Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 361. máls.

Þingskjal 437  —  361. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna,
með síðari breytingum (gjaldtökuheimild).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
     a.      C-liður 2. mgr. fellur brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Gjald fyrir vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabók er 850 kr. og rennur það óskipt til Þjóðskrár Íslands.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Efni frumvarpsins er breyting á 24. gr. laganna þar sem fjallað er um fjármögnun á starfsemi Þjóðskrár Íslands. Er frumvarpið unnið í innanríkisráðuneytinu á grundvelli tillagna frá Þjóðskrá Íslands.
    Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5796/2009 komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að fjármálaráðuneytið hafi ekki sýnt fram á að gjöld m.a. fyrir vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabók í gjaldskrá nr. 1174/2008, vegna þjónustu Fasteignaskrár Íslands, síðar Þjóðskrár Íslands, hafi verið ákvörðuð í samræmi við 1. mgr. og c-lið 2. mgr. 24. gr. laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, eins og þau ákvæði beri að túlka til samræmis við grundvallarreglur stjórnsýsluréttar um undirbúning, ákvörðun og töku þjónustugjalda. Þar sem verkefni Fasteignaskrár Íslands hafi færst til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, nú innanríkisráðuneytisins, með lögum nr. 98/2009 beini hann þeim tilmælum til innanríkisráðherra að tekið verði til athugunar hvort ástæða sé til að endurskoða fjárhæðir einstakra gjalda í gjaldskrá nr. 1174/2008 með hliðsjón af sjónarmiðum hans um að stjórnvaldi sé aðeins heimilt að taka gjald fyrir beinan kostnað eða kostnað sem er í nánum og efnislegum tengslum við þá þjónustu eða starfsemi sem sérstaklega er tilgreind í viðhlítandi gjaldtökuheimild.
    Lagt er til að ákvæði um gjald fyrir rafrænt veðbandayfirlit verði færð úr gjaldskrá nr. 1174/2008, um þjónustu vegna Fasteignaskrár Íslands, í lög nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna. Gjaldið var áður ákveðið í lögum um aukatekjur ríkissjóðs þar til að það var fellt úr þeim lögum í árslok 2008 og flutt sem gjaldskrárheimild í c-lið 24. gr. laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna.
    Í nefndaráliti efnahags- og skattanefndar Alþingis (Alþt. 2007–2008, A-deild, bls. 1938– 1940) kom fram að nefndin teldi eðlilegt að leitað yrði leiða sem tryggðu að Fasteignamat ríkisins, síðar Fasteignaskrá Íslands, gæti borið sig sjálft með tekjum af þjónustu við aðila sem helst notuðu upplýsingar úr skránni til að mynda í þágu atvinnurekstrar, til álagningar opinberra gjalda eða til að skrá hagsmuni sína. Nefndin lagði til að lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, yrði breytt þannig að tekjur af gjaldi sem væri innheimt á grundvelli 25. tölul. 14. gr. laganna, þ.e. fyrir vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabókum, rynnu til Fasteignamats ríkisins í formi þjónustugjalds, enda rekur stofnunin þinglýsingakerfið og miðlar upplýsingum úr því. Með vísan til framanritaðs um að greiðsla þjónustugjalds sé eingöngu til að standa straum af þeim kostnaði sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu sem gjaldtökuheimildin nær til þykir eðlilegast að mælt sé fyrir um gjald um rafræn veðbandayfirlit í lögum og Þjóðskrá Íslands áfram tryggð sú fjármögnun sem af gjaldinu hefur leitt til fjármögnunar þróunar og reksturs fasteignaskrár.
    Tölvurekstrarþjónusta vegna starfs- og upplýsingakerfa sýslumannsembætta er verkefni sem fluttist til Fasteignaskrár Íslands 1. janúar 2010, nú Þjóðskrár Íslands. Sýslumannsembættin greiða stofnuninni fast gjald fyrir grunnþjónustu sem felst m.a. í hýsingu, afritun, netsambandi, tölvupóstkerfi, vírusvörnum, tengingum við aðra ytri aðila o.fl. Þá hafa embættin jafnframt tök á að fá valkvæða þjónustu ef þeir kjósa það og greiða sérstaklega fyrir hana. Starfs- og upplýsingakerfi sem eru rekin á sýslumannsembættum eru óvenjumörg þar sem málaflokkar embættanna eru margir og fjölbreytilegir. Þróun flestra upplýsingakerfanna hefur lítið verið sinnt sökum skorts á fjármagni og eru nokkur tölvukerfi nú í notkun sem varla er hægt að gera nauðsynlegar breytingar á, t.d. vegna lagabreytinga og nýrra þarfa samfélagsins á breytilegum tímum.
    Töluverða vinnu og þróun þarf að leggja í kerfin til að þau geti sinnt hlutverki sínu almennilega. Hér á eftir er gróf áætlun fyrir næstu þrjú ár:
     1.      Nauðungarsölukerfi:
                  Kerfið er að stofni til frá árinu 1995 og skrifað á forritunarmáli sem nú er úrelt. Mikil þörf er á breytingum og möguleikum á úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga. Einnig sárvantar tengingar við önnur kerfi, svo sem þjóðskrá, fasteignaskrá, þinglýsingakerfi, uppboðsvef o.fl. Einfaldar breytingar mundu fljótt skila umtalsverðu hagræði fyrir sýslumenn og tryggja meiri sjálfvirkni við skráningu. Reiknað er með 2.500 klst. vinnu vegna þessa.
     2.      Aðfararkerfi:
                  Þar á það sama við og í nauðungarsölukerfinu. Reiknað er með 1.900 klst. vinnu vegna þessa.
