Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 195. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 519  —  195. mál.

2. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (aðgerðir í skattamálum, verðlagsbreytingar o.fl.).

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Á undanförnum árum hefur íslenska þjóðin gengið í gegnum miklar hremmingar eftir hrun bankakerfisins í október 2008. Halli á fjármálum ríkisins nemur um 500 milljörðum kr. frá árinu 2008 og mikilvægt er að ná jafnvægi á ný. Fjármálaráðherra hefur gengið vasklega fram og komið víða við í niðurskurði þannig að víða um land blasir blóðrauð auðnin við. Þetta hefði þó ekki þurfti að vera svona. Með markvissri og vel undirbúinni stefnumörkun í íslensku efnahagslífi hefði ekki þurft að hækka skatta og gjöld eins mikið á heimilin og fyrirtækin og raunin er. Það hefði jafnframt ekki þurft að ganga eins hart fram í niðurskurði á velferðarkerfinu og raunin er. Við höfum fiskinn, orkuna, vatnið, náttúruna og mannauðinn til að koma okkur hratt út úr efnahagsþrengingum. Óvissa í sjávarútvegi, óvissa með nýtingu orkuauðlinda og andstaða við beina erlenda fjárfestingu hefur leitt af sér minni fjárfestingu í íslensku atvinnulífi en ella. Fjárfestingin er í dag um 13% en meðaltalsfjárfesting síðustu áratuga er 21%. Þar vantar 8% upp á. 8% af landsframleiðslu eru um 140 milljarðar kr. í aukin umsvif sem hefðu að stærstum hluta skilað sér til ríkis og sveitarfélaga í formi skattgreiðslna og gjalda.
    Það er ekki vegna þess að hér vanti orku eða menntað fólk sem fjárfesting er ekki meiri heldur vantar traust. Erlendir fjárfestar, og raunar innlendir einnig, treysta ekki stjórnvöldum. Það er ekki að ástæðulausu enda hafa verið gerðar um 140 skattkerfisbreytingar á undanförnum árum og sumar hverjar virðast eingöngu hafa verið gerðar til að koma í veg fyrir arðbærar fjárfestingar. Þannig segir í nýlegu áliti starfshóps iðnaðarráðherra um tillögugerð um stefnu stjórnvalda varðandi erlenda fjárfestingu: „Auk þekktra hindrana á borð við gjaldeyrisáhættu og sveiflur í hagkerfinu þá er talað um landsáhættu vegna skyndilegra og ógagnsærrar ákvarðanatöku stjórnvalda og seinagangs og ófaglegra vinnubragða í stjórnsýslu.“
    Að undanförnu hafa birst tölur sem sýna að hagvöxtur er að fara af stað aftur og við venjulegar aðstæður væri það mikið fagnaðarefni en því miður er hann ekki drifinn áfram af varanlegri verðmætasköpun með aukinni fjárfestingu. Hér er um ósjálfbæran hagvöxt að ræða sem knúinn er áfram af aukinni einkaneyslu sem minnir einna helst á efnahagsreikninga stórfyrirtækja fyrir hrun þar sem hugtakið „óefnislegar eignir“ eða „viðskiptavild“ var metið á hundruð milljarða króna en var því miður að stærstum hluta stór loftbóla sem sprakk á endanum. Ríkisstjórnin virðist telja það mikilvægast að auka einkaneysluna með öllum tiltækum ráðum í stað þess að efla atvinnulífið.

Lækkun á frádrætti vegna séreignarlífeyrissparnaðar.
    Með því að lækka frádráttinn úr 4% í 2% ætlar ríkisstjórnin að ná sér í 1,4 milljarða kr. Hér er með einu pennastriki ákveðið að breyta samningum launþega og atvinnurekenda um forsendur séreignarlífeyrissparnaðar. Það skiptir ríkisstjórnina engu máli enda vantar peninga, og það strax. Vonast er til að þetta skili sér í aukinni einkaneyslu í skamman tíma. Þegar til langs tíma er litið skaðar þetta ekki einungis lífeyrissjóðakerfið heldur hefur það einnig skaðleg áhrif á stöðu ríkissjóðs að nokkrum árum liðnum. Þannig mun þessi breyting hafa mjög neikvæð áhrif á almannatryggingakerfið og getu þess í framtíðinni til að standa undir mannsæmandi kjörum gagnvart lífeyrisþegum. Þetta eykur enn á mismun milli hins almenna lífeyrissjóðakerfis og hins opinbera en það var eitt af loforðum ríkisstjórnarinnar að jafna þann mun.

