Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 237. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 502  —  237. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur
um aðgerðir gegn einelti.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig hefur ráðherra framfylgt tillögum sem koma fram í „Greinargerð um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum“ frá júní 2010?

    Starfshópur á vegum þriggja ráðuneyta um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum gaf út skýrslu með 30 tillögum að samhæfðum aðgerðum gegn einelti í júní 2010. Ríkisstjórn Íslands samþykkti að styðja sérstaklega við aðgerðirnar með því að veita 9 millj. kr. af ráðstöfunarfé sínu árið 2010 til þess. Á fjárlögum 2011 voru 9 millj. kr. settar í þetta verkefni og gert er ráð fyrir 9 millj. kr. í frumvarpi til fjárlaga 2012. Meðal þess sem starfshópurinn lagði til er að sérstakur dagur yrði árlega helgaður baráttunni gegn einelti. Meginmarkmiðið með slíkum degi yrði að skapa umræður í samfélaginu um mikilvægi þess að móta samfélag þar sem einelti fæst ekki þrifist og kynna vel heppnaðar aðgerðir í því skyni. Þá er einnig lagt til að komið verði á fót fagráði sem vinnustaðir, skólar eða foreldrar geti leitað til þegar koma upp erfið og illleysanleg eineltismál í skólum og á vinnustöðum.
    Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði í október 2010 verkefnisstjórn nokkurra ráðuneyta gegn einelti til að fylgja eftir tillögum að aðgerðum gegn einelti og ráðstafa opinberu fjármagni sem er ætlað í þetta verkefni samkvæmt tillögum framangreinds starfshóps, þ.e. með fulltrúum frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Verkefnisstjórnin auglýsti í desember 2010 laust til umsóknar starf verkefnisstjóra í 50% starfi í tilraunaskyni í eitt ár. Fjölmargar umsóknir bárust og tók langan tíma að fara í gegnum ráðningarferli vegna verkefnisstjóra en í byrjun maí var gengið frá ráðningu hans. Verkefnisstjórinn átti að vinna fyrir verkefnisstjórn og hafa umsjón með og fylgja eftir þeim verkefnum sem verkefnisstjórnin ákvæði að skyldu framkvæmd, m.a. hafa umsjón með fagráði sem tæki við erfiðum eineltismálum frá skólakerfinu og vinnustöðum til úrlausnar.
    Verkefnisstjórinn hóf þegar vinnu við undirbúning ýmissa verkefna á sviði aðgerða gegn einelti um leiðir og aðferðir til að ná markmiðum sem sett eru fram í aðgerðaáætluninni sem skilaði m.a. þeim árangri að ýmsir aðilar fóru að setja af stað vinnu í eineltismálum, bæði varðandi einstakar tillögur í aðgerðaáætluninni og við að styðja hagsmunaaðila í vinnu gegn einelti. Verkefnisstjórinn lét af störfum í ágúst en í september var annar starfsmaður ráðinn til að vinna með verkefnisstjórninni, m.a. að undirbúningi og skipulagningu að baráttudegi gegn einelti sem var haldinn 8. nóvember sl. í samstarfi þriggja ráðuneyta við Reykjavíkurborg. Víðtækt samráð var haft við hagsmunaaðila, vinnumarkaðinn, fræðsluyfirvöld og ýmis félagasamtök sem láta sig þessi mál varða. Einnig voru send bréf til allra skóla og stofnana með hvatningu um að nýta daginn til að vinna gegn einelti með einhverjum hætti og útbúin gul armbönd sem send voru m.a. til skóla og stofnana sem tákn um jákvæð samskipti og vináttu, en verkefnisstjórnin hefur ákveðið að nýta gula litinn í tengslum við verkefnið.
    Í tilefni baráttudagsins gegn einelti var undirritaður í Höfða í Reykjavík þjóðarsáttmáli um jákvæð samskipti. Forsætisráðherra er verndari átaksins og velferðarráðherra, fulltrúi fjármálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra undirrituðu sáttmálann fyrir hönd ríkisstjórnarinnar ásamt borgarstjóra Reykjavíkur og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga. Enn fremur gerðust fjöldi félaga og samtaka aðilar að sáttmálanum. Í tilefni af baráttudegi gegn einelti 8. nóvember var opnuð heimasíðan www.gegneinelti.is þar sem fólki gafst kostur á að undirrita sáttmálann.
