Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 360. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 505  —  360. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillöguum frumvarp til laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu S. Gunnsteinsdóttur og Sigrúnu Jönu Finnbogadóttur frá velferðarráðuneyti, Ástu S. Helgadóttur umboðsmann skuldara, Jón Óskar Þórhallsson frá embætti umboðsmanns skuldara, Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Sigurð Jón Björnsson og Einar Jónsson frá Íbúðalánasjóði, Þóreyju Þórðardóttur frá Landssamtökum lífeyrissjóða og Hauk Hafsteinsson frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þá fékk nefndin afrit umsagna Landssamtaka lífeyrissjóða og Samtaka fjármálafyrirtækja sem sendar voru velferðarráðuneyti við vinnslu málsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að sérlöggjöf verði sett um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara en nú er að finna ákvæði þess efnis í 5. gr. laga nr. 100/2010, um umboðsmann skuldara. Frumvarpinu er ætlað að gera gjaldtökuna skýrari og skilvirkari ásamt því að styrkja rekstrargrundvöll stofnunarinnar. Talið var nauðsynlegt að skjóta styrkari lagastoð undir gjaldtökuheimildir stofnunarinnar vegna óskýrleika við túlkun gildandi ákvæða, athugasemda sem gerðar höfðu verið við innheimtuna og í ljósi þess að umfang reksturs umboðsmanns hefur verið mun meira en búist var við og aukist mikið milli ára. Við gerð frumvarpsins var tekið mið af lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Í 1. gr. frumvarpsins er skilgreint hverjir skuli standa straum af rekstri umboðsmanns og miðað við gildandi lög þannig að fjármálafyrirtæki, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og vátryggingafélög standi straum af kostnaðinum. Þó er lögð til sú breyting frá gildandi lögum að Lánasjóður sveitarfélaga og Byggðastofnun verði undanskilin gjaldskyldunni enda stunda þau ekki lánastarfsemi til einstaklinga. Gerð var athugasemd við það fyrir nefndinni að fjármálafyrirtæki í slitameðferð væru ekki gjaldskyld samkvæmt ákvæðinu. Meiri hlutinn tekur undir þær ábendingar og telur rík jafnræðis- og sanngirnissjónarmið lúta að því að fjármálafyrirtæki í slitameðferð greiði hlut í rekstri umboðsmanns skuldara í samræmi við umfang lánasafns líkt og önnur fjármálafyrirtæki. Þá bendir meiri hlutinn á að þessi fyrirtæki eru gjaldskyld samkvæmt gildandi lögum. Leggur meiri hlutinn því til breytingu þessu til samræmis. Við útreikning álagningarstofns er þó ekki unnt að miða við útlán þeirra samkvæmt ársreikningi eins og kveðið er á um í 4. gr. frumvarpsins. Er því lögð til sú sérregla að þegar um er að ræða fjármálafyrirtæki í slitameðferð verði miðað við upplýsingar Fjármálaeftirlitsins. Vísast þar til þess að skv. 101. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 78/2001, hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með rekstri fjármálafyrirtækis sem er stýrt af slitastjórn óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hafi starfsleyfi, takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfi þess verið afturkallað. Mun Fjármálaeftirlitið því geta aflað upplýsinganna á grundvelli þess ákvæðis.
    Fyrir nefndinni kom fram gagnrýni á að álagningarstofn gjaldsins væru öll útlán gjaldskylds aðila enda væri eðlilegra að miða stofninn við útlán til einstaklinga. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir afmarkaðri álagningarstofni þessu til samræmis. Nefndinni var þó tjáð að þessi leið hafi ekki verið fær þar sem ekki er lögð lagaskylda á fjármálafyrirtækin að sundurgreina lánasöfn sín með þessum hætti í ársreikningi eða veita upplýsingarnar reglulega og með samræmdum hætti. Breyting þar á varðar löggjöf sem heyrir ekki undir málefnasvið nefndarinnar auk þess sem meiri hlutinn telur eðlilegt að áður en kemur til breytingar af þessu tagi fari fram ítarleg umræða og samráð. Meiri hlutinn bendir auk þess á að það fyrirkomulag sem lagt er til í frumvarpinu er í samræmi við gildandi lög, sbr. 5. gr. laga um umboðsmann skuldara. Hann áréttar þó mikilvægi þess að skoðað verði að leggja aukna upplýsingaskyldu á fjármálafyrirtæki með lögum.
    Samkvæmt 5. gr. frumvarpsins skulu gjaldskyldir aðilar greiða gjald sem nemur 0,0377% af álagningarstofni. Við ákvörðun hlutfallsins var miðað við áætlaðan rekstrarkostnað umboðsmanns skuldara fyrir næsta ár. Ljóst er að breyta þarf þessu hlutfalli miðað við áætlaðan rekstrarkostnað stofnunarinnar fyrir næsta ár á eftir. Í 2. gr. frumvarpsins er því gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara vinni árlega drög að skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað. Drögin skal stofnunin senda samráðsnefnd gjaldskyldra aðila fyrir 1. júní hvert ár. Samráðsnefndin skal skila stofnuninni áliti um skýrsluna eigi síðar en 14. júní. Fyrir 1. júlí sendir umboðsmaður skuldara velferðarráðherra skýrsluna, álit samráðsnefndarinnar og afstöðu stofnunarinnar til álitsins. Sé ástæða til að breyta hlutfalli gjaldsins á grundvelli skýrslunnar ætti sú niðurstaða því að liggja fyrir um mitt ár, þannig ætti ráðherra að geta lagt fram frumvarp um breytt hlutfall gjaldsins við upphaf nýs þings sem gefur tíma og svigrúm fyrir vandaða umræðu og málsmeðferð.