Skerðing bóta almannatrygginga og breyting á skattþrepum.
    Aldraðir, öryrkjar og allir þeir sem standa höllum fæti í samfélaginu hafa verið í sérstöku uppáhaldi hjá ríkisstjórninni sem kennir sig við norræna velferð. Nú á að hækka bætur almannatrygginga um 3,5% en samkvæmt lögum eiga bætur að hækka til samræmis við launavísitölu en laun á 3. ársfjórðungi 2011 hafa hækkað um 7,7% frá 3. ársfjórðungi 2010. Sama á við um hækkun skattþrepa en þau eiga að hækka til samræmis við launavísitölu en samkvæmt frumvarpinu var gert ráð fyrir 3,5% hækkun sem þýddi að greiddur var skattur af lægri tekjum og mörk tekjuþrepa urðu lægri. Almenn verðlagsuppfærsla er 5,1% og þegar bótaupphæðir eða viðmiðunarmörk skattþrepa eru ekki einu sinni látnar fylgja verðlagi er verið að rýra kjör. „Ríkisstjórnin sem kennir sig við velferð ætlar þannig ekki aðeins að svíkja eigin loforð heldur einnig snupra þá sem lökust hafa kjörin í okkar þjóðfélagi“ segir í ályktun ASÍ um þessa aðgerð.
    Nú hefur meiri hlutinn séð að sér og haft vit fyrir ríkisstjórninni með því að hækka viðmiðunarmörk neðsta skattþrepsins og er það vel, en sem fyrr eru aldraðir og öryrkjar skildir eftir. Hins vegar er ljóst að skattaálögur á millitekjufólk munu enn aukast.

Auðlegðarskattur.
    Upprunalega átti auðlegðarskattur að standa í þrjú ár en nú er búið að framlengja hann um tvö ár til viðbótar, til ársins 2014. Hætt við að margir sem stóðu í þeirri trú að hann yrði aflagður á næsta ári hugsi sér nú til hreyfings og flytji lögheimili sitt vegna þessa ákvæðis. Fylgjast þarf vel með því að tekjur tapast við að hluti þessa þjóðfélagshóps flytur úr landi.
    Fagnaðarefni er sú breyting sem meiri hlutinn hefur gert með því að stytta skattlagninguna um eitt ár, frá 2015 í 2014, og sett það í samhengi við afnám gjaldeyrishafta.

Breyting á afdráttarskatti.
    Jákvætt er að lækka afdráttarskatt niður í 10% en þetta er dæmi um mjög illa ígrundaða hugmynd ríkisstjórnarinnar sem varð að veruleika en er nú verið að leiðrétta. Ríkisstjórnin hefur réttlætt þennan skatt með tilvísun til danskra laga og reglna en þegar betur er að gáð kemur í ljós að skattaumhverfi hvað þetta varðar er mjög ólíkt hér og í Danmörku.

Hækkun á eldsneyti.
    Verði fyrirhugaðar hækkanir á eldsneyti að veruleika má gera ráð fyrir að verð á bensínlítra muni hækka um 3,5 kr. Þó hefur verð á bensíni hækkað um 7% á árinu en verð á dísilolíu um 13%. Hér er enn verið að auka álögur á heimilin og atvinnulífið í landinu. Ekki þarf að minna á að fólk í hinum dreifðu byggðum og atvinnulíf þar reiðir sig mikið á bifreiðar.

