Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 195. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 514  —  195. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (aðgerðir í skattamálum, verðlagsbreytingar o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Marinó Melsted, Björn Ragnar Björnsson og Elísu Kaloinen frá Hagstofu Íslands, Maríönnu Jónasdóttur, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Guðrúnu Þorleifsdóttur, Elínu Guðjónsdóttur og Sigurð Guðmundsson frá fjármálaráðuneytinu, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Hannes G. Sigurðsson, Pétur Reimarsson og Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Helgu Jónsdóttur og Hilmar Ögmundsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Guðlaugu Kristjánsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Gunnar Val Sveinsson og Árna Gunnarsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Svein Víking Árnason og Ívar J. Arndal frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Orra Hauksson frá Samtökum iðnaðarins, Almar Guðmundsson frá Félagi atvinnurekenda, Þóreyju Þórðardóttur, Arnar Sigurmundsson og Gunnar Baldvinsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Ingvar J. Rögnvaldsson, Guðrúnu J. Jónsdóttur og Elínu Ölmu Arthúrsdóttur frá ríkisskattstjóra, Finn Oddsson og Harald Inga Birgisson frá Viðskiptaráði, Karl Björnsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hrein Haraldsson og Hannes Má Sigurðsson frá Vegagerðinni, Jónu Valgerði Kristjánsdóttur og Unnar Stefánsson frá Landssambandi eldri borgara, Lilju Þorgeirsdóttur og Hjördísi Önnu Haraldsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Jónu Björk Guðnadóttur, Yngva Örn Kristinsson og Arnald Loftsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Völu Valtýsdóttur frá Deloitte, Erlu Árnadóttur frá PWC og Alexander Eðvardsson og Gunnar Tryggvason frá KPMG, Einar Þorsteinsson og Þorstein Hannesson frá Elkem á Íslandi, Arnar Guðmundsson frá Íslandsstofu og Þorstein Víglundsson frá Samáli, Magnús Garðarsson, Friðbjörn Garðarsson og Helga Björn frá Íslenska kísilfélaginu, Gísla Jafetsson frá Sambandi íslenskra sparisjóða, Karl Finnbogason frá Bankasýslu ríkisins, Vilhjálm Bjarnason frá Samtökum fjárfesta og Ásbjörn Björnsson frá Félagi löggiltra endurskoðenda.
    Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Allianz Ísland hf., Alþýðusambandi Íslands, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi íslenskra leigubifreiðastjóra, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Biskupsstofu (kirkjuráð), Deloitte, Elkem á Íslandi, Félagi atvinnurekenda, Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitinu, Hagstofu Íslands, Íslandsstofu, Kauphöll Íslands, Landssambandi eldri borgara, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssamtökum lífeyrissjóða, Íslenska kísilfélaginu, Neytendasamtökunum, Norðuráli ehf., ríkisskattstjóra, Samáli, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fjárfesta, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Thorsil ehf., Umhverfisstofnun, Vegagerðinni, meiri hluta velferðarnefndar, Viðskiptaráði Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands.

Inngangur.
    Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012 gerir ráð fyrir viðbótartekjuöflun sem ætlað er að skili 20,7 milljörðum kr. á næsta ári. Reiknað er með að 9,7 milljarðar kr. verði í formi skatttekna en 11 milljarða kr. verði aflað með sölu ríkiseigna og arðs af eignum ríkissjóðs ásamt framlengingu heimildar til útgreiðslu séreignarsparnaðar, sbr. lög nr. 122/2011. Í skýrslu um ríkisfjármálastefnuna sem fylgir fjárlagafrumvarpinu er bent á að þessar ráðstafanir séu gerðar í ljósi markmiðs um jöfnuð í ríkisfjármálum sem byggist á sjöttu og síðustu endurskoðun samstarfsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá liðnu sumri. Heildarjöfnuður í afkomu hins opinbera mun samkvæmt henni verða náð á árinu 2014 í stað 2013 en þá seinkun má rekja til aukins svigrúms í ríkisfjármálum og vilja til að styðja við hagvöxt með minna aðhaldi í ríkisfjármálum.
    Áhrif áformaðra tekjuöflunaraðgerða á árinu 2012 er að finna í töflu á bls. 45 í framangreindri skýrslu en um yfirlit og umfjöllun um tekjuöflunaraðgerðir tímabilsins 2009–2011 er vísað til fyrra heftis fjárlagafrumvarpsins 2011. Uppsöfnuð áhrif skattkerfisbreytinga sem gerðar hafa verið frá upphafi árs 2009 eru ásamt fyrirhuguðum breytingum metin á u.þ.b. 95 milljarða kr. á fjárlagaárinu 2012. Gengið er út frá því að gefnum forsendum um tekjuöflun að engar teljandi skattahækkanir þurfi að koma til árin þar á eftir heldur verði þá fyrst og fremst horft til sölu ríkiseigna.
    Tekjuöflunarforsendur fjárlagafrumvarpsins eru reistar á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá júlí sl. sem gerir ráð fyrir að hagvöxtur næsta árs verði 3,1%. Er það 0,8% umfram hagspá Seðlabankans frá í nóvember og 2,1% umfram hagspá ASÍ frá í haust. Í nýútkominni nóvemberspá sinni gerir Hagstofan ráð fyrir að hagvöxtur næsta árs verði 2,4% sem kallar á endurskoðun á tekjuáætlun frumvarpsins. Við 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins taldi fjármálaráðuneytið að áhrif nýrrar þjóðhagsspár á tekjuhlið yrðu jákvæð upp á 2,85 milljarða kr. en á móti þeirri fjárhæð vógu aðrar breytingar sem ekki tengdust nýrri þjóðhagsspá upp á 2,5 milljarða kr. Heildaráhrifin voru metin 0,35 millj. kr. til hækkunar. Efnahags- og viðskiptanefnd leitaði eftir skýringum fjármálaráðuneytis á því hvers vegna fjármagnstekjuskattur einstaklinga hefði lækkað um 5,5 milljarða kr. á rekstrargrunni við 2. umræðu frá því sem áætlað var í fjárlagafrumvarpinu.
    Í fjárlögum næsta árs eins og þau hafa verið samþykkt er gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs verði neikvæð um 20,75 milljarða kr. sem er um 3 milljarða kr. meiri halli en frumvarpið gerði ráð fyrir. Tekjur næsta árs eru áætlaðar um 523 milljarðar kr. sem er um 1,5 milljarða kr. hækkun frá því sem frumvarpið gerði ráð fyrir og skýrist sú breyting aðallega af auknum tekjum vegna úttektar séreignarsparnaðar upp á 900 millj. kr.
    Áhyggjur komu fram í nefndinni vegna óvissu um horfur í einkaneyslu og fjárfestingu sem eiga að standa undir hagvexti næstu ára. Komu fram sjónarmið um að vöxt einkaneyslunnar undanfarið megi að hluta rekja til aðgerða eins og sérstakra vaxtaniðurgreiðslna, útgreiðslu séreignarsparnaðar og annarra tímabundinna úrræða til lausnar á skuldavanda heimila. Tafir hafi einnig orðið á fjárfestingu. Lágt fjárfestingarstig nú um stundir megi m.a. rekja til erfiðrar skuldastöðu fyrirtækja, ástands á alþjóðamörkuðum og skorts á trúverðugleika en fulltrúar Hagstofunnar bentu á af þessu tilefni að spá um þróun atvinnuvegafjárfestingar væri varfærin. Seðlabankinn hefur lagt áherslu á með tilliti til takmarkaðs svigrúms í ríkisfjármálum að mikilvægt sé að halli fjárlaga næsta árs verði ekki umfram það sem að er stefnt í fjárlagafrumvarpinu þar sem aukin lánsfjárþörf ríkissjóðs muni að líkindum hækka vaxtastig í landinu sem dregur úr vilja einkaaðila til fjárfestingar.
    Nýjustu tölur Hagstofu Íslands benda til þess að hagvöxtur hafi orðið 3,7% á fyrstu níu mánuðum þessa árs.

