Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 355. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 528  —  355. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillöguum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Í I. og II. kafla laga nr. 107/2009 eru ákvæði um sértækar aðgerðir til að leysa úr skuldavanda einstaklinga og fyrirtækja, svo og eftirlit með þeim aðgerðum. Kaflarnir hafa tímabundinn gildistíma og skv. 12. gr. laganna falla þeir brott um næstu áramót. Með frumvarpinu er lagt til að gildistími þeirra framlengist til 31. desember 2012 svo að unnt verði að ljúka skuldaaðlögun einstaklinga og fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja.
    2. gr. laga nr. 107/2009 var ætlað að vera lagarammi utan um samkomulag um verklagsreglur sem fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður settu sér um framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar. Slíkt samkomulag var gert í kjölfar lagasetningarinnar en eftirlitsnefnd með framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar hefur gert við það athugasemdir. Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 2. gr. laganna í samræmi við athugasemdir og ábendingar eftirlitsnefndarinnar. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ákjósanlegt væri að viðbótarsamkomulag næðist um þessi atriði. Þar kemur einnig fram að nú sé unnið að slíku samkomulagi. Nefndin hefur fengið upplýsingar um að samkomulag sé nú frágengið milli þeirra aðila sem geta tekið að sér að vera umsjónaraðilar með skuldaaðlögunarferli. Eftirlitsnefndin kom m.a. að gerð þess með Samtökum fjármálafyrirtækja. Í ljósi þessa telur meiri hlutinn rétt að leggja til að 1. gr. frumvarpsins falli brott.
    Í samræmi við 2. mgr. 30. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, skal tekið fram að áætlaður kostnaður af samþykkt frumvarpsins er 70 millj. kr., þ.e. 50 millj. kr. vegna starfa eftirlitsnefndar með framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar og 20 millj. kr. vegna starfa úrskurðarnefndar um skuldaaðlögun. Ekki er þó gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð enda er kveðið á um það í 7. gr. laga nr. 107/2009 að lánastofnanir endurgreiði þann kostnað sem til fellur við rekstur nefndanna.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:    1. gr. falli brott.

Alþingi, 13. desember 2011.Álfheiður Ingadóttir,


form.


Jónína Rós Guðmundsdóttir,      frsm.


Lúðvík Geirsson.Kristján L. Möller.


Valgerður Bjarnadóttir.


Pétur H. Blöndal.Unnur Brá Konráðsdóttir.


Guðmundur Steingrímsson.