir áttu rétt á með stuðning alþjónustusjóðs. Í lok ársins 2015 er markmiðið að ekki verði lengra í ljósleiðara en 2 km fyrir a.m.k. 99% af heimilum landsins. Það fer svo eftir þörfum viðkomandi hvernig tengingin síðustu tvo km verður, þ.e. kopar, ljósleiðari eða þráðlaus tenging. Vegna landfræðilegra aðstæðna er óhjákvæmilegt að um 1% eða 2.000 finnsk heimili verði utan þessara viðmiða. Gert er ráð fyrir að styðja þurfi við uppbyggingu háhraðatenginga til um það bil 120.000 heimila sem eiga ekki kost á þeim í dag. Gert er ráð fyrir að hluti kostnaðar við verkefnið verði fjármagnaður af tekjum vegna tíðniuppboða.
              Bandaríkjamenn hafa einnig samið áætlun um fjarskiptamál, þ.m.t. uppbyggingu háhraðanets og farnets í ríkjunum, sem þeir birtu í byrjun ársins 2010. Áætlunin er mjög metnaðarfull og inniheldur margvísleg áform er snúa að uppbyggingu stafræns samfélags. Í því er m.a. lagt til að stofna tvo sjóði, annan til þess að styðja við uppbyggingu á breiðbandi í ríkjunum og hinn til þess að styðja við uppbyggingu farnets. Þar eru einnig sett fram sex langtímamarkmið til næsta áratugar, m.a. að a.m.k. 100 milljónir heimila skuli eiga aðgang að gagnasambandi með a.m.k. 100 Mb/s hraða niður og 50Mb/s hraða upp og að sérhver Bandaríkjamaður eigi kost á aðgangi að skilvirku netsambandi og búi yfir þekkingu og möguleika til þess að nýta hann. Þá er markmið um a.m.k. 1 Gb/s samband inn í sérhvern byggðakjarna til þess að styðja við stofnanir, svo sem skóla og sjúkrahús.

     Þörf fyrir flutningshraða næsta áratug.
              Nefnd danskra stjórnvalda lét vinna fyrir sig mat á hvaða kröfur ýmiss konar stafræn þjónusta gerði til afkastagetu aðgangsneta, annars vegar árið 2013 og hins vegar árið 2020. Í því kemur fram að aðgengi almennings að myndefni í þrívídd sem og sjónvarpsefni er þurftafrekast á flutningsgetu.. Að öðru leyti eru tekin dæmi um grid-reikninga rannsóknastofnana, ýmis rannsóknarverkefni, samstarfsverkefni háskóla, miðlun þrívíðra hönnunargagna, fjarlækningar o.fl. sem þarf mjög afkastamikla flutningsgetu. Ekki kemur á óvart að notendur sem frekastir eru á flutningsgetu er að finna jafnt á meðal almennings, menntastofnana, rannsóknastofnana og heilbrigðisstofnana.

     Flutningsleiðir.
              Háhraðanefnd Dana gerir ráð fyrir að þörf fyrir flutningsgetu muni margfaldast til ársins 2020 og nái allt að 1Gb/s fyrir kröfuhæstu notendur.
              Fram hefur komið að þegar er hafin sala á farþjónustu með 50 Mb flutningshraða í Svíþjóð og Noregi. Gert er ráð fyrir að fljótlega verði farið að bjóða þjónustu með 100 Mb/s flutningshraða.

Stjórnarráðið.
    Forsætisráðuneytið hafði áður forustu um framkvæmd stefnunnar um upplýsingasamfélagið 2008–2012, „Netríkið Ísland“. Með samþykkt ríkisstjórnarinnar frá október 2011 var ákveðið að flytja málefni upplýsingasamfélagsins til innanríkisráðuneytisins frá 1. desember 2011. Stefnan hvílir á þremur meginstoðum, þjónustu, skilvirkni og framþróun, sem nánar er gerð grein fyrir hér á eftir.