     3.      Sifjakerfi:
                  Skrifað var nýtt kerfi 2009 en vanhöld voru á greiningu þarfa og hefur innleiðing því ekki gengið sem skyldi. Greina þarf þarfirnar betur og gera nauðsynlegar úrbætur. Reiknað er með a.m.k. 3.200 klst. vinnu vegna þessa.
     4.      Málaskrárkerfi:
                  Málaskrárkerfi býður upp á tækifæri til að staðla skráningu og meðferð ýmissa mála, svo sem dánarbúa, firmaskráa, gjaldþrotamála, notari-aðgerða, kærðra úrskurða, frávísana o.fl. Auk þess kallar það líka á tengingar við önnur kerfi. Vinnan er áætluð 1.400 klst.
     5.      Innleiðing, þjálfun, kennsla, þjónusta og eftirfylgni:
                  500 klst.
     6.      Önnur kerfi:
                  400 klst.
Alls eru þetta 9.900 tímar sem fyrirsjáanlegt er að yrðu að mestu aðkeypt vinna. Ef miðað er við 13.000 kr. sem meðalgjald á klst. er kostnaður áætlaður 128,7 millj. kr. fyrir næstu þrjú ár. Þróun og smíð starfs- og upplýsingakerfa í stærstu málaflokkum sýslumannsembætta er aldrei lokið. Stöðugar umbætur þurfa að fara fram, m.a. vegna tenginga milli hinna ýmsu kerfa stjórnvalda, nettenginga og flæðis upplýsinga og krafna um meiri sjálfvirkni, svo sem í villuprófunum, svo að tryggja megi öryggi og áreiðanleika skráningarupplýsinganna auk möguleika á úrvinnslu þeirra og miðlun.
    Gjald fyrir rafræn veðbandayfirlit, 630 kr., hefur staðið óbreytt frá 1. janúar 2009. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 13% frá þeim tíma. Lagt er til að gjaldið verði hækkað í 850 kr. og þannig fáist fjármagn sem varið verður í viðvarandi þróun og rekstur starfs- og upplýsingakerfa sýslumannsembætta. Um árabil hefur litlu sem engu fjármagni verið varið til að endurbæta þau kerfi sýslumanna ef þinglýsingakerfið er frátalið þar sem stöðug þróun og uppfærslur eiga sér stað. Með frumvarpi þessu er stuðlað að því að á hverju ári verði tiltækir fjármunir til þess verkefnis. Í frumvarpinu er lagt til að frá 1. janúar 2012 verði gjald fyrir vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabók lögleitt 850 kr. og það renni óskipt til Þjóðskrár Íslands. Komi það í stað sama gjalds samkvæmt gjaldskrá Þjóðskrár Íslands, 630 kr., sem runnið hefur til stofnunarinnar.
    Ef gjald fyrir vélræna fyrirspurn úr þinglýsingabók verður óbreytt, 630 kr., er áætlað að tekjur af gjaldinu árið 2012 nemi 104 millj. kr. Ef gjaldið yrði hækkað í 850 kr. er áætlað að tekjur af gjaldinu árið 2012 nemi 133 millj. kr. Er þá miðað við að verðhækkunin leiði til 5% samdráttar í sölu að magni. Verði gjaldið hækkað mun tekjuaukinn, 29 millj. kr., verða notaður til að vinna að endurbótum á framangreindum starfs- og upplýsingakerfum sýslumanna.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, með síðari breytingum (gjaldtökuheimild).

    Í frumvarpinu er lagt til að gjaldskrárákvæði laganna vegna vélrænna fyrirspurna úr þinglýsingarbók falli brott en þess í stað komi lagaákvæði um 850 kr. gjald sem renni óskipt til Þjóðskrár Íslands.
    Gjald fyrir vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabók, rafrænt veðbandayfirlit, er 630 kr. og hefur verið óbreytt frá 1. janúar 2009. Hér er því lögð til 35% hækkun á gjaldinu en á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 15%. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram verði gjaldið óbreytt sé áætlað að tekjur af því á árinu 2012 verði 104 m.kr. en verði gjaldið hækkað í 850 kr. megi ætla að tekjurnar aukist um 29 m.kr. og verði 133 m.kr. miðað við 5% samdrátt í sölu að magni. Fram kemur í athugasemdum að fyrirhugað sé að verja tekjuaukanum til að vinna að viðvarandi þróun og rekstur starfs- og upplýsingakerfa sýslumannsembætta sem Þjóðskrá Íslands sér um. Þar sem hér er um að ræða lögboðna gjaldtöku falla tekjur af gjaldinu í flokk ríkistekna og færast á tekjuhlið ríkissjóðs og afla þarf heimildar í fjárlögum til að ráðstafa tekjunum.
    Eins og áður segir er gert ráð fyrir því að tekjur af gjaldinu renni óskiptar til Þjóðskrár Íslands, svo sem verið hefur. Fjármálaráðuneytið telur slíka mörkun ríkistekna ekki heppilegt fyrirkomulag. Að mati ráðuneytisins ættu tekjur sem kveðið er á um í lögum og teljast til ríkistekna að renna í ríkissjóð á grundvelli sjónarmiða um tekjuöflun, hagkvæmni og skilvirkni og ákvarðanir um fjárheimildir einstakra verkefna almennt vera teknar á Alþingi við afgreiðslu fjárlaga, óháð þeim tekjum, á grundvelli mats á fjárþörf verkefna og forgangsröð þeirra hverju sinni.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að tekjur og útgjöld ríkissjóðs aukist um 29 m.kr. á ári. Ekki er gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum eða tekjum í fjárlagafrumvarpi 2012.