Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 193. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 512  —  193. mál.

2. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um fjársýsluskatt.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Guðrúnu Þorleifsdóttur, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Sigurð Guðmundsson, Davíð Stein Davíðsson og Guðrúnu Þórdísi Guðmundsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Helgu Jónsdóttur og Hilmar Ögmundsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands og Guðlaugu Kristjánsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Ingvar Rögnvaldsson, Guðrúnu J. Jónsdóttur og Elínu Ölmu Arthúrsdóttur frá ríkisskattstjóra, Lárus M. K. Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Harald I. Birgisson frá Viðskiptaráði, Arnar Sigurmundsson og Þóreyju Þórðardóttur frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Guðjón Rúnarsson og Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Völu Valtýsdóttur og Ernu Sif Jónsdóttur frá Deloitte, Hákon Hákonarson frá Félagi vátryggingamiðlara, Gísla Jafetsson frá Sambandi íslenskra sparisjóða, Karl Finnbogason frá Bankasýslu ríkisins, Vilhjálm Bjarnason frá Samtökum fjárfesta, Ásbjörn Björnsson frá Félagi löggiltra endurskoðenda og Sigurð Albert Ármannsson frá Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja.
    Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Allianz á Íslandi hf., ASÍ, BSRB, Bankasýslu ríkisins, Deloitte hf., Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitinu, Íbúðalánasjóði, Landssamtökum lífeyrissjóða, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sparisjóða, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjárfesta, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, slitastjórn og skilanefnd Glitnis, Samtökum verslunar og þjónustu og Viðskiptaráði Íslands.