Þjónusta.
    Ísland verði netríki – gæðaþjónusta með sjálfsafgreiðslu á einum stað.
          Sjálfsafgreiðsla á netinu – umsóknir, vottorð, tilkynningar, tímapantanir, gagnaskil.
          Netmiðstöð – öll þjónusta aðgengileg á einum stað á island.is.
          Upplýsingaþjónusta – aðgengi að persónubundnum og almennum gögnum í vörslu opinberra aðila.
          Netborgarinn – gæðaþjónusta miðuð við þarfir allra.

Skilvirkni.
    Netríkið verði skilvirkt, einfalt og öruggt – gögn ferðist milli stofnana en ekki fólk.
          Samræmt heildarskipulag – stöðlun, samræming, samvinna og öryggi.
          Einfaldari stjórnsýsla – lykilverkefni.
                    Rafræn skilríki, rafrænar greiðslur, rafræn innkaup.
                    Samræmt aðgengi að lykilskrám í vörslu opinberra aðila.
                    Minni skriffinnska, aukin sjálfvirkni.
                    Hindrunum rutt úr vegi, m.a. lagalegum.
                    Störf óháð staðsetningu.

Framþróun.
    Samkeppnishæfni netríkisins byggist á virku lýðræði, góðri menntun og öflugu atvinnulífi.
          Nýsköpun og rannsóknir – vera skrefinu á undan.
          Menntun – virk notkun upplýsingatækni við nám og kennslu.
          Samskipti og lýðræði – auknir möguleikar fólks til þátttöku í ákvarðanatökuferlum opinberra aðila, tilraunir með rafrænar kosningar á sveitarstjórnarstigi.
          Atvinnulíf – áhersla á útvistun og notkun upplýsingatækni til að bæta alþjóðlegt samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja.
    Vel skilgreind framkvæmdaáætlun hefur verið útbúin fyrir verkefni sem taka mið af framangreindum markmiðum. Umtalsvert fjármagn var veitt til að hrinda áætluninni í framkvæmd en í kjölfar efnahagssamdráttarins hefur það verið skorið niður umtalsvert og stefnt verkefninu í tvísýnu.
    Netmiðstöðin island.is gegnir lykilhlutverki við uppbyggingu rafrænnar stjórnsýslu. Miðað er við að hún verði miðstöð fyrir almenning sem geti nálgast þar hvers kyns opinberar upplýsingar og þjónustu, eyðublöð og fleira sem snýr að samskiptum ríkisins við almenning og atvinnulíf.

Snertifletir upplýsingasamfélagsins við fjarskiptaáætlun.
    Miðað er við að fjarskiptaáætlun lýsi stefnu stjórnvalda er varðar fjarskipti og póstmál og snertifleti þessara þátta við rafræn samskipti. Áætlun um upplýsingasamfélagið gerir ráð fyrir aðgengi borgaranna og fyrirtækja að rafrænum samskiptum og er hlutverk fjarskiptaáætlunar að stuðla að þeim aðgangi, einnig að hann uppfylli lágmarkskröfur um öryggi og flutningsgetu sem skilgreindar eru í fjarskiptaáætlun. Aðgengi að góðri opinberri þjónustu ýtir undir frekari notkun á upplýsingatækni, sem aftur á móti eykur eftirspurn eftir fjarskiptaþjónustu, en af því leiðir að hvati til fjárfestingar og uppbyggingar verður meiri.

