Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 363. máls.

Þingskjal 439  —  363. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 54/1962, um þjóðskrá og almannaskráningu,
með síðari breytingum (gjaldtökuheimild) .

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    17. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    18. gr. laganna hljóðar svo:
    Þjóðskrá Íslands lætur embættum, opinberum stofnunum, sveitarstjórnum og öðrum aðilum í té hvers konar upplýsingar um einstaklinga, sem skrár hennar og önnur gögn hafa að geyma, gegn gjaldi, enda þurfi þau upplýsinganna við vegna embættisrekstrar eða starfsemi sinnar.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætast fjórir nýir málsliðir svohljóðandi: Fyrir grunnupplýsingar úr þjóðskrá um nafn einstaklings, kennitölu hans, heimilis- og póstfang greiðast alls 20 kr. Með þessum gögnum fylgja, ef við á, annars vegar upplýsingar um að viðkomandi sé á bannskrá Þjóðskrár Íslands, vegna andmæla hans við að nafn hans sé notað í markaðssetningarskyni, og hins vegar að hann hafi tilgreint umboðsmann sem veitt geti móttöku pósti vegna búsetu hans erlendis. Fyrir viðbótarupplýsingar úr þjóðskrá, eins og um hjúskaparstöðu einstaklings, ríkisfang og fæðingarstað hans og kennitölu maka, ef við á, o.fl. greiðast alls 20 kr. Heimilt er að veita þeim lögaðilum sem gert hafa samning við Þjóðskrá Íslands um miðlun tiltekinna upplýsinga úr skrám hennar afslátt allt að tíu hundraðshlutum.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður er hljóðar svo: Fyrir þau vottorð greiðast 2.500 kr.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum innanríkisráðuneytisins á grundvelli upplýsinga frá Þjóðskrá Íslands. Með lagafrumvarpi þessu er markmiðið að styrkja stoðir fyrir gjaldtöku upplýsinga úr þjóðskrá og skapa fjárhagslegan grundvöll til að hefja endurgerð tölvukerfa Þjóðskrár Íslands er varða skrána.
    Í fyrsta lagi er lagt til að skýrt komi fram í lögum að embætti, opinberar stofnanir, sveitarstjórnir og aðrir aðilar, sem þurfa upplýsingar úr þjóðskrá embættisrekstrar eða starfsemi sinnar vegna, skuli greiða gjald fyrir upplýsingarnar. Það er í samræmi við þá framkvæmd sem ríkt hefur um áratugaskeið. Í öðru lagi er lagt til að fjárhæð gjalda fyrir helstu upplýsingar sem veittar eru úr þjóðskrá séu tilteknar í lögum. Þar er annars vegar um að ræða gjald fyrir almennar upplýsingar um einstaklinga þar sem fyrirspurn er beint í gagnagrunn þjóðskrár og hins vegar gjald fyrir útgáfu vottorðs. Gjöld þessi hafa um langt árabil runnið beint til skráarhaldara þjóðskrár, nú Þjóðskrár Íslands, og lagt er til að sú skipan mála haldist óbreytt.
