Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 394. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 535  —  394. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011.

Flm.: Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Róbert Marshall,
Árni Johnsen, Birgir Ármannsson.


1. gr.

    Í stað orðanna „skv. 1. mgr.“ í 1. málsl. 4. mgr. 108. gr. laganna kemur: skv. 1. og 2. mgr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012.

Greinargerð.


    Hinn 28. september sl. veitti Alþingi frumvarpi til sveitarstjórnarlaga lagagildi og munu ný sveitarstjórnarlög taka gildi 1. janúar 2012. Um heildarendurskoðun á gildandi lögum var að ræða og var frumvarpið afgreitt á grundvelli þverpólitískrar sáttar.
    Meðal þeirra nýmæla sem koma fram í lögunum eru ítarleg ákvæði um borgarafundi og íbúakosningar. Eftir að frumvarpið hafði verið lagt fram á Alþingi og mælt fyrir því var því vísað til samgöngunefndar. Nefndinni barst fjöldi athugasemda um málið og tók hún á móti töluverðum fjölda gesta. Eins og verða vill þegar um svo stór mál er að ræða reyndist óhjákvæmilegt annað en að gera margar breytingar á greinum frumvarpsins til þess að tryggja því brautargengi. Ein þeirra breytinga snerti 108. gr. frumvarpsins.
    Í 108. gr. laganna er fjallað um frumkvæði íbúa sveitarfélags. Þar segir m.a. í 1. mgr. að ef minnst 10% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska borgarafundar skuli sveitarstjórn verða við því svo fljótt sem unnt er. Í 2. mgr. kemur m.a. fram að ef minnst 20% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska íbúakosningar skuli sveitarstjórn verða við því eigi síðar en innan árs frá því að slík ósk berst. Í 4. mgr. kemur svo fram að ráðuneytið skuli í reglugerð mæla nánar fyrir um það hvernig staðið verður að söfnun undirskrifta eða annarrar staðfestingar á ósk íbúa skv. 1. mgr. Þar megi m.a. kveða á um að undirskriftir skuli lagðar fram á sérstöku eyðublaði sem ráðuneytið eða viðkomandi sveitarfélag lætur gera eða að staðfesting skuli lögð fram rafrænt á nánar tiltekinn hátt. Sé mælt fyrir um rafræna staðfestingu skuli þó ávallt jafnframt gefinn kostur á að undirskriftir verði lagðar fram skriflega á þar til gerðum eyðublöðum.
    Í frumvarpi því sem síðar varð að nýjum sveitarstjórnarlögum var framangreind 108. gr. sett upp á þann hátt að efni núverandi 1. og 2. mgr. laganna var í einni málsgrein og hljóðaði hún svo:
    „Ef minnst 10% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska borgarafundar skv. 105. gr. skal sveitarstjórn verða við því svo fljótt sem unnt er. Hið sama á við ef minnst 20% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska almennrar atkvæðagreiðslu skv. 107. gr. Sveitarstjórnin á þó ákvörðunarvald um framkvæmd viðkomandi viðburðar og þá spurningu sem borin verður upp sé um að ræða almenna atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélagsins. Um framkvæmd borgarafundar fer eftir ákvæði 105. gr. Um framkvæmd almennrar atkvæðagreiðslu meðal íbúa sveitarfélags fer eftir ákvæði 107. gr.“
    Eins og sjá má af framangreindu gerði Alþingi m.a. þá breytingu á 108. gr. frumvarpsins að framangreindri málsgrein var skipt í tvær, 1. og 2. mgr. Var þessi breyting ein af mörgum breytingum sem gerðar voru enda voru breytingar gerðar á frumvarpinu bæði við 2. og 3. umræðu um það. Í þeirri umfangsmiklu vinnu sem innt var af hendi við vinnslu málsins láðist þó að gera breytingu á reglugerðarákvæði 4. mgr. 108. gr. til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru á 1. mgr. hennar. Eins og þegar hefur komið fram heimilar ákvæðið ráðherra að mæla nánar í reglugerð fyrir um það hvernig staðið verði að söfnun undirskrifta eða annarrar staðfestingar á ósk íbúa um borgarafund. Upphafleg áætlun var sú að ákvæðið heimilaði ráðherra einnig að setja sambærilegar reglur um íbúakosningar. Engar vísbendingar hafa komið fram um að vilji nefndarmanna í samgöngunefnd eða annarra alþingismanna hafi staðið til þess að skilja íbúakosningar undan í reglugerðarákvæðinu. Er því óhætt að fullyrða að frumvarpið feli aðeins í sér tæknilega lagfæringu á mistökum sem urðu við vinnslu þingmáls á Alþingi.