Landsumgjörð fyrir samvirkni í rafrænni þjónustu.
    Aukin samvirkni upplýsingakerfa er einn lykilþátta í umbótum í þjónustu hins opinbera og hagræðingu með betri nýtingu upplýsinga og upplýsingakerfa. Með samvirkni er átt við getu upplýsinga- og fjarskiptatæknikerfa og viðskiptaferla sem þau styðja til að hafa samskipti með gögn og miðla upplýsingum og þekkingu. Evrópusambandið vinnur að samstilltu átaki Evrópuþjóða til að auka samspil kerfa og ferla hjá opinberum aðilum í því markmiði að efla opinbera þjónustu innan Evrópu og á milli Evrópulanda. Það starf fer að mestu fram undir aðgerðaáætlun Evrópusambandsins sem kallast ISA, áður IDABC 13 .
    Umgjörð Evrópusambandsins fyrir samvirkni 14 , sem gefin er út af IDABC, inniheldur tilmæli til Evrópuþjóða um uppbyggingu á landsumgjörð 15 . Tilgangurinn er m.a. að auka við og flétta saman mismunandi umgjarðir aðildarríkjanna fyrir samvirkni, byggja upp samvirkni milli atvinnugreina og yfir landamæri til að styðja afhendingu á evrópskri opinberri þjónustu á innri markaðinum.
    Aukin samvirkni er forsenda þess að rafræn opinber þjónusta þróist með vaxandi kröfum samfélagsins og uppfylli kröfur um samræmda evrópska þjónustuþætti. Stefnumið og umgjörð fyrir samvirkni er auk þess nauðsynleg til að hægt sé að uppfylla ýmis ákvæði í þjónustutilskipuninni 16 sem ætlað er að ryðja úr vegi hindrunum fyrir frjálsri þjónustustarfsemi á innri markaðinum.
    Landsumgjörð sem styður umgjörð ESB mun auka skilvirkni og gagnsæi í opinberri þjónustu, stuðla að betri samstillingu í verkefnum opinberra stofnana og í opinberri þjónustu, bæta forsendur fyrir ákvörðunum hins opinbera, spara og hagræða í nýtingu á upplýsinga- og fjarskiptatækni í opinberri þjónustu, stuðla að meiri alþjóðlegri samvinnu og styðja eflingu á viðskiptum á milli landa. Allir þessir þættir leiða til skilvirkari og hagkvæmari útfærslu á þjónustu hins opinbera með bættri nýtingu á upplýsingatækni.
    Með meiri samvirkni og bættu skipulagi í rekstri upplýsinga- og fjarskiptakerfa má spara töluverðan kostnað til lengri tíma. Jafnframt má spara umtalsverðan hluta kostnaðar vegna annarra þátta, eins og sérfræðiþjónustu og póstburðargjalda. Áætla má að kostnaður ríkisins sé á bilinu 7–10 milljarðar kr. árlega. og sem dæmi má nefna að á árinu 2008 var kostnaður ríkisins tengdur upplýsingatækni um 5,9 milljarðar kr., annar sérfræðikostnaður var um 2,4 milljarðar kr. og póstburðarkostnaður var nálægt 335 millj. kr. Það eru því tækifæri til þess að lækka kostnað um verulegar fjárhæðir.
    Aukin skilvirkni og betri þjónusta hins opinbera við fyrirtæki og borgara mun auk þess skapa tækifæri til að minnka kostnað í samfélaginu, m.a. með betra aðgengi að þjónustu og að upplýsingum hins opinbera.
    Fjármálaráðuneytið hefur umsjón með uppbyggingu á samvirkni, stýrir framkvæmd þess og vinnur að uppbyggingu á landsumgjörð í samvinnu við önnur ráðuneyti, í samstarfi við sveitarfélög og samtök í atvinnulífinu.