    Jafnframt því að styrkja lagastoð fyrir gjaldtöku upplýsinga úr þjóðskrá er leitast við að auka tekjur af skráarhaldinu til að hefja endurgerð tölvukerfa Þjóðskrár Íslands er varða þjóðskrá sem að stofni til eru frá árdögum tölvualdar hér á landi. Þetta tölvukerfi er rekið í þremur mismunandi kerfum og mikil nauðsyn er á að fella þau saman í eitt kerfi og gera nauðsynlegar úrbætur samhliða þeirri breytingu. T.d. eru þeir verulegu ágallar á kerfunum að hvorki er mögulegt að skrá fullt nafn einstaklings í skrána, vegna þess hve nafnasvæði hennar er stutt, né skrá forsjármenn barna. Einnig þarf stöðugt að koma til móts við nýjar þarfir í þjóðfélaginu um tæknilegar útfærslur á afhendingu upplýsinga úr þjóðskrá jafnframt því að auka öryggisþátt hennar. Með því að marka tekjustofna skrárinnar með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu er vonast til að gerlegt verði að skapa fjárhagslegt svigrúm til að hefja undirbúning að endurgerð þessara tölvukerfa. Hækkun á gjaldi fyrir sölu upplýsinga úr þjóðskrá hefur mest áhrif á fjármálastofnanir og banka, en 36% af tekjum fyrir sölu upplýsinga í þjóðskrá koma frá þeim. Hin mikla notkun þeirra kemur til af því að viðskiptavinum þeirra stendur til boða sú þjónusta að fletta í þjóðskrá í gegnum heimabanka. Endursöluaðilar greiða 28% af tekjunum en þar að baki eru mörg hundruð notendur og margir hverjir eru með litla notkun. Aðrir notendur greiða um 35% af tekjunum og innheimtir Þjóðskrá Íslands beint af þeim. Þar er um að ræða fjölmörg stjórnvöld á sviði ríkisins, sveitarfélög og einkaaðila. Notendur þjóðskrár munu fá þann ávinning að þeir fá aðgang að réttari skráningarupplýsingum með beinum uppflettingum í skrána í stað afrits, skráningarupplýsingar og tengingar á milli þeirra verða bættar og tölvukerfi skrárinnar verður tæknilega fullkomnara.
    Í frumvarpinu er lagt til að frá og með 1. janúar 2012 greiðist 2.500 kr. gjald fyrir vottorð en algengasta gjald fyrir vottorð nú er 900 kr. Áætlað er að verðbreytingin leiði til 20 millj. kr. tekjuauka. Í frumvarpinu er einnig lagt til að fyrir grunnupplýsingar úr þjóðskrá um nafn einstaklings, kennitölu hans, heimilisfang, póstfang, bannmerkingu (hvort nafn viðkomandi sé á bannskrá Þjóðskrár Íslands, sbr. 28. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000) og nafn umboðsmanns (vegna póstsendinga) greiðist 20 kr. Fyrir viðbótarupplýsingar úr þjóðskrá, svo sem um hjúskaparstöðu manns, ríkisfang og fæðingarstað hans og kennitölu maka, ef við á, o.fl. greiðist 20 kr. Aðrar upplýsingar sem hér gætu komið til greina úr skránni eru t.d. kyn viðkomandi, hvort hann hafi skráð aðsetur með lögheimili og hvort hann fari með forsjá tiltekins barns eða barna.
    Hér er um að ræða nýja tilhögun á afhendingu upplýsinga úr þjóðskrá þar sem dregið verður úr afhendingu heildarafrits skrárinnar en þess í stað verður viðskiptavinum gert að fletta beint í skránni hjá Þjóðskrá Íslands. Með þeirri breytingu næst tvenns konar ávinningur. Annars vegar mun afritum skrárinnar í umferð fækka og hins vegar verður eftirlit með notkun upplýsinga úr þjóðskrá vegna persónuverndarsjónarmiða auðveldara. Í þessu sambandi má benda á að eldri heildarafrit af þjóðskrárgögnum hafa oft verið lengi í notkun og þá með úreltum upplýsingum. Auk þess má ætla að aukin sátt verði um gjaldtöku þegar mönnum er einungis gert að greiða fyrir raunnotkun upplýsinga. Áætlað er að hin nýja þjónusta geti leitt til 25 millj. kr. tekjuauka. Alls er áætlað að tekjuauki Þjóðskrár Íslands vegna þessara fyrirhuguðu breytinga geti því numið 45 millj. kr.
    Þá er í frumvarpinu lagt til að 17. gr. laganna falli niður þar sem ákvæðið á ekki lengur við. Í lagagreininni er tekið fram að iðgjöld til almannatrygginga og sóknargjöld skuli lögð á menn á sömu stöðum og tekjuskattur. Við setningu þessa ákvæðis var tekjuskattur lagður á menn eftir búsetu þeirra í ákveðnum skattumdæmum og því um staðbundin valdmörk að ræða, sbr. 89. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Árið 2009 var landið gert að einu skattumdæmi og varð því ákvæðið óþarft og greinin felld niður með lögum nr. 136/2009. Um sóknargjöld fer nú skv. 1. gr. laga um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, og iðgjöld almannatrygginga skv. 59. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 54/1962, um þjóðskrá og almannaskráningu, með síðari breytingum (gjaldtökuheimild).

