Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 358. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 434  —  358. mál.
Tillaga til þingsályktunarum endurskoðun laga og reglugerða um kaup erlendra aðila á jörðum á Íslandi.

Flm.: Ólöf Nordal, Sigurður Ingi Jóhannsson, Pétur H. Blöndal, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Einar K. Guðfinnsson, Kristján Þór Júlíusson, Illugi Gunnarsson, Ásbjörn Óttarsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Bjarni Benediktsson, Jón Gunnarsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Vigdís Hauksdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Eygló Harðardóttir, Höskuldur Þórhallsson.


    Alþingi ályktar að skipuð verði nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi til að endurskoða þau lög og reglugerðir sem gilda um kaup erlendra aðila á jörðum hér á landi, hvort sem um er að ræða lögbýli eða eyðijarðir. Til hliðsjónar við þessa endurskoðun verði m.a. litið til regluverks í löndum á EES-svæðinu, svo sem í Danmörku. Með endurskoðun þessari verði leitast við að skýra það regluverk sem um þetta efni gildir og stuðla að hlutlægni, jafnræði og samræmi í löggjöf.

Greinargerð.


    Álitaefni sem lúta að kaupum erlendra aðila á jörðum á Íslandi, hvort sem um er að ræða bújarðir eða eyðijarðir, eru ekki ný af nálinni. Helstu álitamálin hafa snúið að því að hvaða marki sé rétt að erlendir aðilar hafi óskoraðan rétt til slíkra kaupa eða hvort almennar takmarkanir gildi, svo sem skilyrði um heimilisfesti, stærð jarða, auðlindir þeirra og fleira. Þá hefur einnig verið litið til þess að jafnvægi ríki milli réttinda erlendra aðila til fjárfestingar hér á landi og heimildar Íslendinga til fjárfestingar erlendis. Nú er það svo að verulegur aðstöðumunur er á milli þeirra aðila sem búa á Evrópska efnahagssvæðinu og þeirra sem fyrir utan standa þegar kemur að möguleikum á að eignast jarðir hér á landi. Í raun er í lögum bann við því að aðilar utan EES-svæðisins geti keypt jarðir hér þótt hægt sé að veita undanþágu frá því banni. Slík undanþága lýtur mati ráðherra í hvert sinn og má færa rök fyrir því að heppilegra sé að setja framkvæmdarvaldinu nánari viðmið svo að pólitísk sjónarmið ráði ekki um of í slíku mati.
    Erlendis, svo sem í Danmörku, snúa takmarkanir á kaupum jarða jafnt að þeim sem eru í Evrópusambandinu og utan þess. Við skoðun á þessu álitaefni þarf að gæta að skuldbindingum okkar á grundvelli EES-samningsins og ekki síst í því ljósi er vakin athygli á dönskum reglum á þessu sviði. Þar gildir sú meginregla að einstaklingar sem ekki eru heimilisfastir þar í landi eða hafa ekki áður búið a.m.k. fimm ár í Danmörku þurfa leyfi dómsmálaráðuneytisins til að eignast fasteignarréttindi í landinu. Er þar um að ræða víðari takmörkun en tillaga þessi gerir ráð fyrir, þ.e. fasteignarréttindi í heild. Á grundvelli þessara laga hafa svo verið settar nánari reglur hvað varðar rétt ríkisborgara ESB-ríkjanna.
    Þegar litið er til danskra laga hvað varðar jarðir ( lov om landbrugsejendomme) er meginreglan sú að heimild til að öðlast réttindi yfir jörð er háð því skilyrði að eigandi jarðar taki upp fasta búsetu á jörðinni og gildir búsetuskyldan í tíu ár. Frá þessu eru þó vissar undantekningar. Sérstakar reglur eru um kaup félaga á landbúnaðarjörðum og eru þau leyfisskyld með nokkrum undantekningum.
    Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á íslenskum lögum hvað þetta efni varðar, ekki síst í kjölfar EES-samningsins. Má nefna að ný jarðalög, nr. 81/2004, fólu í sér verulegar breytingar frá eldri lögum, ekki síst á þann veg að dregið var úr takmörkunum á ráðstöfunarrétti landeigenda. Með lögunum má segja að felldar hafi verið brott allar helstu heimildir stjórnvalda til að koma að viðskiptum með fasteignir sem falla undir lögin. Árið 2001 var sú breyting gerð á lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966, að felldur var niður áskilnaður um að erlendir ríkisborgarar þyrftu að hafa átt hér lögheimili í fimm ár til að geta eignast hér fasteign.
    Að mati flutningsmanna standa rök til þess að endurskoða allt regluverk er snýr að kaupum erlendra aðila á íslensku landi með það að markmiði að löggjöf á þessu sviði sé skýr svo að komast megi hjá því að pólitísk sjónarmið verði ráðandi um það hvort erlendir aðilar kaupa hér jarðir eður ei.