Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 228. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 521  —  228. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Ragnheiðar E. Árnadóttur um hagtölur.


     Hvaða breytingar þarf að gera varðandi hagtölur og Hagstofu Íslands og Hagþjónustu landbúnaðarins svo að aðildarviðræður við Evrópusambandið um landbúnaðarkaflann geti farið fram?
    Ekki þarf að gera breytingar á hagtölum vegna aðildarviðræðna heldur vegna skuldbindinga Íslands gagnvart EES-samningnum. Með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) varð Ísland þátttakandi í evrópskri hagskýrslugerð. Flestar reglugerðir Evrópusambandsins í hagskýrslugerð hafa verið innleiddar í EES-samninginn og er Ísland skuldbundið að framkvæma þær. Þannig eru nær allar reglugerðir um landbúnaðartölfræði í gildi hér á landi samkvæmt EES-samningnum. Í gegnum árin hefur þó takmörkuðum upplýsingum vegna þeirra reglugerða verið skilað til Eurostat (Hagstofu Evrópusambandsins). Einhverjum af þessum gögnum hafa Bændasamtök Íslands aflað eða safnað beint frá framleiðendum. Hagþjónusta landbúnaðarins hefur safnað og birt búreikninga og hefur Hagstofan átt sæti í stjórn hennar. Hagþjónustan hefur jafnframt tekið þátt í fundum hjá Eurostat fyrir hönd Hagstofunnar í gegnum árin, en ekki skilað nema afar takmarkaðri tölfræði til Eurostat. Hagþjónustan hættir störfum um næstu áramót og verða verkefni hennar þá á ábyrgð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Þessar breytingar á Hagþjónustu landbúnaðarins tengjast ekki aðildarumsókn að Evrópusambandinu.
    Með þátttöku Íslands í evrópskri hagskýrslugerð er lögð mikil áhersla á að hagskýrslur séu unnar af óháðum aðilum og að þær séu í samræmi við gæðakröfur í verklagsreglum um evrópska hagskýrslugerð. Á það hefur lengi verið bent af sérfræðingum Eurostat að það samrýmist ekki verklagsreglum að hagsmunasamtök eins og samtök bænda sjái um opinbera hagskýrslugerð. Þá er í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá mars 2011 bent á annmarka þess að Bændasamtökin safni upplýsingum sem notaðar eru opinberlega til að taka ákvarðanir um viðkomandi málaflokk. Hagstofa Íslands hefur nú í ár af þessum sökum og í samvinnu við þá aðila sem málið varðar tekið að sér að sinna opinberri hagskýrslugerð um landbúnaðarmál, enda fellur það vel að öðrum verkefnum hennar og verður leyst með sambærilegum hætti og önnur hagskýrslugerð varðandi gæðaeftirlit. Hagstofan hefur átt gott samstarf við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og Bændasamtök Íslands um málið, enda viðameiri upplýsingum um málaflokkinn safnað en hingað til hefur verið gert.
    Endurbætur á landbúnaðartölfræðinni ná til þriggja sviða:
1.    Framkvæmd landbúnaðarannsóknar sem er umfangsmikil rannsókn á íslenskum landbúnaði. Rannsóknin nær yfir býli (e. agricultural holdings) í eftirfarandi NACE Rev. 2 (ÍSAT2008) flokkum:
                  –      01.1 Ræktun nytjajurta annarra en fjölærra.
                  –      01.2 Ræktun fjölærra nytjajurta.
                  –      01.3 Plöntufjölgun.
                  –      01.4 Búfjárrækt (undanskilin þó: 01.49 Ræktun annarra dýra).
                  –      01.5 Blandaður búskapur.
                  –      01.6 Þjónustustarfsemi við landbúnað og starfsemi eftir uppskeru nytjajurta (með einhverjum undantekningum).
        Rannsóknin er þýðisrannsókn og nær til um 3000 býla þar sem rannsakaðar eru eftirfarandi lykilbreytur:
                  –      almenn einkenni, svo sem staðsetning býlis og fyrirkomulag umsjár,
                  –      landsvæði, svo sem heildarstærð, ræktað land og skipting þess,
                  –      búfé, svo sem fjöldi, skipting eftir kyni og aldri,
                  –      vélbúnaður,
                  –      vinnuafl,
                  –      önnur arðbær starfsemi á býli,
                  –      stuðningur til uppbyggingar landbúnaðar, svo sem styrkveitingar.