Frumvarpið.
    Í frumvarpinu eru lagðar til ráðstafanir til tekjuöflunar sem standa eiga undir 4,5 milljörðum kr. af þeim 9,7 milljörðum kr. sem fjárlagafrumvarp næsta árs gerir ráð fyrir að verði í formi skatttekna. Tilurð þessarar skattheimtu má samhliða markmiði í ríkisfjármálum rekja til kostnaðar ríkissjóðs af bankahruninu og viðleitni til þess að skapa meira skattalegt jafnræði milli fjármálaþjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti og annarra atvinnugreina sem eru virðisaukaskattskyldar. Einnig er vísað til þess að samþykkt frumvarpsins gæti orðið til þess að halda aftur af óæskilegri áhættusækni innan fjármálageirans.
    Með frumvarpinu er lagður til skattur á fjármálafyrirtæki, félög í vátryggingastarfsemi og aðra þá sem inna af hendi vinnu og þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti í skilningi 9. og 10. tölul. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Einnig er lagt til að skatturinn leggist á lífeyrissjóði, almenna jafnt sem opinbera, þá sem starfa samkvæmt sérlögum og starfstengda eftirlaunasjóði. Einnig leggst skatturinn á útibú og aðra þá sem eru í fyrirsvari fyrir erlenda aðila sem hafa með höndum starfsemi hliðstæða þeirri sem að framan greinir. Undanþegnar eru opinberar stofnanir sem hafa lögbundnu hlutverki að gegna og eru að fullu í eigu opinberra aðila, að frátöldum Íbúðalánasjóði.
    Lagt er til að skattstofninn verði afmarkaður með sambærilegum hætti og tryggingagjald, sem þýðir að undir hann falla skattskyld laun í skilningi tekjuskattslaga sem umræddir aðilar greiða. Undanþegnar eru þó greiðslur vegna eftirlauna og lífeyris, vegna þess hluta starfseminnar sem er virðisaukaskattsskyld og vegna fæðingarorlofs upp að vissu marki. Skatthlutfallið er 10,5% og kemur fram að skatturinn verði ekki metinn sem frádráttarbær rekstrarkostnaður á grundvelli tekjuskattslaga.
    Af lestri frumvarpsins má ráða að ákvæði þess eigi sér samsvörun í lögum um tryggingagjald og lögum um staðgreiðslu opinberra gjald hvað varðar innheimtu, álagningu og viðurlög að öðru leyti en því að refsiákvæði eiga sér fyrirmynd í lögum um tekjuskatt. Reiknað er með að skatturinn verði greiddur í staðgreiðslu fyrsta dag hvers mánaðar vegna launa næstliðins mánaðar en lögin eiga að koma til framkvæmda 1. janúar 2012. Frá því tímamarki verður þeim aðilum sem undanþegnir eru greiðslu virðisaukaskatts, sbr. 9. og 10. tölul. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, ekki skylt að greiða virðisaukaskatt af skattskyldum vörum og þjónustu þegar vara er framleidd eða þjónusta innt af hendi eingöngu til eigin nota og í samkeppni við virðisaukaskattsskylda aðila.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Á fundum nefndarinnar var varað við neikvæðum áhrifum frumvarpsins á starfsumhverfi fjármálafyrirtækja, einkum með tilliti til þeirrar aðferðar við skattheimtu sem þar er lögð til. Vísað var til þess að ótekjutengdar álögur á fjármálafyrirtæki hefðu aukist verulega á undanförnum árum og að slíkt kæmi almennt verr niður á minni aðilum, eins og sparisjóðum. Frumvarpið mundi fyrirsjáanlega hafa í för með sér aukinn vaxtamun, minni hagræðingu og verra samkeppnisumhverfi fjármálageirans með tilheyrandi áhrifum á fjárfestingu og atvinnuleysi. Gagnrýnt var að frumvarpið samræmdist illa áformum sem uppi væru um skattlagningu fjármálageirans á alþjóðavettvangi, auk þess sem það byggist á allt öðrum forsendum en hliðstæð skattlagning í Danmörku sem vísað er til í athugasemdum.
    Samtök fjármálafyrirtækja og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja tóku fram að þar sem mikill meiri hluti starfsmanna væri konur mundu fyrirsjáanlegar uppsagnir sem fyrirtækin yrðu að ráðast í fyrst og fremst bitna á þeim.
    Fulltrúar lífeyrissjóðanna töldu að röksemdir frumvarpsins fyrir skattinum ættu ekki við um sjóðina sem hefðu lögbundnu hlutverki að gegna og ástunduðu ekki viðskipti í hagnaðarskyni með áþekkum hætti og fyrirtæki á markaði. Samtökin vöktu auk þess athygli á því að frumvarpið hefði aðeins áhrif á réttindi sjóðfélaga í almennu sjóðunum en ekki á réttindi í hinum opinberu og það væri í andstöðu við yfirlýsingar núverandi ríkisstjórnarinnar um jöfnun innan lífeyriskerfisins. Samkvæmt upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu munu lífeyrissjóðirnir greiða á bilinu 150–165 milljónir kr. í fjársýsluskatt á næsta ári verði frumvarpið samþykkt óbreytt.
    Fulltrúar vátryggingamiðlara töldu sömuleiðis að staða þeirra væri ekki sambærileg við stöðu þeirra sem ákvæðum frumvarpsins væri aðallega stefnt gegn þar sem um væri að ræða fámenna stétt með litla ársveltu. Lögðu þeir þess vegna til að aðilar með veltu undir tilteknu lágmarki yrðu undanskildir ákvæðum frumvarpsins.
    Fulltrúar slitastjórnar og skilanefndar Glitnis bentu á að fyrirhuguð skattheimta væri til þess fallin að skerða réttindi kröfuhafa gagnvart félaginu. Starfsemi félagsins væri ekki lengur fólgin í eiginlegri atvinnustarfsemi heldur væri hlutverk þess að hámarka verðmæti eigna til hagsbóta fyrir kröfuhafana.
    Samband íslenskra sparisjóða vakti sérstaka athygli á því að álögur hins opinbera sem ætlað væri að standa undir kostnaði vegna bankahrunsins og vega á móti kerfisáhættu í fjármálageiranum væru nú þegar til staðar og vísaði í því sambandi til sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki og gjalds í Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Aðrir bentu á að önnur ótekjutengd gjöld sem fjármálafyrirtækjunum bæri að standa undir væru kostnaður við rekstur Fjármálaeftirlitsins og umboðsmann skuldara, tímabundið álag til að standa undir sérstökum vaxtaniðurgreiðslum og tryggingagjald.
    Ríkisskattstjóraembættið lagði til við meðferð málsins að nokkur aðlögunarfrestur yrði veittur áður en frumvarpið kæmi til framkvæmda.