    Nokkuð var rætt um álagningu gjaldsins vegna þeirra aðila sem nýlega hafa hafið starfsemi eða hefja starfsemi eftir gildistöku laganna. Í 5. gr. er kveðið á um að þeir séu undanþegnir gjaldi á því ári sem þeir hefja starfsemi, greiði 500 þús. kr. árið á eftir og á þriðja ári starfseminnar greiði þeir gjald í samræmi við umfang lánastarfsemi. Helgast þetta af því að við álagningu hvers árs er miðað við umfang lánastarfseminnar á þarsíðasta ári. Þannig er horft til umfangs lánastarfsemi ársins 2010 við álagningu fyrir árið 2012 og umfang lánastarfsemi ársins 2011 við álagningu fyrir árið 2013. Ekki er unnt að miða við umfang lánastarfsemi ársins á undan enda liggur hún ekki fyrir þegar skýrsla umboðsmanns skuldara er unnin en eins og komið hefur fram er sú skýrsla notuð til að ákvarða hlutfall af álagningarstofni gjaldskyldra aðila á næsta ári á eftir. Hefji fjármálafyrirtæki starfsemi á árinu 2012 er það undanþegið gjaldi á því ári, á árinu 2013 greiðir það 500 þús. kr. enda ekki hægt að miða við umfang lánastarfsemi þess fyrr en við ákvörðun gjalds fyrir árið 2014.
    Áætlaður rekstrarkostnaður umboðsmanns skuldara á næsta ári er 1.050 m.kr. og er það tæp 30% hækkun frá fyrri áætlun. Hefur rekstrarkostnaður stofnunarinnar verið meiri en áætlað var enda umfang hennar verið mun meira en gert var ráð fyrir við stofnun. Við gerð rekstraráætlunar var við það miðað að umtalsverður fjöldi samninga til greiðsluaðlögunar næðust á næsta ári en greiðslur til umsjónarmanna er stærsti útgjaldaliður stofnunarinnar. Gangi það eftir má jafnframt gera ráð fyrir því að rekstrarkostnaður stofnunarinnar fari lækkandi á næstu árum. Meiri hlutinn telur brýnt að leyst verði úr greiðsluvanda fólks án tafar. Þessi mál geta þó oft verið umfangsmikil og flókin og taka því nokkurn tíma í vinnslu, einkum þegar fjöldi kröfuhafa er mikill. Þá hafa samningaviðræður við kröfuhafa oft reynst tímafrekar. Stærstu kröfuhafar greiða þó rekstrarkostnað umboðsmanns skuldara og hafa því beinan hag af því að úr málum sé leyst fljótt og vel.
    Nefndinni voru kynnt sjónarmið þess efnis að málshöfðunarfrestur skv. 8. gr. frumvarpsins væri of stuttur en samkvæmt ákvæðinu skal höfða mál til ógildingar ákvörðun sem tekin er á grundvelli laganna innan 45 daga frá því að aðila var gerð grein fyrir álagningunni. Meiri hlutinn áréttar að í sambærilegu ákvæði laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er málshöfðunarfrestur einn mánuður, sbr. 8. gr. laganna. Nefndin fékk þær upplýsingar að í fyrri drögum frumvarpsins hefði fresturinn verið sá sami og í 8. gr. laga nr. 99/1999 en að gjaldskyldir aðilar hefðu gert athugasemdir við það og óskað eftir því að hann yrði lengdur í 45 daga. Telur meiri hlutinn því ekki eðlilegt að lengja frestinn frekar.
    Í 5. gr. frumvarpsins hefur dagsetningin 30. nóvember 2011 fyrir mistök slæðst inn í texta ákvæðisins. Leggur meiri hlutinn til breytingu þessu til leiðréttingar.
    Með lögum nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, var gerð sú breyting á fyrirkomulagi Stjórnarráðsins að stjórnarmálefni heyra undir ráðuneyti í samræmi við forsetaúrskurð. Með lögum nr. 116/2011 var því gerð sú breyting á lagasafninu að ekki er lengur tiltekið í lögum hvaða ráðherra fer með framkvæmd viðkomandi málaflokks heldur er það einungis tiltekið í forsetaúrskurði. Til að gæta lagasamræmis er því lagt til að í stað orðsins velferðarráðherra í 2. og 3. gr. komi ráðherra.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. mgr. 1. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama á við um fjármálafyrirtæki sem er stýrt af skilanefnd, slitastjórn eða bráðabirgðastjórn samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hefur starfsleyfi, takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfi þess verið afturkallað, enda stundi það eða hafi stundað starfsemi skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga.
     2.      Í stað orðsins „velferðarráðherra“ í 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 3. gr. komi: ráðherra.
     3.      Við 1. mgr. 4. gr. bætist nýr málsliður, 2. málsl., svohljóðandi: Þegar um er að ræða fjármálafyrirtæki skv. 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. skal í stað ársreiknings miða við upplýsingar Fjármálaeftirlitsins sem það hefur aflað á grundvelli 1. mgr. 101. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
     4.      Orðin „30. nóvember 2011“ í 2. mgr. 5. gr. falli brott.

Alþingi, 12. desember 2011.Álfheiður Ingadóttir,


form.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Lúðvík Geirsson,


frsm.Kristján L. Möller.


Valgerður Bjarnadóttir.


Guðmundur Steingrímsson.