Frumvarpið.
    Í frumvarpinu eru lagðar til ráðstafanir til tekjuöflunar sem standa eiga undir 3,7 milljörðum af þeim 9,7 milljörðum kr. sem forsendur fjárlagafrumvarpsins gera ráð fyrir að verði í formi skatttekna 2012. Eftirtaldar aðgerðir eru lagðar til: að auðlegðarskattur verði framlengdur til álagningarársins 2015 og að lagt verði á nýtt 2% viðbótarskattþrep á eignir einstaklinga annars vegar og hjóna hins vegar yfir tiltekin mörk sem skili 1,5 milljörðum kr. á næsta ári, að heimild til frádráttar iðgjalda frá tekjuskattsstofni vegna viðbótarlífeyrissparnaðar verði 2% í stað 4% næstu þrjú árin sem skili 1,4 milljörðum kr. og að kolefnisgjald af fljótandi jarðefnaeldsneyti hækki um þriðjung sem skili 0,8 milljörðum kr.
    Aðrar breytingar frumvarpsins um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem ekki eru hluti sérstakra tekjuöflunaraðgerða fjárlagafrumvarpsins eru í fyrsta lagi breytingar sem lúta að yfirlýsingum stjórnvalda sem gefnar voru í tengslum við gerð kjarasamninga í vor: að atvinnutryggingagjald lækki um 1,36% en almennt tryggingagjald hækki um 0,45%, þ.e. heildarlækkun upp á 0,91% sem áætlað er að leiði til 8 milljarða kr. tekjutaps fyrir ríkissjóð, að markaðar tekjur Fæðingarorlofssjóðs af almennu tryggingagjaldi hækki um 0,20% eða tæplega 1,8 milljarða kr. sem ætlað er að vinna gegn uppsöfnuðum halla sjóðsins á liðnum árum, að gjald í Ábyrgðasjóð launa hækki tímabundið fyrir árin 2012, 2013 og 2014 um 0,05% sem jafngildir tæpum 0,5 milljörðum kr. á ári til að vega upp uppsafnaðan halla, að afdráttarskattur á vaxtatekjur erlendra aðila hér á landi lækki í 10%, úr 20% í tilviki einstaklinga en 18% í tilviki lögaðila, sem leiði til lækkunar á tekjum ríkissjóðs um 1,5 milljarða kr.
    Í öðru lagi gera breytingar frumvarpsins ráð fyrir hækkunum á krónutölusköttum og gjaldskrám. Er um að ræða 5,1% hækkun í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins á gjaldi af áfengi og tóbaki sem áætlað er að skili 760 millj. kr., bifreiðagjaldi sem skili 360 millj. kr. og almennu og sérstöku kílómetragjaldi sem skili ríkissjóði 30 millj. kr. í viðbótartekjur. Í annan stað er lagt til að almennt og sérstakt vörugjald af bensíni sem og olíugjald hækki um 2,5% í stað 5,1% sem áætlað er að skili 400 millj. kr. Breytingin er gerð með hliðsjón af hækkunum sem lagðar eru til á kolefnisgjaldi. Þá eru lagðar til hækkanir í samræmi við forsendur fjárlaga á útvarpsgjaldi sem skili 200 millj. kr. og gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra sem skili 90 millj. kr. Sérstök athygli er vakin á því að frumvarpið gerir ráð fyrir að fjárhæðarmörk tekjuskattsþrepa hækki um 3,5% sem er í samræmi við forsendur kjarasamninga á árinu en ekki til samræmis við launavísitölu eins og gildandi lög gera ráð fyrir en áætlaður tekjuauki ríkisins vegna þessa er 400 millj. kr.
    Í þriðja lagi koma fram í frumvarpinu breytingar af ýmsu tagi: að framlög ríkisins til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga á grundvelli laga um sóknargjöld o.fl. skerðist og að gjaldið verði 677 kr. á mánuði árið 2012 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í stað 698 fyrir árið 2011, að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2012 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi ríkis og kirkju lækki um 38,9 millj. kr. (og er þá ekki tekið tillit til uppreiknings launa og verðlags) og að framlag til Kristnisjóðs skerðist um 2,3 millj. kr., að ákvarðaðar barnabætur undir 2.000 kr. á hvern framfæranda falli niður sem áætlað er að skili tekjuauka upp á 100 millj. kr., að vaxtabætur verði einvörðungu ákvarðaðar á grundvelli skattframtals en ekki áætlunar, að skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum ríkis og sveitarfélaga ásamt vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði áfram óheimil á árinu 2012, að tímabundnar undanþágur frá stimpilgjaldi vegna skilmálabreytinga og endurnýjunar fasteignaveðskuldabréfa og bílalána verði framlengdar um eitt ár.
    Enn fremur eru í frumvarpinu lagðar til tvær breytingar sem varða breikkun skattstofna, annars vegar að olíugjald verði lagt á steinolíu með sama hætti og á gas- og dísilolíu sem áætlað er að skili 60 millj. kr. tekjuauka á næsta ári og hins vegar að kolefnisgjald verði frá upphafi árs 2013 lagt á kolefni af jarðefnauppruna á föstu formi sem skili 1,5 milljarða kr. tekjuauka.
    Í frumvarpinu er loks að finna nýtt ákvæði um það hvernig nýtt kílómetragjald og sérstakt kílómetragjald skuli reiknað út við áætlun og ákvörðun samkvæmt álestri auk þess sem frumvarpið gerir ráð fyrir að lög nr. 86/2007, um skattlagningu kaupskipaútgerðar, er tóku gildi 1. janúar 2008, falli brott.
    Í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur fram að verði frumvarpið að lögum muni afkoma ríkissjóðs versna um rúmar 900 millj. kr. á árinu 2012 en nefndin óskaði án árangurs eftir nánari upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu um það hvernig sú fjárhæð hefði verið reiknuð út. Áréttað er í athugasemdum frumvarpsins að áætlunum um upptöku fjársýsluskatts (þskj. 198, 193. mál) og hækkun veiðigjalds sé ætlað að skila ríkissjóði samanlagt 6 milljörðum kr. í tekjuauka.

