Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 184. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 543  —  184. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um viðbúnað
við hamförum í Kötlu.


     1.      Hvernig hefur verið staðið að undirbúningi og áætlunargerð vegna hugsanlegra áhrifa af gosi og hlaupum úr Kötlu?
    Fyrsta viðbragðsáætlun Almannavarna vegna Kötlugosa var gerð árið 1972. Þar var fjallað um þær hættur sem fylgt gætu slíkum eldgosum; jökulhlaup, gjóskufall, eldingar og flóðbylgjur á sjó. Æfingar á viðbrögðum hafa verið haldnar í allmörg skipti frá því að fyrsta áætlunin var sett fram. Reynslan sem fékkst af þeim var síðan nýtt til að endurskoða viðbragðsáætlanir.
    Fyrir um áratug komu fram upplýsingar um að frá því að ísöld lauk og fram undir landnám hefðu nokkur stór jökulhlaup runnið um farveg Markarfljóts til vesturs um Landeyjar. Í desember 2002 var vísindamannaráð Almannavarna kallað saman til fundar til að ræða þessar upplýsingar. Niðurstaða ráðsins var að vinna þyrfti hættumat fyrir hlaup til vesturs frá Mýrdalsjökli sem stöfuðu af eldgosum undir jöklinum. Jafnframt komst ráðið að þeirri niðurstöðu að rétt væri að vinna einnig hættumat vegna eldgosa í Eyjafjallajökli. Hættan af hlaupum til austurs var talin nokkuð vel þekkt. Gerð var áætlun um þær rannsóknir sem vísindamannaráðið gerði tillögur um og hún lögð fyrir dómsmálaráðherra fyrri hluta árs 2003. Tillögurnar voru síðan samþykktar í ríkisstjórn sem veitti auk þess fé til þeirra. Ítarlegt og vandað hættumat var unnið af fjölmörgum stofnunum og fyrirtækjum og niðurstöður þess gefnar út á bók vorið 2005. Fjöldi kynningarfunda var haldinn með íbúum í viðkomandi héruðum til að kynna efni hættumatsins.
    Þegar niðurstöður hættumatsins lágu fyrir var ráðist í gerð viðbragðsáætlana vegna eldgosa í Eyjafjallajökli og Mýrdalsjökli. Jafnframt var farið yfir hættumat vegna hlaupa til austurs frá Mýrdalsjökli og forsendur viðbragðsáætlana þar endurskoðaðar. Í lok mars 2006 var haldin æfing á viðbrögðum við eldgosi undir Mýrdalsjökli. Æfingin fór fram undir nafninu Bergrisinn 2006. Reynslan sem fékkst við æfinguna var rýnd og notuð til að endurskoða viðbragðsáætlunina. Endurskoðunin var unnin í samvinnu við íbúa á svæðinu umhverfis eldstöðvarnar og nú er enn verið að endurskoða viðbragðsáætlanir í ljósi þeirrar reynslu sem fékkst í eldgosinu í Eyjafjallajökli.
    Þegar unnar eru áætlanir um viðbrögð við atburðum á borð við eldgos þurfa margir aðilar að koma að því verki. Í fyrsta lagi þurfa almannavarnayfirvöld á landsvísu og heima í héraði að vinna saman að stjórn verkefnisins. Þá kallar áætlanagerðin á þátttöku sveitarfélaga og stofnana þeirra, ýmissa stofnana ríkisins og síðast en ekki síst á þátttöku íbúa á áhrifasvæði atburðanna. Þátttaka og framlag allra þessara aðila tryggir sem best má vera að viðbrögð gangi upp.
    Lögreglustjórinn á Hvolsvelli, almannavarnanefnd svæðisins og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra höfðu á hendi forustu við gerð viðbragðsáætlana vegna eldgosa í Eyjafjallajökli og undir Mýrdalsjökli. Leitað var til íbúa með því að halda fjölda funda á svæðinu. Á þeim fundum var gerð grein fyrir þeirri vinnu sem unnin hafði verið og leitað eftir ábendingum og tillögum frá íbúum. Þá var leitað samráðs við viðkomandi sveitarfélög og stofnanir þeirra, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauða kross Íslands, heilbrigðisstofnanir, Vegagerðina, fjarskiptafyrirtæki, Neyðarlínuna, Landgræðslu ríkisins, Matvælastofnun og viðbragðsaðila í nærliggjandi héruðum. Auk þess var leitað eftir upplýsingum frá fjölda stofnana.

     2.      Stendur til að styrkja Fjallabaksleið sem varaleið þegar Suðurlandsvegur fer í sundur?
    Í fyrirliggjandi tillögu að samgönguáætlun 2011–2022 er ekki reiknað með framkvæmdum við Fjallabaksleið. Hringvegurinn er bæði í senn aðalleið og fyrsta varaleið fyrir öll þau svæði sem að honum liggja. Enn er ástand vegakerfisins á Íslandi víða þannig að greiðfærni er verulega ábótavant. Á meðan svo er hefur ekki komist í forgang að byggja upp varaleiðir númer tvö. Almennt gagnast Fjallabaksleið aðeins sem varaleið stuttan tíma á árinu. Komi hins vegar upp óvænt ástand, svo sem að rof verði á Suðurlandsvegi, mun ástandið metið og gripið til þeirra aðgerða sem hagkvæmt verður talið hverju sinni miðað við það ástand sem uppi er, líkt og gert var í sumar.