Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 318. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 583  —  318. mál.

2. umræða.


Framhaldsnefndarálit með breytingartillöguum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun,
lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, raforkulögum, nr. 65/2003, og lögum nr. 19/2011, um breytingu á raforkulögum,
nr. 65/2003, með síðari breytingum (eigendaábyrgðir, eignarhald
flutningsfyrirtækisins og frestun fyrirtækjaaðskilnaðar).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju.
    Í umsögn Orkuveitu Reykjavíkur um málið var bent á að vafi ríkti um merkingu hugtaksins lánsfjárþörf í 3. málsl. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 139/2001. Þannig hefði sú túlkun á ábyrgðartakmörkun framangreinds málsliðar 2. mgr. lagagreinarinnar komið fram að ábyrgð eigenda Orkuveitunnar gæti einungis tekið til 80% af 80% af framkvæmdakostnaði, þ.e. 64% af heildarfjárþörf verkefnis. Þá kom fram að þessi túlkunarvafi hefði valdið erfiðleikum í framkvæmd þar sem lánveitendur væru ófúsir að veita lánafyrirgreiðslu á grundvelli lagaákvæðis sem væri undirorpið slíkum vafa.
    Nefndin tók framangreinda ábendingu til skoðunar en taldi ekki tímabært að taka afstöðu til hennar í nefndaráliti á þingskjali 537.
    Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 139/2001 skal ábyrgð eigenda Orkuveitu Reykjavíkur ekki nema hærra hlutfalli en 80% af lánsfjárþörf verkefnis sem veitt er eigendaábyrgð.
    Nefndin telur merkingu 3. málsl. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 139/2001 nokkuð ljósa. Fram hjá því verður þó ekki litið að vafi virðist hafa ríkt um gildi hans. Virðist sá vafi valda verulegum vandkvæðum við fjármögnun verkefna. Þá hefur verið bent á að það traust sem almennt hafi ríkt á milli lántakenda og lánveitenda við gerð lánssamninga hafi beðið verulegan hnekki í ljósi svokallaðra gengistryggingadóma Hæstaréttar Íslands. Framangreindu til viðbótar hefur komið fram af hálfu forsvarsmanna Orkuveitunnar að sú óvissa sem ríkir um túlkun á 3. málsl. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 139/2001 hafi valdið verulegum vandkvæðum í framkvæmd.
    Allt framangreint virðist hafa aukið á fjármögnunarvanda Orkuveitunnar.
    Í ljósi þess fram hefur komið, og til að taka af öll tvímæli, telur nefndin ekki annað fært en að gera þá breytingu á 3. málsl. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 139/2001 að í stað þess að takmörkun eigendaábyrgðar miðist að hámarki við 80% lánsfjárþarfar verkefna sem veitt er eigendaábyrgð á skuli hámark hennar miðast við 80% fjárþarfar hinna sömu verkefna. Er þannig gert ráð fyrir því að eigendur geti borið ábyrgð á 80 millj. kr. af láni sem er að heildarfjárhæð 100 millj. kr. sé heildarfjárþörf þess verkefnis sem lánað er til jöfn lánsfjárþörf. Þá geti eigendur borið ábyrgð á 5 millj. kr. af láni sem er að heildarfjárhæð 5 millj. kr. sé heildarfjárþörf þess verkefnis 10 millj. kr. en lánsfjárþörf þess aðeins 5 millj. kr. þar sem 5 millj. kr. eru fjármagnaðar á annan hátt, t.d. með eigin fé. Að auki geti eigendur borið ábyrgð á 56 millj. kr. af láni sem er að heildarfjárhæð 60 millj. kr. sé heildarfjárþörf þess verkefnis 70 millj. kr. en lánsfjárþörf þess 60 millj. kr. þar sem 10 millj. kr. eru fjármagnaðar á annan hátt, t.d. með eigin fé. Þannig er ljóst að þegar að takmörkun ábyrgðarinnar kemur skiptir lánsfjárþörf verkefnisins ekki máli heldur aðeins fjárþörf þess, þ.e. sú fjárhæð sem gert er ráð fyrir að Orkuveitan þurfi að inna af hendi til þess að tilteknu verkefni í heild sinni eða afmörkuðum og tilgreindum þáttum þess verði lokið.
    Í ljósi framangreindrar umfjöllunar leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:    Við 3. gr. frumvarpsins bætist nýr stafliður, b-liður, svohljóðandi: Í stað orðsins „lánsfjárþörf“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: fjárþörf.

    Þór Saari var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. desember 2011.Kristján L. Möller,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Magnús Orri Schram.Ólína Þorvarðardóttir.


Björn Valur Gíslason.


Einar K. Guðfinnsson.Jón Gunnarsson.


Sigurður Ingi Jóhannsson.