    Frumvarp þetta miðar að því að styrkja stoðir undir gjaldtöku fyrir ýmsar upplýsingar úr þjóðskrá og auka tekjurnar. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að markmiðið sé að skapa fjárhagslegan grundvöll til að hefja endurgerð tölvukerfa Þjóðskrár Íslands er varða þjóðskrá.
    Í fyrsta lagi er, með breytingu á 18. gr., lagt til að skýrt komi fram í lögum að embætti, opinberar stofnanir, sveitarstjórnir og aðrir sem þurfa upplýsingar úr þjóðskrá, embættisrekstrar eða starfsemi sinnar vegna, skuli greiða gjald fyrir upplýsingarnar. Gildandi lög mæla fyrir um það að Þjóðskrá Íslands skuli láta slíkar upplýsingar í té ókeypis, nema um sé að ræða meiri háttar verk en þá getur stofnunin krafist þess að hlutaðeigandi endurgreiði henni kostnað við það. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að breytingin sem hér er lögð til sé í samræmi við þá framkvæmd sem ríkt hefur um áratuga skeið. Er því ekki áætlaður tekjuauki af þessari breytingu.
    Í öðru lagi er, með breytingu á 19. gr., lagt til að fjárhæðir gjalda fyrir helstu upplýsingar sem veittar eru úr þjóðskrá verði tilteknar í lögum í stað gjaldskrár og að lagagrundvöllur vottorðsgjalda verði styrktur. Lagt er til að gjald fyrir grunnupplýsingar úr þjóðskrá verði 20 kr., gjald fyrir viðbótarupplýsingar verði 20 kr. og gjald fyrir útgáfu ýmissa vottorða, svo sem fæðingarvottorð, hjúskaparvottorð, búsetuvottorð og dánarvottorð verði 2.500 kr. Um er að ræða 233% hækkun á gjaldi fyrir grunnupplýsingar úr þjóðskrá, 150% hækkun á gjaldi fyrir viðbótarupplýsingar og allt að 178% hækkun á vottorðsgjöldum. Framangreind gjöld hafa verið óbreytt frá 1. janúar 2009 og á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 15%.
    Áætlað er að þessar breytingar muni skila 53 m.kr. auknum tekjum á ári. Þar sem um er að ræða lögboðna gjaldtöku falla tekjurnar í flokk ríkistekna og færast á tekjuhlið ríkissjóðs og afla þarf heimildar í fjárlögum til að ráðstafa tekjunum. Gert er ráð fyrir því að tekjur af gjöldunum renni óskiptar til Þjóðskrár Íslands, svo sem verið hefur. Fjármálaráðuneytið telur slíka mörkun ríkistekna ekki heppilegt fyrirkomulag. Að mati ráðuneytisins ættu tekjur sem kveðið er á um í lögum og teljast til ríkistekna að renna í ríkissjóð á grundvelli sjónarmiða um tekjuöflun, hagkvæmni og skilvirkni og ákvarðanir um fjárheimildir einstakra verkefna almennt vera teknar á Alþingi við afgreiðslu fjárlaga, óháð þeim tekjum, á grundvelli mats á fjárþörf verkefna og forgangsröð þeirra hverju sinni.
    Vakin er athygli á því að um 30% þessara tekna koma frá öðrum ríkisaðilum, s.s. sýslumönnum, toll- og skattyfirvöldum o.fl. og gera má ráð fyrir að útgjöld þeirra aukist samsvarandi, eða um 16 m.kr.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum má því gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist um 69 m.kr., annars vegar 53 m.kr. hjá Þjóðskrá Íslands vegna endurgerðar tölvukerfa og hins vegar 16 m.kr. sem skiptist milli fjölmargra annarra ríkisaðila. Á móti aukast tekjur ríkissjóðs um 53 m.kr. Ekki er gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum eða tekjum í fjárlagafrumvarpi 2012.