Staðlar í samskiptum.
    Hvernig geta staðlar almennt stuðlað að betri nýtingu og árangri í rafrænni stjórnsýslu og rafrænum viðskiptum á landsvísu og um leið ef til vill styrkt fjarskiptainnviði landsins?
    Að staðla þýðir að vinna kerfisbundið að því að skilgreina skilmála, afurðir og aðferðir, setja reglur og tryggja tiltekna virkni, þ.e. að hlutir passi saman og þeir skili því sem af þeim er krafist. Staðlar eru grundvöllur fyrir samskiptum og þeirri grunngerð sem samskipti byggjast á, hvort sem um er að ræða skipulag og útfærslu, mannvirki, búnað eða farartæki. Staðlar gegna einnig lykilhlutverki í viðskiptum og stjórnun á öllum sviðum samfélagsins, þar á meðal vegna samskipta í breiðum skilningi.
    Staðall er eiginlega tilmæli um að gera eitthvað á tiltekinn hátt, t.d. við framleiðslu einhverrar afurðar. Einnig má líta á staðal sem úrlausn á vandamáli sem kemur fyrir aftur og aftur.
    Samning staðla byggist á því að hagsmunaaðilar komi sér saman um hvað sé hæfilegt, eðlilegt, góðar starfsvenjur og í takt við tímann og þau lög sem gilda á hverjum tíma. Ákveðnar reglur eru viðhafðar um samningu og samþykkt staðla, sem og þátttöku við gerð þeirra.
    Tilgangur staðla er að auka hagkvæmni, einfalda útfærslu og framkvæmdir og draga úr kostnaði í samfélögum. Staðlar gegna mikilvægu hlutverki í viðskiptum, bæði innan einstakra landa og á alþjóðavettvangi. Samning þeirra byggist á því að hagsmunaaðilar komi sér saman um hvað sé hæfilegt, eðlilegt, góðar starfsvenjur og í takt við tímann. Ákveðnar reglur eru viðhafðar um samningu og samþykkt staðla, sem og þátttöku við gerð þeirra.
    Staðlar stuðla að betri nýtingu og árangri í rafrænum viðskiptum, bæði innan lands og á milli landa. Þeir eru grundvöllur innviða í fjarskiptum landsins og samtenginga við önnur lönd.
    Evrópusambandið leggur áherslu á mikilvægi staðla til að auka samkeppnishæfni Evrópu samtímis því að samstilla væntingar atvinnulífsins við þarfir samfélagsins. Tilvísanir í staðla eru vaxandi þáttur í lagalegri umgjörð í Evrópu. Helsta markmið Evrópsku staðlasamtakanna fyrir upplýsingatækni í vinnuáætlun fyrir 2010–2013 17 er að stuðla að notkun staðla til að auka samvirkni á milli þjónustu og viðfanga. Þar eru sett fram 14 áherslusvið sem flest varða samskipti á einhvern hátt, m.a. aðgengi að þjónustu og upplýsingasamfélagi, öryggi og umhverfisþættir í samgöngum og farartækjum, persónuvernd í fjarskiptum, samvirkni í rafrænum undirskriftum, efling internetsins með samtengingu upplýsinga og viðfanga (kallað Interneti of Things) og rafræn samskipti til eflingar rafrænum viðskiptum.

Áherslur mennta- og menningarmálaráðuneytis í samskiptamálum.
    Aðgengileg og greið samskipti mennta- og rannsóknarstofnana eru nauðsynlegur þáttur í framþróun íslensks þjóðfélags. Aðgengi allra að háhraðanettengingum gerir fólki kleift að stunda rannsóknir og nám óháð staðsetningu. Menntun er einn af burðarásum sóknaráætlunar 20/20 ásamt jákvæðri byggðaþróun. Huga þarf sérstaklega að því að færa dagskrá útvarps og sjónvarps á stafrænt form.

Rannsóknar- og háskólanet Íslands hf., RH-net.
    Menntun, rannsóknir og vísindi eru mikilvægur þáttur í framþróun íslensks þjóðfélags. Halda verður úti viðunandi háhraðatengingum íslenskra rannsókna- og háskólastofnana við erlend rannsóknanet svo að þátttaka í alþjóðlegu rannsóknastarfi verði möguleg.
    RH-net hf. var stofnað 2001 til að koma á hraðvirku neti háskóla og rannsóknastofnana og tengja þær við erlend net. Rannsóknir gera kröfur um mjög háan hraða og voru tengingar út úr landinu lengi ófullnægjandi. Árið 2009 náði NORDUnet samningum við Farice um 10 Gb/s samband út úr landinu og setti upp tengipunkt með samsvarandi hraða. RH-netið er nú tengt við NORDUnet í Danmörku um Danice, í London um Farice, við Kanada í Halifax og við bandarísku rannsóknarnetin í New York um Greenland Connect og CANARIE. Verkefnið er kostað af aðilum á Norðurlöndum og í Kanada og Bandaríkjunum. Krafa rannsóknarsamfélagsins er mikil og vaxandi og er þess ekki lengi að bíða að þörf verði fyrir enn meiri bandbreidd. Þá er það vandamál að mennta- og rannsóknastofnanir á landsbyggðinni eiga fæstar kost á 10 Gb sambandi og geta því ekki nýtt sér RH-netið eins og best verður á kosið.