Umfjöllun nefndarinnar.
    
Um ýmsar þeirra ráðstafana sem lagðar eru til í frumvarpinu hefur efnahags- og viðskiptanefnd, áður efnahags- og skattanefnd, fjallað í tengslum við afgreiðslu laga nr. 46/2009, um styrkari skattframkvæmd og hömlur gegn skattundanskoti, laga nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, laga nr. 128/2009, um tekjuöflun ríkisins, laga nr. 164/2010, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, og nú síðast laga nr. 73/2011, um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Heildarlækkun tryggingagjalds.
    Viðmælendur nefndarinnar lýstu almennt ánægju með heildarlækkun tryggingagjalds eins og lagt er til í frumvarpinu þótt sumir teldu að þörf væri á að ganga lengra með tilliti til atvinnusköpunar. Samtök atvinnulífsins telja áformin samræmast yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar sem gefnar voru í tengslum við gerð kjarasamninga í vor en benda á að forsendur breytingarinnar hafi átt að endurmeta í kjölfar þjóðhagsspár frá í nóvember. Samtökin benda einnig á að tímabundin hækkun gjalds í Ábyrgðasjóð launa samræmist umræddum yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar.
    Samband íslenskra sveitarfélaga afhenti nefndinni minnisblað formanns og framkvæmdastjóra sambandsins dagsett 10. nóvember 2011 þar sem lagðar eru til frekari hækkanir á almennu tryggingagjaldi, annars vegar hækkun um 0,17% til þess að fjármagna stóraukin útgjöld sveitarfélaga vegna fjárhagsaðstoðar og hins vegar hækkun um 0,034% sem rynni til Vinnumálastofnunar til að standa straum af kostnaði við vinnumarkaðsúrræði í samvinnu við sveitarfélög fyrir atvinnulausa sem ekki eiga bótarétt hjá Atvinnuleysistryggingasjóði.

Lækkun skattprósentu á afdráttarskatt á vaxtatekjur erlendra aðila hér á landi.
    Eins og fram kemur í áliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar sem gefið var út í tengslum við afgreiðslu laga nr. 73/2011, um ráðstafanir í ríkisfjármálum (þskj. 1625, 824. mál), hefur allt frá upphafi verið á það bent af hálfu talsmanna atvinnulífsins að skattlagning vaxtatekna erlendra aðila hér á landi væri, vegna staðlaðra ákvæða í alþjóðlegum lánasamningum, til þess fallin að hafa verulega neikvæð áhrif á lánamöguleika íslenskra fyrirtækja. Skatturinn kom til framkvæmda 1. september 2009, sbr. lög nr. 70/2009. Fjármálaráðuneytið hefur um hríð haft ákvæðið til endurskoðunar með það fyrir augum að koma til móts við sjónarmið atvinnulífsins en um leið tryggja að ákvæðið nái þeim tilgangi sínum að draga úr skattundanskotum. Hefur í því sambandi verið litið til reglna annars staðar á Norðurlöndum sem gilda í viðskiptum tengdra aðila annars vegar og reglna um lágmarks eigið fé fyrirtækja hins vegar. Endurskoðuninni er ætlað að ljúka fyrir lok næsta árs en í frumvarpinu er gerð sú sáttatillaga að lækka skatthlutfallið í 10%, úr 20% í tilviki einstaklinga en 18% í tilviki lögaðila. Talsmenn atvinnulífsins voru almennt fylgjandi þeirri tillögu en lögðu áherslu á að endurskoðuninni yrði hraðað.

