Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 114. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 488  —  114. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillöguum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum (EES-mál, innleiðing á tilskipun ESB um viðurkenningu á réttindum og prófskírteinum).


Frá atvinnuveganefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar kom Hreinn Hrafnkelsson frá iðnaðarráðuneytinu. Umsagnarbeiðnir voru sendar til nítján aðila en engar umsagnir bárust.
    Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á 4. gr. laga um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum. Samkvæmt gildandi 4. gr. laganna skal ráðherra staðfesta leyfi til að bera þau starfsheiti sem lögin taka til berist umsókn um slíkt frá ríkisborgara EES-svæðisins, aðildarríkja EFTA-samningsins eða Færeyja að því tilskildu að viðkomandi leggi fram vottorð frá ríki innan EES- eða EFTA- svæðisins eða Færeyjum sem uppfylli skilyrði annarrar tveggja tilskipana: 1) tilskipunar 85/ 384/EBE, með síðari breytingum, eða 2) tilskipunar 89/48/EBE, með síðari breytingum. Efnislega kveður frumvarpið á um sömu skyldu ráðherra og fram kemur í framangreindu lagaákvæði. Þó er gert ráð fyrir þeirri breytingu að í stað þess að áskilið sé að vottorð ríkis þurfi að uppfylla skilyrði tveggja framangreindra tilskipana þarf það aðeins að uppfylla skilyrði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2007 frá 26. október 2007.
    Með þingsályktun 16. mars 2009 samþykkti Alþingi að heimila ríkisstjórninni að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2007 fyrir Íslands hönd. Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB eru 15 fyrri tilskipanir um viðurkenningu faglegrar menntunar og hæfis sameinaðar í eina. Ekki eru gerðar grundvallarbreytingar á tilhögun viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi á Evrópska efnahagssvæðinu, réttur manna til viðurkenningar er hinn sami og áður, en gert er ráð fyrir að framkvæmdin verði einfaldari og skilvirkari. Tilskipunin var innleidd í íslenskan rétt með samþykkt laga nr. 26/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi. Á grundvelli þeirra laga hefur menntamálaráðherra sett reglugerð, nr. 879/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi. Er frumvarpinu ætlað að tryggja samræmi í innlendri löggjöf.
    Á fundi nefndarinnar kom fram sú ábending að viðaukar við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB hefðu breyst nokkuð frá því að tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn 26. október 2007. Í ljósi þessa gerir nefndin tillögu um breytingu a-lið 1. gr. frumvarpsins þannig að ljóst liggi fyrir að vottorð það sem umsækjanda um staðfestingu starfsleyfis ber að framvísa þurfi að uppfylla skilyrði tilskipunarinnar eins og hún var þegar hún var tekin upp í EES-samninginn sem og viðauka við hana eins og þeir eru á hverjum tíma.
    Þá gerir nefndin tillögu um að 9. gr. laganna verði breytt þannig að ljóst liggi fyrir hvaða Evrópugerð frumvarpinu er ætlað að innleiða.
    Í ljósi framangreindrar umfjöllunar leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:     1.      Fyrri málsliður a-liðar 1. gr. orðist svo: Ráðherra skal staðfesta leyfi til að bera starfsheiti sem lög þessi taka til samkvæmt umsókn ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins ef viðkomandi leggur fram vottorð frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem uppfyllir skilyrði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, sem og viðauka við hana eins og þeir eru á hverjum tíma.
     2.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             9. gr. laganna orðast svo:
             Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB frá 7. september 2005 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 142/2007, sem birt var 10. apríl 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 19/2008.

Alþingi, 6. desember 2011.Ólína Þorvarðardóttir,


frsm.


Kristján L. Möller,


form.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.Magnús Orri Schram.


Björn Valur Gíslason.


Einar K. Guðfinnsson.Jón Gunnarsson.


Sigurður Ingi Jóhannsson.


Þór Saari.