Framhaldsskólanetið, FS-net.
    FS-netið er hraðvirkt gagnaflutningsnet sem tengir saman alla framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar á Íslandi. Innbyggt í það er stuðningur við fjölvarp (e. multicast) og forgangsröðun umferðar (QoS) til þess að styðja flutning á viðamiklu efni, svo sem margmiðlunarefni. Allir framhaldsskólar og símenntunarmiðstöðvar tengjast í dag við netið með a.m.k. 100 Mbp/s tengihraða. FS-netið ráðgerir að bjóða á árinu 2010 aðilum netsins upp á 1 GB tengingar án verulegs kostnaðarauka. Vert er að skoða möguleika og hagræði við að stækka netið, þ.e. með því að fjölga aðilum sem geta tengst eða sameina öðrum sambærilegum netum, svo sem RH-neti.

Dreifikerfi og menningararfur Ríkisútvarpsins.
    Samkvæmt Evrópureglum þarf að slökkva á hliðrænu dreifikerfi RÚV fyrir árslok 2012.
Nefnd skipuð starfsmönnum fjögurra ráðuneyta vann að stefnumótun í stafrænni sjónvarpsdreifingu. Nefndin gerði tillögur um framtíðarsýn fyrir stafræna hljóð- og myndmiðlun hér á landi, sérstaklega stafrænnar dreifingar á dagskrá og efni Ríkisútvarpsins.
    Í starfi nefndarinnar var horft til þess að tryggja að stafræn sjónvarpsdagskrá RÚV nái til allra landsmanna í viðunandi gæðum. Nefndin hefur skilað áfangaskýrslu.

Menntun óháð staðsetningu.
    Kröfur atvinnulífs um menntun starfsmanna fara vaxandi, ekki síst með vaxandi atvinnuleysi. Vinna þarf af auknum þunga að því að á Íslandi verði starfrækt samstarfsnet háskóla, framhaldsskóla, fræðslu- og símenntunarstöðva, þekkingarmiðstöðva, rannsókna- og fræðasetra og annarra menntunaraðila. Markmiðið með slíku neti er að bjóða uppá fjölbreytta kennsluhætti allra námsleiða og allra áfanga óháð búsetu. Horft er til þess að námsefni verði rafrænt og því aðgengilegt öllum á netinu eða í námsverum. Stefnt er að því að nemendur hafi aðgang að rafrænum kennslubókum. Með þessu ættu fleiri að eiga kost á menntun sem leiðir til minna brottfalls úr námi og jákvæðari byggðaþróun.
    Menntamálaráðuneytið hefur sett eftirfarandi markmið er varðar aðgengi að fjarnámi.
          Tryggja þarf jöfnuð til náms óháð búsetu, fötlun eða öðrum persónulegum ástæðum.
          Gert er ráð fyrir að allt nám verði sveigjanlegra og nemandinn sé í brennidepli. Hann geti valið um að staðnám, dreifnám eða netnám.
          Námið er skipulagt með þeim hætti að stór hluti færi fram með hjálp upplýsingatækninnar þar sem notað er námsumsjónarkerfi og nemendur geta nálgast efnið þegar þeim hentar.Fskj.