Hækkun á fjárhæðarmörkum skattþrepa.
    Í frumvarpinu er lögð til minni hækkun á fjárhæðarmörkum skattþrepa 1. mgr. 66. gr. tekjuskattslaga en lagagreinin sjálf gerir ráð fyrir. Í 5. tölul. ákvæðisins segir að þau skuli taka breytingum í upphafi hvers árs í réttu hlutfalli við hækkun launavísitölu frá upphafi til loka næstliðins tólf mánaða tímabils. Fram kemur í athugasemdum frumvarpsins að gera megi ráð fyrir að hækkun launavísitölunnar á þessu ári verði rúmlega 8% en þess í stað er lagt til að mörkin hækki um 3,5% sem er í samræmi við almennar forsendur kjarasamninga á árinu. Hefur þessi tillaga verið gagnrýnd í ljósi yfirlýsinga ráðherra um að ekki væri gert ráð fyrir almennum skattahækkunum í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. Breytingin mun þýða að minni tekjur þarf til þess að skattleggjast í hverju skattþrepi en gildandi lög gera ráð fyrir. Alþýðusamband Íslands telur að eðlilegra væri með tilliti til sveiflujöfnunar að skattþrepin hækkuðu til samræmis við vísitölu neysluverðs eins og persónuafslátturinn gerir. Öryrkjabandalag Íslands bendir á í sinni umsögn að með hliðsjón af þeim sem lægstar hafa tekjurnar sé mest þörf á að hækka viðmiðunarmörk neðsta þrepsins. Ræddi nefndin í því sambandi hvort vega mætti á móti meiri hækkun neðsta þrepsins með því að hækka efri þrepin minna.

Auðlegðarskattur.
    Við upptöku auðlegðarskatts var lagt til að skatturinn yrði lagður á við álagningu 2010, 2011 og 2012 (og við álagningu 2013 vegna endurreiknings) og að hann yrði 1,25% þegar skattstofn færi í árslok 2009, 2010 og 2011 yfir 90 millj. kr. hjá einstaklingum en 120 millj. kr. hjá hjónum og samsköttuðu sambýlisfólki. Frá upphafi var ljóst að þar sem upplýsingar um hlutdeild einstaklinga í skattalegu bókfærðu eigin fé lögaðila lægju ekki fyrir fyrr en eftir lok framtalsfrests manna þyrfti endurreikningur á álagningarstofninum í árslok 2009 (álagning einstaklinga 2010) að fara fram samhliða álagningu 2011 þegar framtal lögaðilans 2010 væri komið fram. Í áliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar við afgreiðslu laga nr. 128/ 2009, um tekjuöflun ríkisins, kom fram að með því móti gæti komið til þess að auðlegðarskattur ákvarðist við álagningu 2013 vegna eignar í árslok 2011.
    Með lögum nr. 164/2010, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, var samþykkt að hlutfall auðlegðarskatts yrði hækkað úr 1,25% í 1,50% auk lækkunar á fríeignarmörkum úr 90 millj. kr. í 75 millj. kr. hjá einstaklingum og úr 120 millj. kr. í 100 millj. kr. hjá hjónum. Var breytingunni ætlað að taka til eigna einstaklinga í árslok áranna 2010 og 2011, þ.e. álagningaráranna 2011 og 2012.
    Með lögum nr. 73/2011, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, var ákveðið að við álagningu 2012 á almennar eignir einstaklinga í árslok 2011 yrði við mat á hlutdeild þeirra í skattalega bókfærðu eigin fé lögaðila horft til skattframtals lögaðilans 2011 vegna rekstrarársins 2010 í stað þess að láta endurreikninginn fara fram við álagningu 2013 á grundvelli skattframtals lögaðilans 2012 vegna rekstrarársins 2011. Var ákveðið að endurreikningur auðlegðarskattsstofns og álagning auðlegðarskatts á árinu 2013 félli niður. Ríkisskattstjóri bendir á að sú aðferð við endurreikning sem samþykkt var með lögum nr. 73/2011 feli í sér að álagning auðlegðarskatts á hlutdeild í eigin fé félaga yrði miðuð við annað tímamark en eignastaðan sjálf sem sé umdeilanlegt.
    Í frumvarpinu er lagt til að við álagningu 2012 verði tekin upp tvö þrep í auðlegðarskatti og að skattinum verði viðhaldið álagningarárin 2013, 2014 og 2015. Lagt er til að skatthlutfallið verði 1,5% á auðlegðarskattsstofn einstaklinga yfir 75 millj. kr. og samanlagðan stofn hjóna yfir 100 millj. kr. eins og nú er en 2% af því sem er umfram 150 millj. kr. hjá einstaklingum og 200 millj. kr. hjá hjónum. Endurreikningur vegna hlutdeildar í skattalega bókfærðu eigin fé lögaðila mun verða á ný í samræmi við þá aðferð sem gilti fyrir samþykkt laga nr. 73/2011 í því skyni að koma í veg fyrir afturvirknisáhrif, þannig að auðlegðarskattur vegna viðbótareignar í árslok 2010 verður alltaf 1,5% af þessum skattstofni. Auk þess er lagt til að endurreikningur við álagningu 2016 miðað við stöðu á skattalega bókfærðu eigin fé lögaðila í árslok 2014 verði ekki framkvæmdur.
    Nefndinni bárust fjölmargar athugasemdir um neikvæð áhrif auðlegðarskatts og að ástæða væri til að óttast að þeir sem undir skattbyrðina féllu gætu vegna takmarkaðrar greiðslugetu átt í erfiðleikum með að standa undir henni auk þess sem fullyrt var af hálfu endurskoðunarfyrirtækja að dæmi væru þess að eignamiklir einstaklingar hefðu flutt lögheimili sín úr landi vegna þessarar skattheimtu. Skattanefnd Félags löggiltra endurskoðenda lagði m.a. til að ríkisskattstjóra yrði heimilað að taka til greina umsókn tekjulágra einstaklinga um lækkun auðlegðarskattsstofns og enn fremur að heimilt yrði að jafna ónýttum persónuafslætti á móti greiðslu auðlegðarskatts.
    Fulltrúar atvinnulífs bentu á að sú hætta væri fyrir hendi að eigendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja tækju óskynsamlegar ákvarðanir í þeim tilgangi að standa skil á greiðslu skattsins með ótímabærri sölu eigna eða ótímabærum arðgreiðslum. Þá var því haldið fram að skatturinn mismunaði skráðum félögum samanborið við óskráð sem leiddi til þess að lengri tíma tæki að byggja upp íslenskan hlutabréfamarkað. Loks var því haldið fram að skatturinn væri úr takti við alþjóðlega þróun og vekti áleitnar spurningar um mörk skattlagningar og eignarnáms, sérstaklega á tímum mikillar verðbólgu. Hliðstæðar athugasemdir komu fram við umfjöllun efnahags- og skattanefndar í tengslum við afgreiðslu laga nr. 164/2010.
    Í minnisblaði fjármálaráðuneytis frá 18. nóvember sl. kemur fram að í byrjun desember 2010 höfðu 31 af þeim 3.817 sem greiddu auðlegðarskatt það ár flutt af landi brott.