    Verkefnastjórnin hvatti fjölmarga aðila og samtök til þess að taka höndum saman og helga 8. nóvember sl. baráttunni gegn einelti. Sérstaklega var þessu beint til leik-, grunn- og framhaldsskóla, félags- og frístundamiðstöðva, auk vinnustaða og stofnana, svo sem að nýta daginn með táknrænum hætti eða beina umræðunni að einelti og afleiðingum þess í samfélaginu. Verkefnisstjórnin hefur hvatt sem flesta í samfélaginu til að skrifa undir þjóðarsáttmálann og taka þátt í því að setja umræðuna um einelti í brennidepil, málefnið sé brýnt og til mikils að vinna ef í sameiningu tekst að koma á þjóðarsáttmála um jákvæð og uppbyggileg samskipti.
    Verkefnisstjórnin hefur farið ítarlega yfir allar tillögur starfshópsins frá 2010 um mögulegar aðgerðir gegn einelti og kortlagt stöðuna í hverju tilviki. Hér verður ekki greint frá því í smáatriðum sem áunnist hefur til að koma tillögunum í framkvæmd en í flestum tilvikum er ákveðin vinna í gangi eða að fara af stað. Þar má m.a. nefna að verið er að endurbæta bækling um einelti á vinnustað sem fjármálaráðuneytið hefur gefið út, vinna er hafin að nýju áhættumati um einelti á vinnustöðum og er fundur fyrirhugaður í mars 2012 með forstöðumönnum ríkisstofnana. Einnig hefur verið stofnuð nefnd á vegum velferðarráðuneytisins til að endurskoða reglugerð um einelti á vinnustöðum sem þegar hefur hafið störf. Stjórnarráðið hefur unnið að drögum að viðbragðsáætlun vegna eineltis innan ráðuneytanna. Einnig hafa nýjar aðalnámskrár verið gefnar út fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla þar sem tekið er á skólabrag og fjallað um aðgerðir skóla gegn einelti. Verkefnisstjórnin hefur auk þess stutt við verkefni gegn einelti í skólum.
    Ein af tillögum í aðgerðaáætluninni snýr að starfi gegn einelti í grunnskólum og hefur ráðuneytið allt frá setningu grunnskólalaganna 2008 unnið að gerð heildstæðrar reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins. Lögð hefur verið mikil áhersla á að ná sátt um þessa reglugerð sem ætlað er víðtækt hlutverk hvað varðar m.a. skólabrag, agamál, eineltismál, ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins og málsmeðferð í skólum. Í reglugerðinni er ítarlega fjallað um starf grunnskóla gegn einelti, sem er nýmæli, en allir skólar skulu hafa heildstæða stefnu til að fyrirbyggja og bregðast við líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi og félagslegri einangrun. Skólar skulu setja sér aðgerðaáætlun gegn einelti með virkri viðbragðsáætlun. Umrædd reglugerð hefur nýlega tekið gildi og hefur verið kynnt skólasamfélaginu og hagsmunaaðilum. Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis skal samkvæmt reglugerðinni stofna sérstakt fagráð í eineltismálum sem starfar á landsvísu en foreldrar eða skólar eiga að geta óskað eftir aðstoð þess ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða sveitarfélags, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðkomu sérfræðiþjónustu. Undirbúningur er þegar hafinn að skipun fagráðs í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og þess má einnig geta að mennta- og menningarmálaráðherra áformar að leggja fram frumvarp á Alþingi á næstunni um breytingu á lögum um framhaldsskóla til þess að hægt sé að setja sambærilega reglugerð, eins og gert hefur verið í lögum um grunnskóla, um ábyrgð og skyldur í framhaldsskólum.
    Að lokum má geta þess að mikil umræða hefur farið fram í tengslum við þetta verkefni um stofnun sérstakra fagráða í eineltismálum, annars vegar í skólum og hins vegar á vinnustöðum. Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi um fyrirkomulag og starfshætti slíkra fagráða og hvers konar málum eigi að vísa í fagráð. Ekki liggur fyrir ákvörðun um með hvaða hætti fagráð verða skipuð en það mun væntanlega liggja fyrir fljótlega enda er málið brýnt og væntingar miklar úr öllum áttum. Samkvæmt aðgerðaáætluninni er gert ráð fyrir einu fagráði fyrir skóla og vinnustaði en nú liggur fyrir að samkvæmt nýrri reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum skal mennta- og menningarmálaráðuneytið stofna sérstakt fagráð vegna málefna sem tengjast grunnskólum og skal útfæra það í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Mikilvægt er að væntanleg fagráð fái svigrúm til að móta starfið og nýta reynsluna frá öðrum fagráðum til þess starfið verði sem markvissast.