    Auk þýðisrannsóknar á fyrrgreindum lykilbreytum er framkvæmd rannsókn á framleiðsluaðferðum í landbúnaði sem náði til:
                  –      ræktunaraðferða,
                  –      aðferða við varðveislu jarðvegs,
                  –      aðbúnaðar búfjár,
                  –      áburðargjafar og áveitu, vökvun.
              Hagstofa Íslands framkvæmdi fyrstu rannsókn sína á fyrri hluta árs 2011 og miðast hún við stöðu landbúnaðarmála fyrir árið 2010. Niðurstöður munu liggja fyrir í mars 2012 og verða birtar í Hagtíðindum.
2.    Búa þarf til landbúnaðartölfræði sem nær til allrar ræktunar, upplýsinga um búfé og kjötframleiðslu og framleiðslu á mjólk og mjólkurafurðum. Auk þess verður safnað ýmsum verðlagsupplýsingum sem ekki hefur verið haldið til haga áður.
3.    Búa þarf til framleiðslureikninga fyrir landbúnað sem eru yfirgripsmikil yfirlit um framleiðslu og rekstur í landbúnaði.
    Öll þessi tölfræði mun gefa ítarlegt yfirlit um hagi landbúnaðar og uppfylla þær kröfur sem gilda innan EES-svæðisins samkvæmt EES-samningnum auk þess að nýtast hagsmunaaðilum jafnt sem stjórnvöldum við störf sín.
    Gert er ráð fyrir að vinnu vegna undirbúnings að landbúnaðartölfræði verði lokið árið 2012 og eftir það verði um reglubundna framleiðslu og birtingu á þessum hagtölum að ræða.

     Hvaða breytingar þarf að gera varðandi hagtölur og Hagstofu Íslands vegna aðildarviðræðna um aðra kafla?
    Ekki þarf að gera breytingar á hagtölum vegna aðildarviðræðna heldur vegna skuldbindinga Íslands gagnvart EES-samningnum. Hagstofa Íslands er af þeirri ástæðu að gera endurbætur á nokkrum öðrum sviðum hagtalna:
     1.      Þjóðhagsreikningar:
                  a.      Tölfræði um þjóðhagsreikninga. Hér er um mjög mikilvæga tölfræði að ræða fyrir íslensk stjórnvöld og atvinnulífið. Endurbætur þjóðhagsreikninga eru í fyrsta lagi gerð á uppruna- og ráðstöfunartöflum og aðfanga- og afurðatöflum. Töflurnar munu sýna heildarsamhengið í þjóðarbúskapnum sem er mikilvægt tæki til allrar greiningar og ákvarðanatöku í efnahagsmálum.
                  b.      Tölfræði um störf og vinnutíma eftir atvinnugreinum. Þær upplýsingar eru ekki fyrir hendi nú og er Ísland eina Evrópuríkið þar sem þannig háttar til. Upplýsingarnar eru nauðsynlegar fyrir aðila vinnumarkaðar og stjórnvöld til að fylgjast með stöðu á vinnumarkaði. Niðurstöðurnar yrðu grunnur undir mat á framleiðni en slíkar tölur hefur skort hingað til hér á landi.
     2.      Geira- og fjármálareikningar. Þeir munu gefa ítarlegri sýn á hag fyrirtækja og heimila en áður hefur verið tiltæk.
     3.      Fyrirtækjatölfræði:
                  a.      Verulega skortir á að Ísland uppfylli skuldbindingar sínar gagnvart EES-samningnum þegar kemur að fyrirtækjatölfræði. Kjarni fyrirtækjatölfræði er fyrirtækjaskrá til hagskýrslugerðar þar sem safnað er saman mikilvægum grunnupplýsingum um fyrirtæki og rekstur þeirra. Slíkar skrár eru unnar víðsvegar um heiminn og eru í grunninn afar svipaðar að gerð. Í Evrópu er gerð þessara skráa bundin í lög og samkvæmt Evrópureglugerð 177/2008 ber að koma þeim upp í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.
                  b.      Í skránni eiga að vera öll fyrirtæki og einstaklingar í atvinnurekstri sem stunda efnahagslega starfsemi. Sýna á lögformlegar einingar (sem geta verið ein eða fleiri) eða kennitölur fyrirtækja. Enn fremur mun skráin veita upplýsingar um:
                  –    innlenda og fjölþjóðlega fyrirtækjahópa og eigendur fyrirtækja,
                  –    fjölda starfsmanna eftir starfsstöðum og veltu fyrirtækja,
                  –    aðalstarfsemi fyrirtækja samkvæmt íslenskri atvinnugreinaflokkun (ÍSAT2008) og aukastarfsemi hjá fyrirtækjum sem ná ákveðnum stærðarmörkum. Lýðfræði fyrirtækja, t.d. fæðing, dauði, lífslíkur og samruni og sundrun fyrirtækja.