Skattaleg meðferð iðgjalda vegna viðbótarlífeyrissparnaðar.
    Tillögu frumvarpsins um að frádráttarbært iðgjald vegna séreignarsparnaðar lækki tímabundið úr fjórum prósentum í tvö prósent var harðlega mótmælt á fundum nefndarinnar á þeirri forsendu að breytingin mundi vega að sparnaði heimila og væri til þess fallin að leggja auknar byrðar á ríkið til framtíðar þar sem útgjöld vegna almannatrygginga muni fyrirsjáanlega aukast í ljósi mannfjöldaspár. Breytingin fæli í sér að forsendum þegar gerðra samninga yrði breytt og að sjóðsfélagar yrðu að falast eftir því við viðsemjendur sína, vörsluaðila, að lækka iðgjöld sín því ef þeir gerðu það ekki mundu þeir þurfa að þola tvískattlagningu. Slíkar ráðstafanir kostuðu einnig fyrirhöfn af hálfu vörsluaðila sem á undanförnum árum hefðu lagt í umtalsverðan kostnað við að markaðssetja þetta sparnaðarform. Jafnframt töldu sumir að breytingin væri þarflaus þar sem sjóðsfélögum væri samkvæmt gildandi lögum frjálst að ákveða sjálfir hvort þeir greiddu fjögurra eða tvö prósenta iðgjald.
    Í umsögn ríkisskattstjóra kemur fram sá skilningur að það sé réttlætismál að samningum launþega við vörsluaðila séreignarsparnaðar verði breytt til samræmis við lækkun á frádráttarbæru iðgjaldi til að koma í veg fyrir tvískattlagningu.