Kolefnisgjald eða réttara sagt kolefnisskattur.
    Við 1. umræðu um frumvarp um ýmsar aðgerðir í ríkisfjármálum mælti fjármálaráðherra fyrir því að lagt yrði sérstakt kolefnisgjald á íslenskan iðnað. Átti gjaldið að skila 4 milljörðum kr. frá og með árinu 2013. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnulífinu hefði þessi skattlagning m.a. kippt grundvelli undan járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga og a.m.k. tveimur kísilverksmiðjuverkefnum sem nú eru í burðarliðnum. Mörg hundruð störf hefðu glatast eða ekki orðið til ef þessi „hugmynd“ fjármálaráðherrans hefði náð fram að ganga.
    Fjármálaráðherra fór mikinn í fjölmiðlum og taldi nauðsynlegt að skattleggja íslensk stórfyrirtæki og þau fengju engan afslátt frá því að menga á Íslandi. Sérstaklega vöktu tillögur hans um skattlagningu á rafskaut í orkufrekum iðnaði athygli. Fjármálaráðherra var borubrattur og sagði að ekki stæði til að „gera Ísland að einhverri skattaparadís fyrir mengandi starfsemi“. Að vonum vöktu fyrirætlanir hans sterk viðbrögð frá fulltrúum atvinnulífs og umræddra fyrirtækja enda hafði verið gert sérstakt samkomulag í desember 2009 um sérstakan fyrirframgreiddan skatt þessara fyrirtækja til ársloka 2012. Þessar skattatillögur voru skýrt brot á þessu samkomulagi og þær sýna vel að ríkisstjórninni er alveg sama þótt samið hafi verið um tiltekin atriði. „Samningar eru til að brjóta þá“ virðist vera mottó ríkisstjórnarinnar.
    Nú hefur þessi skattlagning verið lögð til hliðar og stefnt er að viðræðum aðila og upptöku ETS-kerfisins frá ársbyrjun 2013.

Hækkun verðlagsvísitölu.
    Gert er ráð fyrir almennri 5,1% hækkun á svokölluðum krónutölusköttum til samræmis við almennar verðlagsforsendur. Þetta er eðlileg ráðstöfun en þegar að er gáð leynist ýmislegt í þessum tillögum sem orkar tvímælis. Það sem skiptir þó meginmáli er að þessar hækkanir eru taldar leiða til 0,2% hækkunar á vísitölu neysluverðs. Það þýðir hækkun á lánum heimilanna um a.m.k. 3 milljarða kr. sem sýnir okkur enn og aftur hversu mikilvægt það er að minnka vægi verðtryggingarinnar.

Lækkun á tryggingagjaldi.
    Það er nú ekki svo að ekki sé hægt að finna eitthvað gott í þessum bandormi. Lækkun tryggingagjalds er mikilvægt spor í þá átt að lækka álögur á atvinnulífið. Þessi lækkun tekur þó einungis til þess hluta tryggingagjaldsins sem rennur til atvinnuleysistrygginga. Lækkunin nemur 1,36% en hafa ber í huga að gjaldið hefur hækkað um 3,16% frá ársbyrjun 2009. Þessi lækkun er gerð í þeirri vissu að atvinnuleysi muni fara minnkandi, sem það vonandi gerir, en ýmsar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, eða öllu heldur aðgerðaleysi, eru ekki beinlínis til þess fallnar að auka bjartsýni í þeim efnum. Þá hafa sveitarfélögin verulegar áhyggjur af auknum útgjöldum vegna atvinnuleysisins en ríkisvaldið er að bæta þeim þann útgjaldaauka sem einungis verður til þess að auka vanda sveitarfélaganna enn frekar. Það er í raun verið að færa kostnað frá ríkinu yfir á sveitarfélögin til að fegra stöðu ríkissjóðs.

Vaxtaniðurgreiðsla.
    
