Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 323. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 585  —  323. mál.
Svarvelferðarráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um tauga- og geðlyf.


     1.      Hver hafa útgjöld ríkisins verið vegna tauga- og geðlyfja árlega árin 2000–2010, sundurliðað eftir geðlyfjum, taugalyfjum, róandi lyfjum og svefnlyfjum?
    Til að leita svara við fyrirspurninni óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá eftirtöldum stofnunum: Sjúkratryggingum Íslands, Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilbrigðisstofnuninni Patreksfirði, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnuninni Blönduósi, Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki, Heilbrigðisstofnuninni Fjallabyggð, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnuninni Vestmannaeyjum, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Sólvangi, SÁÁ, Vogi.
    Ekki var leitað eftir upplýsingum frá hjúkrunar- og dvalarheimilum.
    Þar sem ekki bárust samanburðarhæfar upplýsingar frá öllum stofnununum byggist svarið á upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands, Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Vesturlands og nær til áranna 2003–2010.
    Svar við fyrirspurninni byggist á lyfjaflokkunarkerfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, svokölluðu ATC-kerfi (Anatomical Therapeutic Chemical classification system). Samkvæmt flokkunarkerfinu tilheyra tauga- og geðlyf flokki N, sem skiptist nánar í eftirtalda undirflokka: svæfinga- og deyfingarlyf, verkjalyf, flogaveikilyf, lyf við parkinsonsjúkdómi, geðrofslyf, róandi og kvíðastillandi lyf, svefnlyf og róandi lyf, þunglyndislyf, örvandi lyf, lyf sem eru notuð við ADHD, lyf sem efla heilastarfsemi, lyf við heilabilun og önnur lyf með verkun á taugakerfið.
    Meginútgjöld ríkisins vegna lyfja skiptast annars vegar milli Sjúkratrygginga Íslands og hins vegar sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana og hjúkrunar- og dvalarheimila. Kostnaður Sjúkratrygginga Íslands er vegna greiðsluþátttöku í kostnaði lyfja sem afgreidd eru samkvæmt lyfseðlum en kostnaður stofnananna er vegna lyfjanotkunar sjúklinga sem liggja inni á viðkomandi stofnun.
    Rétt er að nefna nokkur atriði sem hafa áhrif á breytingu á lyfjakostnaði milli tímabila. Á Íslandi er opinbert hámarksverð lyfseðilsskyldra lyfja ákvarðað af lyfjagreiðslunefnd og birtist í lyfjaverðskrá. Verð flestra lyfja fylgir gengi íslensku krónunnar og verðbreytingar verða um hver mánaðamót. Samningar, breytt notkunarmynstur, m.a. vegna breyttrar greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands, og breytt starfsemi stofnana hafa líka áhrif á kostnaðinn.

Sjúkratryggingar Íslands.
    Kostnaður greiddur af Sjúkratryggingum Íslands sem hér er tilgreindur er eingöngu vegna lyfja sem afgreidd eru gegn lyfseðli úr apótekum en ekki vegna lausasölulyfja sem seld eru án lyfseðils.


Kostnaður Sjúkratrygginga Íslands vegna tauga- og geðlyfja (N) 2003–2010,
upphæðir í milljónum króna.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir.
    Samanburðarhæfar upplýsingar fyrir umrætt tímabil liggja eingöngu fyrir frá Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Svar um kostnað ríkisins byggist því eingöngu á gögnum frá þessum stofnunum. Ætla má að sá kostnaður sem hér er sundurgreindur sé um 85–90% af kostnaði vegna tauga- og geðlyfja sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana og hjúkrunar- og dvalarheimila á öllu landinu.

Kostnaður tiltekinna* sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana vegna tauga- og geðlyfja (N) 2003–2010, upphæðir í milljónum króna.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


* Landspítali, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Vesturlands.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Hvernig skiptist útgáfa lyfseðla vegna tauga- og geðlyfja eftir aldri sjúklinga á sama tímabili, sundurliðað eftir aldurshópunum 0–10 ára, 11–20 ára, 21–40 ára, 41–60 ára, 61–80 ára og eldri en 80 ára?
    Hjá Sjúkratryggingum Íslands liggja eingöngu fyrir upplýsingar um afgreidda lyfseðla, þ.e. lyfseðla sem sjúklingar hafa fengið afgreidda í apóteki. Hins vegar liggja ekki fyrir upplýsingar um útgefna lyfseðla, þ.e. alla lyfseðla sem læknir hefur gefið út/ávísað á sjúkling.
Þrátt fyrir að upplýsingar um afgreidda lyfseðla liggi fyrir hjá Sjúkratryggingum Íslands gefa þær ekki raunhæfa mynd af fjölda afgreiddra lyfseðla vegna svokallaðra skammtakorta. Skammtakort eru vegna lyfja sem eru afgreidd í lyfjaskömmtun en ekki gegn lyfseðli í hefðbundnum skilningi.
    Til að gefa einhverja vísbendingu um skiptingu milli aldurshópa eru hér birtar upplýsingar um skiptingu kostnaðar Sjúkratrygginga Íslands eftir aldurshópum.

Hlutfall af kostnaði Sjúkratrygginga Íslands vegna tauga- og geðlyfja (N)
2003–2010 eftir aldri.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.