Póst- og fjarskiptastofnun:

TÖLFRÆÐI(Töflurnar í viðauka sýna stöðu Íslands í samanburði við aðrar þjóðir).Farsími og fastlínusími.
Tafla 1. Framboð á þjónustu og tækni 2010.

Lönd/tækni Ísland Danmörk Svíþjóð Finnland Noregur
GSM 900/1800
UMTS
                                   Heimild: Póst- og fjarskiptastofnun.

Tafla 2. Verð á fjarskiptaþjónustu.
    Taflan sýnir stöðu Íslands þegar borið er saman verð fyrir farsíma og fastlínusíma.

Verðsamanburður Sæti innan OECD ár hvert
Ár/Þjónusta 2009 2008 2007 2006 2005
Heimilissími 1 1 1 1 1
Fyrirtækjasími 1 1 1 1 1
GSM – eftirágreitt 2 1 1 2 2
GSM – fyrirframgreitt 1 2 2 2 1
Heimild: Teligen.
Skýring: Aðildarlönd OECD eru 30 þjóðir. Talan 1 merkir að Ísland sé í hópi landa sem er með ódýrustu þjónustuna af mældum löndum OECD varðandi fjarskipti. Unnið upp úr verðskrám fjarskiptafyrirtækja í nóvember ár hvert.

Háhraðatengingar.
    Í úttekt 18 sem unnin var af OECD má skoða samanburð á háhraðanettengingum á Íslandi miðað við önnur lönd innan OECD (30 lönd). Úttektin var síðast uppfærð í júní 2011. Byrjað er á því að bera saman framboð og notkun eftir tækni, því næst er samanburður á hlutfalli heimila með háhraðanettengingu. Þá er aðgengi og verð borið saman við önnur lönd.
    Að lokum er gerður samanburður á hraða háhraðanettenginga til heimila og fyrirtækja á Íslandi miðað við önnur lönd innan OECD.

Tafla 3. Framboð og notkun eftir tækni (e. penetration).
    Taflan sýnir fjölda háhraðanettenginga á Íslandi á hverja 100 íbúa eftir tækni í samanburði við Norðurlöndin, lönd og meðaltal innan OECD í desember 2010.

Tækni/Lönd Ísland Danmörk Noregur Svíþjóð Finnland OECD-meðaltal
DSL 30,0 22,3 19,3 17,0 20,7 14,3
Kapal módem 0,0 10,1 9,8 6,4 4,5 7,3
Ljósleiðari/LAN 3,6 4,7 5,4 8,4 0,4 3,1
Önnur hárhraðaþjón. 0,0 0,7 0,1 0,1 3,0 0,2
Samtals (%) 33,7 37,7 34,6 31,8 28,6 24,9
Heimild: OECD. Sjá: www.oecd.org/dataoecd/21/35/39574709.xls.

Tafla 4. Hlutfall heimila með háhraðatengingu í árslok 2009 (e. usage).
    Taflan sýnir í hvaða sæti Ísland er hvað varðar hlutfall heimila með háhraðanettengingu.

Hlutfall heimila Sæti innan OECD Sæti innan Norðurlanda
Ár 2009 2009
Ísland 1 1
Heimild: OECD.
Skýring: Lægra sætisnúmer þýðir hærra hlutfall heimila með háhraðatengingu.

Tafla 5. Verð fyrir háhraðatengingar (e. prices).
    Taflan sýnir niðurstöður úr samanburði OECD á meðaltalsverði á mánuði fyrir háhraðanettengingu í löndum OECD á auglýst Mb/s. Verð miðast við október 2010 og er leiðrétt fyrir kaupmætti.

Meðalverð fyrir háhraðatengingar Sæti innan OECD Sæti innan Norðurlanda
Ár sept. 2010 sept. 2010
Ísland 3 4
Heimild: OECD.
Skýring: Lægra sætisnúmer þýðir hærri kostnaður.