Fjármögnun sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu.
    Fulltrúar Landssamtaka lífeyrissjóða lýstu andstöðu sinni við áform sem birtast í athugasemdum frumvarpsins um að sjóðirnir verði skattlagðir í því skyni að ríkið geti staðið undir sérstakri vaxtaniðurgreiðslu (ígildi vaxtabóta) árið 2011 og 2012. Samtökin áréttuðu fyrri sjónarmið um að aðkoma sjóðanna hefði átt að byggjast á gagnkvæmu samkomulagi við ríkið en ekki skattlagningu. Nánar er gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum í áliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar sem birt var í tengslum við afgreiðslu laga nr. 73/2011, um ráðstafanir í ríkisfjármálum (þskj. 1625, 824. mál). Samtökin bentu einnig á að undanfarið hefðu átt sér stað samningaviðræður við fjármálaráðuneytið um lausn málsins án þess að málið væri til lykta leitt. Aðilar vinnumarkaðarins tóku undir sjónarmið Landssamtaka lífeyrissjóða og áréttuðu að tregða sjóðanna til að gefa eignir sínar eftir væri vegna þess að þær væru hugsaðar til að mæta framtíðarskuldbindingum til hagsbóta fyrir alla, þ.m.t. ríkið. Sjóðirnir þyrftu að íhuga réttarstöðu sína ef skattheimtan næði fram að ganga þar sem hún mismunaði sjóðsfélögum í almennu sjóðunum samanborið við félaga í opinberu sjóðunum ásamt því að raska stöðu almennu sjóðanna innbyrðis.
    Í athugasemdum frumvarpsins er gert ráð fyrir að fjármögnun verkefnisins verði 6 milljarðar kr. á hvoru árinu og að viðskiptabankar muni þar af bera kostnað upp á 2,1 milljarð í formi viðbótarskatts, sbr. 19. gr., en lífeyrissjóðirnir 1,4 milljarða. Samtök fjármálafyrirtækja styðja áform um skattlagningu lífeyrissjóða með hliðsjón af jafnræði aðila og leggja einnig til að Íbúðalánasjóður og fjármálafyrirtæki í slitameðferð verði felld undir lög um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki.
    Í frumvarpi sem fjármálaráðherra hefur lagt fram (þskj. 444, 368. mál) er í c-lið 3. gr. lagt til að svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða: „Við álagningu opinberra gjalda 2012 og 2013 skulu aðilar sem falla undir 6. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lífeyrissjóðir sem starfa samkvæmt sérlögum, greiða sérstakt gjald í ríkissjóð sem nemur 0,0814% af hreinni eign til greiðslu lífeyris, sbr. 39. gr., eins og hún er í lok næstliðins árs. Gjalddagi er 1. nóvember 2012 og 1. nóvember 2013 og eindagi 15 dögum síðar. Greiða skal fyrir fram upp í álagt gjald hinn 31. desember 2011 og 1. nóvember 2012 og miðast sú greiðsla við hreina eign til greiðslu lífeyris eins og hún var í árslok 2010 og 2011 og það skatthlutfall sem kveðið er á um í ákvæði þessu.“
    Tilvitnað ákvæði á sér fyrirmynd í ákvæði sem meiri hluti efnahags- og skattanefndar lagði til í framhaldsnefndaráliti við afgreiðslu laga nr. 73/2011 að fellt yrði brott. Frumvarp til þeirra laga hafði að lokinni 2. umræðu og ólíkt tilvitnuðu ákvæði gert ráð fyrir að skatthlutfallið yrði 0,0788% við álagningu opinberra gjalda 2012 og að um álagningu, innheimtu, eftirlit og viðurlög færi eftir lögum um tekjuskatt.
    Meiri hlutinn bendir á að í umræddu áliti kemur fram sá skilningur að lífeyrissjóðirnir taki þátt í kostnaði vegna vaxtaniðurgreiðslnanna en um leið var stjórnvöldum og lífeyrissjóðunum gefinn frestur til að ná saman um fjármögnun verkefnisins. Það samkomulag hefur ekki tekist og sér meiri hlutinn ástæðu til að árétta fyrri sjónarmið um að skattlagningin sé reist á málefnalegum forsendum þar sem henni er ætlað að standa undir almennri aðgerð til lausnar skuldavanda heimila.

Hækkanir á sköttum og gjöldum í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins.
    Eins og að framan greinir er gert ráð fyrir að gjald af áfengi og tóbaki, bifreiðagjald, útvarpsgjald og gjald til Framkvæmdasjóðs aldraðra hækki um 5,1% til samræmis við forsendur fjárlagafrumvarpsins en að almennt og sérstakt vörugjald af bensíni sem og olíugjald hækki um 2,5% að teknu tilliti til hækkana á kolefnisgjaldi sem á að hækka um þriðjung. Nefndin ræddi áhrif þessara hækkana í ljósi efasemda um að þær muni skila tilætluðum tekjum vegna neikvæðra áhrifa þeirra og sambærilegra hækkana síðustu ára á kaupmátt, eftirspurn og verðlag. Í athugasemdum frumvarpsins eru umræddar hækkanir metnar lauslega á um 0,2% til hækkunar á vísitölu neysluverðs.
    Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins lagði til við nefndina að dregið yrði úr gjaldi á sterkt áfengi um 4% og 0,1% á bjór og léttvín frá því sem frumvarpið gerir ráð fyrir en á móti yrði tóbaksgjaldið hækkað um 7,5%. Verslunin lagði einnig til að gjald á tóbak sem reiknað er eftir vigt yrði betur samræmt sem fæli í sér umtalsverða hækkun á gjald á neftóbak og tæki framvegis sömu breytingum og annað tóbak. Þessar athugasemdir fengu hljómgrunn í áliti meiri hluta velferðarnefndar og einnig sú tillaga verslunarinnar að ráðast í kerfisbreytingu á smásölu tóbaks þannig að tóbak í smásölu yrði það sama á öllu landinu.
    Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram að samdráttur í umferð og aukin sala bifreiða sem nota aðra orkugjafa en bensín og dísilolíu hefðu rýrt tekjur stofnunarinnar af mörkuðum tekjustofnum sem væri svo til eina fjármögnun hennar. Taldi stofnunin sterkar líkur á að tekjur af sérstöku bensíngjaldi og olíugjaldi sem eru markaðir tekjustofnar mundu ekki skila þeim tekjum sem fjárlagafrumvarpið ráðgerir nema gjöldin hækkuðu í það minnsta um 5,1%.
    Fjármálaráðuneytið hefur áréttað að minni hækkun eldsneytis megi rekja til tæplega þriðjungs hækkunar kolefnisgjalds og að hluta til hækkana á heimsmarkaðsverði. Ráðuneytið bendir auk þess á að heildarhlutfall skatta í útsöluverði eldsneytis sé um þessar mundir lágt í sögulegu samhengi.

