Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 193. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 526  —  193. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um fjársýsluskatt.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Fjársýsluskattur er nýr skattur sem fjármálaráðherra vill leggja á til að auka tekjur ríkissjóðs en gert var ráð fyrir að skatturinn skilaði um 4,5 milljörðum kr. í ríkiskassann. Þessi skattur er algjörlega ótengdur afkomu fjármálafyrirtækja og leggst á heildarlaunagreiðslur þeirra. Hafi markmiðið átt að vera að hamla gegn vexti bankanna og himinháum launagreiðslum, eins og ráða má af frumvarpinu, þá tekst það ekki. Bankahrunið varð í október 2008. Röksemdir fyrir skattinum eru eins og „að hengja bakara fyrir smið“, þ.e. að láta núverandi fjármálastofnanir bera skaðann af því sem gerðist áður og sérstaklega er þetta óréttlátt gagnvart smáum fyrirtækjum sem enga ábyrgð báru á hruninu. Fyrirhugaður launaskattur mun hafa mikil áhrif á rekstur bankanna og skattlagning sem er ótengd afkomu kemur harðast niður á minnstu fyrirtækjunum, einkum litlum sparisjóðum. Sparisjóðirnir í landinu borga ekki nein ofurlaun og þessi skattur mun hugsanlega gera út af við sparisjóðina. Sparisjóðirnir eiga að vera hornsteinar í hverju byggðarlagi en með þessari skattlagningu er líklegt að starfsemi þeirra leggist af. Hvað varð um loforð ríkisstjórnarinnar um endurreisn sparisjóðakerfisins? 2. minni hluti vill sjá fjölbreytni á fjármálamarkaði en ekki fábreytni og fákeppni þriggja stórra risa eins og allt stefnir í. Bankasýsla ríkisins telur að skoða þurfi „af kostgæfni hvaða áhrif fyrirhuguð skattlagning hefur á afkomu fjármálafyrirtækja“ og segir einnig að skatturinn muni leggjast þungt á sparisjóðina og mögulega framtíðarrekstarhæfi þeirra. Fjármálaeftirlitið bendir á að engin tilraun er gerð til að leggja mat á möguleg áhrif skattsins á fjármálamarkaðinn né heldur á neytendur og telur skattlagninguna „varasama“. Ríkisskattstjóri er heldur ekki hrifinn af þessu framtaki og segir að nauðsynlegt sé að hafa samráð við aðila sem frumvarpið tekur til.
    Mikill kostnaðarauki vegna óafkomutengdra skatta leiðir til þess að vaxtamunur eykst, starfsfólki fækkar og tekjur ríkissjóðs minnka þegar til langs tíma er litið. Skatturinn mun fyrst og fremst bitna á viðskiptavinum í formi hærri vaxta og þjónustugjalda auk þess mun útvistun verkefna aukast og í kjölfarið uppsagnir starfsfólks. Talið er líklegt að starfsfólki fjármálafyrirtækja muni fækka um allt að 10% en nú þegar hafa tæplega 2000 manns misst vinnuna hjá fjármálafyrirtækjum frá árinu 2008 og um 70% þeirra eru konur. Kynjuð hagstjórn er hugtak sem ríkisstjórnin notar á tyllidögum en svo beitir hún sér fyrir lagasetningu sem er sérstaklega andsnúinn kvennastörfum. Þetta er kynleg stefna þessi kynjaða hagstjórn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.
    Í upphafi vísaði fjármálaráðherra til þess að þessi skattheimta væri af danskri fyrirmynd. Við nánari skoðun kom í ljós að það var misskilningur hjá ráðherranum, frumvarpið er í grundvallaratriðum öðruvísi en hin meinta danska fyrirmynd. Í Danmörku er t.d. ekki lagt tryggingargjald á fjármálafyrirtæki en þar er skattur lagður á laun og hlunnindi auk þess sem skatturinn telst til rekstrarkostnaðar og er þess vegna frádráttarbær frá tekjuskatti. Í Danmörku greiða fyrirtæki ekki launaskatta en þau fyrirtæki sem ekki greiða virðisaukaskatt, t.d. útgáfustarfsemi og heilbrigðisþjónusta, greiða þenna skatt auk fjármálafyrirtækja. Hér er farið rangt með og ekki tekur betur við þegar vísað er til tillagna á vegum AGS og ESB. Tillögur sem komið hafa fram um skattlagningu eru veltuskattur á fjármálaþjónustu, skattur á laun og hagnað og skattur á einhvern mælikvarða úr efnahag fjármálafyrirtækja. Hér á landi er skattur á innlán, þ.e. heildarskuldir, sbr. lög nr. 155/2010, en eðlilegra væri að halda sig tillögur AGS og nota bara eitt kerfi en ekki tvö eins og gert er ráð fyrir með þessari skattlagningu. Í athugasemndum við frumvarpið er enn fremur vísað til að ESB sé með FAT- skatt (5%) til skoðunar, þ.e. skattur á laun og hagnað sem mælikvarða á virðisauka, en nú hefur ESB ákveðið að hætta við þann skatt – en þess er ekki getið í athugasemduunm. ESB skoðar nú FTT-skatt, þ.e. skatt á veltu, en engin niðurstaða liggur fyrir en æskilegt væri að Ísland væri samstíga öðrum helstu viðskiptalöndum hvað þetta varðar. Fjármálamarkaður er einn af lykilmörkuðum í hagkerfinu og þar skiptir skilvirkni og hagkvæmni máli. Þessi skattheimta gengur gegn þeim markmiðum.
    Hér er því um hreinræktað afkvæmi hinnar norrænu velferðarstjórnar um að ræða, sem reyndar er byggt á misskilningi og mistökum líkt og margt sem gert hefur verið í breytingum á skattkerfinu á sl. tveimur og hálfu ári. Þessi skattlagning er ágætt dæmi um þann hringlandahátt sem einkennir stefnu og störf ríkisstjórnarinnar í skattamálum.
    Nú hefur meiri hlutinn lagt fram breytingar sem eru til bóta og þær eru að lækka launaskattinn, í 5,45%, og taka það sem út af stendur gagnvart umframhagnaði bankanna. Þannig er vonandi verið að milda þær fyrirhuguðu uppsagnir sem fram undan væru að öllu óbreyttu.
    Annar minni hluti er eftir sem áður mótfallinn þessari skattheimtu og þeirri hugsun, eða öllu heldur hugsunarleysi, sem liggur að baki þessu frumvarpi.

Alþingi, 12. desember 2011.



Birkir Jón Jónsson.