Tafla 6. Hraði fyrir niðurhal (e. speed).
    Í töflu 6 má sjá niðurstöður úr samanburði OECD á meðaltalshraða fyrir niðurhal innan OECD. Meðaltalsniðurhalshraði eftir löndum í september 2010.

Þjónusta og hraði Sæti innan OECD Sæti innan Norðurlanda
Ár sept. 2010 sept. 2010
Ísland 3 4
Heimild: OECD.
Skýring: Lægra sætisnúmer þýðir meiri hraði Mb/s.

Neðanmálsgrein: 1
    1     Europe´s Digital Competitiveness Report, ICT Country Profile (skýrsla gefin út í maí 2010). Samanburður EU27 + Noregur og Ísland.
Neðanmálsgrein: 2
    2     Þetta hlutfall segir til um hlutfall þeirra lögheimila í dreifbýli sem eingöngu eiga kost á því að tengjast einu aðgangsneti, t.d. 3G farneti. Verið getur að hluti þessara heimila geti engu að síður valið sér mismunandi þjónustuveitanda þó að aðgangurinn sé ætíð veittur um sama kerfið.
Neðanmálsgrein: 3
    3      www.forsaetisraduneyti.is/utgefid-efni/Audlindaskyrsla/nr/27.
Neðanmálsgrein: 4
    4     OECD Communications Report 2009.
Neðanmálsgrein: 5
    5     Aðildarríkin eru Tékkland, Grikkland, Malta, Kýpur, Lúxemborg, Lettland, Litháen, Ungverjaland, Pólland, Rúmenía og Slóvakía.
Neðanmálsgrein: 6
    6     Sjá síðu ITU um umhverfisvernd og fjarskipti sem er aðgengileg á slóðinni: www.itu.int/themes/ climate/.
Neðanmálsgrein: 7
    7     Skýrslan er aðgengileg á slóðinni: www.itu.int/themes/climate/docs/report-itu-climate.pdf.
Neðanmálsgrein: 8
    8     Sama heimild, bls. 5.
Neðanmálsgrein: 9
    9         Rannsóknir Japansdeildar ITU má finna í tímaritinu Green ICT, útgefið 2008 (VANTAR NÁKVÆMARI TILVÍSUN).
Neðanmálsgrein: 10
    10     Upplýsingar um stefnuna má nálgast á heimasíðu dönsku Póst- og fjarskiptastofnunarinnar á slóðinni: www.itst.dk/regeringens-it-og-telepolitik/gron-it.
Neðanmálsgrein: 11
    11     Upplýsingar um fundinn má nálgast á slóðinni: www.itst.dk/regeringens-it-og-telepolitik/ gron-it/oecd-workshop-om-gron-it og á heimasíðu OECD á slóðinni: www.oecd.org/document/ 15/0,3343,en_2649_34223_40472783_1_1_1_1,00.html.
Neðanmálsgrein: 12
    12     Sjá umfjöllun í ársáætlun sænsku Póst- og fjarskiptastofnunarinnar sem er aðgengileg á slóðinni: www.pts.se/upload/Rapporter/Om-PTS/strategisk-agenda-2009.pdf.
Neðanmálsgrein: 13
    13     Interoperable Delivery of European eGovernment Services to public Administrations, Businesses and Citizens. 1. janúar 2010 tók ný áætlun við undir heitinu Interoperability Solutions for European Administrations – ISA. Sjá nánar á vefsvæði ISA: ec.europa.eu/isa/.
Neðanmálsgrein: 14
    14     European Interoperability Framework – EIF.
Neðanmálsgrein: 15
    15     National Interoperability Framework – NIF.
Neðanmálsgrein: 16
    16     Tilskipun 2006/123/ESB um þjónustuviðskipti frá 12. desember 2006.
Neðanmálsgrein: 17
    17     2010–2013 ICT Standardisation Work Programme. European Commission; Enterprise and Industry- Directorate General, 18. mars 2010.
Neðanmálsgrein: 18
    18      www.oecd.org/document/54/0,3343,en_2649_34225_38690102_1_1_1_1,00.html.