Hækkun kolefnisgjalds og breikkun skattstofnsins.
    Samtök atvinnulífsins og einstök aðildarfélög þess mótmæltu þriðjungshækkun kolefnisgjalds á þeim grundvelli að sá mælikvarði sem lægi henni til grundvallar væri úr tengslum við íslenskt atvinnulíf. Hækkunin kæmi illa við aðila innan sjávarútvegsins og ferðaþjónustu auk þess sem á það var bent að innheimta gjaldsins af flugvélaeldsneyti hefði í för með sér tvísköttun á innanlandsflug þar sem allar flugsamgöngur ættu að falla undir viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir frá og með næstu áramótum.
    Við þinglega meðferð málsins gaf fjármálaráðherra út yfirlýsingu sem dagsett er 29. nóvember sl. og ber heitið „Minnisatriði vegna kolefnisgjalds“ þar sem lagt er til að áform frumvarpsins um breikkun stofns kolefnisgjalds verði lögð til hliðar. Áformin koma fram í d-lið 11. gr. og felast í því að gjaldið verði frá upphafi árs 2013 lagt á kolefni af jarðefnauppruna á föstu formi. Á fundum nefndarinnar var þessi frumvarpstillaga harðlega gagnrýnd m.a. í ljósi þess að upptaka gjaldsins á stórfyrirtæki, þar sem losun er mælanleg, samrýmist illa innleiðingu íslenskra yfirvalda á umræddu viðskiptakerfi (ETS). Samtök atvinnulífsins vísuðu máli sínu til stuðnings til sameiginlegrar yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda og stórnotenda á raforku frá 7. desember 2009.
    Við meðferð málsins óskaði fjármálaráðuneytið eftir því við nefndina að lögð yrði til breytingartillaga við frumvarpið sem kvæði á um að lög um umhverfis- og auðlindaskatta verði gerð varanleg en að óbreyttu falla þau úr gildi í lok næsta árs.

Barnabætur.
    Samband íslenskra sveitarfélaga varar við því í umsögn sinni að viðhalda áfram tímabundnu banni við heimild til að skuldajafna barnabótum á móti opinberum gjöldum ríkis og sveitarfélaga ásamt vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga sem verið hefur í gildi undanfarin ár. Sambandið bendir á að um sé að ræða eitt skilvirkasta úrræðið til innheimtu og verði því ekki beitt sé hætta á að kröfur vegna vangoldinna gjalda fyrnist.

Stimpilgjald.
    Af hálfu Samtaka fjármálafyrirtækja var lagt til að skilmálabreytingar og ný veðskjöl sem gefin yrðu út vegna greiðsluaðlögunar einstaklinga, sbr. lög nr. 101/2010, annars vegar og vegna sértækrar skuldaaðlögunar, sbr. lög nr. 107/2009, hins vegar skyldu vera undanþegin greiðslu stimpilgjalds til og með 31. desember 2012. Samtökin tóku einnig undir tillögu Samtaka atvinnulífsins um afnám allra stimpilgjalda í áföngum á næstu þremur árum.

Sóknargjöld.
    Í umsögn kirkjuráðs þjóðkirkjunnar er þess farið á leit við efnahags- og viðskiptanefnd að hún leiðrétti niðurskurð sóknargjalda þjóðkirkjunnar samkvæmt frumvarpinu að teknu tilliti til nýrrar áfangaskýrslu nefndar sem innanríkisráðherra skipaði fyrr á árinu til að fara yfir niðurskurð á framlögum til þjóðkirkjunnar.

Breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.
    Nefndin ræddi að fella brott tilgreind ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, þar sem markaðir eru tekjustofnar til tilgreindra verkefna. Þau ákvæði sem rætt var um í þessu sambandi eru lokamálsliður 5. mgr. 6. gr., 4. mgr. í ákvæði til bráðabirgða VIII og 2. málsl. 23. gr. a. Breyting þess efnis mundi leiða til þess að tekjurnar rynnu framvegis í ríkissjóð.