    Til viðbótar við gerð fyrirtækjaskrárinnar mun Hagstofa Íslands gera nauðsynlegar endurbætur á annarri fyrirtækjatölfræði. Þar er sérstaklega átt við hagtölur um fyrirtæki (e. Structural business statistics, SBS) og skammtímahagvísa fyrir fyrirtæki (e. Short Term Statistics, STS). Hagtölur um fyrirtæki (e. Structural business statistics, SBS) veita upplýsingar um rekstur fyrirtækja, vinnuafl og unnar stundir, fjárfestingar og ýmis önnur atriði sem varða rekstur, svo og upplýsingar um lýðfræði fyrirtækja eftir atvinnugreinum. Skammtímahagvísarnir eru annaðhvort mánaðarlegir eða miðast við ársfjórðunga og sýna framleiðslu, veltu og fjölda starfa auk ýmissa annarra upplýsinga.
    Allar þessar upplýsingar verða að teljast mikilvægar fyrir stjórnvöld, hagsmunaaðila, rannsakendur og almenning til að fylgjast með þróun atvinnulífs.
    Til að koma upp ofangreindum hagtölum hefur Hagstofa Íslands gert áætlun til fjögurra ára (2012–2105). Kjarninn í áætluninni er vinna við gerð fyrrgreindrar fyrirtækjaskrár til hagskýrslugerðar. Gert er ráð fyrir að hún hefjist árið 2012 og ljúki að mestu leyti á árinu 2014.

Reglugerðir.
    Aðeins fjórar reglugerðir sem nú eru utan gildissviðs EES-samningsins munu bætast við ef til aðild kemur. Í fyrsta lagi er reglugerð EB nr. 1059/2003 um að taka upp sameiginlega flokkun hagtalna eftir svæðum (NUTS). Í öðru lagi er reglugerð EB nr. 638/2004 um viðskipti á milli aðildarríkjanna, þar sem tollar falla niður ef af inngöngu verður og leita þarf upplýsinga með öðrum hætti en úr tollagögnum. Í þriðja lagi er reglugerð nr. 1165/2008 um hagskýrslur um búfé og kjötframleiðslu. Loks er reglugerð EB nr. 31/2005 um þóknanir og lífeyri starfsfólks ESB. Tvær síðastnefndu reglugerðirnar eru minni háttar og hafa lítil áhrif á hagskýrslugerð.
    Eina reglugerðin utan EES-samningsins sem er talsvert umfangsmikil í framkvæmd er reglugerð EB nr. 638/2004 um viðskipti milli ríkja innan Evrópusambandsins, svonefnd Intrastat. Gangi Ísland í Evrópusambandið falla tollar niður við önnur ríki sambandsins. Ekki verður þá hægt að styðjast við tollskýrslur eins og nú er til að fylgjast með vöruviðskiptum við þessi ríki. Þess í stað verður að styðjast við virðisaukaskattsskýrslur og kannanir hjá fyrirtækjum sem stunda inn- og útflutning. Hagstofa Íslands vinnur nú að áætlunum um hvernig staðið yrði að innleiðingu reglugerðarinnar og er við það miðað að ekki falli til mikill kostnaður fyrr en ljóst er hvort af aðild verður.
    Hagstofan vinnur að aðgerðaáætlun um ýmsar umbætur á öðrum hagskýrslum í samræmi við kröfur EES-samningsins. Er þar einkum um að ræða rannsóknir sem ekki hefur tekist að fjármagna, svo sem um könnun á lausum störfum í fyrirtækjum, könnun um starfsþjálfun og símenntun og umhverfisreikninga. Aðrar úrbætur teljast flestar minni háttar og er meira um útfærslu og samræmingu að ræða.