Í lok árs 2010 var samþykkt bráðabirgðaákvæði um sérstaka vaxtaniðurgreiðslu sem var hlutur stjórnvalda í víðtækum aðgerðum vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna. Greiðslur ársins 2011 hafa þegar farið fram og námu þær réttum 6 milljörðum kr. og í forsendum fjárlagafrumvarps fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir að forsendur og útgjöld vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu verði hin sömu á árinu 2012. Með lögum nr. 73/2011 var lögfest nýtt ákvæði til bráðabirgða í lög nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Í þessu frumvarpi er lagt til að sama fyrirkomulag verði varðandi fjármögnun á hluta vaxtaniðurgreiðslunnar á árinu 2012 af hálfu viðskiptabankanna. Hins vegar liggur ekki fyrir samkomulag við lífeyrissjóðina. Framsóknarflokkurinn styður þessa vaxtaniðurgreiðslu og telur rétt að fjármálafyrirtæki standi undir niðurgreiðslu vaxta. Stuðningurinn nær hins vegar ekki til þess að lífeyrissjóðirnir verði neyddir til kostnaðarþátttöku í þessum niðurgreiðslum. Hér er enn og aftur verið að auka enn frekar á mismun á milli opinberra lífeyrissjóða og hinna almennu þvert á gefin fyrirheit. Þessi skattheimta mun leiða til skerðingar á greiðslum til sjóðfélaganna, greiðslum sem þeir eiga lögvarinn rétt til. Þá er enn og aftur verið að rjúfa samninga og ríkisstjórnin er að beita „hótunum“ eins og segir í athugasemdum Landssambands lífeyrissjóða. Þar segir einnig: „Lífeyrissjóðirnir hafa aldrei og munu aldrei semja um álagningu eignarskatta á lífeyrissjóðina.“

Að lokum.
    Í athugasemdum við frumvarpið segir undir liðnum Samráð o.fl.: „Við gerð frumvarpsins var meðal annars stuðst við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar tengda kjarasamningum sem dagsett er 5. maí 2011. Yfirlýsingin er afrakstur víðtæks samráðs stjórnvalda og aðila hins almenna vinnumarkaðar um margvíslega þætti er lúta að efnahags- og kjaramálum í aðdraganda kjarasamninga. Jafnframt er byggt á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá júlí 2011. Frumvarpið er samið í fjármálaráðuneytinu að höfðu samráði við velferðarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið um þá málaflokka frumvarpsins sem undir þau heyra. Auk þess var haft samráð við embætti ríkisskattstjóra.“
    Það er nokkuð ljóst að ríkisstjórnin leggur einhverja allt aðra merkingu í orðið samráð en flestir aðrir því að þær aðgerðir sem eru boðaðar ganga þvert gegn yfirlýsingum og samningum sem gerðir hafa verið. Í nóvember árið 2007 kom út ritið „Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa“ á vegum forsætisráðuneytis, dóms- og kirkjumálaráðuneytis og skrifstofu Alþingis en það er nokkurs konar „leiðarvísir um það hvernig undirbúningi lagafrumvarpa verði sem best háttað“. Á blaðsíðu 15 í þessu ágæta riti er tafla um lykilspurningar um efnisleg atriði varðandi undirbúning lagafrumvarpa. Þar eru settar fram fjórar aðalspurningar með rúmlega 20 undirspurningum sem þarf að svara svo að undirbúningurinn geti talist vandaður. Samkvæmt þessari handbók getur undirbúningur þessa frumvarps ekki talist vandaður þar sem einungis einni spurningu er svarað, þ.e. hvort frumvarpið sé í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Svarið er að ekki sé tilefni til að ætla að svo sé!
    Í ljósi yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar um nýja og bætta stjórnsýslu, betri vinnubrögð og gegnsæi hefði maður getað búist við að þessi handbók væri höfð til hliðsjónar, þó ekki væri nema að nokkru leyti.
    Framsóknarflokkurinn styður ekki efnahagsstefnu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Þar er um að ræða stefnu sem er ómarkviss og illa ígrunduð. Handahófskennt er hugmyndum um breytingar á skattkerfinu hent fram, hugmyndum sem oft og tíðum byggjast á misskilningi eða vanþekkingu á þörfum atvinnulífsins. Samskipti ríkisstjórnarinnar við lykilhagsmunaaðila vegna þessara breytinga eru sérstakt rannsóknarefni út af fyrir sig. Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, Landssamband lífeyrissjóða og fulltrúar aldraðra og öryrkja hafa lýst því hvernig samningar hafa ekki verið virtir – og þar virðist ævinlega eitthvað standa upp á ríkisstjórnina. Er nema von í ljósi þessa og hringlandaháttar í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar að traust til íslenskra stjórnvalda fari nú óðum þverrandi?

Alþingi, 12. desember 2011.Birkir Jón Jónsson.