Tillögur til breytinga og ábendingar.
     1.      Lagt er til í ljósi fram kominna athugasemda að fjársýsluskattur taki ekki til lífeyrissjóða. Er því lagt til að 3. tölul. 2. gr. frumvarpsins falli brott.
     2.      Í ljósi áðurnefndrar breytingar sem og annarra athugasemda sem nefndinni hafa borist er lagt til að skatthlutfall fjársýsluskattsins lækki úr 10,5% í 5,45%. Þar af leiðir munu tekjur ríkissjóðs af þessari skattheimtu nema 2,25 milljörðum kr. í stað 4,5 milljarða kr. eins og ráðgert var. Til að vega á móti því tekjutapi er tillaga um að lagður verði sérstakur sex prósenta skattur á hagnað fjármálafyrirtækja umfram tiltekin mörk auk þess sem meiri hlutinn gerir ráð fyrir að dregið verði úr föstum álögum á fjármálakerfið með lækkun gjalds í Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta á komandi missirum.
             Útfærsla frumvarpsins gerir ráð fyrir að hinn sérstaki fjársýsluskattur komi til staðgreiðslu á næsta ári en í því sambandi hefur sérstök athygli verið vakin á að skattur sem lagður er á hagnað fyrirtækja og rekstraraðila færist til tekna ríkissjóðs það ár sem álagning á sér stað. Þar af leiðir munu tekjur ríkissjóðs á rekstrargrunni á næsta ári verða lægri sem nemur tekjum af umræddum skatti. Tekjurnar verða hins vegar færðar á greiðslugrunni næsta árs en það er sá grunnur sem samstarfsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins miðast við. Meiri hlutinn bendir auk þess á að einhver teikn séu um góða afkomu fjármálafyrirtækja á yfirstandandi ári sem hafa muni jákvæð áhrif á tekjuskatt lögaðila og jafnvel betri en ráðgert er í fjárlögum næsta árs.
     3.      Lagt er til, að fengnum athugasemdum ríkisskattstjóra, að fyrsta gjalddaga fjársýsluskatts verði frestað til 1. apríl nk. vegna fjársýsluskatts í janúar, febrúar og mars.
     4.      Loks leggur meiri hlutinn til að dagsetningunni 1. ágúst í 11. gr. frumvarpsins verði breytt í 1. nóvember. Er breytingin gerð í samræmi við ábendingar fjármálaráðuneytisins.
     5.      Fram kemur í minnisblaði fjármálaráðuneytisins í tilefni af umsögn Félags löggiltra endurskoðenda að ákvæðum frumvarpsins sé ekki ætlað að taka til annarrar starfsemi en talin er upp í 2. gr. þess. Ráðuneytið bendir einnig á að til skattstofns telst reiknað endurgjald hjá þeim sem skylt er að reikna sér endurgjald.
     6.      Í tilefni af athugasemdum slitastjórnar/skilanefndar Glitnis kemur fram í minnisblaði ráðuneytisins að í stað þess að undanþiggja fjármálafyrirtæki í slitameðferð skattskyldu, eins og gert hafi verið í lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, verði eðli starfseminnar ráðandi um hvort hún falli undir frumvarpið.
     7.      Í tilefni af athugasemdum Samtaka verslunar og þjónustu fyrir hönd vátryggingamiðlara bendir ráðuneytið á að í dönskum lögum nái hliðstæð skattheimta ekki til aðila með skattstofn undir tilgreindum mörkum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 12. desember 2011.Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Magnús Orri Schram.Skúli Helgason.


Árni Þór Sigurðsson.


Lilja Mósesdóttir,


með fyrirvara.