Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 193. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 523  —  193. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um fjársýsluskatt.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Með frumvarpinu er lagt til að tekinn verði upp 10,5% fjársýsluskattur á heildarlaunagreiðslur lífeyrissjóða, þeirra aðila sem stunda vátryggingastarfsemi og fjármálafyrirtækja.
    Fyrsti minni hluti hefur haft uppi fjölmargar athugasemdir við frumvarpið. Þá hafa nær samfelld varnaðarorð komið fram við umfjöllun nefndarinnar og í umsögnum um málið. Verður hér farið örfáum orðum um nokkur af þeim atriðum:
          Í fyrsta lagi hefur ekki verið metið nægilega hver áhrif samþykkt frumvarpsins kunna að verða, sérstaklega á starfsumhverfi fjármálafyrirtækja.
          Í öðru lagi er óvíst að frumvarpinu hafi beinlínis verið ætlað að knýja fram fækkun starfa í fjármálageiranum til viðbótar við að fjármálageirinn vaxi ekki að mannafla í framtíðinni, sem gæti hvort tveggja orðið raunin ef frumvarpið yrði samþykkt óbreytt.
          Í þriðja lagi eru konur mikill meiri hluti þeirra starfsmanna sem mundu fyrirsjáanlega frá uppsagnarbréf vegna áhrifa frumvarpsins að mati umsagnaraðila. Vekur þetta athygli því þar með stangast frumvarpið á við áform ríkisstjórnarinnar um kynjaða hagstjórn.
          Í fjórða lagi er erlendum aðilum hyglað á kostnað innlendra, sem leiðir til að starfsemin flyst til útlanda. Er þar um að ræða hina innbyggðu hvata til útvistunar verkefna og færslu starfa út fyrir landsteinana.
          Í fimmta lagi er gengið nærri sparisjóðunum og öðrum smærri fjármálafyrirtækjum. Ótekjutengdar álögur og gjöld á fjármálafyrirtæki, svo sem sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, gjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, kostnaður við rekstur Fjármálaeftirlitsins og umboðsmann skuldara, tímabundið álag til að standa undir sérstökum vaxtaniðurgreiðslum og tryggingagjald, hafa aukist verulega á undanförnum árum en þær koma almennt verr niður á minni aðilum, eins og sparisjóðum.
          Í sjötta lagi er stórum aðilum hyglað á kostnað hinna minni sem gerir nýsköpun á þessu sviði mjög erfiða.
          Í sjöunda lagi gæti frumvarpið truflað verulega starfsemi þeirra sem eru með blandaða starfsemi og reka sig ekki á vaxtamun eins og viðskiptabankarnir. Algengt er að smærri aðilar á fjármálamarkaði byggi reksturinn á ráðgjafarstarfsemi sem er nú þegar virðisaukaskattsskyld. Viðbótarskattinn sem lagður er til með frumvarpinu ætti því eingöngu að leggja á þann hluta fjármálastarfsemi sem ekki er virðisaukaskattsskyld.
          Í áttunda lagi er þeim aðilum sem ekki eru eftirlitsskyldir hyglað á kostnað þeirra sem eru eftirlitsskyldir.
          Í níunda lagi samrýmist frumvarpið ekki áformum sem uppi eru um skattlagningu fjármálageirans á alþjóðavettvangi. Þá hefur 1. minni hluti bent rækilega á að frumvarpið byggist á allt öðrum forsendum en hliðstæð skattlagning í Danmörku.
          Í tíunda lagi er með tillögum meiri hlutans lagt til að inngreiðslur í Tryggingarsjóð innstæðueigenda verði lækkaðar um 1,2 milljarða kr. Vekur þetta athygli því að með þessu er gengið þvert á yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að byggja upp þann sjóð.
    Afleiðingar af samþykkt óbreytts frumvarps mundu víða koma fram. Aukin skattheimta og gjaldtaka á launakostnað fjármálafyrirtækja hefur þau almennu áhrif að minnka sveigjanleika fyrirtækjanna til skuldaleiðréttingar og ýta undir að vaxtamunur aukist, en hann er aðaltekjustofn banka og sparisjóða. Einnig má nefna sem dæmi að umsagnaraðilar vöktu athygli á að frumvarpið hefði áhrif á réttindi sjóðfélaga í almennum lífeyrissjóðum. Hins vegar hefði frumvarpið að sama skapi ekki áhrif á réttindi í hinum opinberu lífeyrissjóðum og það væri í andstöðu við yfirlýsingar núverandi ríkisstjórnarinnar um jöfnun innan lífeyriskerfisins.