Tillögur til breytinga og ábendingar.
     1.      Lögð er til breyting á 2. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir að hlutdeild Staðlaráðs í almennu tryggingagjaldi falli niður. Breytingin er gerð til samræmis við forsendur fjárlaga næsta árs.
     2.      Lagt er til að mörk milli fyrsta og annars þreps í tekjuskatti einstaklinga verði færð úr 209.400 kr. tekjuskattsstofni á mánuði í 230.000 kr. sem jafngildir 2.760.000 kr. á ári. Þetta er hækkun um 9,8%, nokkru meiri hækkun en núgildandi lagaákvæði segja fyrir um. Þá er lagt til að mörkin milli annars og þriðja þreps hækki úr 680.550 kr. tekjuskattsstofni á mánuði í 704.370 kr. en það eru 8.452.400 kr. á ári. Þetta er hækkun um 3,5%. Aðrar breytingar á greininni leiðir af þessum ákvæðum. Báðar þessar breytingar eru til hagsbóta fyrir skattgreiðendur sem nú byrja að greiða tekjuskatt í öðru þrepi af hærri tekjum en þeir gera nú. Hið sama gildir um skattgreiðendur sem hafa tekjur yfir þrepamörkum þriðja þreps. Þeir greiða skatt í þriðja þrepi af lægri fjárhæð en þeir gera nú. Kostnaði sem breytingin hefur í för með sér verður að einhverju leyti mætt með framlengingu heimildar til úttektar á viðbótarlífeyrissparnaði.
     3.      Lagt er til að fengnum athugasemdum Félags löggiltra endurskoðenda að á eftir 4. gr. frumvarpsins komi ný grein þar sem kveðið er á um heimild til að jafna ónýttum persónuafslætti á móti greiðslu auðlegðarskatts á eftir greiðslu tekjuskatts og útsvars, jafnframt að þar verði kveðið á um að hlutfall óráðstafaðs persónuafsláttar sem ráðstafað er til greiðslu fjármagnstekjuskatts breytist úr 18/ 37 í 20/ 37 og er sú breyting lögð til í samræmi við ábendingar ríkisskattstjóra.
     4.      Lögð er til smávægileg orðalagsbreyting á 5. gr. í samræmi við ábendingar ríkisskattstjóra.
     5.      Lagt er til að á eftir 6. gr. frumvarpsins komi ný grein sem varðar framlengingu á gildistíma bráðabirgðaákvæðis XXXVII tekjuskattslaga um eitt ár en ákvæðið heimilar einstaklingum og samsköttuðum aðilum að telja ekki til tekna ákveðinn hluta eftirgjafar á veðskuldum utan atvinnurekstrar og skulda vegna bílasamninga utan atvinnurekstrar vegna greiðsluerfiðleika á tilgreindu tímabili.
     6.      Samsvarandi breytingar og raktar eru í síðasta tölulið eru lagðar til á bráðabirgðaákvæðum XXXVI og XLIV í tekjuskattslögum varðandi rekstraraðila.
     7.      Lögð er til breyting á a-lið (I.) 10. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir að tímabundinn auðlegðarskattur verði einungis framlengdur til ársins 2014 í stað 2015. Þar sem auðlegðarskatt skal miða við auðlegðarskattsstofn skattaðila í árslok mun álagning árið 2014 fara fram miðað við eignastöðuna í lok árs 2013. Að óbreyttu er gert ráð fyrir að gjaldeyrishöftin falli úr gildi í lok árs 2013, sbr. 13. gr. a laga um gjaldeyrismál, og telur meiri hlutinn rétt að skoða þau mál í samhengi.
                 Lagt er til að nýjum málslið verði bætt við c-lið (III.) 10. gr. frumvarpsins sem ætlað er að girða fyrir að breytt skattaleg meðferð iðgjalda vegna viðbótarlífeyrissparnaðar leiði til þess að sjóðfélagar sem greiða umfram 2% af iðgjaldsstofni til lífeyrissjóðs sæti tvískattlagningu ómeðvitað. Með þessu er gert ráð fyrir því að gengið verði tímabundið inn í samninga rétthafa á grundvelli neytendasjónarmiða og þegar bráðabirgðaákvæðið hefur runnið sitt skeið muni skilmálabreytingin ganga til baka og rétthafi vera í sömu stöðu og hann var fyrir breytinguna.
     8.      Í samræmi við yfirlýsingar fjármálaráðherra sem að framan er getið um að leggja til hliðar áform um breikkun skattstofns kolefnisgjalds er lagt til að a-, b-, d- og e-liður 11. gr. falli brott.
     9.      Lagt er til að röng málsgreinatilvísun í b-lið 14. gr. frumvarpsins verði leiðrétt þannig að í stað 3. mgr. standi 4. mgr.
     10.      Lögð er til sú breyting á b-lið 21. gr. frumvarpsins að tóbaksgjald á neftóbak hækki um 3/ 4 og verði 7,21 kr. í stað 4,12 kr. á hvert gramm eða hluta úr grammi vöru. Breytingin er gerð með hliðsjón af ábendingum ÁTVR og þeirra lýðheilsusjónarmiða sem gerð er grein fyrir í umsögn meiri hluta velferðarnefndar. Að fengnum upplýsingum úr fjármálaráðuneyti gerir meiri hlutinn ráð fyrir að breytingin hækki útsöluverð á neftóbaki úr 700 kr. í um 930 kr., eða rúmlega 30%. Að óbreyttu mætti gera ráð fyrir að tekjuauki ríkissjóðs vegna þessarar hækkunar væri um 94 millj. kr. en vegna áhrifa á verðteygni er búist við óverulegum tekjum. Verðlagsáhrifin eru engin þar sem neftóbak er ekki inni í vísitölu neysluverðs. ÁTVR lagði til við meðferð málsins að gjald á neftóbak hækkaði um 200%.
     11.      Í samræmi við óskir fjármálaráðuneytisins eru lagðar til breytingar á fjárhæðum í 23. gr. frumvarpsins, sumar til hækkunar en aðrar til lækkunar. Um er að ræða leiðréttingar þar sem fjárhæðirnar hafa verið rangt slegnar inn.
     12.      Lögð er til breyting á 26. gr. frumvarpsins þess efnis að sóknargjald hækki til samræmis við forsendur fjárlaga, þ.e. úr 677 kr. í 701 kr. Að mati fjármálaráðuneytisins svarar þessi hækkun til 90 millj. kr.
     13.      Lagðar eru til breytingar á tveimur lagabálkum, annars vegar lögum um gistináttaskatt og hins vegar lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í fyrsta lagi er lagt til að aðilar sem ekki fá skráningu á grunnskrá virðisaukaskatts, svo sem stéttarfélög og ýmis ferðafélög, verði undanþegin gistináttaskatti. Í annan stað er lagt til að frestur til úttektar á viðbótarlífeyrissparnaði verði framlengdur um þrjá mánuði, þ.e. frá 1. júlí 2012 til 1. október 2012, sbr. 1. mgr. bráðabirgðaákvæða VIII og IX í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Er lagt til að sú breyting taki gildi um næstu áramót og að frá þeim tíma miðist upphaf viðmiðunartímabils við 1. janúar 2012 í stað 1. október 2011. Eins og að framan greinir tengist þessi breyting breytingum á fjárhæðarmörkum skattþrepa.
     14.      Að lokum eru lagðar til breytingar á gildistökuákvæði frumvarpsins til samræmis við framangreint.
    Á fundum nefndarinnar töldu fulltrúar fjármálaráðuneytisins að áhrif framangreindra breytinga á tekjuforsendur fjárlaga næsta árs yrðu óveruleg. Þeir vísuðu þó til þess að stytting á gildistíma auðlegðarskatts gæti falið í sér talsvert tekjutap fyrir ríkissjóð en tekjur af skattinum á þessu ári eru áætlaðar um 7 milljarðar kr.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 12. desember 2011.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Magnús Orri Schram.



Skúli Helgason.


Árni Þór Sigurðsson.