    Svo mikil gagnrýni hefur komið fram að meiri hlutinn í nefndinni hefur ákveðið að ganga í stjórnarandstöðuna og gera breytingar á grundvelli þessa frumvarps, sem áður hafði verið samþykkt til framlagningar af ríkisstjórn og þingflokkum. Með breytingartillögum meiri hlutans eru settar hindranir í götu skattlagningaráætlunar fjármálaráðherra með því að taka lífeyrissjóðina út fyrir sviga í þessu máli svo ekki verði bein áhrif á almennu lífeyrissjóðina eða framkallað misvægi milli þeirra og hinna opinberu lífeyrissjóða. Þá er lagt til að glórulaust skatthlutfall fjársýsluskattsins verði lækkað úr 10,5% í 5,45% og að aðilum með skattstofn undir tilgreindum mörkum verði hlíft. En betur má ef duga skal – mun betur.
    Fyrsti minni hluti bendir á að við umfjöllun nefndarinnar kom fram að raunveruleg áhrif fjársýsluskattsins verði 6,71% þegar um er að ræða fjármálafyrirtæki sem rekin eru með hagnaði. Þá verður fjársýsluskatturinn ekki dreginn frá kostnaði, líkt og gildir um tryggingagjaldið o.fl. Þarna er um að ræða enn eitt flækjustigið í skattamálum. Samtals stefnir í að ótekjutengd gjöld fjármálafyrirtækja verði um 12,5 milljarðar kr. á þessu ári og tæpir 14 milljarðar kr. á næsta ári verði þetta frumvarp lögfest með breytingum meiri hlutans. Með tilkomu hins nýja fjársýsluskatts verða skattar sem leggjast beint á laun fjármálafyrirtækja í raun um 14,5% að teknu tilliti til lækkunar almenns tryggingargjalds. 1. minni hluti bendir á að mjög hár samanlagður launaskattur stendur engu að síður eftir.
    Fyrsti minni hluti bendir sérstaklega á að með breytingum meiri hlutans verður staða erlendra aðila og lífeyrissjóða styrkt á kostnað banka og sparisjóða hvað varðar séreignarsparnað og á markaði íbúðalána. Samkvæmt tillögu meiri hlutans munu bankar og sparisjóðir sem bjóða séreignarsparnað þurfa að borga 5,45% fjársýsluskatt. Hið sama mun ekki gilda um íslensku lífeyrissjóðina eða þá erlendu aðila sem safna lífeyrissparnaði. Fjársýsluskattur á banka og sparisjóði hlýtur að hafa áhrif á ávöxtun þeirra sem eru með séreignarsparnað sinn hjá þeim. Hvað varðar markað íbúðarlána bendir 1. minni hluti á að lífeyrissjóðir eru þar með um 15% markaðshlutdeild, bankarnir um 27% og Íbúðalánasjóður það sem eftir stendur. Með samþykkt tillagna meiri hlutans verður ójafnt milli aðila á íbúðalánamarkaði, þ.e. þeirra sem borga ekki fjársýsluskatt og þeirra sem munu þurfa að borga skattinn. Þetta sýnir svart á hvítu hve afkáranleg skattlagning fjársýsluskatturinn er og hve víða afleiðingar koma fram, jafnvel með breyttu frumvarpi samkvæmt tillögum meiri hlutans.
    Fyrsti minni hluti varar enn og aftur við stefnu ríkisstjórnarinnar sem ætlar sér að skattleggja þjóðina út úr kreppunni. Nú er lag að horfa til efnahagstillagna Sjálfstæðisflokksins (sbr. 142. mál 140. þings) sem leiðar út úr þeim vanda sem ríkisstjórnin er búin að koma sér í, auk þess sem forsendur fjárlaga eru afar brothættar og allt bendir til þess að halli á fjárlögum verði mun meiri en gert hefur verið ráð fyrir. Betra væri að blása þjóðinni von í brjóst og bjartsýni og gefa henni undirstöður til að byggja framtíð sína á.
    Fyrsti minni hluti bendir á að hreinn launaskattur af því tagi sem felst í frumvarpinu leiðir til aukins launakostnaðar og rekstrarkostnaðar, fækkunar starfa, fátíðari nýráðninga og samdráttar í rekstri þeirra fyrirtækja sem um er að ræða, auk innbyggðs hvata til útvistunar verkefna og færslu starfa út fyrir landsteinana. Frumvarpið þýðir einnig að þrátt fyrir að fyrirtæki sé rekið með tapi þurfi það að bera þennan aukna kostnað.

Alþingi, 13. des. 2011.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


frsm.


Tryggvi Þór Herbertsson.